Unnið er að kröfugerð fyrir hönd blaðamanna og annarra rétthafa á Fréttablaðinu eftir að í ljós kom að Torg ehf., eigandi Fréttablaðsins, og Sýn, núverandi eigandi vísis.is, hefðu gert með sér milljóna samkomulag um nýtingu efnis úr Fréttablaðinu á visi.is. Samkvæmt heimildum Mannlífs nemur heildarupphæð samkomulagsins um 100 milljónum króna.
Blaðamenn og aðrir rétthafar á Fréttablaðinu undirbúa nú tugmilljóna kröfu á hendur Torgi ehf. vegna þess efnis sem birst hefur á vísi.is frá því að gengið var frá kaupum Sýnar á ljósvakamiðlum og fjarskiptaþjónustu 365 miðla. Torg ehf. á Fréttablaðið, Markaðinn og Glamour en Sýn er móðurfélag Vodafone og hét Fjarskipti hf. þegar kaupin gengu í gegn.
Gengið var frá kaupunum í mars 2017 en samkvæmt samrunaskrá nam kaupverðið 7,8 milljörðum króna. Greint var frá því að Torg og Sýn hefðu gert með sér samstarfssamning um nýtingu efnis úr Fréttablaðinu á vísi.is til skamms tíma en við umfjöllun Samkeppniseftirlitsins var samkomulagið lagt fram sem fylgiskjal við kaupsamninginn og merkt trúnaðarmál.
Samkvæmt heimildum Mannlífs gætti mikillar óánægju meðal blaðamanna Fréttablaðsins með tilhögunina en þeim var m.a. tjáð að tilgangurinn væri öðrum þræði að tryggja sýnileika Fréttablaðsins á Netinu, fram að þeim tíma að frettabladid.is hefði fest sig í sessi. Það var ekki fyrr en spurningar vöknuðu um höfundarrétt efnisins að starfsmenn Fréttablaðsins fengu veður af því að í samstarfssamningnum hefði verið kveðið á um greiðslur fyrir efnið en Mannlíf hefur heimildir fyrir því að heildarvirði samkomulagsins nemi um 100 milljónum króna.
Þurfa líklega að sækja málið fyrir dómstólum
Blaðamenn, ljósmyndarar og aðrir sem leggja fjölmiðlum til efni efni eiga á því höfundarrétt. Oft er kveðið á um notkun efnisins í ráðningarsamningi en fjallað er um höfundarréttinn í aðalkjarasamningi Blaðamannafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Þar segir í grein 12.3:
„Við sölu á höfundaréttarvörðu efni til þriðja aðila, s.s. annarra fjölmiðla, einstaklinga eða samtaka, skal gera samkomulag um slíka sölu við einstaka vinnuhópa, s.s. ljósmyndara eða heildarsamtök rétthafa á hverjum vinnustað. Tryggt skal í slíkum samningi að gætt sé í hvívetna sæmdarréttar rétthafa við frekari nýtingu á efninu og söluverð skal taka mið af því hvort efnið er notað til eigin nota eða annarrar útgáfu. Innkomu fyrir sölu á höfundarréttarvörðu efni skal að jafnaði skipt til helminga milli samningsaðila að frádregnum kostnaði sem haldið skal í lágmarki.“
Heimildamenn Mannlífs segja alveg ljóst að starfsmenn Fréttablaðsins eigi rétt á greiðslum fyrir nýtingu efnisins og lesa má úr ákvæðinu hér fyrir ofan að heildarkrafa þeirra gæti hljóðað upp á nærri 50 milljónir króna. Samkvæmt viðmælendum Mannlífs hafa þreifingar milli talsmanna starfsmanna og forsvarsmanna Torgs staðið yfir í nokkurn tíma en svo virðist sem síðarnefndu hafi ekki gert sér grein fyrir höfundarrétti starfsmanna þegar samstarfssamningurinn var undirritaður. Hafa þeir neitað að gera málið upp þannig að starfsmenn Fréttablaðsins geti við unað.
Aðalheiður Ámundadóttir, trúnaðarmaður blaðamanna á Fréttablaðinu, vildi lítið tjá sig um málið þegar eftir því var leitað. Hún staðfesti hins vegar að leitað hefði verið til lögmanns og að Blaðamannafélagið fylgdist með málinu. Þá staðfesti hún einnig að unnið væri að kröfu og að krafan hljóðaði upp á tugmilljónir. Hún sagði líkur á að málið rataði til dómstóla.
Mynd / Hákon Davíð Björnsson