Fimmtudagur 25. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Óánægja meðal kvikmyndagerðarmanna

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Reiði meðal kvikmyndagerðarmanna vegna ráðningar nýs ráðgjafa hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands.

Mikil óánægja ríkir meðal kvikmyndagerðarmanna vegna ráðningar nýs ráðgjafa hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands. Felst óánægjan meðal annars í því að starfið skuli ekki hafa verið auglýst laust til umsóknar. Kvikmyndagerðarmaður sem Mannlíf ræddi við og ekki vill láta nafns síns getið segir marga kvikmyndagerðarmenn setja spurningamerki við faglega þekkingu og hæfi Önnu Maríu Karlsdóttur framleiðanda sem var ráðin til að gegna stöðunni. „Hún kemur í stað Martins Schlüter sem hefur farið yfir styrkumsóknir fyrir heimildamyndir,“ segir viðkomandi. „Margir voru ósáttir við að aðili sem hefur ekki víðtækari þekkingu en hún á heimildamyndagerð skuli vera ráðin í þá stöðu að veita ráðgjöf varðandi klippingu og handritagerð slíkra mynda. Þegar athugasemd var gerð við þetta var starfslýsingunni skyndilega breytt og hún einfaldlega titluð sem ráðgjafi og gefið í skyn að fyrirkomulagið væri bara til bráðabrigða til að fylla upp í eyðuna sem varð þegar Martin hætti. Þetta er allt saman stórskrítið, því eins og þetta lítur út núna er eins og þetta sé klíkustarfssemi og fólk er brjálað út af þessu. Það hefði klárlega mátt fyrirbyggja stöðuna sem er komin upp með því að auglýsa starfið laust til umsóknar.“

Misskilningur á ferð

Mannlíf náði sambandi við Laufeyju Guðjónsdóttur, forstöðumann Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, sem segir í skriflegu svari að um sé að ræða tímabundna ráðningu „til sex mánaða og heimilt að ráða þannig án auglýsingar. Sá sem gegndi starfinu þurfti að hætta með mjög stuttum fyrirvara vegna annarra starfa og því töldum við áríðandi að fylla í skarðið sem fyrst. Það er sem sagt millibilsástand núna en má vænta breytinga og verður auglýst eitthvað síðar.“

Laufey segir jafnframt að viðkomandi sem var ráðin búi yfir viðamikilli þekkingu á flestum sviðum kvikmyndagerðar síðastliðin u.þ.b. 25 ár auk þess að vera vel að sér í kvikmyndasögu og menningu. „Reynslan er meðal annars í þróun verkefna, framleiðslu, kynningu og markaðssetningu. Það er rétt að mestanpart hafa það verið leiknar myndir þótt hún hafi líka komið að heimildamyndagerð. Það má vænta þess að bakgrunnur hennar sé þannig að hún hafi forsendur til að vinna á faglegum nótum – þótt vissulega þurfi flestir að taka á þegar fengist er við nýtt starf,“ svarar hún og bendir m.a. á að handrit, efnistök og strúktúr hvers verkefnis sé metið af kvikmyndaráðgjafa auk framleiðslu-, kostnaðar- og dreifingarmáta, o.s.frv. Það gæti því ef til vill smámisskilnings „að viðkomandi eigi að veita rágjöf um klippingu og vinnslu myndarinnar, það er alltaf á höndum hvers leikstjóra eða þeirra sem hann velur með sér til verksins.“

Getur ekki tjáð sig um einstök mál

Mannlíf hafði samband við Margréti Örnólfsdóttur, formann Félags leikskálda og handritshöfunda vegna málsins. Hún sagðist ekki geta tjáð sig um þetta einstaka mál, en það láðist að koma því á framfæri við vinnslu fréttarinnar. Margrét sagði að almennt væri gott ef allir verkferlar væru skýrir til að fyrirbyggja misskilning. „Ég tel mjög mikilvægt að starf ráðgjafa sé auglýst. Að það sé farið eftir verkferlum sem eru gegnsæir,“ segir Margrét. „Þetta er lítill sjóður, fáir ráðgjafar og mikið undir hjá fólki, því ráðgjafarnir hafa úrskurðarvald um framtíð verkefnanna sem fólk er að vinna að. Það er því skiljanlegt að fólki sé ekki sama hvernig staðið er að þessu. Þetta verður að vera faglegt og uppi á borðum og það er slæmt ef einhver vafi leikur á því að þetta sé í lagi,“ bendir hún á. „Ég get ekki tjáð mig um ráðningar einstakra ráðgjafa, en það er mikilvægt að svona ferli séu skýr svo það komi ekki upp einhver misklíð sem fer að beinast að persónum sem eiga í hlut. Því á endanum snýst hlutverk Kvikmyndasjóðs um að styðja við íslenska kvikmyndagerð, svo við höldum áfram að eflast og þroskast sem atvinnugrein.“

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -