Föstudagur 29. mars, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Magnea glímir við fæðingarþunglyndi: Erfiðast að elska sjálfa mig

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég viðurkenndi ekki þunglyndi mitt strax. Ég átti mjög erfitt með það en eini sem fékk að sjá það var maðurinn minn. Ég reyndi allt til að fela það. Ég vildi bara hafa það fyrir mig. Þegar ég var komin rúmlega tuttugu vikur þá var ég komin á lyf við vanlíðan,“ segir Magnea Hildur Jónsdóttir.

Magnea eignaðist dóttur sína Talíu Líf, fyrir tæplega tveimur árum síðan. Magnea byrjaði að finna fyrir fæðingarþunglyndi á meðgöngu og hefur talað opinskátt um það á Snachat-reikningi sínum undir nafninu magnea8.

Magnea og litla Talía Líf.

„Ég var bara ekki að höndla þessar breytingar og ég var með mjög slæman bjúg sem varð sífellt verri. Ég er svo þrjósk að ég lét mig hafa það lengur en ég átti að gera. Ég passaði ekki lengur í neina skó nema einhverja ljóta inniskó úr Rúmfatalagernum sem ég tróð mér í. Ég fékk meðgöngusykursýki sem greindist allof seint og ég þurfti að fara í mikið tjékk seinni hluta meðgöngunnar,“ segir Magnea. Ekki bætti úr skák að hún lenti í óhappi á fyrri hluta meðgöngunnar.

„Það versta var að ég datt á leið í vinnuna í steyptum tröppum. Ég var rétt komin sautján vikur á leið og skall í tröppuna með hnakkann undir, mitt bakið og grindina í. Ég var það þrjósk að ég lét ekki kíkja á mig né athuga með barnið,“ segir Magnea, sem hélt áfram að mæta í vinnu þó hana verkjaði.

„Ég sé eftir því en málið var að ég vildi ekki lýta út eins og einhver aumingi því það sást ekkert á mér. Þannig hugsaði ég allt, að ef það sést ekki þá er ekkert að mér, sem var svo rangt og ég er enn þann dag í dag að læra það. Að sýna tilfinningar og elska mig, sem mér finnst erfiðast af þessu öllu.“

Brotnaði niður og gafst upp

Magnea segir að hversdagurinn sinn hafi einkennst af hæðum og lægðum í baráttunni við fæðingarþunglyndi.

- Auglýsing -

„Stundum vil ég bara ekki gera neitt, bara liggja uppi í rúmi og sofa eða bara vera ein og ekki tala við neinn. Ég er nánast alltaf þreytt sama hvað. Það er kannski svona mánuður síðan ég hætti að segja við sjálfa mig: Ég legg mig bara þegar ég kem heim, á hverjum einasta morgni. Ég gerði það sjaldan en þetta var eitthvað sem ég sagði við sjálfa mig til að komast í gegnum daginn,“ segir Magnea. henni er eitt atvik sérstaklega minnisstætt þegar hún fer yfir þennan tíma í sínu lífi.

„Þegar stelpan mín var ekki orðin tveggja mánaða var ég ein heima með hana og hún byrjar að gráta um sjö leytið um kvöld. Ekkert sem ég gerði var nógu gott til að fá hana til að hætta að gráta. Þetta var ekkert venjulegur grátur, það var hreinlega eins og einhver væri að drepa hana. Maðurinn minn var að vinna og foreldrar mínir í heimsókn. Ég hreinlega brotnaði bara gjörsamlega niður og gafst upp. Ég hringdi í manninn minn og spurði hann hvort hann gæti komið heim. Ég var grátandi í símanum og sagði að ég gæti ekki huggað hana. Hann kom heim stuttu seinna og spurði mig að því versta sem hægt er að spyrja grátandi móður: Hristirðu hana? Ég missti andlitið. Ég myndi aldrei meiða litla barnið mitt, sama hvað. En hann sá eftir þessu. Hann hélt bara að eitthvað hræðilegt hafi gerst. Hann átti lika erfitt á þessum tima, hann var að vinna svo mikið og var mikið frá, hann varð paranojaður yfir öllu. Sem bætti ekki mína andlegu líðan.“

Skömmin var mikil

Magnea segist hafa verið mjög góð í að fela fæðingarþunglyndið frá ljósmæðrum í kringum fæðingu litlu hnátunnar.

- Auglýsing -

„Ég man eftir því þegar ljósmóðir kom heim að athuga með okkur mæðgur. Hún spyr mig hvernig mér liði. Litla systir mín sat í sama sófa og eina sem ég hugsaði var að ég ætti bara að segja að allt gengi vel og að ég hefði það fínt. Ég vildi ekki að systir mín myndi vita hvernig mér liði. Þá myndi mamma min vita það og þá myndi hún byrja að tala við mig, sem hefði ekki verið slæmt, en skömmin var bara svo mikil og mig langaði ekki að mistakast,“ segir Magnea, sem tárast nánast við tilhugsunina.

„Þegar ég hugsa um þetta núna langar mig að gráta því ég hefði þurft svo mikið á því að halda að tala við einhvern. En þrjóskan og skömmin var svo mikil hjá mér. Ég var, og er, mjög klár að setja upp grímu og láta eins og ekkert sé að.“

Erfið fæðing frumburðarins

Hér leikur Talía Líf á alls oddi. Lífsglöð stúlka.

Magnea er 28 ára gömul og býr í Kópavogi ásamt unnusta sínum, litlu Talíu Líf og kettinum þeirra. Hún vinnur sem stuðningsfulltrúi á einhverfudeild í grunnskóla í Kópavogi og er nú hægt og bítandi að koma andlegu heilsunni í lag eftir þennan erfiða tíma.

„Ég reyni að borða hollt, taka lyf og hætta að vera svona neikvæð, og þá sérstaklega við mig. Gera eitthvað sem mér finnst gaman að gera og að hreyfa mig eitthvað. Ég set mér markmið, til dæmis að labba sex þúsund skref á hverjum degi. Og segja við mig að þetta tekur tíma, margt smátt gerir eitt stórt,“ segir Magnea sem stefnir á frekari barneignir í framtíðinni.

„Það sem ég ætla mér núna er að koma mér í mitt fyrra horf líkamlega og andlega. Númer 1, 2 og 3 er að læra að elska sjálfa mig aftur. Og já, þrátt fyrir þetta allt saman þá langar mig í annað barn, en kannski eftir svona tvö ár,“ segir Magnea, en fæðing frumburðarins tók á.

„Stelpan mín kom mánuði fyrr í heiminn og það sem situr í mér er að það fór ekki eins og ég hefði viljað að það færi. Mamma mín var í útlöndum með systkinum mínum hja ömmu minni en hún átti að vera með inni á fæðingardeildinni. Stelpan var skökk og ég festist í níu í útvíkkun og endaði í bráðakeisara. Ég þurfti að vera svæfð vegna blóðflögugalla hjá mér. Stelpan endaði inná vökudeild því hún átti erfitt með að anda og taka næringu. Hún blánaði þrisvar sinnum en ég sá það aldrei gerast. Maðurinn minn sá það hins vegar í eitt skipti. Við vorum inni á spítala í tíu daga og var hún á vökudeild í átta daga þar til hún fékk loksins að koma til okkar og vera með okkur í tvær nætur áður en við fengum að fara heim. Ég var undir eftirliti vegna hás blóðþrýstings og svo ég myndi ekki fá blóðtappa.“

Engin skömm að líða illa

Magnea er þakklát fyrir þann stuðning sem hún hefur fengið eftir að hún opnaði á sína vanlíðan.

„Þrjóskan í mér lokaði á allt og alla. Maðurinn minn stendur 100% við bakið á mér í dag og hefur gert seinustu mánuði. Mamma mín og tvíburasystir eru mér líka allt.“

Eins og áður segir opnar Magnea á sinn raunveruleika á Snapchat, en af hverju?

Magnea er dugleg að snappa um sinn raunveruleika.

„Að því að mér leiddist, mig langaði að sýna hvernig dagarnir væru hjá mér. Hvað ég borða. Hvernig það er að vera með stelpuna enn á brjósti þó hún sé að verða 2ja ára. Margir spyrja af hverju ég hætti ekki bara með hana á brjósti en það er ekki svo auðvelt, ekki eftir það sem ég upplifði fyrir og eftir meðgöngu. Mér fannst hún ekki vera mín fyrst en ég elska þessar stundir okkar. Lífið er ekki alltaf dans á rósum og ég nota stundum kassamerkið #enginglansmynd. En ég snappa líka um mat og hef gaman af því að elda og baka. Svo snappa ég líka mikið af stelpunni minni,“ segir Magnea.

Áður en ég sleppi henni verð ég að spyrja að því hvað hún vill segja við foreldra sem glíma við fæðingarþunglyndi.

„Það er engin skömm að líða illa, það er betra að tala um það hvernig manni líður en að halda því fyrir sig sjálfan. Sama hversu erfitt það er.“

Myndir / Úr einkasafni

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -