Dauði og djöflar við hvert fótmál | Mannlíf

Innlent

Dauði og djöflar við hvert fótmál

Aðdáendur þungarokkshljómsveitarinnar Skálmaldar bíða nú í ofvæni eftir fimmtu hljóðversplötu sveitarinnar „Sorgir“ sem kemur út 12. október næstkomandi. Fyrsta smáskífa plötunnar, „Sverðið“ er nú komin í spilun á helstu tónlistarveitum og hefur hlotið góðar viðtökur.

Snæbjörn Ragnarsson, bassaleikari og textahöfundur hljómsveitarinnar, segir draugaþema einkenna nýju plötuna sem verði talsvert frábrugðin síðustu plötu sem kom út árið 2016. „Hún var mjúk og þægileg, vögguvísur og allt í blóma. Nú kveður við annan tón. Allt kalt, dimmt og sorglegt; dauði og djöflar við hvert fótmál. Það var svolítið viljandi að fara alveg í hina áttina núna,“ útskýrir Snæbjörn.

Vinsældir Skálmaldar hafa farið sívaxandi frá því að Snæbjörn og Björgvin Sigurðsson, söngvari og gítarleikari, smöluðu saman nokkrum vinum sínum úr rokkbransanum árið 2009. Markmiðið var fyrst og fremst að hafa gaman af og gefa máski út eina þungarokksplötu, til að geta sýnt börnum sínum í framtíðinni hvað pabbar þeirra voru einu sinni svalir. Nú níu árum og bráðum fimm hljóðversplötum síðar eru það ekki aðeins börn Skálmaldarmanna sem líta upp til þeirra með aðdáun í augum, tugþúsundir aðdáenda um gjörvalla Evrópu og líklega víðar, fylgjast bergnumdir með hljómsveitinni. Og nú fyrir skemmstu fyllti Skálmöld Eldborgarsal Hörpu fjögur kvöld í röð ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands og þremur kórum en þetta var í annað sinn sem þessar stórhljómsveitir leiða saman hesta sína.

Snæbjörn segir að það sé ekki alltaf áreynslulaust að vera í hljómsveit sem stundi reglulega sambúð í litlum rútum svo vikum skipti á tónleikaferðalögum um Evrópu, þá sé vináttan sterk og spilagleðin hafi aldrei verið meiri, enda skili það sér í hljóðverinu. „Við héngum mikið saman í stúdíóinu og unnum hratt. Það hefur alltaf verið gaman að vera í Skálmöld en ekki svona ógeðslega gaman síðan við vorum að gera fyrstu plötuna. Við einhvern veginn endurfæddumst þarna, svona stemningarlega séð allavega.“

Ertu með frétt?
Hefur þú skemmtilegt efni til að koma á framfæri?

Sjá einnig

Innlent

Svante og ég

fyrir 2 dögum Lesa meira
Kaupa áskrift
Kaupa áskrift

Vinsæl íslensk og vegleg tímarit

Ef þú vilt tryggja þér glæsileg og vegleg tímarit, komdu í áskrift!

Kaupa áskrift

Lesa Mannlíf á netinu