Fimmtudagur 28. mars, 2024
-3.2 C
Reykjavik

„Í mjög langan tíma skammaðist ég mín fyrir að stama“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hönnuðurinn Sveinn Snær Kristjánsson hefur undanfarið unnið að verkefni um stam. Verkefnið samanstendur af grafískum myndum sem eru hluti af lokaverkefni hans í Arts University Bournemouth. „Kveikjan að myndunum er stam og upplifun mín af stami. Ég hef stamað í yfir tuttugu ár,“ segir Sveinn.

„Hugmyndin er sem sagt að bæði fræða fólk um stam og minnka misskilning fólks á stami, auk þess að sýna öðrum sem stama (og sjálfum mér) að stam er ekki eitthvað til að skammast sín fyrir. Stam ætti ekki að halda aftur af þér því þetta snýst allt um þolinmæði hlustandans.“

Sveinn segir fólk almennt ekki vita mikið um stam. „Það er alveg skiljanlegt að fólk viti ekki mikið um stam en það sem er verra er að það virðist ríkja viss hræðsla við að spyrja. Svo eru ýmsar mýtur um stam áberandi. Stærsta og helsta mýtan er sú að fólk sem stamar er hlédrægt, stressað eða jafnvel rosalega kvíðið. Sannleikurinn er sá að kvíði eykur á stam en stamið sjálft er einhverskonar „glitch“ í málstöðvum heilans, þetta er auðvitað afar einfölduð útskýring.“

„Stærsta og helsta mýtan er sú að fólk sem stamar er hlédrægt, stressað eða jafnvel rosalega kvíðið.“

Stam er hvorki geðsjúkdómur né smitandi

Sveinn segir sumt fólk líka halda að um kæk sé að ræða, kæk sem fólk getur losað sig við. „Þessi mýta veldur vissum fordómum gagnvart fólki sem stamar. Annar misskilningur er að stam sé geðsjúkdómur, smitandi eða komi vegna áfalls í æsku. Ég vil hvetja fólk til þess að spyrja frekar en að trúa einhverri vitleysu.“

Sveinn vonar að með grafísku verkum sínum geti hann frætt fólk og hjálpað þeim sem stama. Sjálfur hefur Sveinn fundið fyrir ákveðinni skömm fyrir að stama. „Í mjög langan tíma skammaðist ég mín fyrir að stama og í sannleika sagt er ég enn að berjast við vissa skömm yfir því að stama. Að alast upp við að stama og vita í raun ekki af hverju og geta ekkert að því gert var afskaplega erfitt.“

„Í sannleika sagt er ég enn að berjast við vissa skömm yfir því að stama.“

Með verkefninu vill hann vekja fólk til umhugsunar. Hann bendir á að flest fólk sem stamar vill ekki láta klára setningarnar sínar fyrir sig. „Ég vil fá að klára setningarnar mínar eins og hver annar. Stundum segir fólk mér að anda, hægja á mér eða eitthvað álíka. Ég verð að viðurkenna að það fer í taugarnar á mér þó að ég viti að það sé að reyna að hjálpa. Það besta sem fólk getur gert þegar ég er að stama er bara að bíða þangað til að ég klára setninguna, það tekst alltaf á endanum.“

- Auglýsing -

Að lokum bendir Sveinn áhugasömum á Instagram-síðuna sína, @sven_illustration. Þar getur fólk fylgst með þróun verkefnisins.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -