Könnun á meðal ferðaþjónustuaðila sýnir að launahækkunum verður mætt með hagræðingu. 63 prósent fyrirtækja í ferðaþjónustu munu þurfa að bregðast við niðurstöðum kjarasamninga með hagræðingaraðgerðum. Eitt af hverjum þremur fyrirtækjum mun þurfa að grípa til uppsagna. Árið gæti reynst mörgum ferðaþjónustufyrirtækjum afar erfitt.
Þetta er á meðal niðurstaðna viðhorfskönnunar sem KPMG gerði fyrir Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) en ekki hefur verið greint frá niðurstöðunum opinberlega, fyrr en nú. Benda þær til þess að þungur róður sé framundan í þessari helstu atvinnugrein þjóðarinnar. „Það stefnir í mjög hörð átök og við erum að sjá bókunarstöðuna fyrir hótelin á höfuðborgarsvæðinu vera talvert verri fyrir næsta sumar en frá árinu áður,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar um niðurstöðu könnunarinnar. Hann bætir við að áhrifa af yfirvofandi verkföllum sér þegar farið að gæta.
„Það er dýrt að ferðast til Íslands og það er segin saga að ef ferðamenn sjá fyrir að það verði vandamál með hótelgistingu eða annað sem snýr að ferðinni; þá er eins víst að fólk afbóki, fresti ferðinni, velji sér annan áfangastað eða komi síðar.“
Skóinn kreppir víða
Könnunin nær til um 200 fyrirtækja í öllum geirum ferðaþjónustunnar. Það vekur athygli að flest fyrirtæki í þessum geira, eða 56 prósent, eru lítil fyrirtæki með 10 eða færri starfsmenn. 38 prósent þeirra velta innan við 100 milljónum króna á ári. Þegar forsvarsmenn fyrirtækjanna eru spurðir út í lykilþætti í rekstri fyrirtækisins í ár standa þrjú svör upp úr – gengismál, kjaramál (launaþróun) og hagræðing í rekstri. Þetta er breyting frá því áður þar sem gæðamál og samkeppni við erlenda aðila voru efst á baugi.
Líklegt er að starfsfólki fækki og það er þegar byrja.
„Það er bara verið að spá í kostnað. Þetta snýst um að ná tökum á rekstrinum,“ segir Sævar Kristinsson, stjórnendaráðgjafi hjá KPMG. „Það blasir við að skóinn kreppir víða í ferðaþjónustunni,“ útskýrir hann og vitnar til þess að 63 prósent svarenda hafi talið líklegt eða mjög líklegt að það þurfi að bregðast við niðurstöðum kjarasamninga með hagræðingu. „Svo er spurning hvernig á að hagræða, líklegt er að starfsfólki fækki og það er þegar byrjað.“
Uppsagnir yfirvofandi
Flest fyrirtækin, 35 prósent, horfa til þess að fækka starfsfólki verði gengið að kröfum verkalýðsfélaganna í yfirstandandi kjaraviðræðum. 22 prósent segjast munu hækka verð á vörum eða þjónustu á meðan 21 prósent nefna aðrar hagræðingaraðgerðir. Einungis 13 prósent segjast ekki þurfa að grípa til sérstakra aðgerða. Jóhannes segir að spurningin sem blasir við sé sú hverjir muni tapa á verkfallsaðgerðum.
Ég held að verkalýðsfélögin séu ekki að átta sig á því að þeirra félagsmenn munu ekki verða kátir með afleiðingarnar af þessu.
„Ég held að verkalýðsfélögin séu ekki að átta sig á því að þeirra félagsmenn munu ekki verða kátir með afleiðingarnar af þessu. Fyrirtækin segja öll að þau þurfi að hagræða mjög mikið í rekstri, og við vitum öll hvað það þýðir. Launakostnaðurinn er langstærsti þátturinn rekstrinum og eina leiðin til að skera niður launakostnað er að fækka störfum.“
Verkföll hafa snjóboltaáhrif
Líkt og fram kom í Mannlífi í síðustu viku benda flestar hagtölur til samdráttar í ferðaþjónustu, hvort sem horft er til fjölda ferðamanna, fjölda flugferða til og frá landinu og fjölda gistinátta. Forsvarsmenn verkalýðsfélaga hafa lýst því yfir að ferðaþjónustan sé aðalskotmarkið á meðan forsvarsmenn hennar segja að þangað sé einfaldlega ekkert að sækja.
Jóhannes segir áhrif vinnustöðvana nái langt út fyrir þau fyrirtæki sem vinnustöðvanir eiga að ná til og nefnir sem dæmi afþreyingarfyrirtæki sem bjóða upp á sérsniðnar ferðir eins og vélsleðaferðir á jökla.
„Þar eru hópferðafyrirtækin mjög mikilvæg. Ef þau detta út þá þarf annað hvort að finna einhverjar reddingar sem kosta meira, það þarf að finna mannskap og bíla og í sumum tilfellum er það ekki hægt. Þannig að þetta hefur gríðarleg áhrif langt út fyrir þau fyrirtæki sem aðgerðir beinast beint að. Auk þess vitum við í rauninni ekki hvenær snjóboltinn rennur sitt skeið á enda þegar hann fer af stað á þessu bókunartímabili fyrir sumarið eða hversu lengi þetta mun hafa áhrif á íslenska ferðaþjónustu, hver eftirköstin verða.“