Föstudagur 19. apríl, 2024
0.1 C
Reykjavik

Íslenskur humar hverfur úr fiskbúðum landsins

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eitthvað mikið virðist hrjá humarstofn­inn­ um­hverf­is Ísland en veiði hefur verið sögulega léleg undanfarin ár. Minnk­un veiðiheim­ilda hefur engan árangur borið og nú hafa fisksalar á höfuðborgarsvæðinu séð sig tilneydda að bjóða kúnnum sínum upp á innfluttan humar frá Maine í Bandaríkjunum þar sem íslenski leturhumarinn var fljótur að seljast upp.

Jón­as Páll Jónas­son, fiski­fræðing­ur hjá Haf­rann­sókna­stofn­un.

Jón­as Páll Jónas­son, fiski­fræðing­ur hjá Haf­rann­sókna­stofn­un, seg­ir í samtali við Mannlíf að nýliðunarbrestur í humarstofninum hafi verið viðvarandi síðan 2005. Engin veiðiráðgjöf var gefin út í haust vegna þess að Hafrannsóknastofnun hefur verið að innleiða nýjar aðferðir við að meta ástand stofnsins. Verið er að leggja lokahönd á túlkun gagna og er von á ráðgjöfinni eftir hálfan mánuð. Jónas Páll vildi ekki segja til um hvort veiðar yrðu bannaðar og bendir á að það komi í ljós eftir tvær vikur.

„Við höfum verið að sjá viðvarandi nýliðunarskort, þ.e. skort á smáum dýrum. Það er ekki gott að segja hver skýringin er nákvæmlega en við höfum séð þetta hjá öðrum tegundum fyrir sunnan land svo þetta er ekki bara bundið við humarinn,“ segir hann og bendir á að það hafi orðið ákveðnar breytingar á ástandi sjávar djúpt suður af landinu upp á síðkastið.

„Maður á frekar von á því að það hjarni eitthvað við eftir þær breytingar. Það er orðið kaldara og seltir minna. Að því slepptu þá kemur humarinn ekki fyrr en 5-6 ára inn í veiði þannig að allar breytingar sjást frekar seint.“

Aðspurður segist Jónas Páll ekki telja ofveiði ástæðu dræmrar veiði heldur breytingar á ástandi sjávar og vöntun á smáum humri. „Ráðgjöf hefur verið fylgt undanfarin 10 ár og það er verið að veiða dýr sem eru 10 til 20 ára gömul, þannig að það er ekki því um að kenna,“ segir hann.

Við höfum eyðilagt þetta sjálfir, sjómenn og útgerðarmenn, með ofveiði og allt of stórvirkum veiðarfærum undanfarin 10 ár.

Ólafur Björn Þorbjörnsson, skipstjóri frá Höfn í Hornafirði sem gerir út humarbátinn Sigurð Ólafsson SF, er á öndverðum meiði. „Við höfum eyðilagt þetta sjálfir, sjómenn og útgerðarmenn, með ofveiði og allt of stórvirkum veiðarfærum undanfarin 10 ár. Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér en þetta er mín kenning og það eru ekki allir sáttir við hana,“ segir Ólafur en hann hefur stundað humarveiði í tæplega hálfa öld.

Þrátt fyrir að stofnstærð hafi sveiflast áður man Ólafur ekki eftir öðru eins og hann hefur ekki mikla trú á Hafrannsóknastofnun. „Þeir hjá Hafró vilja ekkert við okkur tala, held ég, þeir hafa aldrei tekið mark okkur, litlu aumingjunum sem erum í þessu. Það eru stóru útgerðirnar sem ráða þessu,“ segir hann og bendir á að það séu ekki nema um 10-12 bátar á humarveiðum í dag.

- Auglýsing -
Eitthvað mikið virðist hrjá humarstofn­inn­ um­hverf­is Ísland en veiði hefur verið sögulega léleg undanfarin ár.

Ólafur segist telja að samhengi sé á milli hruns stofnsins og þess að stærri útgerðir hafi fyrir um 10 árum síðan breytt veiðiaðferðum sínum. „Þá fóru þeir að koma á miklu öflugri skipum og þyngdu veiðarfærin og hlerana. Við hinir gátum aldrei verið nálægt þeim, við vorum alltaf fastir í drullu og þurftum að forða okkur frá þeim,“ segir hann og bætir við að orsökina fyrir hnignun stofnsins megi rekja til þess að verið sé að eyðileggja sjávarbotninn þar sem humarinn hefst við.

Ólafur kveðst ekki geta svarað því hvernig best sé að bregðast við ástandinu en útgerð hans hefur ekki náð kvóta undanfarin fjögur sumur. „Þessu er náttúrlega sjálfhætt, ég hef ekki efni á að gera út á þetta í dag, það er bara svoleiðis. Það er alveg skelfilegt að eyðileggja þetta svona fyrir sjálfum sér,“ segir hann en viðurkennir að hann muni eflaust reyna eitthvað áfram.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -