Þriðjudagur 19. mars, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Akureyringar stjórna nú bæði Eimskip og Samskip

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Vilhelm Már Þorsteinsson hefur verið ráðinn forstjóri Eimskips. Hann hefur starfað hjá Íslandsbanka frá árinu 1999 og nú síðast sem framkvæmdastjóri fyrirtækja og fjárfesta. Vilhelm er sonur Þosteins Vilhelmssonar, fyrrum eiganda Samherja sem átti einnig fjárfestingafélagið Atorku.

Mannlíf fjallaði nýlega um möguleg forstjóraskipti eftir að tilkynnt var um að Gylfi Sigfússon myndi flytja sig til Bandaríkjanna og taka við starfsemi Eimskips þar og í Kanada ásamt því að stýra Eimskip logistics. Þau nöfn sem Mannlíf nefndi þá sem væru líklegir til að taka við Eimskip voru Björgólfur Jóhannsson, fyrrum forstjóri Icelandair, Baldvin Þorsteinsson núverandi stjórnarformaður Eimskips og Jón Björnsson, fyrrum forstjóri Festar.

Nú er ljóst að það verður hins vegar Vilhelm Már Þorteinsson sem tekur við hjá þessu gamalgróna fyrirtæki. Vilhelm er frá Akureyri og er fæddur árið 1971. Er menntaður viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og er með MBA gráðu frá Pace University í New York. Hefur hann starfað hjá Íslandsbanka í 18 ár og forverum hans. Hann var einn af fremstu skíðamönnum landsins á yngri árum og var í skíðalandsliðinu á sama tíma og Kristinn Björnsson sem margir muna eftir.

Mynd af Facebook-síðu Eimskips.

Segja má að mikil tengsl séu á milli Vilhelms og Samherja sem nú er stærsti hluthafi Eimskips. Þorsteinn Vilhelmsson, faðir Vilhelms er bróðir Kristjáns Vilhelmssonar, eins af eigendum Samherja. Þorsteinn stofnaði Samherja með Kristjáni bróður sínum og Þorsteini Má Baldvinssyni, frænda þeirra árið 1983. Árið 1999 seldi Þorsteinn Vilhelmsson hins vegar hlut sinn í Samherja. Fyrir bankahrunið átti Þorsteinn síðan Atorku Group sem fór í greiðslustöðvun eftir bankahrunið. Það var einmitt Kaldbakur, fjárfestingafélag Samherja sem keypti hluta af eignum Atorku árið 2012 þegar félagið fjárfesti í Jarðborunum.

Akureyringar stjórna Eimskip og Samskip

Vilhelm hefur hins vegar ekki tekið þátt í fjárfestingum með föður sínum heldur hefur hann unnið hjá Íslandsbanka í 18 ár líkt og áður kom fram. Hann var einn þeirra sem settist í framkvæmdastjórn Glitnis í maí árið 2008 og fékk á sama tíma 800 milljóna kúlulán í gegnum félag sitt AB 154 ehf. til kaupa á hlutabréfum í Glitni. Á þeim tíma var Þorsteinn Már Baldvinsson stjórnarformaður Glitnis.

Áhugavert þykir að nú stýra tveir Akureyringar báðum helstu flutningafyrirtækjum landsins. Í haust var Birkir Hólm Guðnason ráðinn forstjóri Samskipa en hann hafði um árabil starfað hjá Icelandair. Birkir er þremur árum yngri en Vilhelm.

- Auglýsing -

Frekari breytingar framundan hjá Eimskip?

Þeir aðilar á markaði sem Mannlíf ræddi við í desember þegar vangaveltur voru um nýjan forstjórara töldu líkleg tækifæri í því að skipta út stjórnendum hjá Eimskip, nýta fé þess betur, þróa vöruhótel þess enn frekar svo nokkuð sé nefnt. Hér þarf auðvitað líka að hafa í huga að starfsemi Eimskips í dag er allt önnur en fyrir áratug síðan. Má í því samhengi nefna að árið 2007 námu heildareignir þess um 200 milljörðum króna en nema í dag 65 milljörðum króna. Veltan í dag er þó einungis um 10% minni en þegar best var eða rúmlega 90 milljarðar króna.

Því verður áhugavert að sjá hvaða breytingar verða með tilkomu þess að Vilhelm Már Þorsteinsson tekur við sem forstjóri Eimskips og hvaða breytingar frændur hans hjá Samherja ætli sér að gera varðandi rekstur fyrirtækisins á komandi misserum. En líklegt má telja að frekari breytingar séu framundan á meðal lykilstjórnenda Eimskip og að Vilhelm komi með menn sem hann treystir og þekkir inn í lykilstöður í fyrirtækinu, sem mun á sama tíma endurspegla áherslur stærsta eiganda fyrirtækins.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -