Fimmtudagur 18. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Hart barist um feitasta bitann í boltanum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ársþing Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) fer fram á morgun þar sem flestra augu verða á formannskjörinu. Þar takast á sitjandi formaður, Guðni Bergsson, og heiðursformaður og fyrrum formaður, Geir Þorsteinsson. Kosningabaráttan hefur verið óvenjulega hörð og frambjóðendurnir ekki hikað við að skjóta föstum skotum hvor að öðrum.

Bakgrunnur frambjóðendanna er afar ólíkur. Guðni átti farsælan feril sem knattspyrnumaður hjá Val, Tottenham og Bolton Wanderers þar sem hann var í miklum metum. Hann spilaði 80 landsleiki fyrir Íslands hönd. Samhliða knattspyrnuferlinum menntaði Guðni sig í lögfræði og starfaði á lögmannsstofu áður en hann bauð sig fram til formanns KSÍ fyrir tveimur árum.

Knattspyrnuferill Geirs var hins vegar lítt eftirminnilegur en ekki verður annað sagt en að hann þekki vel til innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Hann lagði dómsgæslu fyrir sig og byrjaði að starfa hjá KSÍ árið 1992. Hann var framkvæmdastjóri sambandsins í 10 ár undir Eggerti Magnússyni og tók svo við formannsembættinu af honum árið 2007 og gegndi því til ársins 2017. Hann var gerður að heiðursformanni KSÍ eftir að hann lét af störfum en afar óvenjulegt er að heiðursformenn snúi til baka og bjóði sig fram gegn sitjandi formanni.

Geir hefur keyrt mikið á þeirri framþróun sem varð á íslenskri knattspyrnu í hans formannstíð, einkum og sér í lagi árangri landsliðanna. Hann hafi ráðist í byggingu knatthúsa og sparkvalla um allt land þrátt fyrir efasemdaraddir þar um. Þá hafi margir hváð þegar markmiðið var sett á EM og HM en það hafi tekist með tilkomu Lars Lagerbäck í starf landsliðsþjálfara. En formannstíð Geirs einkenndist ekki bara af árangri, heldur einnig reglulegum hneykslismálum sem mörg hver sneru að menningunni innan sambandsins. Er skemmst að minnast þess þegar milljónir króna voru teknar úr af kreditkorti KSÍ í strippklúbbi í Zürich í Sviss. Hefur Geir ítrekað þurft að svara fyrir þessi mál á síðustu dögum.

Ljóst er á Guðna að honum hefur þótt óþægilegt að keppa við forvera sinn í starfi og heiðursformann sambandsins. Guðni hefur bent á að rekstur sambandsins hafi verið með ágætum í hans formannstíð. Þannig hafi aldrei verið meira fé útdeilt til aðildarfélaganna og tekjur hafi verið auknar, bæði með nýjum samningum og útleigu Laugardalsvallar til tónleikahalds. Þá hafi nauðsynlegar og viðamiklar breytingar verið gerðar á skrifstofu KSÍ og ásýnd sambandsins sömuleiðis breyst, enda Guðna tekist að sneiða fram hjá óheppilegum uppákomum. Guðni ber hins vegar ábyrgð á ráðningum landsliðsþjálfara sem hafa verið umdeildar. Karlalandsliðið hefur verið langt frá sínu besta og ekki enn unnið leik undir stjórn Eriks Hamrén á meðan óreyndur þjálfari, Jón Þór Hauksson, tók við kvennaliðinu.

Risavaxið ár að baki

Samkvæmt ársreikningi KSÍ nam hagnaður sambandsins í fyrra 207 milljónum króna.

Sá sem fer með sigur af hólmi tekur við góðu búi, enda ber KSÍ höfuð og herðar yfir önnur sambönd þegar kemur að fjármálum. Samkvæmt ársreikningi KSÍ sem birtur var í vikunni nam hagnaður sambandsins í fyrra 207 milljónum króna. Eigið fé var 746 milljónir króna um áramót. Þar munar mestu framlög frá FIFA í tengslum við þátttöku Íslands á HM í Rússlandi. Alls fékk KSÍ 1,8 milljarða króna í styrki og framlög í fyrra en sú fjárhæð dregst saman um helming samkvæmt fjárhagsáætlun næsta árs, enda engin stórmót í gangi. Gert er ráð fyrir 29 milljóna króna hagnaði í ár. Minni umsvif þýða sömuleiðis minna fé til aðildarfélaganna því í fyrra fengu þau 331 milljón í styrki frá sambandinu en 120 milljónir verða til skiptanna á næsta ári.

- Auglýsing -

77 atkvæði tryggja sigurinn

Alls munu 152 fulltrúar frá aðildarfélögum KSÍ sitja þingið sem hefst klukkan 10 á morgun, laugardag. Að því gefnu að allir fulltrúarnir mæti til þingsins mun sigurvegarinn þurfa 77 atkvæði til að tryggja sér útnefninguna. Þau félög sem eiga fulltrúa í efstu deild karla eða kvenna eiga fjóra fulltrúa á þinginu, félög í 1. deild mega senda þrjá fulltrúa, félög í 2. deild tvo fulltrúa og félög í neðri deildum, auk héraðssambanda víðsvegar um landið, einn fulltrúa hvert. Ómögulegt er að segja fyrir um niðurstöðuna. Guðni var kjörinn með 83 atkvæðum á ársþinginu 2017 en ólíklegt er að Geir, með þau tengsl sem hann hefur innan hreyfingarinnar, hefði riðið á vaðið ef hann teldi sig ekki eiga stuðning meðal aðildarfélaganna.

Boðar algjöra uppstokkun á skipulagi KSÍ

- Auglýsing -

Geir hefur gert mikið úr meintri óánægju aðildarfélaga sambandins og hefur boðað mikla uppstokkun á skipulagi KSÍ. Þar bendir hann á samtökin Íslenskur toppfótbolti (ÍTF), hagsmunasamtök félaga í efstu deildum, sem Geir segir að myndi í rauninni annað knattspyrnusamband í landinu. Þessu vill Geir breyta með stofnun sérstakra deildarsamtaka, með stjórn og skrifstofu, sem fengi aðild að KSÍ. Guðni segir það popúlisma hjá Geir að stilla félögunum upp gegn KSÍ með þessu móti. Bendir hann á að KSÍ hafi deilt hundruðum milljóna króna af hagnaði sínum með aðildarfélögunum og samskiptin við þau mun meiri en áður. Það eigi einnig við um ÍTF og fyrir þinginu liggi tillaga um að formaður þeirra taki sæti í stjórn KSÍ auk þess sem öll félög þar innanborðs eigi fulltrúa á þinginu.

Forseti UEFA blandast í baráttuna

Aleksander Ceferin, forseti UEFA.

Kosningabaráttan hefur verið mun óvægnari og persónulegri nú en oftast áður. Það sást glögglega þegar Aleksander Ceferin, forseti UEFA, hrósaði Guðna í hástert og sagði samband UEFA og KSÍ aldrei hafa verið betra. Geir sagði þessi ummæli Ceferins skandal. Þau væri „dæmigerð fyrir Austur-Evrópumanninn“ og í takti við það sem gerist í Austur-Evrópu. Benti Guðni og fleiri á að ummælin væru ósmekkleg og hlaðin fordómum í garð Austur-Evrópumanna. Hvort þessi ummæli Geirs hafi áhrif á lokaniðurstöðuna kemur í ljós á morgun.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -