Föstudagur 29. mars, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Karlmenn mega allt – en samt mjög fátt

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Trans mennirnir Alexander Björn Gunnarsson og Davíð Illugi Hjörleifsson Figved fengu úthlutað kvenkyni við fæðingu en létu leiðrétta kyn sitt og lifa nú loksins sem þeir sjálfir. Þeir segja mikinn mun á kröfum sem samfélagið gerir til kynjanna. Konur eigi að vera stilltar en karlmenn megi hafa hátt.

„Konur eiga að vera settlegar og ekki láta mikið fyrir sér fara. Ég er þannig frá náttúrunnar hendi en nú er meiri pressa á mig að vera sýnilegri og taka meira pláss. Ég upplifi það mjög sterkt að það voru gerðar miklu meiri kröfur til mín, áður en ég kom út sem strákur, að haga mér vel, standa mig vel og vera 110% fullkominn. Í dag er ég yfirleitt lesinn sem karlmaður og þá er mér alveg fyrirgefið ef ég geri mistök, því allir geri mistök. En ef maður er stelpa þá gera ekki allir mistök,“ segir Alexander. Alexander verður þrítugur í sumar og var mjög opinskár í fjölmiðlum um sitt kynleiðréttingarferli. Hann bloggaði til að mynda um typpið á sér á sínum tíma og hefur lagt sín lóð á vogarskálar þess að opna umræðu um transfólk.

Alexander Björn.

„Maður á bara að þegja og ekki vera fyrir,“ segir sessunautur Alexanders, Davíð Illugi eða Illugi eins og hann er oftast kallaður. Illugi er áratug yngri en Alexander en hann hefur verið búsettur í Noregi í um átta ár. Hann hefur spilað tölvuleiki um árabil og finnur vel fyrir kynjamisrétti og -mun í þeim heimi.

„Þegar að fólk leit á mig sem stelpu og ég skaut manneskju í byssuleik þá varð allt kreisí af fögnuði því fólk bjóst ekki við neinu af stelpu. En ef ég skýt fáa í byssuleik núna verð ég bara skammaður og dissaður, það þykir ekki nógu gott. Í tölvuleikjaheiminum eru karlmenn sem spila tölvuleiki kallaðir gamers, en konur heita gamer girls. Það var alltaf verið að adda mér þegar var litið á mig sem stelpu og alltaf verið að tala um útlitið mitt en ég fann að ég var ekki einn af hópnum. Strákarnir voru ekkert að spá í taktíkinni minni í leiknum og buðu mér í alls kyns teymi bara af því að ég var stelpa. Svo var mikið talað um kynlíf og ég spurður oft hvort ég ætti kærasta,“ segir Illugi, en Alexander fann ekki mikið fyrir kynferðislegri áreitni þegar hann lifði lífinu sem kona

„Ég kom út sem lesbía þegar ég var 16 ára og hef alltaf verið á karlmannlegri hlið, útlitslega séð. Karlmenn töluðu aldrei mikið um útlitið mitt en fann ég meira fyrir því að þeir komu til mín og sýndu mér gellur. En ég hef séð svo mörg dæmi um kynferðislega áreitni í kringum mig og það er fáránlegt að karlmenn leyfi sér svona hluti,“ segir Alexander.

„Já, eins og áreiti á vinnustað,“ skýtur Illugi inn í. „Það að þú þurfir að umbera að karlmaður sem er yfirmaður þinn sé að káfa á þér á vinnustað þar sem þú þarft að vera á hverjum degi er hræðilegt. Það er mjög algengt og konur bara taka því. Ég hef oft orðið vitni að slíku og stundum langar mig að fara til kvenna og segja þeim að standa upp fyrir sér sjálfum.“

- Auglýsing -

Og Alexander bætir við: „Ég held að konur upplifi sig oft vanmáttugar og varnarlausar gagnvart karlmönnum.“ Illugi segir að það tengist uppeldinu.

„Þær eru bara aldar upp þannig. Karlmenn mega vera eins og þeir eru. Þeir mega vera háværir og haga sér eins og fífl. Ég er rosalega oft fúll yfir því að vera karl. Stundum þoli ég það ekki en svo er ég líka mjög glaður að hafa geta upplifað þá hlið að vera kvenmaður. Það gerir mig að betri manneskju. Pældu í því ef ég hefði byrjað að skilgreina mig sem karlmann þegar ég var fjögurra ára og hefði verið alinn upp sem karlmaður. Ég hefði orðið allt önnur manneskja en ég er núna. Ég er ánægður að hafa upplifað hlið kvenmanna svo ég sé ekki þessi manneskja sem maður er alltaf að forðast,“ segir hann og Alexander slær á létta strengi. „Já, það hjálpar mér mikið í samskiptum við aðrar stelpur og kærustuna mína. Bara það að vita hvernig það er að vera með túrverki. Ég held að það myndi hjálpa rosalega í mörgum samböndum,“ segir hann og hlær.

„Það er jákvætt að vita um líkamlegu hlutina en líka þá samfélagslegu,“ bætir Illugi við.

Hluti af karlmennsku er að vera með mótþróa

Davíð Illugi.

Okkur er tíðrætt um þessi rótgrónu, samfélagslegu gildi að karlmenn megi allt og hafi leyfi til að taka mikið pláss. Fyrir stuttu spratt upp bylgja í kjölfar #metoo sem gekk um samfélagsmiðla undir kassamerkinu #karlmennskan. Það átak reis ekki nærri því jafnhátt og forveri þess, og á mikið inni, en þá kom í ljós að karlmönnum leyfist alls ekki allt, eitthvað sem hugtakið eitruð karlmennska nær mjög vel utan um.

- Auglýsing -

„Karlmenn mega margt en það er samt mjög þröngt skilgreint hvað þeir mega. Við megum til dæmis ekki vera í kjólum. Það virðist að við megum gera það sem við viljum á hlut kvenna en ekki á hlut annarra karla,“ segir Alexander.

„Hluti af karlmennskunni er að vera með mótþróa. Ef það er verið að biðja karlmenn um að opna sig þá skilja þeir ekki að þeir geti það og vilja það ekki. Þeir hafa verið aldir upp svo lengi við það að þeir megi ekki opna sig og tala um tilfinningar. Þetta hefur með uppeldi og kynjahlutverk að gera,“ segir Illugi og Alexander er sama sinnis.

„Þetta á eftir að taka mjög langan tíma. Margir karlmenn eru aldir upp við það að gráta ekki, verða ekki veikir, sýna ekki tilfinningar. Sem betur fer virðast bara eldri kynslóðirnar vera enn í þeim pakka. Mér finnst þetta vera hægt og rólega að breytast með yngri kynslóðina. Strákar sem til dæmis vilja vera með naglalakk mega það þótt það sé „stelpulegt“. Við erum í millibilsástandi núna þar sem gamlar hefðir og yngri kynslóðin, með ný gildi og venjur, mætast.“

Illugi bætir því við að karlmönnum þyki auðveldara að opna sig fyrir honum, því þeir halda að hann sé hommi, og þá sérstaklega á skemmtistöðum eftir nokkra drykki. „Gagnkynhneigðir, sískynja karlmenn koma oft til mín og byrja að tala um tilfinningar. Þeim líður eins og það sé meira viðurkennt frá manneskju eins og mér sem er ekki gagnkynhneigður, sískynja karlmaður,“ segir Illugi.

„Ókei, ég lendi aldrei í því,“ segir Alexander.
„Ég lendi oft í því en ég djamma mjög mikið,“ segir Illugi og brosir.
„Ég djamma aldrei,“ segir Alexander og glottir.

„Það koma menn til mín á djamminu og opna sig. Sumir hafa kannski aldrei talað um tilfinningar en það er viss þjálfun að gera það. Ég gat það ekki áður en nú er ég rosalega opin manneskja. Karlmenn hafa almennt mjög sjaldan þá þjálfun,“ segir Illugi og bætir við að talað sé niðrandi um karlmenn sem tali um tilfinningar, sem hjálpi alls ekki.

„Þú ert hommi ef þú talar um tilfinningar. Þú ert stelpa, í niðrandi meiningu. Það er mesta óvirðing gagnvart karlmennsku að líkja henni við eitthvað kvenlegt. Karlmennska er svo mikilvæg hjá karlmönnum en í flestum tilvikum er hún það því þeim finnst að hún eigi að vera mikilvæg.“

Alexander skýtur inn í að það sé mikilvægt að útrýma þessari niðrandi orðræðu, bæði fyrir konur og karlmenn. „Þessi orðræða um að eitthvað sé kerlingarlegt, að einhver slái eins og stelpa, að einhver sé hommalegur, hefur svo slæm áhrif á sjálfsmyndina hjá konum, stelpum, hommum og börnum. Það hefur mjög sterk áhrif að tala um það sem þú ert í niðrandi tilgangi. Það er bara hreint út sagt hræðilegt.“

Vilja ekki vera ógnandi karlmenn

Alexander og Illugi hafa að sjálfsögðu ekki farið varhluta af #metoo þar sem athygli var beint að kynferðislegri áreitni og ofbeldi gagnvart konum. Þeir fagna þessu átaki, eins og öðrum þar á undan, en segja að á sama tíma skapi þetta ákveðinn vanda fyrir karla.

Alexander og Illugi segja mikinn mun á því hvaða kröfur séu gerðar til kynjanna.

„Það er óþægilegt fyrir konur ef karlmaður gengur á eftir þeim í myrkri. En það er líka óþægilegt fyrir okkur sem karlmenn að hafa áhyggjur af því að konunni líði illa. Ég vil ekki að fólk sé hrætt við mig. En ég skil að fólk vilji hafa varann á. Það eru konur sem er ráðist á í myrkri og það eru karlmenn sem gera það,“ segir Alexander.

„Mér fannst óþægilegt að ganga í myrkri þegar það var horft á mig sem kvenmann og ég var skíthræddur. Núna er ég það ekki. Sem manneskja sem hefur upplifað að vera kona, en er nú maður, þá er ég alltaf að passa mig á að vera ekki þessi ógnandi manneskja sem lætur konum líða svona,“ segir Illugi.

„En þessar bylgjur, eins og #metoo, mega ekki deyja. Við þurfum að halda áfram að ýta undir þær og ekki leyfa þeim að deyja út,“ segir Alexander og Illugi er því hjartanlega sammála.

„Það að barátta verði svona hávær finnst mér æðislegt. Við erum ekki komin mjög langt í kynjajafnrétti þó að við viljum trúa því. Þegar svona byltingar fæðast þá verður fólk háværara og fólk meðtekur eitthvað smávegis af því sem baráttufólkið segir. Svo kemur önnur barátta og fólk meðtekur örlítið meira og svo framvegis. En þá má ekki hætta. Við verðum að vera hávær.“

Óþægilegt að brosa og vinka til barna

Þeir Alexander og Illugi eru báðir miklar barnagælur en finna sterkt fyrir því að litið sé öðruvísi á þeirra samskipti við börn eftir að fólk byrjaði að upplifa þá sem karlmenn.

„Ég er með eina neikvæða sögu í kollinum,“ segir Alexander djúpt hugsi. „Ég var að koma úr ræktinni og var að bíða eftir strætó. Þá kom hópur af leikskólakrökkum og einn strákur vinkaði mér. Ég brosti og vinkaði en þá kom leikskólakennari og stóð á milli okkar. Ég fann fyrir því að þetta mætti ekki og að samstundis kviknaði grunur um að ég væri barnaperri,“ segir hann og Illugi, sem vinnur á leikskóla, kinkar kolli.

„Ég elska börn. Ef fólk spurði mig hvað mig langaði að verða þegar ég yrði stór sagði ég alltaf pabbi. Fólk hélt að ég væri að meina að mig langaði að vera eins og pabbi minn en mig langaði bara að vera faðir. Ég brosi alltaf til barna þegar ég sé þau og nú finn ég svo sterklega fyrir því að ég held því inni því ég vil ekki að einhver haldi að ég sé barnaperri. Það er mjög skrýtið, því áður var það ekki þannig,“ segir Illugi og vísar í tímann áður en hann lét leiðrétta kyn sitt.

„Það hefur vissulega neikvæðar hliðar að vera karlmaður og vinna á leikskóla. Ef barn myndi segja eitthvað sem myndi hljóma eins og ég hefði gert eitthvað rangt þá væri tekið öðruvísi á því en ef um konu væri að ræða,“ segir Illugi.

„Það væri tekið alvarlegra á því,“ segir Alexander. „Og ég skil alveg af hverju.“

Þurfti að vera karlmannlegasti karlinn á svæði

Alexander hefur ætíð verið mjög opinn með sitt kynleiðréttingarferli og vakti bloggið hans um ferlið, phalloiniceland.tumblr.com, mikla athygli.

Vegferðir Alexanders og Illuga að því að gera sér ljóst að þeir væru í raun karlmenn, þó að þeir hefðu fengið úthlutað kvenkyni við fæðingu, voru mjög ólíkar.

„Ég vissi ekki að það væru til trans gaurar þannig að ég kom fyrst út sem lessa,“ segir Illugi. „Ég vildi vera mjög karlmannlegur og var mjög upptekinn af því. Ég til dæmis elska söngleiki en hefði aldrei nefnt það á þessu tímabili. Skilurðu mig?“ spyr hann Alexander sem brosir kankvíslega.
„Upp að vissu marki. En ég var alltaf mjög opinn með það að ég elska söngleiki,“ segir Alexander og hlær.

„Það er samt ímynd sem fólk hefur um að karlmenn eigi ekki að elska söngleiki. Eða ballet. Ég elska ballet. Og á þessu tímabili þegar ég var mjög upptekinn af því að vera karlmannlegur, eða stereótýpan af karlmennsku. Ég byrjaði að vera háværari, því karlmenn mega vera háværari en konur, tala djúpri röddu og hnykkla vöðvana í speglinum. Þangað til ég byrjaði á hormónum. Þá byrjaði mér að vera skítsama um karlmennsku,“ segir Illugi og Alexander skýtur inn í að vissulega hafi hann upplifað slíkt tímabil þar sem hann í raun aðhylltist einhvers konar ofurkarlmennsku, þótt það hafi verið mun styttra tímabil en hjá Illuga.

„Ég hafði ekki alveg jafnmiklar áhyggjur af þessu en það tengist örugglega því að ég upplifði mig ekki alltaf sem strák. Ég upplifði mig sem stelpu en síðan breyttist það yfir í að ég upplifði mig sem strák. Það er frekar lýsandi fyrir það hve flæðandi kynvitund getur verið. Í um það bil ár upplifði ég að ég þyrfti að vera karlmannlegasti karlmaðurinn á svæðinu og mátti til dæmis ekki horfa á bleikan lit og því um líkt.“

Laminn fyrir að vera trans maður

Við stöldrum aðeins við þá staðreynd að þeir báðir séu trans menn, en trans menn hafa verið minna áberandi í samfélaginu en trans konur síðustu ár. Af hverju halda þeir að svo sé?

„Á meðan það er svona mikil trans fóbía í samfélaginu þá er líklegt að þeir sem geta falið sig geri það. Það er engin ástæða fyrir okkur að koma í viðtöl og segjast vera trans menn, nema sú staðreynd að við viljum vera sýnilegri og við viljum opna umræðuna,“ segir Alexander.

Illugi hefur fundið fyrir fordómum gegn trans fólki á eigin skinni, í bókstaflegri merkingu. „Ég hef verið laminn fyrir að vera trans, með hnúajárni. Ég lenti á spítala. Það er brútal,“ segir hann og það tekur greinilega mikið á hann að rifja það upp. „Fólk heldur að við séum komin langt, sem er rétt. Við erum komin langt í hinsegin baráttunni. Samt er mikið sem þarf enn að vinna í. Samkvæmt regnbogakortinu þar sem farið er yfir hve langt lönd eru komin í réttindum hinsegin fólks í lagalegum skilningi, stöndum við mjög illa. Það eru til dæmis engin lög sem banna það að hinsegin manneskja sé rekin úr starfi út af því að hún er hinsegin,“ segir hann og bætir við að fordómarnir birtist í ýmsum myndum.

„Ég er ekki laminn á hverjum einasta degi en það hefur gerst og ekki bara einu sinni. Svo eru þessi litlu atriði endalaust. Fólk heldur að það megi spyrja mig um allt sem tengist minni kynhneigð, og jafnvel kynlífi. Þannig að ég þarf alltaf að vera búinn undir að fá alls kyns spurningar um það.“

Sjö milljarðar og eitthvert kyn

Þeir Alexander og Illugi eru reyndar báðir sammála um að það sé ekki hægt að skipta heiminum í tvær fylkingar út frá kyni.

„Fyrir kynþroska eru allir eins, fyrir utan kynfærin. Hins vegar tengist allt einhverju kyni í samfélaginu. Og ef það tengist ekki kyni þá tengist það kynfærunum þínum. Kyn er hins vegar svo persónubundið. Þú ert bara þitt kyn. Ég vil meina að það séu til jafnmörg kyn og það eru manneskjurnar eru í heiminum. Það er enginn annar með þín sérkenni,“ segir Illugi.

Illugi er búsettur í Noregi og er mjög virkur innan tölvuleikjasamfélagsins. Hann hefur verið laminn fyrir að vera trans og segir mikla fordóma í samfélaginu í garð trans fólks.

„Það eru til sjö milljarðar og alls konar kyn. Hver er sitt eigið kyn. Við erum til dæmis báðir trans gaurar, en erum ekki á nokkurn hátt eins. Heilinn okkar vill svo mikið flokka í hlutum. Því færri flokka sem þú ert með, því þægilegra er það fyrir heilann. Þannig að ef þú getur flokkað allan heiminn í tvo flokka þá er það mjög einfalt. En hvernig er hægt að setja rúmlega sjö milljarða manna í tvo kassa? Við flokkum til dæmis ávexti í einn flokk en bananar og epli eru samt ekki eins. Ég vil meina að þessir tveir flokkar kynja séu yfirflokkar og síðan séu margir undirflokkar, skörun og alls konar,“ segir Alexander.

Þolir ekki karlmennsku

Það myndi taka okkur marga daga að ná utan um hugtakið karlmennska, birtingarmyndir karlmennskunnar og hvað sé til ráða til að útrýma eitraðri karlmennsku. En áður en ég kveð þá Illuga og Alexander verð ég að spyrja hvaða merkingu þeir leggi í sína eigin karlmennsku í dag.

„Ég reyni að vera rosalega góður pabbi,“ segir Alexander en hann á átta mánaða stúlku með unnustu sinni. „Það vill svo skemmtilega til að mér finnst gaman að fara í ræktina og lyfta þungum lóðum. Svo finnst mér gaman að þrífa, baka og elda,“ segir hann og Illugi tekur við.

„Núna get ég sagt að ég þoli ekki karlmennsku. Ég vil ekki vera þessi karlmaður sem öðrum finnst ógnandi. Ég er skíthræddur við eitraða karlmennsku. Ég leik mér að því að vera ekki karlmannlegi karlinn í kringum karlmenn. Ég tala oft um eitthvað sem karlmenn myndu aldrei tala um til að sjá viðbrögðin frá öðrum karlmönnum. Meðan karlmennskan er enn eitruð þá verður mér illa við hana.“

Hvað er eitruð karlmennska?

Hugtakið eitruð karlmennska er notað í sál- og kynjafræði og vísar til vissra viðmiða karlmannlegrar hegðunar í Norður-Ameríku og Evrópu, sem tengjast samfélagsskaða og þeim skaða sem karlmenn sjálfir verða fyrir. Hefðbundnar staðalímyndir karlmanna sem æðri vera sem og kvenhatur og hinseginfælni geta verið álitnar sem eitraðar sökum þess að þær ala á ofbeldi, þar með talið kynferðislegu ofbeldi og heimilisofbeldi.

Aðrir eiginleikar sem fylgja þessum staðalímyndum eru að karlmenn séu tilfinningalega lokaðir, en tengsl eru á milli þess og sálfræðilegra vandamála karlmanna, streitu og misnotkun á ávanabindandi efnum. Aðrir eitraðir eiginleikar eru mikil vinnusemi karlmanna og að þeir þurfi að sjá fyrir fjölskyldunni. Þessari eitruðu karlmennsku hefur oft verið kennt um að ofbeldi meðal karlmanna er talið eðlilegt. Stundum hefur því verið fleygt fram að eitruð karlmennska sé leið feðraveldisins til að skaða karlmenn.

Úr orðabókinni Hinsegin frá Ö til A

Að vera sís/sískynja
Sís er lýsingarorð og forskeyti sem er notað um fólk sem upplifir sig á þann hátt að það tilheyri því kyni sem því var úthlutað við fæðingu. Sís kona er til dæmis kona sem var úthlutað kyninu „stelpa“ við fæðingu og er sátt við það. Orðinu er oft stillt upp sem andheiti við orðið trans.

Að vera trans
Trans er regnhlífarheiti yfir fólk sem er með kynvitund sem samræmist ekki því kyni sem því var úthlutað við fæðingu.

Kynvitund
Kynvitund segir til um hvernig fólk vill lifa og vera í sínu kyni. Kynvitund vísar ekki til kynfæra, líffræði eða útlits heldur upplifunar fólks af eigin kyni. Allir hafa kynvitund því allir upplifa kyn sitt á einhvern hátt.

Kynhneigð
Kynhneigð segir til um hverjum fólk getur laðast að, orðið skotið í eða ástfangið af.

Myndir / Aldís Pálsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -