Fimmtudagur 14. nóvember, 2024
9.5 C
Reykjavik

Hættuleg vegferð

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari

Það hefur varla farið fram hjá mörgum að Eurovision-keppnin í ár er ein sú umdeildasta í manna minnum vegna stöðu mála í Palestínu og Ísrael. Hér líkt og annars staðar hefur verið hart tekist á um keppnina og til að byrja með snérist sú umræða um það hvort Íslandi ætti að taka þátt eða ekki. Allt á svona sæmilega vitrænu plani þar til einhverjir fóru allt í einu að stilla málinu upp eins og átök Ísrael og Palestínu væru á ábyrgð allra múslima og allra gyðinga. Þannig lét góður maður þau orð falla í hita leiksins að gyðingar hefðu ekkert lært af Helförinni og þess í stað umbreyst í afsteypu af sínum ógeðslegasta óvini. Annar kallaði Palestínumenn og múslima hreinræktaða óþverra. Málflutningurinn og alhæfingarnar hafa á köflum verið svo óvægnar og ógeðfelldar að maður hefur stundum velt fyrir sér hvernig það hljóti eiginlega að vera fyrir þessa hópa, gyðinga og múslima, að sitja undir þessu tali.

Í Mannlífi í dag stíga fram tvær ungar konur, önnur af gyðingaættum og hin múslimi af palestínskum uppruna, og varpa að einhverju leyti ljósi á það. Báðar segja það vera skelfilegt að verða vitni að fordómunum í garð múslima og gyðinga á Íslandi. Að það sé sorglegt og sárt, vægast sagt, að sjá hvernig múslimum og gyðingum hefur verið úthúðað í samfélaginu og þeim stillt upp í andstæðar fylkingar vegna átaka Ísraela og Palestínumanna. Enda sé það hvorki þeirra né annars saklauss fólks að svara fyrir einhver voðaverk sem eru framin úti í heimi og þaðan af síður að taka ábyrgð á þeim.

Nokkuð sem maður hefði nú reyndar haldið að þyrfti ekki að útskýra fyrir fullorðnu fólki. Síst af öllu fyrir landsmönnum enda ekki lengra síðan en í hruninu að Íslendingar voru úthrópaðir þjófar erlendis af fólki sem hafði farið illa út úr viðskiptum sínum við íslensku bankana. Rétt eins og það var óréttlátt þá að kenna heilli þjóð um svikastarfsemi fárra manna þá hlýtur það að segja sig sjálft að með engu móti er hægt að dæma milljarða manna um allan heim, gyðinga, múslima eða aðra fyrir framferði hryðjuverkahópa, hers, yfirvalda eða nokkurra manna. Það er fráleitt, heimskulegt og beinlínis hættulegt.

Enda hafa konurnar tvær sem rætt er við í Mannlífi vaxandi áhyggjur af því á hvernig orðræðan um gyðinga og múslima er að þróast á Íslandi og vara við henni. Að umræðan ali ekki eingöngu á fordómum og andúð í garð þessara hópa heldur geti, með sama áframhaldi, endað með ofsóknum og ofbeldi. Þar af leiðandi sé brýnt að efla fræðslu um þessi mál í skólakerfinu því mest af fordómunum stafi bara af vanþekkingu, sem sé svo mikill óþarfi því Ísland hafi alla burði til að gefa öllum menningarheimum rými. Sem er auðvitað langtum vitrænni nálgun en að níða saklaust fólk. Þeir sem það gera eru nefnilega aldrei á góðri vegferð. Sama hversu góðan málstað þeir telja sig hafa að verja.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -