Föstudagur 19. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

Óhræddur við að vera hræddur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það kom þjóðinni heldur betur á óvart þegar íslenski bardagamaðurinn Gunnar Nelson var sleginn rothöggi í síðasta bardaga sínum. Flestir bjuggust við að hann myndi sigra.

Gunnar er ekki að svekkja sig á tapinu heldur sér bæði sigra og ósigra sem tækifæri til að bæta sig. Hann segir mannlegt að finna fyrir ótta en hugrekki felist í því að sigrast á honum. Nú bíður hann því spenntur eftir fregnum um næsta bardaga og hver andstæðingurinn verður en hver svo sem það verður stefnir Gunnar á sigur.

„Ég hélt að eini vandinn væri að ég sæi tvöfalt og þá væru allavega 50/50 líkur á að ég hitti á réttan gaur.“

„Þetta fór eins og það fór – ég get ekkert breytt því núna. Ponzinibbio náttúrulega bara svindlaði,“ segir Gunnar ákveðinn. Hann segist muna skýrt eftir bardaganum auk þess sem hann hafi horft á hann aftur til að staðfesta upplifun sína. „Þetta var helvíti hraður bardagi og hreint út sagt ömurlegur fyrir mig. Við komum báðir út úr hornunum í byrjun og þó að hann pressi aðeins næ ég strax nokkuð góðu „uppercut-höggi“ á hann. Þá kemur hann hins vegar út með útrétta hönd og potar djúpt í bæði augun á mér. Eftir það sé ég tvöfalt, sé bókstaflega tvo gæja fyrir framan mig. Ég reyni samt að hrista þetta af mér og fela það fyrst dómarinn gerði ekki neitt. Ég næ inn sparki og kannski höggi en svo kemur högg frá honum sem rétt fer fram hjá mér og þá átta ég mig á því að ég skynja ekki fjarlægðina á milli okkar rétt. Ég hélt að eini vandinn væri að ég sæi tvöfalt og þá væru allavega 50/50 líkur á að ég hitti á réttan gaur. Hann nær höggi á mig, grípur í buxurnar mínar og dregur mig til sín, svo þegar ég er kominn upp við búrið og er að reyna að verja mig potar hann aftur í augun á mér. Þannig að ég er með lokuð augun þegar hann nær rothögginu.“

Gunnar datt ekki lengi út en þetta var svokallað „flash-knockout“ sem þýðir að bardagakappinn rotast aðeins í nokkrar sekúndur og þegar hann rankar við sér er hann hvorki vankaður né ringlaður. „Þetta er svona „best case scenario-rothögg“. Ég vissi alveg hvar ég var og hvað væri í gangi.“

„Upprunalega eru þetta samt sjálfsvarnaríþróttir og til þess að þú lærir að verja þig þarf auðvitað einhver að ráðast á þig. Þetta snýst því um að yfirbuga andstæðinginn, ekki ráðast á hann.“

Í viðtölum strax eftir bardagann tók Gunnar stóran hlut ábyrgðarinnar á sig og sagði að hann hefði átt að stoppa bardagann strax. Þessu voru hins vegar faðir hans, Haraldur Dean Nelson, og þjálfari, John Kavannagh, ekki sammála og samkvæmt reglum getur aðeins dómari stöðvað bardaga, ekki bardagakappi. „Ég hefði kannski getað reynt að gera dómaranum viðvart að það væri ekki í lagi með mig. Það getur samt verið áhættusamt fyrir mig að taka um augun eða ná til dómarans því andstæðingurinn getur þá nýtt tækifærið og slegið til manns.“

Vildi setja fordæmi

Gunnar fór fremur sigurviss inn í bardagann við Ponzinibbio, eins og flesta aðra bardaga. Ef ekki hefði verið fyrir meint svindl andstæðingsins hefði hann að öllum líkindum staðið uppi sem sigurvegari, eins og svo margir bjuggust við. Gunnar og teymið hans ákváðu því að kæra útkomuna til UFC. „Til að byrja með var ég ekki viss um að ég vildi standa í því, ég nennti ekki að eyða meiri tíma og púðri í þetta. Það er mjög erfitt að fá útkomu bardaga breytt eða hnekkt, jafnvel þó að maður geti sýnt fram á svindl og manni finnist það vera borðleggjandi.“

- Auglýsing -

Ein af upphaflegu grunnreglum UFC segir að það megi ekki pota í augu andstæðingsins og í ársbyrjun var nýrri reglu bætt inn til að styðja þá grunnreglu sem bannar bardagamönnum að slá í átt að andliti með ókrepptan hnefa. Gunnar kærði því úrslitin fyrst og fremst til að vekja athygli á þessu broti og setja fordæmi. „Ef ég hugsaði um íþróttina í heild og ekki bara um sjálfan mig þá var réttast að kæra. Þetta mun ábyggilega gerast aftur og vonandi verður það minna mál fyrir næsta sem lendir í þessu.“

UFC hafnaði loks kærunni í september svo úrslitin standa. Þó að sú ákvörðun hafi ekki komið Gunnari og teymi hans á óvart var hún engu að síður mikil vonbrigði. „Ég var kominn á skrið þarna og þetta sló mig aftur,“ segir Gunnar en hann féll niður um tvö sæti á styrkleikalista UFC við tapið. „Þetta er auðvitað fúlt en það eina sem ég get gert er að læra af þessu. Ég lít á þetta sem reynslu og veganesti fyrir framtíðina. Þótt það sé erfitt að reyna að stoppa svindlara veit ég allavega að ef ég lendi í einhverju álíka aftur mun ég reyna að láta dómarann vita svo hann geti stöðvað bardagann – og reyna að vera ekki sleginn niður áður. Maður þarf að fá tækifæri til að jafna sig eftir svona árás, því það er frekar áríðandi að sjá almennilega í bardaga,“ segir Gunnar og hlær.

Hingað til hefur Gunnar komist hjá því að fá á sig þung höfuðhögg eða rothögg. Hann segist þó alltaf verið undirbúinn undir það og þetta muni því ekki breyta neinu hvað varðar þjálfun. „Við pössum okkur mikið á höfuðhöggum. Við æfum aðeins með léttari höggum, menn bera virðingu fyrir og vita hvenær þeir fá á sig högg, án þess að við þurfum alltaf að vera að slá í gegn. Þetta er samt fín lína því auðvitað þurfa menn að upplifa orkuna sem þeir munu finna í alvöru bardaga án þess að verða fyrir óþarfa skaða á æfingu. Þá er hætta á að menn veðrist of mikið á að æfa.“

- Auglýsing -
„Það er eðlilegt að upplifa alls kyns tilfinningar, bæði jákvæðar og neikvæðar, en það sem skiptir máli er hvernig maður tekst á við þær.“

MMA er lífsstíll

Gunnar var mjög orkumikill sem barn – það þurfti mikið að hafa fyrir honum og hafa ofan af fyrir honum. Foreldrum hans var því strax ljóst að hann hefði gott af því að stunda íþróttir. Gunnar fékk snemma áhuga á á bardagaíþróttum. Faðir hans, Haraldur Dean Nelson, var mikill áhugamaður og hafði bæði æft karate og kick-box á sínum tíma. Þeir feðgar horfðu oft saman á Bruce Lee-myndir og Gunnar vildi strax fara að æfa karate. Haraldur hvatti hann hins vegar til að æfa íshokkí því honum fannst hann þurfa íþrótt sem byði upp á meiri hasar og hreyfingu, en karate einkennist fyrst og fremst af miklum sjálfsaga og einbeitingu. Algengt er að börn missi áhugann og flosni upp úr karate á unglingsárunum og Haraldur vildi síður að það kæmi fyrir Gunnar.

Hann var því þrettán ára þegar hann hóf loks að æfa karate og náði strax miklum árangri. Hann vann Íslandsmeistaratitilinn í sínum flokki rúmu ári síðar og hélt þeim titli næstu tvö árin. Árið 2005, þegar hann var aðeins sextán ára, var Gunnar valinn efnilegasti karate-maður landsins en skömmu síðar hætti hann og sneri sér alfarið að MMA.

Í dag lítur hann á MMA sem lífsstíl og segir íþróttina hafa gefið sér mikið. „Maður lærir svo mikið um sjálfan sig. Ég er til að mynda skapstór, og hef alltaf verið, en í gegnum MMA hef ég lært að hafa stjórn á tilfinningum mínum. Í búrinu koma ýmsar tilfinningar upp á yfirborðið og þær geta hlaupið með mann í gönur. Maður þarf því að beisla þær, nýta orkuna úr þeim og tækla andstæðinginn og bardagann með rökfestu og skynsemi.

„Ég held að ég hafi alltaf verið með dálítinn athyglisbrest. En ég á mjög auðvelt með að einbeita mér svo lengi sem það er einhver hreyfing og hraði á hlutunum.“

Þetta hefur líka hjálpað mér í aðstæðum í lífinu utan íþróttarinnar. Það er eðlilegt að upplifa alls kyns tilfinningar, bæði jákvæðar og neikvæðar, en það sem skiptir máli er hvernig maður tekst á við þær. Þú ert ekki verri manneskja þótt þú verðir reiður eða afbrýðissamur, eða hvað sem það er, heldur er það hvað þú gerir við þessar tilfinningar sem skilgreinir þig og persónu þína.“

Gunnar segist líka geta verið mjög óþolinmóður og afar ör í hugsun. „Ég er oft farinn að hugsa um tuttugu hluti í einu. Ég held að ég hafi alltaf verið með dálítinn athyglisbrest. En ég á mjög auðvelt með að einbeita mér svo lengi sem það er einhver hreyfing og hraði á hlutunum.“

Það er stundum talað um að hugurinn skipti jafnmiklu máli og líkamsformið í bardagalistum. Tap getur óneitanlega haft meiri og verri áhrif á hugann en Gunnar vill meina að það skipti máli hvernig menn líti á og vinni úr tapinu. „Þú ákveður hvaða áhrif það hefur; ætlarðu að nota það, læra af því og láta það gera þig hungraðari eða ætlarðu að koðna niður? Sumir bardagamenn eru mjög háðir sviðsljósinu og kokhraustir út á við. Ég gæti alveg trúað því að það fari illa með þá að tapa. Jú, jú, það er alltaf skemmtilegra að vinna en ég lít á allt sem tækifæri til að bæta mig. Ég horfi til baka og tek það sem ég þarf úr upplifuninni en held svo áfram.“

Harkaleg íþrótt, ekki ofbeldi

Tíu ár eru liðin síðan Gunnar fór út í atvinnumennsku í MMA og á þeim tíma hefur hann barist í tuttugu bardögum; það gerir sextán sigra, þrjú töp og eitt jafntefli. Í ár átti hann einnig fimm ára UFC-afmæli. Aðspurður hvaða bardagi hafi verið erfiðastur segir Gunnar það tvímælalaust hafa verið við Demian Maia. Gunnar var ekki heill heilsu skömmu fyrir þann bardaga. „Ég átti einfaldlega mjög slæmt kvöld og veit ekki nákvæmlega hvers vegna. Ég var sprækur í kollinum en mér fannst orkubirgðir mínar klárast alltof hratt og líkaminn þreytast við litla áreynslu. Ég hef aðeins reynt að stúdera þetta en eina niðurstaðan sem ég hef komist að er að það er bara dagamunur á mönnum og þetta var ekki minn dagur.“

Á þessum árum hefur hann lært eitt og annað. „Af Maia-bardaganum lærði ég gefast ekki upp þrátt fyrir þreytu. Ég var gjörsamlega búinn á því og hefði oft getað fundið leið út en gerði það ekki heldur hélt áfram að berjast. Það er jákvæð lexía sem ég gat tekið úr þeim bardaga.“

Bardagastíll Gunnars er sagður óhefðbundinn og hann tekur alveg undir það. „Ég byrjaði í karate og er því með hraða fótavinnu, þennan inn og út stíl sem tíðkast þar, en síðan hef ég líka varið mjög miklum tíma á gólfinu í glímu. Þessi samsetning sést ekki oft og er fremur sjaldgæf – menn eru yfirleitt góðir í öðru hvoru. Annars er kannski erfitt fyrir mig að lýsa stílnum. Ég reyni samt stöðugt að bæta hann. Mér finnst gott að hafa eitthvað að vinna í, eitthvað til að bæta. Ég er ekki beint með stór, ákveðin markmið sem ég stefni að heldur þykir mér gaman að dunda við eitthvað og æfa mig. Ég er dálítill „craftsman“ og vil vinna að einhverjum hæfileika, bæta og þróa hann.

„Ég veit það sjálfur að mér finnst oft miklu óþægilegra þegar einhver náinn mér er að fara að berjast heldur en þegar ég sjálfur geri það. Það getur verið mjög stressandi.“

MMA hefur iðulega verið gagnrýnt fyrir að vera ofbeldisfull íþrótt en Gunnar bendir á að það sé ekki hægt að tala um ofbeldi þegar tveir þrautþjálfaðir einstaklingar takist á í bardaga sem þeir hafi báðir samþykkt. „Það eru fjölmargar íþróttir hættulegar og MMA er alls ekki hættulegasta íþróttin, það er bara staðreynd. Þetta er samt mjög harkaleg íþrótt og það getur stuðað fólk sem finnst kannski að eini tilgangurinn með íþróttinni sé að meiða einhvern. Upprunalega eru þetta samt sjálfsvarnaríþróttir og til þess að þú lærir að verja þig þarf auðvitað einhver að ráðast á þig. Þetta snýst því um að yfirbuga andstæðinginn, ekki ráðast á hann. Reglurnar eru eins góðar og hægt er án þess að gera bardagann óraunhæfan. Auk þess eru læknar á staðnum ef eitthvað skyldi fara úrskeiðis. Það er mjög góð umgjörð utan um þetta.“

Gunnari er yfirleitt lýst sem yfirveguðum og rólegum gaur, innan og utan búrsins. Það virðist lítið fá á hann en það er ekki þar með sagt að hann hræðist ekkert. „Auðvitað verð ég smeykur. Það er allt í lagi að verða hræddur, bara mannlegt, en ætlarðu að leyfa óttanum að stjórna þér eða ætlar þú að horfast í augu við hann? Hugrekki er að mínu mati afar góður eiginleiki en það þýðir ekki að þú verðir ekki hræddur heldur nærðu að sigrast á hræðslunni – þú ert óhræddur við að vera hræddur,“ segir hann.

„Ég geri ráð fyrir að berjast í nokkur ár í viðbót en er ekki með neinn ákveðinn tíma í huga. Ég er voðalega lítið að hugsa langt fram í tímann, tek frekar einn dag í einu.“

Einstök stöð

Hefðbundnum degi í lífi Gunnars er mestmegnis varið í Mjölni þar sem hann bæði æfir og kennir. Hann er einn tíu stofnmeðlima íþróttafélagsins sem var sett á laggirnar árið 2005. Í febrúar á þessu ári tóku þeir í gagnið nýja aðstöðu í Öskjuhlíð þar sem Keiluhöllin og Rúbín voru einu sinni til húsa. Þar er að finna sex æfingasali, lyftinga- og teygjuaðstöðu, þrektæki, MMA-búr, boxhring, barnahorn og margt fleira.

„Mjölnir er einstakt batterí. Ég hef ferðast víða, nánast um allan heim, og farið í stöðvar en það jafnast ekkert á við Mjölni. Það er frábær andi þar innandyra og það segja það líka allir sem koma hingað. Þótt þetta sé bardagaklúbbur er ábyggilega minni tuddaskapur hér en í margri annarri líkamsrækt.

Við leyfum ekki dæmdum og þekktum afbrotamönnum að æfa í Mjölni, svo ég tali nú ekki um þá sem hafa verið dæmdir fyrir líkamsárásir, við viljum ekki sjá þá. Þetta er íþrótt og við viljum bara hafa fólk sem hefur gaman af því að taka á því, svitna, læra eitthvað og vera í góðum félagsskap. Það er það sem við stöndum fyrir,“ segir hann.

Gunnar fer ýmist á eina eða tvær æfingar á dag og æfingarnar eru miserfiðar. „Á mánudögum, til dæmis, kenni ég í hádeginu, klukkan eitt fer ég á æfingu þar sem ég tek mjög vel á því í einn og hálfan tíma. Eftir slíkar æfingar geri ég yfirleitt lítið um kvöldið, ef eitthvað, kannski helst einhverja tæknilega æfingu.“
Hann æfir jafnt og þétt yfir árið og tekur sér sjaldan hlé frá æfingum. Fyrir bardaga tekur hann svokallað „camp“ þar sem hann trappar upp æfingarnar og tekur fleiri spretti en vanalega. „Maður verður samt að passa sig og halda líkamanum góðum, það er ekki gott að lenda í ofþjálfun. Það skiptir miklu máli að skipuleggja campið vel og hafa góða blöndu af þungum og léttum æfingum svo maður nái hvíld. Eftir bardagann er svo líka mikilvægt að taka smápásu frá æfingum til að halda geðheilsunni – þetta snýst um jafnvægi.“

Glímir við soninn

Þegar Gunnar er ekki í Mjölni lifir hann ósköp venjulegu lífi. Aðra hverja viku er hann með son sinn, Stíg Tý Nelson, og vaknar fyrr þá daga til að koma honum af stað í leikskólann. Þar fyrir utan ver hann tíma með kærustu, vinum og fjölskyldu, horfir á sjónvarpið og spilar Playstation.

Gunnar er í sambandi með Fransisku Björk Hinriksdóttur en þau kynntust fyrir um ári. Hún er að hans sögn orðin nokkuð vön að horfa á hann berjast.

„Ég er skapstór, og hef alltaf verið, en í gegnum MMA hef ég lært að hafa stjórn á tilfinningum mínum.“

„Það er auðvitað ekkert sérstaklega þægilegt fyrir hana, eða almennt þá sem standa mér næst, að horfa á mig í búrinu. Ég veit það sjálfur að mér finnst oft miklu óþægilegra þegar einhver náinn mér er að fara að berjast heldur en þegar ég sjálfur geri það. Það getur verið mjög stressandi. Hún tekur því samt bara mjög vel.“

Stígur Týr er orðinn þriggja og hálfs árs og farinn að átta sig á hvað faðir hans gerir. „Honum finnst gaman að skuggaboxa, glíma og þess háttar – hann er aðallega í því að glíma við mig. Hann er rosalega orkumikill og algjör gaur. Mamma vill meina að ég hafi átt hann fullkomlega skilið miðað við hvernig ég var sem barn.

Ég mun klárlega leyfa honum að prófa barnastarfið hérna í Mjölni þegar hann verður eldri, sjá hvort hann hafi gaman af því. Það er frábærlega vel staðið að barnastarfinu og það er bara gott fyrir krakka að bæta almenna hreyfigetu og fá aðeins að takast á á vinalegan hátt. Það er hollt og þroskandi. Það eru dæmi um krakka sem hafa komið og átt eitthvað erfitt með sig en hér hafa þau byggt upp sjálfstraust og róast í sjálfum sér. Fyrir suma þá er þessi íþrótt bara algjörlega málið.“

Aðspurður um hvernig faðir hann sé segir Gunnar að það verði bara að spyrja Stíg að því. „Ég hef allavega ákveðnar skoðanir á hvernig ég vil ala hann upp. Mér finnst gott að leyfa honum að finna út úr hlutunum sjálfur en læt hann jafnframt ekki komast upp með bull og frekju. Maður þarf að láta þau vita hvað sé í lagi og hvað ekki. Krakkar þurfa að fá að takast á við sín vandamál og taka út pirring eða óánægju en svo er það bara búið. Það er í raun mjög einfalt að halda honum glöðum svo lengi sem maður er duglegur að finna upp á einhverju nýju að gera. Krakkar vilja endalaust læra eitthvað nýtt þannig að stundum er nóg að breyta um umhverfi eða stemningu.“

Kallar eftir bardaga

Í mörgum íþróttum ná menn hátindi sínum milli tvítugs og þrítugs en það er ekki óalgengt að bardagakappar í MMA séu að toppa sig seinna. Gunnar er til dæmis tuttugu og níu ára og enn að bæta sig. „Ég geri ráð fyrir að berjast í nokkur ár í viðbót en er ekki með neinn ákveðinn tíma í huga. Ég er voðalega lítið að hugsa langt fram í tímann, tek frekar einn dag í einu. Ég mun samt alltaf vera í þessu sporti með einum eða öðrum hætti. MMA er svo hrikalega stór hluti af mér og ég elska íþróttina af öllu hjarta. Þótt ég hætti að berjast þá er það bara partur af ferðalaginu, vissulega stór partur, en ég mun halda áfram að kenna og þróa þessa íþrótt.

Eftir Ponzinibbio-bardagann tók Gunnar sér hlé til að jafna sig almennilega. Reglur UFC kveða á um að bardagakappar séu settir í fjörutíu og fimm daga keppnisbann eftir rothögg en teyminu fannst það vera of lítið. „Ég er tiltölulega nýfarinn að æfa aftur að ráði, kannski rúm vika síðan ég byrjaði af kappi. Síðustu æfingar hafa gengið mjög vel og ég er bara að koma mér aftur í toppform. En ég er búinn að jafna mig og tilbúinn í næsta bardaga.“

„Mjölnir er einstakt batterí. Ég hef ferðast víða, nánast um allan heim, og farið í stöðvar en það jafnast ekkert á við Mjölni. Það er frábær andi þar innandyra og það segja það líka allir sem koma hingað.“

Það vakti athygli nýverið þegar Gunnar virtist kalla eftir bardaga við Darren Till í athugasemd á Instagram. Till kom inn í UFC nýverið með hvelli og sagði að allir væru of hræddir við að berjast við hann. Gunnar svaraði þessari staðhæfingu með orðunum: „Ég er til stóri strákur.“ „Það urðu einhveru uppþot í kringum þessi ummæli mín á Netinu. En ég er til í bardaga og Darren tók líka vel í þennan möguleika. Þetta kemur bara í ljós en mér finnst líklegt að á næstu vikum tilkynni UFC hvenær ég muni berjast næst og við hvern það verður,“ segir Gunnar að lokum og það er greinilegt að hann er hvergi banginn.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -