Gleðileg byltingarjól | Mannlíf

Gleðileg byltingarjól

Innlent

23 desember 2018

Höfundur / Elísabet Ýr Atladóttir

Elísabet Ýr Atladóttir

Það eru að koma jól, ótrúlegt en satt. Byltingar, grjóthörð samfélagsumræða og hugrekki kvenna hefur sett sinn stimpil á þessa 12 mánuði. Vikan er varla búin áður en nýtt mál kemur upp á borðið og hendir öllu aftur í gang. Löngu áður en fólk er búið að jafna sig á því sem gekk á fyrir.

Mörgum finnst þetta óþolandi. Að það sé ekki stundarfriður fyrir þessum róttæklingum. Engum virðist treystandi, því svo margir hafa verið ásakaðir um kynferðislegt ofbeldi í gegnum samstöðumátt #metoo. Fólk er enn í sjokki yfir því hvað þessi barátta stendur þeim nærri eftir allt saman. Enginn friður fyrir mannréttindum, svei mér þá.

En þetta eru merki um stórkostlega hluti, því breytingar gerast með aukinni samfélagsvitund. Fólk mun ræða öll þessi mál á árinu yfir jólasteikinni, af miklu jafnaðargeði eða eldmóð. Sum munu gera sitt besta til að gera lítið úr baráttunni, á meðan aðrir ættingjar reyna að halda kúlinu og garga ekki á þau að þegja svona einu sinni.

Einhver munu reyna að ræða þessi mál án þess að styggja neinn. Aðrar munu horfa stíft í augun á fólki og spyrja hvernig það vogi sér að gera lítið úr ofbeldi sem þær hafa upplifað sjálfar, sem vinkonur þeirra þurftu að upplifa. Fleiri en nokkurn tíma fyrr hafa séð hvernig kvenhatrið og fordómarnir ná inn í efstu lög samfélagsins. Enginn getur hunsað þetta lengur, þótt margir geri lítið úr því enn þá. Fjöldi fólks mun forðast þessi umræðuefni í veikri von um að halda friðinn, alla vega á meðan hann endist.

En friðurinn er úti. Það er enginn friður á meðan það ríkir óréttlæti. Vonandi taka fleiri afstöðu en áður, svo að næstu jól marki raunverulegar breytingar í átt að réttlæti. Við erum ekki alveg komin þangað. Þangað til vona ég að þið eigið gleðileg byltingarjól.

 

 

Kaupa áskrift
Kaupa áskrift

Tryggðu þér áskrift

Ef þú vilt tryggja þér glæsileg og vegleg tímarit, komdu í áskrift!

Kaupa áskrift

Lesa Mannlíf á netinu

Sími 515-5500

askrift@birtingur.is

auglysingar@birtingur.is

ritstjorn@birtingur.is

Velkomin. Mannlíf notar vafrakökur. Sjá nánar.