Fimmtudagur 28. mars, 2024
1.8 C
Reykjavik

Dýrkeypt sinnuleysi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

LEIÐARI. Forsíðuviðtal nýjasta tölublaðs Mannlífs segir hrollvekjandi sögu. Ungur maður í bullandi neyslu og sjálfsmorðhugleiðingum reynir að leita sér aðstoðar en Vogur getur ekki tekið á móti honum og allt er fullt á geðdeild. Þegar hann reiðist í örvæntingu sinni er kölluð til lögregla, sem handtekur hann á staðnum og vistar í fangageymslu og þar fær hann að dúsa í heilan sólarhring í einangrun, eftirlitslaus og í miklum fráhvörfum áður en hann er loks færður aftur upp á geðdeild í handjárnum.

Fyrir sumum kann þetta atvik að hljóma eins og atriði úr reyfarakenndri kvikmynd en þetta er blákaldur veruleikinn á Íslandi og því miður ekkert einsdæmi. Á þessu ári hafa íslenskir fjölmiðlar fjallað um ýmis atvik þar sem fólk með fíkniefnavanda hefur komið að læstum dyrum í heilbrigðiskerfinu þegar það leitar eftir hjálp. Í maí sl. var sem dæmi greint frá því hvernig maður í langvarandi fíkniefnaneyslu, sem er greindur með geðklofa, var sendur heim af slysadeild Sjúkrahússins á Akureyri, með alvarlegar sjálfsvígshugsanir, tvo daga í röð með róandi lyf. Maðurinn var ítrekað búinn að biðja um að vera lagður inn á geðdeild en það var ekki fyrr en hann lagði heimili sitt í rúst sem hann fékk loksins viðeigandi aðstoð.

Ástæðan? Jú, á Sjúkrahúsinu á Akureyri er ekki starfrækt fíknigeðdeild, eingöngu fyrrnefnd geðdeild og þar eru fá pláss sem eru fullnýtt flesta daga ársins, að því er fram kom í máli forstöðulæknis deildarinnar í maí. Svipaða sögu er að segja um Landspítalann. Plássin þar eru oftast fullnýtt og árlega þarf að loka deildum á geðsviði vegna skorts á fjármagni og starfsfólki. Hryllingssögurnar úr heilbrigðiskerfinu eru margfalt fleiri og ein sú óhugnanlegasta er án efa sú að óvissa skuli ríkja um framtíðarúrræði fyrir ungmenni með fíkniefnavanda eftir að ákveðið var að Vogur muni hætta að taka á móti krökkum átján ára og yngri í áfengis- og vímuefnameðferð. Heilbrigðisráðherra, sem er með málið á sinni könnu, hefur ekki enn komið með lausn á því.

Á sama tíma og úrræði eru af skornum skammti fjölgar fólki sem glímir við fíkniefnavanda en sem dæmi voru hvorki meira né minna en 66 prósent fleiri innlagnir vegna fíknar í sterk verkjalyf á Vog frá árinu 2015 til 2017.

Á sama tíma og úrræði eru af skornum skammti fjölgar fólki sem glímir við fíkniefnavanda en sem dæmi voru hvorki meira né minna en 66 prósent fleiri innlagnir vegna fíknar í sterk verkjalyf á Vog frá árinu 2015 til 2017. Með öðrum orðum er meðferðarúrræðum ekki að fjölga í takt við fjölgun fíkla, þvert á móti og ljóst að kerfið ræður ekki við ástandið. Það er fyrir löng sprungið. Og á meðan berast sífellt fleiri sögur af dauðsföllum tengdum fíkniefnaneyslu.

Er þá nema von að yfirvöld séu vænd um að sinna þessum málaflokki illa. Að þau séu sökuð um skilningsleysi þegar staðan er orðinn svona grafalvarleg. Þegar fárveikir menn fá ekki viðeigandi hjálp vegna skorts á úrræðum heldur eru ýmist sendir heim til sín með róandi lyf eða hreinlega stungið í fangageymslu. Er þá nema von að einhverjir spyrji hversu margir þurfi eiginlega að deyja úr ofneyslu fíkniefna til að íslensk yfirvöld taki almennilega við sér?

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -