Alþjóðlegur framkvæmdahópur hefur gert margháttaðar athugasemdir við eftirlit með peningaþvætti hérlendis og krafist úrbóta.
Í peningaþvætti felst að koma ólögmætum fjármunum í umferð með löglegum. Ýmsir þurfa að stunda slíka háttsemi, t.d. skipulagðir glæpahópar sem meðal annars selja fíkniefni eða stunda mansal á svörtum markaði. Þeir þurfa að þvætta rekstrarhagnað sinn til þess að hægt sé að nota hann í raunheimum.
Skattsvikarar, þeir sem hafa framið auðgunarbrot og fólk sem hefur komið fjármunum undan réttmætum kröfuhöfum sínum er í sömu stöðu. Það þarf að gera peninganna sína sem eru illa fengnir, eða í raun eign annarra, „hreina“ þannig að þeir geti notað þá aftur til að kaupa sér eignir.
Árum saman starfaði einn maður á peningaþvættisskrifstofu Íslands. Lítið sem ekkert frumkvæði var í að rannsaka mögulegt peningaþvætti á fjármagnshaftarárunum, sem stóðu yfir frá 2008 til vorsins 2017.
Financial Action Task Force (FATF), alþjóðlegur framkvæmdahópur sem hefur það hlutverk að móta aðgerðir til að hindra að fjármálakerfið sé misnotað í þeim tilgangi að koma illa fengnu fé aftur í umferð, skilaði skýrslu um Ísland í apríl síðastliðnum. Þar fær peningaþvættiseftirlit Íslendinga falleinkunn. FATF hefur nú sett Íslandi úrslitakosti. Úrbætur þurfa að vera gerðar fyrir mitt næsta ár.
Ítarlega er fjallað er um peningaþvættiseftirlit Íslendinga í nýjasta Mannlífi. Fréttaskýringuna er hægt að lesa í heild sinn á vef Kjarnans.