Föstudagur 29. mars, 2024
-3.2 C
Reykjavik

„Mikilvægt að dóttir mín fái þessa viðurkenningu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lögreglan viðurkennir brotalamir í rannsókn á meintu kynferðisbroti lögreglumanns.

Lögreglan á Vesturlandi hefur viðurkennt að hafa ekki nýtt allar rannsóknarheimildir þegar Helga Elín Herleifsdóttir kærði lögreglumann fyrir kynferðisbrot árið 2011. Málið, sem Mannlíf fjallaði ítarlega um í fyrravor, var látið niður falla.

Halldóra Magný Baldursdóttir, móðir Helgu Elínar, sendi Nefnd um eftirlit með starfi lögreglu (NEL) erindi þann 14. febrúar í fyrra þar sem hún gerir meðal annars athugasemdir við rannsókn málsins hjá lögreglu og meðferð þess hjá ríkissaksóknara.

„Bréf lögreglustjórans á Vesturlandi er í raun viðurkenning á því sem ég hef ítrekað haldið fram og það er að rannsókn málsins var ábótavant,“ segir Halldóra sem hefur undir höndum svarbréf frá lögreglustjóranum á Vesturlandi um hvort rannsókninni hafi verið ábótavant. Bréfið er hluti af rannsókn NEL á málinu.

„Bréf lögreglustjórans á Vesturlandi er í raun viðurkenning á því sem ég hef ítrekað haldið fram og það er að rannsókn málsins var ábótavant,“ segir Halldóra sem barist hefur fyrir réttlæti fyrir dóttur sína sem kærði lögreglumann fyrir kynferðisbrot. Mynd / Hallur Karlsson

Forsaga málsins er sú að lögreglan á Akranesi var á sínum tíma fengin til að rannsaka málið þar sem lögreglumaðurinn sem stúlkan kærði starfaði hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, þar sem stúlkan bjó einnig. Meint brot átti sér stað árið 2007 en það var kært til lögreglu 13. október 2011 og þann 2. október 2012 felldi ríkissaksóknari málið niður. Halldóra hefur síðan haldið því fram að mál dóttur hennar hafi ekki fengið réttláta málsmeðferð og þann 14. febrúar 2018 sendi hún NEL málið til athugunnar.

„Lögreglustjóri telur að við rannsókn málsins hefði lögregla átt að nýta rannsóknarúrræði IX. og X. kafla laga nr. 88/2008.“

Í svarbréfi sem NEL sendi Halldóru þann 25. júní sama ár var annars vegar hluta athugasemda Halldóru vísað frá en henni hins vegar tjáð að niðurstaða nefndarinnar lægi ekki fyrir fyrr en búið væri að afla frekari gagna og skýringa frá Lögreglunni á Vesturlandi, Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Ríkislögreglustjóra og Ríkissaksóknara. Embættunum var gefinn frestur til 31. ágúst til að svara.

Aðeins eitt svarbréf barst fyrir tiltekinn frest, frá Lögreglunni á Vesturlandi. Í bréfinu segir meðal annars: „Lögreglustjóri telur að við rannsókn málsins hefði lögregla átt að nýta rannsóknarúrræði IX. og X. kafla laga nr. 88/2008,“ og er þar að vísa í þá athugasemd Halldóru að tölva sakbornings hafi ekki verið skoðuð. Varðandi þá umkvörtun Halldóru að sakborningur hafi farið með lögreglu á vettvang meints glæps telur lögreglustjórinn á Vesturlandi sakborning hafa haft rétt á því að vera viðstaddur vettvangsskoðun enda sjái lögreglustjórinn ekki að það hafi torveldað rannsókn málsins.

- Auglýsing -

Varðandi það að tímasetja meintan glæp telur lögreglustjóri hins vegar að nýta hefði átt fyrrnefnd rannsóknarúrræði og nefnir að „við rannsókn málsins hafi ekki verið kannað hvort umráðamenn hússins hafi haldið yfirlit um hverjir dvöldu í bústaðnum á hverjum tíma,“ og að við rannsókn málsins hafi verið staðfestar þrjár símhringingar úr síma Halldóru í síma sakbornings. „Rannsókn málsins að þessu leyti gat verið ítarlegri,“ segir í bréfinu frá lögreglustjóranum á Vesturlandi.

„Ég tel alveg ljóst að ekki hafi verið gætt óhlutlægni við rannsókn málsins líkt og lög gera ráð fyrir enda hafi lögregla ekki beitt þeim úrræðum sem þörf var á og heimildir voru til, til að varpa skýru ljósi á framvindu málsins. Það finnst mér lögreglustjórinn á Vesturlandi staðfesta með bréfi sínu.“

„Lögreglustjórinn tekur einnig undir athugasemd mína varðandi það að tvö vitni sem yfirheyrð voru vegna málsins voru yfirheyrð á vinnustað annars þeirra, en sá gegnir ábyrgðarstöðu innan réttarvörslukerfisins,“ bætir hún við og vísar þar áfram í bréfið frá Lögreglustjóranum á Vesturlandi. „Það er alveg skýrt í lögum um meðferð sakamála hver markmið rannsóknar á að vera. Þar er sérstaklega tekið fram að afla skuli allra nauðsynlegra gagna og það var ekki gert í þessu máli og tekur lögreglustjórinn á Vesturlandi undir það að rannsóknarheimildir hafi ekki verið nýttar. Ég tel alveg ljóst að ekki hafi verið gætt óhlutlægni við rannsókn málsins líkt og lög gera ráð fyrir enda hafi lögregla ekki beitt þeim úrræðum sem þörf var á og heimildir voru til, til að varpa skýru ljósi á framvindu málsins. Það finnst mér lögreglustjórinn á Vesturlandi staðfesta með bréfi sínu.“

Halldóra og Helga voru í ítarlegu viðtali um málið í fyrra þar sem Halldóra gagnrýndi meðal annars rannsókn málsins og meðferð þess hjá ríkissaksóknara. Mynd / Hallur Karlsson

Ekki fjallað um handfærðar vinnustundir

- Auglýsing -

Halldóru finnst áhugavert að lögreglustjórinn sleppir því að minnast á excel-skjal sakbornings um vinnustundir sem niðurfelling kynferðisbrotamálsins var meðal annars byggð á, skjal sem kom frá sakborningi sjálfum. „Ég tel að þetta skjal sanni að sumarbústaðaferðin var farin helgina 16.-18. febrúar 2007. Í umræddu excel-skjali kemur fram að lögreglumaðurinn hafi verið við vinnu bæði laugardag og sunnudag helgina 17. og 18. febrúar 2007 frá kl. 07:00-17:00 báða dagana og sést á þessum færslum að hér er ekki um tímastimplun að ræða heldur handfærðir tímar eftir á. Ég tel að ekki sé hafið yfir allan vafa, að með þessum tímafærslum hafi lögreglumaðurinn í raun búið sér til fjarvistarsönnun, sem tekin var góð og gild af Ríkissaksóknara. Þessar dagsetningar passa við einu símtölin sem áttu sér stað á milli síma míns og sakbornings en símtölin voru þann 15. og 16. febrúar 2007,“ segir Halldóra.

„Ég tel að ekki sé hafið yfir allan vafa, að með þessum tímafærslum hafi lögreglumaðurinn í raun búið sér til fjarvistarsönnun, sem tekin var góð og gild af Ríkissaksóknara.“

Í sumarbústaðaferðinni þegar meint brot gegn dóttur Halldóru var framið var einnig grunur um að klámefni hafi verið haft fyrir börnunum. „Ríkissaksóknari byggði ákvörðun sína um að rannsaka ekki blygðunarsemisbrotið á því að á þeim brotum væri fimm ára fyrning, en miðað við þessar dagsetningar þá var það brot ekki fyrnt í október 2011. Blygðunarsemisbrotið, sem sneri bæði að sakborningi og vini hans sem rætt var um hér að ofan og gegnir ábyrgðarstöðu innan réttarvörslukerfisins, hefði því átt að vera rannsakað sérstaklega,“ segir Halldóra.

Fátt um svör hjá NEL

Við vinnslu fréttarinnar hafði Mannlíf samband við NEL til spyrja hvort Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Ríkissaksóknari og Ríkislögreglustjóri hafi látið í té umbeðin gögn og skýringar sem NEL óskaði eftir að bærust nefndinni eigi síðar en 31. ágúst 2018. Ef gögnin væru komin, hvernig NEL gengi að vinna úr þeim og ef ekki, hvort þessum embættum væri stætt á að bregðast ekki við kalli nefndarinnar fyrir tilskipaða dagsetningu á síðasta ári. Einnig hvernig NEL hyggðist bregðast við svarleysi embættanna? Eina svarið sem NEL gaf við fyrirspurnum Mannlífs var: „Nefndin getur upplýst að hún hafi ekki lokið yfirferð yfir málið en reiknar með að það verði gert sem fyrst.“

„Ég hef alla tíð talið afar mikilvægt að dóttir mín fái þessa viðurkenningu og tel það ekki síður mikilvægt að lögreglan læri af þessum mistökum.“

Aðspurð um þessi vinnubrögð segir Halldóra að þessi langi afgreiðslutími hafi valdið henni vonbrigðum. „Afgreiðslutími nefndarinnar hefur tekið um eitt ár sem er ekki í neinu samræmi við reglur sem nefndin á að starfa eftir. Bréf lögreglustjórans á Vesturlandi er hins vegar viðurkenning á því að mistök voru gerð við rannsókn þessa máls. Ég hef alla tíð talið afar mikilvægt að dóttir mín fái þessa viðurkenningu og tel það ekki síður mikilvægt að lögreglan læri af þessum mistökum. Bréf lögreglustjórans á Vesturlandi staðfestir réttmæti athugasemda minna.

Nú hefur dómsmálaráðherra sagst ætla að bregðast við áskorun minni frá því í júní á síðasta ári svo ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn á að það komi eitthvað jákvætt út úr þessari baráttu okkar mæðgna,“ segir Halldóra.

Sjá einnig:

„Ríkislögreglustjóri brást dóttur minni“

„Frávísun mikil vonbrigði“

Tímalína

16.-17. febrúar 2007 – Meint kynferðisbrot á sér stað.
5. október 2011 – Helga opnar sig fyrst um meint kynferðisbrot.
13. október 2011 – Meint kynferðisbrotið kært til lögreglu.
2. október 2012 – Ríkissaksóknari fellir málið niður.
14. febrúar 2018 – Halldóra sendir NEL erindi með athugasemdum um rannsókn málsins og meðferð þess hjá Ríkissaksónara.
25. maí 2018 – Halldóra og Helga stíga fram í viðtali við Mannlíf.
25. júní 2018 – Halldóra fær bréf frá NEL um að hluta athugasemda hennar hafi verið vísað frá en niðurstaða nefndarinnar liggi ekki fyrir fyrr en búið væri að afla frekari gagna og skýringa frá Lögreglunni á Vesturlandi, Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Ríkislögreglustjóra og Ríkissaksóknara. Embættunum er gefinn frestur til 31. ágúst til að svara.
28. ágúst 2018 – Lögreglan á Vesturlandi svarar NEL.
31. ágúst 2018 – Frestur embættanna til að svara NEL rennur út.
31. janúar 2018 – NEL hvorki játar því né neitar að borist hafi svör frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Ríkislögreglustjóra og Ríkissaksóknara.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -