Þótt Samdráttur hafi orðið í ferðaþjónustu hér á landi milli ára segja ferðaþjónustufyrirtæki og aðilar sem sérhæfa sig í ýmis konar sérferðum að ekki hafi dregið úr eftirspurn eftir svokölluðum lúxusferðum. Þvert á móti. Sumum viðskiptavinunum blöskri hins vegar hátt verðlag á Íslandi.
„Það hefur enginn samdráttur orðið í dýrari ferðum. Ég finn ekki fyrir því. Ef eitthvað er þá er meira að gera hjá mér núna heldur en í fyrra,“ segir Teitur Úlfarsson sem hefur starfað sem leiðsögumaður á Íslandi undanfarin þrjú ár og er hjá einu þeirra fyrirtækja sem býður m.a. upp á sérsniðnar ferðir fyrir efnaða viðskiptavini.
Þau lúxusferðaþjónustufyrirtæki sem Mannlíf ræddi við eru á einu máli um þetta. Ekkert lát sé á aðsókn í slíkar ferðir. Að sögn fyrirtækjanna koma flestir viðskiptavinanna frá Bandaríkjunum, sumir frá Asíu og Evrópu og í sumar þegar WOW air bauð upp á áætlunarflug til Tel Aviv var þónokkuð um Ísraela líka. Stundum sé þetta fólk sem kemur aftur eftir að hafa átt hér stutt stopp og er ýmist um að ræða fjölskyldur, vinahópa, aðila í viðskiptaerindum eða stórstjörnur sem eru reiðubúnar að greiða háar fjárupphæðir fyrir góða þjónustu. Kröfurnar séu þ.a.l. miklar. Fólk sætti sig ekki við hvað sem er þegar kemur að mat og þjónustu. Líki því t.d. ekki gististaður heimti það umsvifalaust gistingu annars staðar.
Þegar spurt er hvað dragi þessa ferðamenn helst til landins er svarið ávallt það sama: íslensk náttúra. Fjölsóttir staðir eins og Gullfoss og Geysir séu þó ekki efstir á óskalista því fólkið vilji njóta næðis, oft með sínum nánustu. Sem dæmi kaupi sumir „upp öll slottin í skoðunarferðum þar sem þeir vilja vera prívat með fjölskyldum eða vinum,“ eins og einn viðmælandi Mannlífs orðar það. Jafnvel þótt borgað sé talsvert meira fyrir þjónustuna.
Ofbýður verðlag á mat
Viðmælendur Mannlífs segja flesta ferðamennina fara héðan sáttir enda sé kappkostað að gera dvöl þeirra sem ánægjulegasta. Ýmsir hafa þó orðið varir við breytta kauphegðun hjá viðskiptavinum sínum. Fólk sé t.d. farið að bóka styttri ferðir en áður. „Það fer frekar í dagsferðir og því verða sum landsvæði svolítið útundan,“ segir Teitur Þorkelsson hjá Iceland Unlpugged. „Í sumar tók maður t.d. eftir því að færri fóru austur fyrir Jökulsárlón og austur fyrir Húsavík. Jafnvel bara nokkrar hræður á geggjuðum stað eins og Ásbyrgi. Það styttir kannski upphaflega áætlun um 5 eða 7 daga ferð um 1-3 daga þegar það sér kostnaðinn. Hann hefur náttúrlega aukist vegna styrkingar krónunnar.“
Þá segja ferðaþjónustuaðilar að sumum blöskri hátt verðlag, einkum á mat. „Kúnnar sem hafa komið hingað áður tala um hvað verðið hefur hækkað mikið á fáum árum,“ segir Teitur Úlfarsson. „Bandaríkjamaður missti andlitið þegar hann sá hamborgara seldan á 4.900 krónur á hóteli á Suðausturlandi. Honum datt ekki í hug að borga það. Ég veit líka um hjón sem borðuðu frekar samlokur á herberginu sínu en að snæða á veitingastað hótelsins sem þau dvöldu á. Þeim ofbauð svo verðlagið á matnum. Því enda þótt fólk sé vel stætt þá hvarflar ekki að því að eyða peningunum í vitleysu.“
Óttast gullgrafaræði
Sumir sem Mannlíf ræddi við óttast hins vegar að þessi almenna ánægja ferðamannanna með dvölina muni ekki vara lengi, m.a. þar sem sífellt fleiri aðilar séu nú farnir að bjóða upp á lúxusferðir og því miður standist þjónustan ekki alltaf þær gæðakröfur sem viðskiptavinirnir geri. Það sé að grípa um sig hálfgert gullgrafaræði, svipað og í hinni almennu ferðaþjónustu á Íslandi. Sumir fari of geyst í von um skjótfenginn gróða. Með sama áframhaldi sé hætta á að samdráttur verði í þessum kima ferðaþjónustunnar líka.