Fimmtudagur 28. mars, 2024
3.8 C
Reykjavik

„Ákveðinn kostur að vera orðin svona gömul“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Andleg uppbygging ekki síður mikilvæg.

Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir, 53 ára hjartalæknir, er í landsliðinu í utanvegahlaupum ásamt sjö öðrum hlaupurum og þann 12. maí næstkomandi munu þau taka þátt í heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum á Spáni.

Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir er í landsliðinu í utanvegahlaupum.

Hlaupaleiðin er 85 km í Penyagolosa-þjóðgarðinum í Castellón-héraði austarlega á Spáni. Leiðin liggur inn í land á stígum sem sumir hverjir eru fornar pílagrímsleiðir. Samtals hækkun er um 5000 m með lækkunin sem nemur 3600 m. „Þetta er mitt lengsta hlaup fram til þessa og undirbúningurinn hefur falist í lengri og skemmri hlaupum, með áherslu á að hlaupa utanvega og takast á við talsverðar hækkanir. Það er mikilvægt að ná nokkrum æfingum þar sem maður er lengi að, jafnvel 4-6 klukkustundir eða lengur því maður þarf að venjast því að vera á lengi á ferðinni,“ segir Þórdís sem er á lokaspretti undirbúnings fyrir keppnina.

Auk hennar eru í liðinu Elísabet Margeirsdóttir, Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir, Hildur Aðalsteinsdóttir, Sigríður Björg Einarsdóttir, Guðni Páll Pálsson, Daníel Reynisson og Sigurjón Ernir Sturluson. Liðsstjórinn er Friðleifur Friðleifsson, einn af okkar öflugustu utanvegahlaupurum. „Við erum með nokkuð mismunandi æfingaáætlanir en við stelpurnar höfum náð nokkrum löngum góðum hlaupum saman sem er hvetjandi og skemmtilegt. Á löngu æfingunum æfir maður ekki bara hlaupið sem slíkt heldur prófar sig líka áfram með næringu og fatnað. Ég reyni líka að læða inn einni og einni hjóla- eða sundæfingu til að dreifa álaginu á skrokkinn og til tilbreytingar. Einnig þarf maður að huga að því að byggja sig upp andlega, reyna að horfa á sínar sterku hliðar og takast á við hlaupið í huganum,“ segir Þórdís. Hún var einnig í landsliðinu í fyrra en þá fór keppnin fram í Toscana og voru hlaupnir 50 kílómetrar með tæplega 3000 m hækkun. „Ég var bara nokkuð sátt við hvernig mér gekk, þrátt fyrir heldur hærra hitastig en við eigum að venjast. Ekkert kom upp á í hlaupinu, ég kom sterk í mark, leið eins vel og manni getur liðið eftir svona langt hlaup og var alveg ótrúlega hamingjusöm. Mér fannst þetta svo jákvæð upplifun, góð stemning í liðinu og frábær stemning í fjallaþorpinu þar sem hlaupið fór fram og ég er að vonast til að fá að upplifa eitthvað svipað aftur á Spáni.“

„Því fylgir ákveðin áskorun að hlaupa utanvega í allskyns færi og veðri en því fylgir líka meira frelsi. Þú starir ekki á klukkuna til að fylgjast með hraðanum á sama hátt og í götuhlaupi og það er miklu auðveldara að gleyma sér og njóta.“

Áskorun að hlaupa utanvega
Keppninsmanneskja hefur blundað í Þórdísi alla tíð og sem unglingur og fram á fullorðinsár keppti hún í frjálsum íþróttum. Hún náði bestum árangri í hástökki, stökk 1,74 m, og keppti líka í 800 m hlaupi og grindahlaupi. „Eftir að frjálsíþróttaferlinum lauk spilaði ég körfubolta með Stúdentum í nokkur ár en eftir að börnin fæddust og ég fór í sérnám fór ég að hlaupa mér til heilsubótar. Ég setti markið á að taka árlega þátt í Göteborgsvarvet sem er stærsta hálfmaraþon í heimi og fer fram á hverju vori í Gautaborg þar sem ég bjó í tólf ár. Ég fór síðan að æfa hlaup meira markvisst eftir að hlaupahópur FH var stofnaður en ég mætti að sjálfsögðu á fyrstu æfinguna hjá hópnum í janúar 2010.  Til að byrja með stundaði ég aðallega götuhlaup, en ég held að áhuginn á utanvegahlaupunum hafi kviknað alvarlega í tengslum við að ég hljóp Jökulsárhlaupið, 32,7 km, þá um haustið. Annars hef ég alltaf haft áhuga á útivist og eftir því sem ég hef orðið eldri hefur áhuginn á lengri keppnum og æfingum aukist og fjalla- og utanvegahlaup sameina svo sannarlega þetta tvennt. Því fylgir ákveðin áskorun að hlaupa utanvega í allskyns færi og veðri en því fylgir líka meira frelsi. Þú starir ekki á klukkuna til að fylgjast með hraðanum á sama hátt og í götuhlaupi og það er miklu auðveldara að gleyma sér og njóta. Kostirnir við utanvegahlaupin eru líka þeir að álagið á skrokkinn er öðruvísi en við götuhlaup, en þau reyna líka á jafnvægi og útsjónarsemi. Ég held þau henti flestum, ungum sem öldnum, en maður verður bara að prófa til að komast að því. Þá er ábyggilega gott að vera í góðum félagsskap til að byrja með.“

Þórdís ásamt liðsfélögum sínum Hildi Aðalsteinsdóttur, Elísabetu Margeirsdóttur og Ragnheiði Sveinbjörnsdóttur á æfingu á Hengilssvæðinu.

Leggur allt í sölurnar
Markmið Þórdísar fyrir heimsmeistaramótið á Spáni er að mæta vel undirbúin til leiks og eiga góðan dag þar sem allt gengur upp. „Og njóta. Ég geri mér grein fyrir að ég er ekki að fara að vinna til verðlauna og að hlaupið verður afar krefjandi en ef tilfinningin eftir hlaupið verður sú að ég hafi lagt allt í sölurnar og uppskorið í samræmi við það, verð ég sátt. Ég hlakka líka til að sjá hvernig liðsfélögum mínum gengur,“ segir Þórdís.

Annars er keppnin á Spáni bara byrjunin á sumrinu. Þórdís stefnir á að hjóla Vatternrunduna, 300 km, í júni, auk þess að hlaupa Laugaveginn og fleiri utanvegahlaup í sumar. „Svo er aldrei að vita nema ég skelli mér í þríþraut erlendis í september,“ segir hún hress í bragði. Og hún fær dyggan stuðning að heiman. „Það er ómetanlegt að njóta góðs stuðnings frá sínum nánustu og ég get ekki sagt annað en að á heimilinu ríki mikill skilningur á að ég verji miklum tíma í æfingar. Svo er náttúrlega ákveðinn kostur að vera orðin svona gömul eins og ég er, börnin eru orðin fullorðin og því slepp ég alveg við að útvega pössun til að geta stundað mínar íþróttir.“

- Auglýsing -

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson og úr einkasafni

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -