Fimmtudagur 28. mars, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Forfallinn anglófíll með óþrjótandi áhuga á öllu bresku

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fjölmiðlamaðurinn Kjartan Guðmundsson segist ekki lesa sérstaklega margar bækur en frekar eiga það til að að taka ástfóstri við ákveðin rit og graðga þeim ítrekað í sig þangað til hann kann hvert einasta orð utanbókar. Spurður hvaða bækur hafi haft mest áhrif á hann um ævina er hann ekki lengi að hugsa sig um.

„Áhrifamestu bækurnar eru því líklega þær sem ég hef lesið hvað oftast og þar gæti ég trúað að Dagbókin hans Dadda, eða The Secret Diary of Adrian Mole, Aged 13¾ eftir Sue Townsend heitna tróni á toppnum. Þessi bók er hreint fáránlega fyndin lýsing á snemmtáningsárum misskilda ljóðskáldsins Dadda, en um leið glúrin ádeila á eyðileggingarstarf Thatcher-stjórnarinnar á verkalýðsstéttinni. Ég var svo hrifinn af Dadda að ég las líka allar framhaldsbækurnar um hann um leið og þær komu út, sjö talsins, og leið eins og ég væri persónulega ábyrgur fyrir því að Daddi tapaði aleigunni í kjölfar íslenska bankahrunsins á fullorðinsárum.“

Glettin lýsing á rótum enska pönksins

„Kannski átti Adrian Mole einhvern þátt í því að ég var kornungur orðinn forfallinn anglófíll með óþrjótandi áhuga á Bretlandi og öllu bresku. Önnur bók sem hafði mikil áhrif á mig sem ungling er No Irish, No Blacks, No Dogs eftir Johnny Rotten, söngvara pönksveitarinnar Sex Pistols. Af öllum þeim tónlistarævisögum sem ég hef lesið, og þær eru þónokkrar, finnst mér þessi einna best því hún er glettin, mjög áhugaverð og lýsir vel frá fyrstu hendi pólitískum og menningarlegum rótum enska pönksins. Rotten er klár náungi og það skín í gegn í bókinni.“

Hryllilegur heimur skoskra heróínista

„Að síðustu verð ég svo að nefna Trainspotting eftir skoska höfundinn Irvine Welsh. Bíómyndin sem var gerð eftir bókinni er góð, en sagan er miklu víðtækari og hryllingur heróínistanna í Edinborg áþreifanlegri í meðförum höfundarins sjálfs. Bókin er skrifuð á skosku, sem er áskorun í fyrstu köflunum, en það venst fljótt og örugglega. Illu heilli eru framhaldsbækurnar fjórar ekki nærri eins magnaðar, en samt hef ég lesið þær allar og mun halda áfram að lesa um þessa karaktera þar til Welsh hættir að skrifa um þá.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -