Fimm starfsmönnum Fréttablaðsins var sagt upp síðdegis í dag.
Fimm starfsmönnum var sagt upp á Fréttablaðinu í dag. Samkvæmt heimildum Mannlífs var starfsfólki úr minnst þremur deildum blaðsins sagt upp, það er íþrótta-, dægurmála-, og kynningardeild.
Klukkan 18:00 fengu starfsmenn Fréttablaðsins tölvupóst frá útgefanda blaðsins, Kristínu Þorsteinsdóttur. Þar kemur fram að fimm hafi verið sagt upp í „hagræðingaskyni“ meðal annars vegna flutninga.
„Það er leitt að sjá eftir góðu fólki og við óskum þeim velfarnaðar,“ segir meðal annars í bréfi Kristínar.
Þess má geta að Fréttablaðið fluttist fyrir skömmu úr Skaftahlíð yfir í nýtt húsnæði á Hafnartorgi.
Samkvæmt heimildarmanni Mannlífs hefur vinnuandinn á Fréttablaðinu ekki verið upp á sitt besta síðan blaðið fluttist í nýtt húsnæði. Þá aðallega þar sem nýja húsnæðið er óklárað og ryk og mikill hávaði gerir vinnuaðstæður slæmar.
Fréttin hefur verið uppfærð.