Þriðjudagur 24. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Í stríði við stofnanir og stóriðju

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ragnheiður Þorgrímsdóttir, bóndi á Kúludalsá í Hvalfirði, hefur þurft að láta fella nítján hross síðan sumarið 2007 vegna veikinda sem hún telur stafa af flúormengun frá álverinu á Grundartanga. Síðast var hross fellt þann 11. júní síðastliðinn.

 

Ragnheiður höfðaði mál gegn Norðuráli vegna mengunarslyss sem varð í álverinu árið 2006, tapaði því fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á síðasta ári og í síðustu viku staðfesti Landsréttur dóm Héraðsdóms og fríaði Norðurál allri ábyrgð. Ragnheiður er þó ekki af baki dottin og segist munu halda áfram að berjast fyrir réttlætinu, hrossin eigi það inni hjá henni.

Ragnheiður er að vonum ósátt við dóm Landsréttar, telur hann byggja á að málsgögnin hafi ekki fengið hlutlæga meðferð.

„Gögnum Norðuráls var gert hærra undir höfði en þeim gögnum sem snerta veikindi hrossanna,“ segir hún. „Öll orðræðan var Norðuráli í hag og röksemdafærslan sérkennileg. Litið var fram hjá orðum dýralæknisins sem bar vitni fyrir Landsrétti og gjörþekkir aðstæður á Kúludalsá. Það er mjög aðfinnsluvert.“

Gerðist eins og hendi væri veifað

Forsaga málsins er sú að vorið 2007 byrjuðu hross á Kúludalsá að veikjast án sýnilegrar ástæðu. Ragnheiður segist hafa byrjað á því að leita orsakanna heimafyrir, en hún hafi ekki verið að gera neitt öðruvísi en áður og skýringanna því ekki að leita þar. Hrossin héldu áfram að veikjast og lyf við hófsperru, sem dýralæknir ávísaði gerðu ekkert gagn.

„ … þetta gerðist bara eins og hendi væri veifað. Allt í einu fóru hrossin að veikjast hvert af öðru.“

- Auglýsing -

„Það höfðu aldrei sést svona veikindi hér áður,“ segir Ragnheiður. „Og þetta gerðist bara eins og hendi væri veifað. Allt í einu fóru hrossin að veikjast hvert af öðru. Sjúkdómseinkenni hrossanna voru að þau urðu stirð í hreyfingum og gátu jafnvel ekki hreyft sig, það kom bjúgur á skrokkinn, á makkann sem varð þykkur, stífur og jafnvel kúptur og á bóg, lend og höfuð. Einkennin virtust hvorki tengjast holdafari né aldri hrossanna. Hófar aflöguðust á sumum hrossanna og einnig varð vart við útbrot á skrokkum nokkurra, auk eyðingar jaxla. Allt bent á einkenni flúoreitrunar. Ekkert þeirra drapst samt úr þessu, en ég þurfti að láta fella þau því maður lætur ekki dýr kveljast til dauða, það segir sig sjálft.“

Frétti af mengunarslysinu fyrir tilviljun

Ragnheiður leitaði til Matvælastofnunar sem sagðist ekki mundu hafa nein afskipti af málinu þar sem greinilega væri ekki um smitsjúkdóm að ræða og málið því ekki á þeirra könnu. Og þar við sat. Hrossin héldu áfram að veikjast og það þurfti að fella fleiri hesta án þess að nokkur skýring fengist á veikindum þeirra. Það var ekki fyrr en Ragnheiður heyrði af svokölluðu slysi sem orðið hafði í álverinu við Grundartanga sumarið 2006 að hún fór að átta sig á samhenginu.

- Auglýsing -

„Svo heyrði ég af tilviljun af mengunarslysi sem hafði orðið í álverinu síðsumars 2006, það hafði ekkert verið sagt frá því,“ segir Ragnheiður. „Það bilaði reykhreinsivirki og búnaðurinn komst ekki í fullt lag fyrr en undir næstu áramót. Enginn veit hversu mikið af flúor fór út í andrúmsloftið í allan þennan tíma því engar mælingar voru gerðar til að meta afleiðingar slyssins.

„Umhverfisstofnun vissi af slysinu en ákvað samt að láta íbúa í firðinum ekki vita.“

Umhverfisstofnun vissi af slysinu en ákvað samt að láta íbúa í firðinum ekki vita. Þetta var kallað „slys“ en var í rauninni varla slys þar sem svo langur tími leið þar til búnaðurinn komst í fullt lag. Á sama tíma var verið að stækka álverið mjög mikið og verulegur flúor hafði mælst í heyi á nærliggjandi bæ fyrr um sumarið sem bendir til að flúormengun hafi verið mikil áður en slysið varð.“

Eftirlitsmaðurinn sagðist ekki hafa vit á hestum

Eftir þessa uppgötvun, vorið 2009, ákvað Ragnheiður að biðja Umhverfisstofnun að gera rannsókn á veikindum hrossanna.

„Reyndar hafði ég fyrst samband við Matvælastofnun sem vísaði málinu til Umhverfisstofnunar þar sem hún gæfi starfsleyfið fyrir álverið. Umhverfisstofnun tók við málinu og svo leið og beið. Það var ekki fyrr en ári seinna sem Umhverfisstofnun sendi hingað mann einn föstudagseftirmiðdag til þess að skoða málið. Hann sat hérna í fjóra klukkutíma við eldhúsborðið og spjallaði við mig og dóttur mína um allt og ekkert. Þegar ég spurði hvort hann vildi ekki sjá hrossin sagðist hann ekki hafa neitt vit á hestum en kom samt með mér og kíkti á þau. Hann vorkenndi hrossunum óskaplega og svo bara fór hann og ég frétti ekkert meira. Loksins heyrði ég af því að hann hefði sent Matvælastofnun fyrirspurn um málið, en enn gerðist ekkert frekar.“

Þrátt fyrir að hafa tapað málinu fyrir Landsrétti er Ragnheiður ekki af baki dottin og segist munu halda áfram að berjast fyrir réttlætinu, hrossin eigi það inni hjá henni. Mynd / Unnur Magna

Það var ekki fyrr en nærri ári síðar, vorið 2011 sem málin fóru á einhverja hreyfingu eftir að Fréttastofa RÚV hafði fjallað um málið.

„Þeir gerðu frétt sem kom í sjónvarpinu og ýtti allhressilega við Umhverfisstofnun þannig að stuttu seinna hafnaði hún rannsókn,“ útskýrir Ragnheiður. „Ég var eðlilega mjög ósátt við þessa höfnun, ekki síst þegar ég komst að því að maðurinn sem Umhverfisstofnun hafði sent hingað hafði ekki einu sinni skrifað skýrslu um heimsóknina. Stofnunin var búin að halda málinu hjá sér í tvö ár án þess að gera nokkurn skapaðan hlut nema senda eina fyrirspurn til Matvælastofnunar sem Sigríður Björnsdóttir sérgreinadýralæknir hrossasjúkdóma svaraði eftir átta mánuði. Á grundvelli svara hennar, sem hún byggði talsvert á minni lýsingu á hrossunum, hafnaði Umhverfisstofnun rannsókn. Þetta eru náttúrlega forkastanleg vinnubrögð, svo ekki sé meira sagt.“

Afar yfirborðsleg skoðun

Þegar hér var komið var árið orðið 2011 og Ragnheiður hafði staðið í þessu stappi í fjögur ár án þess að nokkuð mjakaðist áleiðis. Hún sneri sér því aftur til Matvælastofnunar og fór fram á rannsókn af hennar hálfu og gaf þrjú hross til að rannsaka ítarlega. Eftir langa mæðu sendi stofnunin loks Sigríði Björnsdóttur, dýralækni hrossasjúkdóma, á vettvang. Að sögn Ragnheiðar var skoðun hennar afar yfirborðsleg, hún hafi skoðað tuttugu og eitt hross á klukkutíma, ekki tekið nein sýni og ekki haft meðferðis nein áhöld til að skoða ástand hófa þeirra og tanna. Engu að síður kvað hún upp þann úrskurð að veikindin væru af völdum efnaskiptasjúkdómsins EMS og að hann stafaði af offóðrun og hreyfingarleysi. Birt var skýrsla um málið sem Ragnheiður mótmælti harðlega, en Matvælastofnun tók ekkert mark á mótmælum hennar. Og hún sat uppi með þann stimpil að hún kynni ekki að hugsa um hrossin sín.

„Þessir hestar eru meðal þeirra fimm sem Sigríður Björnsdóttir hjá MAST taldi hættulega feita og líklega til að fá EMS-sjúkdóminn. Enginn þessara fimm hesta hefur veikst enn sem komið er og eru þó liðin nærri átta ár frá heimsókn hennar á bæinn,“ segir Ragnheiður um hestana á myndinni. Aðsend mynd

„Ég er fædd hér og alin upp, hef haldið hross í áratugi og veit alveg hvernig á að fóðra hross,“ segir Ragnheiður með þunga. „Hrossin hafa alltaf verið mitt uppáhald og ég hef alltaf verið innan um þau og ég vissi að þessi niðurstaða dýralæknis Matvælastofnunar átti ekki við nein rök að styðjast.“

Skýrsla sérfræðinga virt að vettugi

Ragnheiður hélt áfram að leita orsaka veikindanna og biðla til opinberra stofnana um rannsókn á flúormengun. Árið 2012 samþykkti þáverandi atvinnuvegaráðherra loks að rannsaka orsakir veikinda hrossanna. Jakob Kristinsson, doktor emeritus í eiturefnafræði við Háskóla Íslands, og Sigurður Sigurðarson fyrrverandi yfirdýralæknir voru sérfræðingarnir sem atvinnuvegaráðuneytið fékk til að meta málið. Þeir skiluðu niðurstöðu rannsókna sinna í júní árið 2016 og sú niðurstaða var afgerandi. Samkvæmt rannsóknum þeirra, sem stóðu yfir í þrjú ár, eru mestar líkur á að síendurtekin veikindi hrossanna á Kúludalsá megi rekja til flúormengunar frá álverinu og nær útilokað er að veikindin megi rekja til rangrar meðhöndlunar Ragnheiðar, eins og dýralæknir Matvælastofnunar hafði haldið fram. Ragnheiður segir þá niðurstöðu hafa verið mikinn létti og henni hafi liðið eins og réttlætið hefði loks náð fram að ganga. Hún óskaði eftir því að Matvælastofnun drægi skýrslu sína um ástæður veikinda hrossanna til baka vegna þessrar niðurstöðu en stofnunin hafnaði því. Ragnheiður greip þá til þess ráðs að kæra Norðurál fyrir brot á starfsleyfissamningi vegna mengunarslyssins en tapaði því máli, eins og áður sagði bæði fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og Landsrétti.

Hvernig líður henni eftir þennan nýuppkveðna dóm Landsréttar? Hefur þessi barátta ekki verið hræðilega slítandi?

„Jú, jú, hún hefur verið það,“ segir Ragnheiður hugsi. „Ég hugsa að ég geri mér kannski ekki alveg grein fyrir því sjálf hvernig mér líður. Ég er bara í baráttunni og maður er ekkert að velta því fyrir sér í miðju stríði hvernig manni líður. Maður heldur bara áfram.“

Dómstólar virðast taka ákvörðun fyrir fram

Talandi um að halda áfram, eru einhverjar leiðir færar fyrir Ragnheiði til að ná fram réttlæti? Hvert verður næsta skref?

„Ég veit það ekki,“ segir hún og andvarpar. „Það er jú til eitthvað sem heitir Hæstiréttur. Ég veit ekki hvort hann vill taka þetta mál upp en mér finnst sjálfsagt að reyna það. Vegna þess að mér finnst, eftir að hafa séð dómsorð Landsréttar og þar áður dómsorð Héraðsdóms Reykjavíkur, að þessir dómstólar séu ekkert að dæma í þessu máli. Mér finnst eins og þeir hafi tekið ákvörðun um niðurstöðuna fyrir fram og ég get alveg rökstutt það. Til dæmis með því hvernig þeir nota málsgögnin sem koma frá mér. Þeir nota þau nefnilega ekki og í allri orðræðu þeirra skín í gegn að það sem kemur frá Norðuráli sé áreiðanlegt og hlutlaust. Þeir styðjast við rangar upplýsingar frá lögmanni Norðuráls, meðal annars um að ég hafi neitað að láta fara fram flúormælingar á jörðinni, og nefna það í dómsorðum. Nokkur vitni gáfu vitnisburð frá minni hlið og ég kom sjálf fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur, en þegar ég las dómsorðin frá Héraðsdómi var ekki á þeim að sjá að ég hefði verið þarna. Það lítur helst út fyrir að þau hafi ekkert hlustað á mig.

„Mér finnst þetta oft minna á rannsóknarrétt kaþólsku kirkjunnar á miðöldum og valdníðslu hans.“

Núna fyrir Landsrétti kom dýralæknir, sem hefur verið dýralæknir hérna í 37 ár og gjörþekkir aðstæður, fram og lýsti því á mjög afgerandi hátt hvernig heilsa hrossanna hefði breyst eftir mengunarslysið. Hann tók einnig fyrir skýrslu Sigríðar Björnsdóttur sem hann sagði að væri handónýt, það væri ekkert í henni sem gæfi tilefni til þess að halda því fram að hrossin væru með EMS. Enda þarf að greina hvert einasta hross með því að setja það í sykurþolspróf til greina þann sjúkdóm. Það var ekki gert og ég veit reyndar ekki til þess að eitt einasta hross á Íslandi hafi farið í slíkt próf. Samt heldur Sigríður Björnsdóttir því fram að þetta sé útbreiddur sjúkdómur á Íslandi. Mér finnst þetta oft minna á Rannsóknarrétt kaþólsku kirkjunnar á miðöldum og valdníðslu hans.“

Ragnheiður segir að það sem henni finnist eiginlega óhuggulegast í þessu máli sé hversu margir séu tilbúnir til þess að samþykkja það sem Sigríður segir. „Dómarnir hafa svo líka auðvitað áhrif,“ segir hún. „Fólk hefur tilhneigingu til að treysta þeim.“

Kveðjustund. Ragnheiður Þorgrímsdóttir hefur þurft að láta fella nítján hross síðan sumarið 2007 vegna veikinda sem hún telur stafa af flúormengun frá álverinu á Grundartanga. Síðast var hross fellt þann 11. júní, en það var hryssan Óskadís sem sést hér á myndinni með Ragnheiði.

En hefur Ragnheiður aldrei í öllu þessu ferli efast um eigin málstað? Hafa þessar sífelldu hafnanir á málaumleitunum hennar ekki haft nein áhrif á sjálfsmynd hennar?

„Nei, ég held ég hafi bara ágætis sjálfsmynd,“ segir hún. „En ég er ekki óraunsæ samt. Ég veit auðvitað að það getur öllum skjátlast en aftur á móti hef ég þessi hross fyrir framan mig á hverjum einasta degi og hef lesið mér mikið til og ég sé alveg að þetta sem Sigríður heldur fram stenst engan veginn. Hvorki varðandi það hvernig veikindi hrossanna lýsa sér né hvernig aðbúnaður og meðferð þeirra er. Ef mín hross eiga að veikjast vegna þess að þau eru offóðruð eða ekki hreyfð nógu mikið þá ættu langflest hross á Íslandi að vera fárveik, þau búa öll við svipaðar aðstæður og mín og flest þeirra eru mun feitari en mín.

Ég tel að það séu miklir hagsmunir í húfi fyrir marga að þetta mál vinnist ekki fyrir dómstólum. Nú snýst umræðan æ meir um umhverfisvernd og loftslagsmál en álfyrirtækin hafa mikið til fengið að vera í friði með sína mengun. Það eru álver í nágrenni við dýrahald og matvælaframleiðslu á fleiri stöðum á landinu. Það er nokkuð öruggt að Norðurál er búið að eyða meira í málskostnað heldur það sem ég kref fyrirtækið um í bætur fyrir hrossin mín, enda mæta þeir með fleiri en einn lögmann fyrir dóm. Ef ég vinn málið gætu fleiri bændur fylgt á eftir, flúor mælist víða hár í til dæmis sauðfé sem er ræktað til manneldis og er líka talinn hafa slæm áhrif á frjósemi kinda.“

Þurfti að leggja hestanámskeiðin niður

Auk þess að vera tilfinningalega tengd hrossunum hafa veikindi þeirra einnig bitnað á atvinnu Ragnheiðar þar sem hún rak um árabil námskeið fyrir börn þar sem þessir hestar léku lykilhlutverk. Eftir það stóra skarð sem hefur verið höggvið í raðir þeirra hefur hún neyðst til að leggja þá starfsemi niður.

„Þessir hestar sem ég notaði á námskeiðunum eru flestir farnir yfir móðuna miklu,“ segir hún. „Og ég þurfti því að leggja námskeiðin niður. Maður gerir ekki út á dauða hesta. Það er nefnilega töluverður vandi að finna hesta sem maður getur notað fyrir börn sem aldrei hafa kynnst hestum. Þeir verða að vera svo öruggir og lífsreyndir og ef ég ætlaði að fara að kaupa þannig hesta myndi það ekki borga sig fyrir mig, fyrir nú utan það að mér finnst ekki að ég eigi að vera að flytja hesta hingað. Ég get reynt að halda utan um þá sem eru eftir en mér finnst alrangt að flytja hesta inn í þetta umhverfi.“

Þannig að þetta mál hefur höggvið skarð í fjárhaginn líka?

„Ég náttúrlega vann fyrir mér sem kennari í áratugi,“ útskýrir Ragnheiður. „Og þótt eftirlaunin séu ekki há get ég tórt á þeim og svo brá ég á það ráð að stofna ferðaþjónustu eftir að hestarnir fóru að veikjast, til að drýgja tekjurnar og hafa efni á því að halda býlinu við. Það er líka mjög hressandi að kynnast fólki alls staðar að úr heiminum og það hefur hjálpað mér heilmikið. Það er svo gott fyrir sálina að vinna störf þar sem maður er að gleðja aðra og auka lífsgæði fólks. Það gefur mér mikið.“

„Þá urðu þeir vondir“

Ragnheiður heldur úti vefsíðunni namshestar.is þar sem hún hefur farið ítarlega í saumana á málinu alveg frá upphafi og hún segir það líka hafa hjálpað sér heilmikið að geta skrifað sig frá þessu.

„Bara það að koma þessu frá sér léttir á manni,“ útskýrir hún. „Það felst í því ákveðin sálgæsla.“

En hefur Ragnheiður staðið í einhverjum beinum samskiptum við Norðurál vegna málsins?

„Árið 2009, þegar ég tilkynnti Umhverfisstofnun um veikindi hrossanna og bað um rannsókn, sendi ég Norðuráli líka bréf, þar sem þeir hafa alltaf sagt að þeir vilji fá að vita af því ef eitthvað sé að hérna í grenndinni sem hægt væri að tengja þeim. Þeir báðu mig í framhaldi af því að láta sig fá öll gögn um málið til að þeir gætu látið sína sérfræðinga fara yfir þau. Ég svaraði þeim skriflega að svona ynni maður ekki, þeir væru ekki aðilinn sem ætti að fara yfir gögn varðandi mengun frá þeim. Þá urðu þeir vondir og ég var þar með komin út á klakann hjá þeim,“ segir Ragnheiður og skellir upp úr.

„Gögnum Norðuráls var gert hærra undir höfði en þeim gögnum sem snerta veikindi hrossanna,“ segir Ragnheiður. „Öll orðræðan var Norðuráli í hag og röksemdafærslan sérkennileg. Litið var fram hjá orðum dýralæknisins sem bar vitni fyrir Landsrétti og gjörþekkir aðstæður á Kúludalsá. Það er mjög aðfinnsluvert.“

Barátta Ragnheiðar minnir um margt á kvikmyndina Kona fer í stríð, er hún búin að sjá myndina og samsamaði hún sig aðalpersónunni að einhverju leyti?

„Ég veit það nú ekki,“ segir hún og brosir. „En mér fannst allavega mjög gaman að horfa á myndina. Ég er samt ekki jafnstórtæk og hún.“

Segir lögmann Norðuráls hafa blekkt Landsrétt

Ragnheiður hefur staðið í stríði við opinberar stofnanir síðan árið 2009, finnst henni ekki slítandi að tala endalaust fyrir daufum eyrum?

„Ég held það sé nú ekki hægt að tala um dauf eyru, því þeir vita örugglega alveg upp á sig skömmina,“ segir hún ákveðin. „Ég er ekki í nokkrum einasta vafa um það að menn vita að það er eitthvað að hérna sem ekki er hægt að skýra með mínum klaufaskap eða EMS-sjúkdómi. Þeir ætla bara ekki að taka undir það, vilja ekki sjá það. Það gefur mér kraft til að halda áfram að ég veit að þetta er vegna mengunar. Það kom greinilega fram í niðurstöðum sérfræðinga atvinnuvegaráðuneytisins að flúormengun sé líkleg orsök veikinda hrossanna enda mælist fjórfalt flúormagn í beinsýnum hrossanna hér miðað við hross á ómenguðum svæðum. Og þó hrossin hafi verið á aldrinum 8 til 26 vetra þegar þau voru felld, er flúormagnið svipað í þeim öllum, sem merkir að þau urðu fyrir flúorálagi á sama tíma.

„Ég hef sjálf látið mæla flúor í grasi og heyi og þær tölur eru til og hægt að nýta þær.“

Jakob og Sigurður eru auðvitað traustir vísindamenn sem forðast upphrópanir en þeir sögðu að það þyrfti frekari rannsóknir, sem eðlilegt er. Eftir að skýrsla þeirra kom út vildi Umhverfisstofnun bæta Kúludalsá inn á vöktunarplan vegna álversins, en þeir gera aldrei neitt með þær niðurstöður sem koma út úr vöktuninni, þannig að ég sá ekki ástæðu til þess að fara á byrjunarreit gagnvart stofnuninni, heldur vildi ég að hún héldi áfram þar sem rannsókn atvinnuvegaráðuneytisins hætti. Ég hef sjálf látið mæla flúor í grasi og heyi og þær tölur eru til og hægt að nýta þær. Í fundargerð sem gerð var um þennan fund stóð hins vegar að ég hefði neitað Umhverfisstofnun um mælingar á bænum. Ég skrifaði þeim strax og bað þá vinsamlegast að segja satt, ég hefði ekki neitað þeim, heldur sagt að ég vildi að þeir héldu fyrrnefndri rannsókn áfram. Umhverfisstofnun tók þessa beiðni til greina. Lögmanni Norðuráls fannst samt bitastætt að taka þessa klausu úr samhengi og leggja hana fyrir Landsrétt og margendurtók þetta atriði. Þannig að ég stend við það að þarna hafi ekki verið heiðarlegur málflutningur heldur reynt að láta minn málstað líta illa út. Þeir hafa ekki neitt á mig og fara þessa lúalegu leið til að finna einhvern höggstað á mér.“

Ragnheiður segist vera ósátt við dóm Landsréttar, telur hann byggja á að málsgögnin hafi ekki fengið hlutlæga meðferð og nefnir annað dæmi. „Í starfsleyfi Norðuráls frá 2003 stendur skýrum stöfum að hreinsibúnaður eigi alltaf að vera í gangi, en í mengunarslysinu lá búnaðurinn niðri í einu hreinsivirkinu í allt að einn og hálfan sólarhring. Þetta er mjög sérkennileg niðurstaða hjá Landsrétti.“

Álverið á Grundartanga. „Svo heyrði ég af tilviljun af mengunarslysi sem hafði orðið í álverinu síðsumars 2006, það hafði ekkert verið sagt frá því,“ segir Ragnheiður. „Það bilaði reykhreinsivirki og búnaðurinn komst ekki í fullt lag fyrr en undir næstu áramót. … Þetta var kallað „slys“ en var í rauninni varla slys þar sem svo langur tími leið þar til búnaðurinn komst í fullt lag.“

Þessi barátta hefur væntanlega litað allt líf Ragnheiðar síðustu árin, er hún ekkert nálægt því að gefast upp?

„Ég hef sem betur fer alltaf getað hlegið og tekið þátt í einhverju skemmtilegu,“ segir hún. „Ég læt þetta ekki draga mig niður í svartnætti, alls ekki. Það sem kannski hefur verið erfiðast er að upplifa að sumir kunningjar, fólk sem þekkir mig, virðist trúa því sem stofnanirnar halda fram, að þetta sé mér að kenna. Það hef ég tekið nærri mér. En þú skalt ekki voga þér að reyna að láta mig líta út eins og eitthvert fórnarlamb í þessu viðtali. Ég er ekki fórnarlamb, ég er baráttukona og ég mun halda áfram að berjast.

„Náttúran og dýrin eru undirstaða búsetu í þessu landi og ég mun halda áfram að taka slaginn fyrir þeirra hönd, svo lengi sem á þarf að halda.“

Álverið hefur haft gríðarlegt olnbogarými hér, á kostnað umhverfisins alls. Ég vil að það verði hægt að stunda búskap á þessu svæði í framtíðinni. Náttúran og dýrin eru undirstaða búsetu í þessu landi og ég mun halda áfram að taka slaginn fyrir þeirra hönd, svo lengi sem á þarf að halda.“

Myndir / Unnur Magna og aðsendar myndir
Myndband / Hallur Karlsson, Hákon Davíð Björnsson og Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -