Laugardagur 21. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

„Ég gafst upp á að streitast á móti sjúkdómnum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fanney Sigurðardóttir greindist með geðhvarfasýki árið 2011 eftir að hafa verið lögð inn á geðdeild. Í upphafi skammaðist hún sín mikið og setti sér það markmið að enginn skyldi komast að því að hún væri með geðsjúkdóm. Í dag hefur hún tekið sjúkdóminn í sátt og vill fræða áhugasama um geðhvarfasýki og áhrif hennar.

Líf Fanneyjar tók stakkaskiptum þegar hún greindist með geðhvarfasýkina, þá 22 ára gömul. Sjúkdómurinn hafði haft áhrif á líf hennar frá því að hún var barn en samt sem áður var henni brugðið þegar geðlæknir staðfesti að um geðsjúkdóm væri að ræða.

„Margir skammast sín alveg gífurlega þegar þeir greinast með geðsjúkdóm og það gerði ég svo sannarlega. Það mátti enginn vita af þessu þegar ég var lögð inn. Ég missti af heilli önn úr skólanum því ég var með svo miklar áhyggjur yfir því að hafa verið í burtu, ég vissi ekki hvað ég ætti að segja fólki þegar ég kæmi til baka.“

Fanney viðurkennir að áður en hún fékk greiningu hafi verið hún með fordóma fyrir fólki sem glímdi við geðsjúkdóma. Það hafi því örugglega ýtt undir þá miklu skömm sem hún fann fyrir. „Mér leið eins og heimurinn væri hruninn. Ég glímdi við mikið „identity crisis“ og þurfti að sætta mig við að vera geðveik eftir að hafa sjálf verið með fordóma, til dæmis fyrir fólki sem er þunglynt. Mér fannst að fólk ætti bara að harka af sér. En það er erfitt að vera með fordóma fyrir sjálfum sér og þess vegna var ég í mikilli krísu. Þetta var algjört sjokk.“

Hún bætir við að þó að það hafi verið erfitt að greinast með geðhvarfasýki hafi verið gott að fá útskýringu á því sem hún hafði verið að upplifa og svör við spurningum. „Mér fannst ég aldrei vita almennilega hver ég var.“

„Það er erfitt að vera með fordóma fyrir sjálfum sér og þess vegna var ég í mikilli krísu. Þetta var algjört sjokk.“

Þegar Fanney greindi fólki í kringum sig frá því að hún væri með geðhvarfasýki, fimm árum eftir að hún fékk greiningu, var þungu fargi af henni létt. „Mér fannst ég algjörlega frelsuð. Ég gat einhvern veginn hætt að fela mig, þetta er auðvitað bara persónuleikabreyting sem verður á manni í geðhvörfum og það var gott að geta útskýrt það. Þetta kom fólki á óvart en sumir sögðu reyndar að nú skildu þeir ýmsa hluti. Einhverjir í kringum mig höfðu fundið að ég var að fela eitthvað. Og það passaði, ég vildi bara ekki sýna hver ég var í raun og veru.“

- Auglýsing -

 Skrifar texta og ljóð um sjúkdóminn

Fanney segir það hafa verið stórt skref fyrir sig að byrja að tala opinskátt um sjúkdóminn. Síðan þá hefur hún reglulega birt færslur á Facebook þar sem hún lýsir sjúkdómnum og áhrifum hans og oftar en ekki er húmor í frásögnum hennar. Hún vill fræða það fólk sem hefur áhuga.

„Ég nenni ekki að tala endalaust um þetta. Ég kýs frekar að skrifa um þetta, semja ljóð og gera eitthvað skapandi. Ég reyni að hafa kímni í þessu, það hjálpar mér mikið að hafa húmor fyrir sjúkdómnum og taka þessu ekki of alvarlega,“ segir Fanney brosandi.

- Auglýsing -

Sjálf kveðst hún ekki hafa fundið miklar upplýsingar um sjúkdóminn á Netinu þegar hún greindist. „Ég fann ekki mikinn fróðleik í um sjúkdóminn í upphafi, það er að segja út frá sjónarhorni sjúklingsins. Þess vegna finnst mér líka ágætt að skrifa um hann og birta á Facebook. En sem betur fer er þetta aðeins að breytast og upplýsingaflæðið er orðið meira. Ég var til dæmis mikið í því að reyna að finna mér einhverjar fyrirmyndir með geðhvarfasýki þegar ég greindist. Einhvern til að líta upp til því sjálfstraust mitt var var svo lítið. Það var alveg agalegt. En eina sem ég fann voru einhverjar fræðigreinar.“

Guð og djöfullinn með skilaboð

Þegar Fanney er beðin um að lýsa því hvernig sjúkdómurinn lýsir sér hjá henni brosir hún, hún veit ekki alveg hvar hún á að byrja. „Sjúkdómurinn lýsir sér ekki eins hjá öllum, en ég er heppin að því leytinu til að ég er að eðlisfari frekar ábyrg. Þannig að mínar maníur hafa yfirleitt ekki skaðað aðra mjög mikið eða valdið mér fjárhagsörðugleikum eins og svo mörgum. Fólk fer nefnilega alveg út í það að stofna fyrirtæki í maníum og gera annað stórtækt. Í rauninni verður maður bara allt önnur útgáfa af sjálfum sér. Maður gerir alls konar hluti af mikilli hvatvísi og getur því brennt brýr að baki sér í leiðinni. En ég hef verið tiltölulega heppin.“

„Ég var til dæmis mikið í því að reyna að finna mér einhverjar fyrirmyndir með geðhvarfasýki þegar ég greindist. Einhvern til að líta upp til því sjálfstraust mitt var var svo lítið.“

Undanfarið hefur Fanney talað opinskátt um geðhvarfasýkina eftir að hafa verið í feluleik með sjúkdóminn í nokkur ár.

Fanney segir maníuköstin sín þó vissulega hafa haft mikil áhrif á líf hennar. „Það helsta sem gerist hjá mér er að ég missi tengslin við raunveruleikann. Ég átta mig engan veginn á hvað er viðeigandi að segja og gera. Í mínu tilfelli þá er guð mjög sterkur þáttur í maníunum en í þunglyndinu er skrattinn alltaf á eftir mér. Guð talar við mig í gegnum útvarpið, sjónvarpið og umferðarljós. Hann gefur mér tákn um það sem ég á að gera. Gefur mér verkefni,“ útskýrir Fanney og brosir. Það er augljóst að hún getur séð spaugilegu hliðina á hlutunum.

„Oft er þetta eitthvað í þá áttina að ég sé útvalinn einstaklingur og eigi að bjarga heiminum. Og ég á að laga fólk, sem er ekki kannski mjög vinsælt að gera,“ segir Fanney og hlær. „En svo upplifir maður sig svo misskilinn af því að maður heldur að maður sé að gera gott. Ég hef móðgað fólk án þess að taka eftir því, með einhverjum ráðleggingum. Þess vegna var svo gott að opna mig um sjúkdóminn við fólk sem hafði kannski bara þekkt mig í maníu, þá fékk það að vita að þetta var ekki eðlilega útgáfan af mér. Þetta er auðvitað ég, en bara í ástandi sem er sjúkt ástand.“

Í þau skipti sem Fanney hefur upplifað það að guð leiðbeindi henni þá leið henni eins og hún væri betri en aðrir. „Málið er að þetta er ekki raunverulegt en maður upplifir samt svo sterkt að þetta sé raunveruleikinn. Ég veit yfirleitt ekki þegar ég er í maníu, það er málið. Ég upplifi mig betri en aðra og þegar fólk reynir að draga úr mér, skiljanlega þar sem ég er alltaf á 150 km hraða, þá finnst mér fólk öfundsjúkt.“

Þó að Fanney eigi sjálf erfitt með að átta sig á þegar hún er í maníu þá eru hennar nánustu farnir að þekkja inn á sjúkdóm hennar. „Ég breytist útlitslega mikið eftir því hvort ég er í maníu eða þunglyndi. Ég hef t.d. allt í einu verið komin með brúnar litalinsur, litað dökkt hár, permanent og svaka brúnku. Þannig að þegar ég skoða gamlar myndir af mér get ég séð hvert ástandið var út frá útlitinu. Mamma tekur vel eftir þessu, þegar hún sér breytingar á útliti mínu þá veit hún hvað er í gangi.“

Árstíðabundnar sveiflur

Fanney segir að í sínu tilfelli fari hugarástand hennar eftir árstíðum og sjúkdómurinn einkennist af löngum maníuköstum á móti löngum þunglyndisköstum. „Þetta hafa yfirleitt verið sex mánuðir í maníu og sex mánuðir í þunglyndi. „Ef ég væri ekki á lyfjum færi ég í geðrof í kringum 20. október og væri að koma úr sex mánaða maníu um 25. ágúst. Svo inn á milli er það sem kallast blandað ástand, þá get ég verið í þunglyndi og maníu innan dags, í rugluðu ástandi, t.d. í september. Manían nær hámarki í júlí og minnkar svo jafnt og þétt þangað til ég fer alveg niður í þunglyndi,“ útskýrir Fanney. Hún líkir þessu við rússíbanaferð. „Maður fer jafnhátt upp og maður fer niður.“

Maníunni fylgir mikill kvíði að sögn Fanneyjar og hún líkir tilfinningunni við það sem stundum hefur verið kallað „djammviskubit“, þ.e. þegar fólk fær samviskubit eftir að hafa sleppt fram af sér beislinu undir áhrifum áfengis. „Maður skammast sín mikið fyrir maníurnar. Ég geri allan fjandann sem ég myndi aldrei nokkurn tíma gera í jafnvægi, geri hluti sem ég veist svo sem alveg að ég á ekki að gera, en hvatvísin er svo mikil. Og hugsaðu þér að vera í svona ástandi í sex mánuði í einu, á þeim tíma getur svo margt gerst.“

„Maður skammast sín mikið fyrir maníurnar.“

Spurð út í hvað tekur við eftir sex mánuði í maníu segir Fanney: „Í mínu tilfelli slekkur líkaminn bara á sér og einföldustu hlutir geta verið svo erfiðir. Ég er örmagna. Og ofan á það kemur kvíðinn, t.d yfir því sem maður hefur gert í maníunni. Kvíðinn er svo lamandi.“

Eins og áður segir er upplifun Fanneyjar að guð spili stórt hlutverk í lífi hennar þegar hún er í maníu. Svo er það djöfullinn sem er í þunglyndinu. Spurð út í hvort hún sé trúuð svarar Fanney játandi. „Já, ég er trúuð. En það er víst algengt að fólk með geðhvarfasýki finni fyrir guði og djöflinum í maníu og þunglyndi, alveg óháð því hvort það sé trúað eða ekki. Það er svo rosalega skrítið. Ég hef lesið lýsingar frá fólki sem hefur upplifað þetta ástand og það upplifir svipaða hluti og ég hef upplifað. Til dæmis að einhver tali við það í gegnum útvarpið eða gefi þeim merki í gegnum hluti í umhverfinu. Maður getur orðið hræddur, það hafa til dæmis komið tímar sem ég þorði ekki að keyra því ég var hrædd um að djöfullinn myndi stýra mér út af veginum.“

„Það hafa til dæmis komið tímar sem ég þorði ekki að keyra því ég var hrædd um að djöfullinn myndi stýra mér út af veginum.“

Sjálfsvígshugsanir reglulega frá 10 ára aldri

Á móti maníunni kemur mikið þunglyndi eins og Fanney lýsir. Þá gera sjálfsvígshugsanir vart við sig. „Þar er eins og djöfullinn sé að tala við mig. Hann gefur mér möguleika og hugmyndir um hvernig ég geti skaðað mig. Þá er eini möguleikinn til að komast úr þunglyndinu sá að svipta sig lífi. Það er mjög hættulegt ástand,“ útskýrir Fanney sem hafði verið í geðrofi í nokkra daga án þess að sofa þegar hún var lögð inn á geðdeild árið 2011.

„Þá var það þannig að alltaf þegar ég lokaði augunum birtist djöfullinn, þess vegna vildi ég halda augunum opnum. Á endanum var ég orðin svo þreytt að ég fór inn í eldhús um miðja nótt og náði í einhvern hníf. Þetta var bara smjörhnífur, einhver bitlaus, en ég var komin með hann upp að úlnliðnum. En það var þá sem ég ákvað að hringja á mömmu og láta hana vita af þessu. Ég hugsaði með mér að það væri leiðinlegt fyrir hana að vita ekki að ég væri að fara, algjört rugl,“ segir Fanney og hristir höfuðið þegar hún rifjar þessa nótt upp.

„Mamma náði að vera róleg í símann og tala mig til. Hún bað mig að bíða aðeins með þetta en var auðvitað í algjöru panikki. Svo skellti hún á og brunaði til mín. Ég man lítið eftir þessu en hún sagði mér að ég hafi verið róleg en samt mjög ringluð. En mér fannst ég bara þurfa að gera þetta til að komast úr þessu ástandi.“

„Þá var það þannig að alltaf þegar ég lokaði augunum birtist djöfullinn, þess vegna vildi ég halda augunum opnum. Á endanum var ég orðin svo þreytt að ég fór inn í eldhús um miðja nótt og náði í einhvern hníf.“

Fyrsta sjálfsvígshugsunin gerði vart við sig þegar Fanney var aðeins 10 ára. „Hún kom bara upp úr þurru, það var ekkert að. Og lengi hélt ég að þetta væri eðlilegt, að hugsa svona. En ég áttaði mig á fyrir nokkrum árum að það væri ekki eðlilegt að fá sjálfsvígshugsanir.“

Fanney verður augljóslega meyr þegar hún hugsar til baka. „Ég fór í svakalega hugleiðslu síðasta sumar. Þar áttum við að heimsækja okkur sem börn í huganum. Við áttum að faðma okkur og þetta var rosalegt „break trough“ fyrir mig, að geta farið og huggað þessa 10 ára stelpu sem vissi ekkert hvað var í gangi.“

Síðan Fanney var 10 ára hafa sjálfsvígshugsanirnar gert vart við sig reglulega. „Þegar þær koma í mikilli vanlíðan og þunglyndi er maður bara týndur í einhverju ástandi og skilur ekki það sem er að gerast. Þess vegna finnst mér svo sárt að heyra af ungu fólki sem sviptir sig lífi í geðrofi. Þegar maður er í þannig ástandi þá sér maður ekkert annað en það sem er að gerast í hausnum á manni. Þess vegna verð ég líka leið þegar fólk er að dæma þá sem fremja sjálfsvíg, sá sem hefur ekki upplifað þetta getur ekki skilið.“

Hætti að geta stjórnað drykkjunni

Fanney hefur ágætis stjórn á sjúkdómnum í dag, að eigin sögn. „Ég finn samt alltaf fyrir sjúkdómnum. Ég tek lyf tvisvar á dag en lyfin „covera“ ekki allt, bara hluta. Svo þarf ég líka að lifa heilsusamlegu lífi og best er að vera í rútínu. Svo hætti ég að drekka áfengi því það bara gekk ekki að drekka ofan í sjúkdóminn. Ég sé sko ekki eftir að hafa sleppt áfenginu,“ segir Fanney.

Hún segir geðlyfin og áfengið ekki hafa virkað vel saman. „Lyfin binda áfengið í líkamanum, þannig að þú finnur fyrir áhrifunum lengur en ella. Ég fattaði bara almennilega, eftir að ég hætti, hver áhrif áfengisins voru virkilega.“

„Aðalástæðan fyrir því að ég hætti að drekka var sú að ég notaði áfengið til að reyna að komast í maníur. Það er nefnileg lítill púki í manni sem vill vera í þessu ástandi. Þetta er náttúrlega bara náttúruleg víma. Alltaf þegar ég var búin að fá mér nokkra drykki gerði þessi púki vart við sig. Þannig hætti ég að geta stjórnað drykkjunni. Ég var að reyna að komast í maníu, það gerðist ekki en á móti kom að ég þróaði með mér áfengisvandamál.“

Spurð hvort manían sé skárri kostur en þunglyndið af tvennu illu svarar Fanney játandi. „Ég myndi segja það, já. Mér finnst erfitt að viðurkenna það því manían er svo slæm. Hún kostar suma aleiguna og lífið. Andlega í maníunni ertu í sæluvímu og allt er æðislegt. En líkaminn á þér ræður ekki við þetta, þér líður ekkert sérstaklega vel líkamlega. Þetta er vanlíðan en vellíðan á sama tíma. En aftur á móti með þunglyndið, þá ertu bara í sjálfsvígshugsunum allan daginn. Fólkið í kringum mig myndi örugglega frekar segja þunglyndi því þá er auðveldara að eiga við mig. En hvað mig varðar þá myndi ég velja maníuna.“

„Þannig hætti ég að geta stjórnað drykkjunni. Ég var að reyna að komast í maníu, það gerðist ekki en á móti kom að ég þróaði með mér áfengisvandamál.“

Jákvæðnin hefur hjálpað

Fanney man oft ekki mikið eftir því sem hún gerir í maníu en mamma hennar hefur þá hjálpað henni að fylla í eyðurnar. „Þetta verður svolítið draumkennt þegar maður lítur til baka. Þess vegna hef ég líka reynt að skrifa um sjúkdóminn og rifja þetta upp, því ég vil ekki gleyma hvernig þetta var. Ég vil muna hvað þetta var sárt og erfitt, sem víti til varnaðar, svo ég hætti ekki að taka lyfin mín af því að mér líður betur.“

Fanney skrifar gjarnan texta og ljóð um þá erfiðleika sem hún gengur í gegnum. Mynd / Hallur Karlsson

Það leynir sér ekki að Fanney er hress og jákvæð að eðlisfari. Hún segir jákvæðnina hafa hjálpað henni mikið í baráttunni við sjúkdóminn en tekur fram að baráttan hefur verið flóknari en það. „Það hefur hjálpað mér að vera jákvæð. En svo er það annað mál, það er ekki hægt að segja fólki sem er að glíma við t.d. kvíða og þunglyndi að vera bara jákvætt. Það hjálpar ekki.  Hér áður fyrr fékk ég samviskubit yfir því að vera þunglynd, sérstaklega þegar fólk sagði mér að ég ætti að vera hress. En ég hef lært að bera virðingu fyrir líðan minni. Ef mér líður illa þá er það bara þannig. Maður á ekki að berja sig niður fyrir að líða einhvern veginn, lífið er nú nógu flókið fyrir,“ segir hún brosandi.

Planar ekki langt fram í tímann

Sjúkdómurinn hefur svo sannarlega haft áhrif á líf Fanneyjar þó að hún hafi tamið sér að taka honum ekki of alvarlega. Eins og áður sagði missti hún heila önn úr námi þegar hún var lögð inn á geðdeild. Svo missti hún einnig vinnuna rétt áður en hún var greind með geðhvarfasýki. „Ég var rekin úr starfi og ég veit ekki einu sinni af hverju eða hvað ég var að gera. Þannig að já, þetta hefur haft markandi áhrif á líf mitt.“

Vegna sjúkdómsins á Fanney erfitt með að undirbúa hluti langt fram í tímann. „Ég veit ekki hvernig ástandið á mér verður eftir nokkra daga, hvað þá vikur eða mánuði. Ég bókaði til dæmis ferð í smágeðhæð í apríl, flug og heilt prógramm í jóganámskeið. Svo tveimur dögum áður en flugið var þá fór ég að finna að ég ætti kannski ekki að fara í ferðalagið. Og ég hafði rétt fyrir mér, sama dag og ég átti að fara út var ég í þannig ástandi að ég hefði aldrei getað farið ein út. Ég varð auðvitað sorgmædd en ég er alveg búin að sætta mig við að svona getur þetta verið. Ég veit að ef ég hefði farið þá hefði það orðið miklu dramatískara og erfiðara heldur en að fara bara ekki. Ég er farin að þekkja mig.“

Lærði að meta litlu hlutina

Í dag líður Fanneyju vel og hefur lært að lifa með sjúkdómnum. Spurð út í hvernig hún komst á þennan stað segir Fanney: „Vegna lyfjanna, ég er komin á rétt lyf núna. Og líka vegna uppgjafar, ég gafst upp á að streitast á móti sjúkdómnum. Ég er búin að sættast við þetta, ég get ekkert gert í þessu nema bara taka lyfin mín og reyna að lifa sem heilbrigðustu lífi.“

„Í dag get ég sagt að ég sé mjög montin af mér, montin af því að vera bipolar. Það er svo skrítið að vera á þessum stað því hér áður fyrr þá skammaðist ég mín svo mikið, en núna er ég stolt. Ég lít á sjúkdóminn sem tækifæri, hann hefur kennt mér svo mikið. Ég hef líka lært að taka mig ekki eins alvarlega og ég gerði áður fyrr. Það var mjög frelsandi, að vera ekki alltaf svona hátíðlegur. Ég get alveg viðurkennt að hér áður fyrr var ég hrokafull en öll þessi reynsla lækkaði aldeilis í mér rostann,“ segir Fanney brosandi. „Ég varð þakklát fyrir litlu hlutina og hef skilið að við erum öll ólík á ólíkri ferð. Maður verður að bera virðingu fyrir því.“

„Ég get alveg viðurkennt að hér áður fyrr var ég hrokafull en öll þessi reynsla lækkaði aldeilis í mér rostann.“

Hvað framtíðina varðar hefur Fanney tileinkað sér að hugsa ekki of langt fram í tímann. „Ég ætla að lifa í núinu án þess að hugsa of mikið um framtíðina, því maður veit ekki hvað getur gerst. Ég er sátt akkúrat núna og ætla að einbeita mér að því.“

Myndir / Hallur Karlsson

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -