Icelandair birti í gær uppgjör sitt fyrir fjórða ársfjórðung 2018. Mikill viðsnúningur hefur orðið á milli áranna 2017 og 2018. Hagnaðist félagið um 4,5 milljarða króna árið 2017 en árið 2018 nam tapið 6,7 milljörðum króna.
Er það viðsnúningur upp á 11 milljarða króna. Þá lækkar eigið fé þess um 11 milljarða króna á milli ára. Fer eiginfjárhlutfallið úr 42% í 32%. Þá lækkar handbært fé frá rekstri um 70% á milli ára. Þá jukust tekjur hins vegar um 7% á milli ára.
Er uppgjörið töluvert fyrir neðan spá greiningaraðila.
„Rekstarniðurstaðan var mun lakari en lagt var upp með í byrjun árs og endurspeglar harða samkeppni í millilandaflugi, lág og oft ósjálfbær fargjöld og mikla hækkun eldsneytisverðs. Jafnframt höfðu breytingar á sölu- og markaðsstarfsemi félagsins, sem og ójafnvægi í leiðarkerfi neikvæð áhrif á afkomuna, eins og áður hefur verið kynnt, “ var haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra fyrirtækisins sem tók við stjórnartaumunum eftir að Björgólfur Jóhannson sagði starfi sínu lausu í ágúst í fyrra. Í greiningu frá hagdeild Landsbankans sem send var út í kvöld kemur einnig fram að eldsneytiskostnaður á fjórða ársfjórðungi hafi verið töluvert umfram væntingar.
Líkt og Mannlíf fjallaði um í vikunni ríkir erfitt árferði hjá flugfélögum á alþjóðavísu. Þá sagði Bogi í gær að ljóst sé að áfram ríki óvissa í rekstrarumhverfi félagsins. Það sem kemur þó ekki fram í uppgjörinu sem kynnt var í gær er hvernig launahlutfallið hefur breyst hjá Icelandair. Árið 2017 var félagið með hæsta launahlutfallið samanburði við önnur félög. Hækkaði það um meira en 25% á milli ára. Þannig nam launahlutfallið þá 31,8% á meðan SAS var td. með 21,6% og Lufthansa 17,4%. Þá var launahlutfallið meira en helmingi lægra hjá Wow air eða 14,8%. Í greiningu frá hagdeild Landbankans kemur fram að launahlutfallið hafi farið í 34% á árinu 2018. Er þar tekið fram að launahlutfallið hafi verið 25% á árunum 2013-2015.
Er von á nýjum forstjóra?
Miklar vangaveltur fóru á af stað um arftaka Björgólfs Jóhannssonar eftir að hann hætti skyndilega í lok sumars 2018. Voru nokkur nöfn nefnd sem hugsanlegir arftakar. Má þar nefna Jón Karl Ólafson og Helga Má Björgvinsson. Jón Karl var forstjóri Icelandair 2005-2007 og Helgi hefur unnið hjá Icelandair í 20 ár víða um heim m.a. sem sölu- og markaðsstjóri og svæðisstjóri. Þá var Jón Björnsson, forstjóri Festar einnig nefndur til sögunnar.
Það kom því nokkuð á óvart að Bogi yrði látin halda áfram sem forstjóri sem stjórn Icelandair samþykkti. Bæði Björgólfur og Bogi eru að upplagi endurskoðendur. Því má spyrja sig hvort ekki væri heppilegra að fá forstjóra með annan bakgrunn. Hefur þar verið nefnt að fá erlendan aðila með mikla reynslu af alþjóðlegri starfsemi flugfélaga. Þá situr enginn erlendur aðili í stjórn Icelandair.
Lífeyrissjóðir þegar ávaxtað vel
Stærstu hluthafar í Icelandair eru íslenskir lífeyrissjóðir. Lífeyrissjóður verslunarmanna er stærsti hluthafinn í Icelandair með 13,99% hlut, LSR (A og B deild) fer svo með 9,77% og Birta lífeyrissjóður með 7,29% hlut . Í ársskýrslu Lífeyrissjóðs verslunarmanna fyrir árið 2017 kemur fram að kostnaðarverð sjóðsins við kaupin á þessum hlut hafi verið 2,7 milljarðar króna. Miðað við núverandi gengi er markaðsvirði þessa hlutar nú í kringum 8 milljarða króna. Því er ljóst að lífeyrissjóðirnir flestir hafa þegar fengið stóran hluta af fjárfestingu sinni til baka með hækkun hlutabréfa og í formi arðs. Þeir komast þó ekki hæglega úr hluthafahópnum en fáir aðrir en þeir hafa fjárfest í Icelandair undanfarin ár.
Síðan má velta fyrir sér hvort lífeyrissjóðirnir hafi einhverja framtíðarsýn varðandi rekstur Icelandair. Líkt og áður kom fram sitja bara Íslendingar í stjórn félagsins og það flestir með takmarkaða reynslu af stjórnun stjórra alþjóðlega flugfélaga. Icelandair er að reyna að selja Icelandair Hotels og í vikunni var einnig sagt frá því að Icelandair Travel, ferðaskrifstofuhluti Icelandair yrði seldur. Stærsta áskorun fyrirtækisins hlýtur þó að felast í því að reyna að lækka launakostnað. Það getur tekið langan tíma og góðir kjarasamningar hjá bæði flugmönnum og flugfreyjum takmarka getu þeirra til þess.
Icelandair birti ekkert varðandi horfur á árinu 2019. Spáir hagdeild Landsbankans því að árið 2019 verði jafn erfitt og árið 2018 fyrir Icelandair.
Ljóst er að árið 2019 verður krefjandi ár hjá Icelandair. Verður áhugavert að sjá hvort núverandi forstjóri haldi starfi sínu til lok ársins. Hans hlutverk er ekki öfundsvert um þessar mundir.
Sjá einnig: Vonlaust að fjárfesta í flugfélögum?