Fimmtudagur 28. mars, 2024
3.8 C
Reykjavik

Rússar með bakið upp við vegg

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bresk stjórnvöld birtu í liðinni viku myndir af tveimur rússneskum mönnum sem grunaðir eru um að hafa byrlað feðginunum Sergei og Yuliu Skripal taugaeitur. Þeir eru sagðir á mála hjá GRU, leyniþjónustu rússneska hersins. Sem fyrr neita rússnesk stjórnvöld allri aðild en þau sönnunargögn sem Bretar hafa lagt fram, sem og afar ósannfærandi frammistaða hinna grunuðu í viðtali við rússnesku RT-fréttastofuna, renna stoðum undir ásakanir Breta. Bendir flest til þess að um hafi verið að ræða hefndaraðgerð gegn Sergei Skripal sem gerðist gagnnjósnari fyrir Bretland eftir að Sovétríkin leystust upp. Tilræðið misheppnaðist því bæði Sergei og Yulia náðu bata eftir að hafa legið á spítala í lífshættulegu ástandi um nokkurra vikna skeið. Hins vegar lést 44 ára kona, Dawn Sturgess, eftir að hafa komist í í snertingu við taugaeitur af sömu tegund, það er taugaeitrið novichok sem þróað var í Sovétríkjunum á árunum 1971 til 1993.

Málið í hnotskurn:

 

Heimtuðu sönnunargögn

Um leið og málið komst upp, þann 4. mars á þessu ári, beindu bresk stjórnvöld spjótum sínum að Rússlandi, enda taugaeitrið sem notað var til verknaðarins upprunnið þaðan. Bretland, ásamt 28 öðrum ríkjum, beitti Rússland refsiaðgerðum en Rússar neituðu öllu og kölluðu eftir því að Bretar legðu fram sönnunargögn máli sínu til stuðnings.

 

- Auglýsing -

Sönnunargögnin hrannast upp

Bresk stjórnvöld birtu í síðustu viku mynd af tveimur mönnum sem grunaðir eru um verknaðinn, þeim Alexander Petrov og Ruslan Boshirov. Þeir eru taldir tengjast leyniþjónustu rússneska hersins. Þeir komu með flugi Aeroflot til Moskvu 2. mars og sneru til baka tveimur dögum síðar. Þeir gistu í London en ferðuðust til Salisbury, þar sem Skripal bjó, bæði þann 3. og 4. mars, áður en þeir héldu aftur til Moskvu.

 

- Auglýsing -

Ósannfærandi skýringar

Í viðtali við RT-sjónvarpsstöðina, sem styður dyggilega við stjórnvöld í Kreml, fullyrtu þeir Petrov og Boshirov að þeir hafi eingöngu heimsótt Salisbury sem ferðamenn. Vinir þeirra hafi mælt sterklega með þessum áður óþekkta smábæ og þeir hafi verið ólmir í að skoða kirkjuna í bænum. Þessi skýring, sem og aðrar sem þeir gáfu í viðtalinu, hefur fyrst og fremst verið fóður fyrir grínista á Netinu og þykir viðtalið hafa styrkt málflutning Breta heldur en hitt. Þá hafa rannsóknarblaðamenn sýnt fram á að vegabréf þeirra sýni tengsl við varnarmálaráðuneyti Rússlands.

 

Gefa út handtökutilskipun

Lögregla og saksóknarar telja að þau sönnunargögn sem liggja fyrir í málinu dugi til sakfellingar. Ekki verður farið fram á að þeir verði framseldir til Bretlands enda framselja rússnesk stjórnvöld ekki eigin ríkisborgara til annarra landa. Hins vegar hefur verið gefin út evrópsk handtökutilskipun á hendur þeim. Ólíklegt er að þeir verði nokkurn tíma látnir svara til saka á breskri grundu. 28 ríki beittu rússnesk stjórnvöld refsiaðgerðum vegna málsins, meðal annars með því að reka rússneska erindreka úr landi. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sagði Rússum verða mætt af fullri hörku vegna málsins.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -