Miðvikudagur 13. nóvember, 2024
7.2 C
Reykjavik

Gulu vestin höfðu sitt fram en vilja meira

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þau mótmæltu bensínhækkun og ríkisstjórnin gaf eftir. Þau mótmæltu bágum kjörum lágstéttarinnar og lágmarkslaun voru hækkuð. Þau mótmæltu auknum álögum á eldri borgara og þær voru dregnar til baka. Í flestum meginatriðum hafði hreyfingin sem kennir sig við gulu vestin náð fram breytingum sem voru langt umfram vonir. En gulu vestin vilja meira og óvíst er hvort franskt samfélag og efnahagur þolir meira.

 

Eftir fjögurra vikna mótmæli um allt Frakkland, þar sem tveir lágu í valnum og hundruð særðust, ávarpaði Emmanuel Macron, forseti landsins, þjóð sína á mánudagskvöld og viðurkenndi mistök og lofaði um leið bót og betrun.

Emanuel Macron var kjörinn til valda í fyrra á grundvelli loforða um að nútímavæða franskan efnahag sem hefur glímt við stöðnun í langan tíma. Macron hefur náð árangri en engan veginn í takt við væntingar.

Áður hafði umdeild eldsneytishækkun, sem var rót mótmælanna, verið dregin til baka en það hafði ekkert gert til að draga úr ólgunni sem hafði beinst að öðrum meinum samfélagsins. Í ávarpi sínu fordæmdi Macron það ofbeldi sem fylgdi mótmælunum en um leið sagðist hann skilja djúpstæða reiði almennings sem að mörgu leyti væri lögmæt reiði. Hann viðurkenndi jafnframt að margir þjóðfélagshópar upplifðu sig afskiptalausa og að það hefði í allt of langan tíma verið látið viðgangast.

„Gul vesti og skattaréttlæti. Ef hann vill verða forseti á næsta áratug, þá verður Macron að koma aftur á eignaskatti og nota tekjurnar til þess að koma til móts við þá sem verða verst úti af kolefnisskatti, sem verður að gerast.“
– Thomas Piketty hagfræðingur.

Macron boðaði 7 prósenta hækkun lágmarkslauna, afnám skattahækkana á ellilífeyrisþega, afnám skattheimtu á yfirvinnu og hvatti til þess að launþegar fengju skattfrjálsan jólabónus. Macron ætlar þó ekki að falla frá umdeildu afnámi eignaskatts sem hann segir nauðsynlegt til að örva franskt efnahagslíf. Þetta voru meiri tilslakanir en fyrir fram hafði verið búist við og í raun mikill sigur fyrir gulu vestin sem höfðu kallað fram grundvallarbreytingar á franskri efnahagsstefnu á mettíma. Talað hefur verið um að þetta séu einhver áhrifamestu mótmæli síðari tíma.

Reiðin og óánægjan kraumar enn undir og fleiri hópar hafa hoppað á vagninn.

En reiðin og óánægjan kraumar enn undir og fleiri hópar hafa hoppað á vagninn. Búist er við fimmtu mótmælunum næstkomandi laugardag. Mótmælin hafa þegar kostað Frakkland gríðarlegar fjárhæðir. Pakkinn sem Macron kynnti hljóðar upp á 15 milljarða evra og þá er ótalinn beinn og óbeinn kostnaður vegna mótmælanna sjálfra. Sambærilegar aðstæður – misskipting auðæfa, óþreyja gagnvart elítunni, afskiptalausar milli- og lágstéttir í dreifbýli o.s.frv. – hafa leitt popúlista og öfgamenn til valda annars staðar í heiminum. Í Bandaríkjunum, Ítalíu, Brasilíu, Ungverjalandi, á Filippseyjum og víðar. Þá fyrst kemur í ljós á hversu styrkum stoðum franskt lýðræði hvílir.

Samfélagsmeinin mörg
Fyrstu og fjölmennustu mótmælin, sem fljótt brutust út í óeirðir, þann 17. Nóvember, beindust gegn fyrirhuguðum hækkunum á álögum á eldsneyti sem var ein af aðgerðum ríkisstjórnar Frakklands í baráttunni gegn loftlagsbreytingum. Ríkisstjórnin dró hækkanirnar til baka í byrjun desember en það gerði lítið til að lægja öldurnar því þá þegar höfðu mótmælin einnig tekið að beinast að öðrum vandamálum fransks samfélags. Þar bar hæst aukinn ójöfnuður, bæði á milli hinna best og verst settu sem og milli þéttbýlis og dreifðari byggða. Mótmælin hafa stórskaðað franskan efnahag. Bæði nemur tjónið vegna þeirra skemmda sem mótmælendur urðu valdir af milljónum evra, auk þess sem áætlað er að franskir smásalar hafi tapað upp undir milljarði evra vegna minni sölu í kringum óeirðirnar.

- Auglýsing -
Stjórnvöld í Bandaríkjunum og Rússlandi hafa notað óeirðirnar í París til að hampa eigin pólitískum hagsmunum.

Frakkland er risi í hægagangi
Emanuel Macron var kjörinn til valda í fyrra á grundvelli loforða um að nútímavæða franskan efnahag sem hefur glímt við stöðnun í langan tíma. Macron hefur náð árangri en engan veginn í takt við væntingar. Ríkustu þjóðfélagshóparnir hafa efnast hratt á sama tíma og lágstéttar- og millistéttarhópar hafa setið eftir á sama tíma og framfærslukostnaður hefur hækkað. Hagvöxtur mælist 1,8 prósent en er mikið til bundinn við París og aðrar stórborgir og þótt atvinnuleysi undir stjórn Macrons hafi farið niður í 9,1 prósent úr 10,1 prósenti er það enn tvöfalt meira en í Þýskalandi. Franskur vinnumarkaður er afar ósveigjanlegur og rétt eins og fyrri leiðtogum Frakklands hefur Macron gengið afar illa við að ná fram breytingum sökum harðrar andstöðu verkalýðshreyfingarinnar sem nota hvert tækifæri til að mótmæla og boða til verkfalla.

Þórðargleði í Washington og Moskvu
Stjórnvöld í Bandaríkjunum og Rússlandi hafa notað óeirðirnar í París til að hampa eigin pólitískum hagsmunum. Donald Trump sagði mótmælin sýna að ákvörðun hans um að draga Bandaríkin úr Parísarsamkomulaginu hafi verið rétt. Eftir ítrekaðar færslur á Twitter sá utanríkisráðherra Frakklands sig tilneyddan til að biðja Trump um að láta af afskiptum á málefnum Frakklands. Rússneskir fjölmiðlar, hliðhollir stjórnvöldum í Kreml, hafa sömuleiðis lagt ofurkapp á að greina frá mótmælunum og flutt margar fréttir sem er beinlínis uppspuni, til að mynda þær að lögreglulið hafi gengið í lið með mótmælendum. Þá rannsakar franska leyniþjónustan hvort að rússneskir Twitter- aðgangar tengdir Kreml hafi kynt undir mótmælunum, en að minnsta kosti 600 slíkir hafa á liðnum vikum dreift linnulausum fréttum af mótmælunum, mörgum hverjum falsfréttum. Það sama hefur öfgahægrið í Bandaríkjunum gert.

„Áhyggjur fólksins spruttu ekki upp í gær. Við höfum orðið samdauna þeim. Þetta eru 40 ár af gremju sem nú er að koma upp á yfirborðið.“
– Emmanuel Macron, forseti Frakklands.

Óreiðukenndar kröfur gulu vestanna
Skoðanakannanir í Frakklandi sem gerðar voru eftir ávarp Macron á mánudagskvöld sýndu að rúmlega helmingur Frakka telur að kominn sé tími til að binda enda á mótmælin. Erfitt er að henda reiður á hvað gerist næst. Aðrir hópar hafa hoppað á vagninn – stúdentar, anarkistar, fasistar og aðrir popúlistar. Einhverjir mótmælenda hafa séð sér hag í að stofna stjórnmálahreyfingu upp úr gulu vestunum og var nokkurs konar stefnuskrá birt á dögunum. Sú stefnuskrá er afar popúlísk og mótsagnakennd og ógjörningur að hrinda henni í framkvæmd án þess að steypa ríkissjóði í glötun. Þannig er bæði talað um gríðarlegar skattalækkanir á sama tíma og stóraukin ríkisútgjöld. Hreyfing gulra vesta hefur sprottið upp í öðrum Evrópuríkjum, svo sem í Belgíu, Hollandi og Serbíu en ekki í viðlíka mæli og í Frakklandi.

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -