Fimmtudagur 14. nóvember, 2024
9.9 C
Reykjavik

Auðmönnum blöskrar verðlagið á Íslandi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Verðmætir fyrir hagkerfið
Ætla má að ferðamenn sem fari í lúxusferðir hafi lagt a.m.k. 10-12 milljarða til efnahagslífsins hér í fyrra. Þetta kom fram í samtali Ninnu Hafliðadóttur, markaðsstjóra Iceland luxury, við ViðskiptaMoggann í apríl. Ninna sagðist telja að 10-12 þúsund slíkir ferðamenn hafi komið til landsins í fyrra. Að meðaltali eyði þeir um einni milljón króna í fimm daga ferð til Íslands. Til samanburðar eyði venjulegur ferðamaður um 240 þúsundum í sjö daga ferð. Lúxusferðir gætu skilað tugum milljarða og viðskiptavinirnir því verðmætir fyrir hagkerfið.

Þótt Samdráttur hafi orðið í ferðaþjónustu hér á landi milli ára segja ferðaþjónustufyrirtæki og aðilar sem sérhæfa sig í ýmis konar sérferðum að ekki hafi dregið úr eftirspurn eftir svokölluðum lúxusferðum. Þvert á móti. Sumum viðskiptavinunum blöskri hins vegar hátt verðlag á Íslandi.

„Það hefur enginn samdráttur orðið í dýrari ferðum. Ég finn ekki fyrir því. Ef eitthvað er þá er meira að gera hjá mér núna heldur en í fyrra,“ segir Teitur Úlfarsson sem hefur starfað sem leiðsögumaður á Íslandi undanfarin þrjú ár og er hjá einu þeirra fyrirtækja sem býður m.a. upp á sérsniðnar ferðir fyrir efnaða viðskiptavini.

Þau lúxusferðaþjónustufyrirtæki sem Mannlíf ræddi við eru á einu máli um þetta. Ekkert lát sé á aðsókn í slíkar ferðir. Að sögn fyrirtækjanna koma flestir viðskiptavinanna frá Bandaríkjunum, sumir frá Asíu og Evrópu og í sumar þegar WOW air bauð upp á áætlunarflug til Tel Aviv var þónokkuð um Ísraela líka. Stundum sé þetta fólk sem kemur aftur eftir að hafa átt hér stutt stopp og er ýmist um að ræða fjölskyldur, vinahópa, aðila í viðskiptaerindum eða stórstjörnur sem eru reiðubúnar að greiða háar fjárupphæðir fyrir góða þjónustu. Kröfurnar séu þ.a.l. miklar. Fólk sætti sig ekki við hvað sem er þegar kemur að mat og þjónustu. Líki því t.d. ekki gististaður heimti það umsvifalaust gistingu annars staðar.

Með skakka mynd af Íslandi
Ferðaþjónustuaðilarnir sem Mannlíf ræddi við segja að ferðamenn sem koma hingað séu ansi misvel upplýstir um land og þjóð. Sumir séu ágætlega að sér. Aðrir ekki. „Ég hef verið spurð alls kyns asnalegra spurninga. Eins og hvort við búum í snjóhúsum og hvernig við ferðumst um á veturna. Hvort við förum á milli húsa á snjósleðum,“ segir ein sem vill ekki láta nafns síns getið. Annar nefnir að fáviska sumra geti hreinlega verið hættuleg. Eins og þegar fólk sem er vant gönguleiðum á stígum heima hjá sér ætli að rjúka á fjöll. „Fólk ætlar stundum að fara upp á jökul á strigaskóm. Þá þarf maður að grípa inn í og stoppa það.“

Þegar spurt er hvað dragi þessa ferðamenn helst til landins er svarið ávallt það sama: íslensk náttúra. Fjölsóttir staðir eins og Gullfoss og Geysir séu þó ekki efstir á óskalista því fólkið vilji njóta næðis, oft með sínum nánustu. Sem dæmi kaupi sumir „upp öll slottin í skoðunarferðum þar sem þeir vilja vera prívat með fjölskyldum eða vinum,“ eins og einn viðmælandi Mannlífs orðar það. Jafnvel þótt borgað sé talsvert meira fyrir þjónustuna.

Láta ekki bjóða sér hvað sem er
Að sögn viðmælenda Mannlífs eru umræddir ferðamenn flestir kröfuharðir en sanngjarnir, eðlilega þar sem margir greiði háar fjárupphæðir fyrir þjónustuna. Sumir geri þó veður út af minnsta hlut og láti jafnvel eins og frekir krakkar fái þeir ekki allar óskir sínar uppfylltar. Sum vandamál sem koma upp séu hreinræktuð lúxusvandamál. „Eins og þegar viðkomandi finnst herbergið sitt snúa í ranga hátt, að aukavask vanti á baðherberginu eða baðherbergin ekki vera nógu mörg,” segir einn.

Ofbýður verðlag á mat
Viðmælendur Mannlífs segja flesta ferðamennina fara héðan sáttir enda sé kappkostað að gera dvöl þeirra sem ánægjulegasta. Ýmsir hafa þó orðið varir við breytta kauphegðun hjá viðskiptavinum sínum. Fólk sé t.d. farið að bóka styttri ferðir en áður. „Það fer frekar í dagsferðir og því verða sum landsvæði svolítið útundan,“ segir Teitur Þorkelsson hjá Iceland Unlpugged. „Í sumar tók maður t.d. eftir því að færri fóru austur fyrir Jökulsárlón og austur fyrir Húsavík. Jafnvel bara nokkrar hræður á geggjuðum stað eins og Ásbyrgi. Það styttir kannski upphaflega áætlun um 5 eða 7 daga ferð um 1-3 daga þegar það sér kostnaðinn. Hann hefur náttúrlega aukist vegna styrkingar krónunnar.“

Koma með eigin kokka
Meirihluti viðskiptavina er ánægður með íslenska matseld og mörgum kemur hreinlega á óvart hvað hún er góð, segja viðmælendur. Þó séu alltaf einhverjir með sérþarfir þegar kemur að mat. Hótelin séu yfirleitt reiðubúin að koma til móts við þessar þarfir en veitingastaðir geti átt erfiðara með það. „Svo hafa sumir engan áhuga á að bragða á innlendri matseld og koma þá með eigin matreiðslumenn til landsins. Ég veit um fólk sem hefur jafnvel burðast hingað með ferðatöskur fullar af hráefni, sannfært um að hér væri allt óætt.”

Þá segja ferðaþjónustuaðilar að sumum blöskri hátt verðlag, einkum á mat. „Kúnnar sem hafa komið hingað áður tala um hvað verðið hefur hækkað mikið á fáum árum,“ segir Teitur Úlfarsson. „Bandaríkjamaður missti andlitið þegar hann sá hamborgara seldan á 4.900 krónur á hóteli á Suðausturlandi. Honum datt ekki í hug að borga það. Ég veit líka um hjón sem borðuðu frekar samlokur á herberginu sínu en að snæða á veitingastað hótelsins sem þau dvöldu á. Þeim ofbauð svo verðlagið á matnum. Því enda þótt fólk sé vel stætt þá hvarflar ekki að því að eyða peningunum í vitleysu.“

Milljón í þjórfé
Nokkuð misjafnt er hvort viðskiptavinir gefi þjórfé eða ekki, að sögn viðmælenda Mannlífs. „Sumir tipsa ekkert þótt þeir eigi nóg af fé,“ segir einn. Aðrir gera það ekki af því að þeir hafa lesið að slíkt tíðkist ekki á Íslandi. Gefi viðkomandi þjórfé þá er algengasta upphæðin á bilinu 30-60 þúsund, allt upp í 100 þúsund krónur, eftir því sem Mannlíf kemst næst. Sumir eru örlátari. „Ég veit t.d. um einn leiðsögumann sem fór með bandarískan liðsforingja á eftirlaunum hringinn í kringum landið í fyrra, hann fékk milljón í þjórfé.“

Óttast gullgrafaræði
Sumir sem Mannlíf ræddi við óttast hins vegar að þessi almenna ánægja ferðamannanna með dvölina muni ekki vara lengi, m.a. þar sem sífellt fleiri aðilar séu nú farnir að bjóða upp á lúxusferðir og því miður standist þjónustan ekki alltaf þær gæðakröfur sem viðskiptavinirnir geri. Það sé að grípa um sig hálfgert gullgrafaræði, svipað og í hinni almennu ferðaþjónustu á Íslandi. Sumir fari of geyst í von um skjótfenginn gróða. Með sama áframhaldi sé hætta á að samdráttur verði í þessum kima ferðaþjónustunnar líka.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -