Fimmtudagur 28. mars, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Örlög Wow air ráðast á föstudag

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í gær voru viðskipti með hlutabréf í Icelandair stöðvuð í annað skiptið í nóvember. Rétt fyrir hádegi kom síðan tilkynning frá Icelandair um að ólíklegt væri að öll skilyrði myndu nást varðandi kaupi félagsins á Wow air fyrir hluthafafund sem haldin verður á föstudag, 30. nóvember. Einnig voru viðskipti með bréf félagsins stöðvuð þann 5. nóvember þegar tilkynnt var um kaup Icelandair á Wow air.

Um helgina bárust fréttir af því að dótturfélag Icelandair hygðist kaupa 51% hlut í ríkisfélaginu Cabo Verde Airlines á Grænhöfðaeyjum. Ætlunin væri að nota staðsetningu þess svipað og Keflavík og tengja eyjarnar fyrir flugumferð um Atlantshaf. Reyndar er komið meira en ár síðan Icelandair hóf samstarf á Grænhöfðaeyjum.

Aðilar á markaði höfðu þó ekki trú á að þessi frétt um kaup á félagi á Grænhöfðaeyjum væru ástæður þess að lokað var fyrir viðskipti með bréf Icelandair. Líkt og kom svo í ljós.

Ný tilkynning Icelandair til Kaupahallar í morgun

Í morgun kom svo önnur tilkynning frá Icelandair þar sem það tilkynnti um að viðræður væru hafnar við skuldabréfaútgefendur um breytingar á skilmálum skuldabréfa félagsins og að markmiðið sé að styrkja stöðu þess. Icelandair fékk tímabundna undanþágu frá fjárhagslegum skilmálum til föstudags en þá er haldinn hluthafafundur í félaginu. Umræddir skilmálar tengdust lágmarksafkomu félagsins.

Alvarlegur lausafjárvandi WOW air

Eins og áður hefur komið fram var lausafjárstaða Wow air um síðustu mánaðamót líklega ein helsta ástæða þess að Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi flugfélagsins ákvað að leita á náðir Icelandair. Lausafé hafi verið nær uppurið þegar búið var að greiða laun og aðra reikninga. Nú er útlit fyrir að næstkomandi mánaðamót verði félaginu jafnvel enn erfiðari en þau síðustu. Segja má að þetta minni um margt á stöðu íslenskra fjármálafyrirtækja síðustu mánuðina fyrir hrun. Þar var það yfirleitt lausafjárstaða sem var að skapa þeim vandræði. Í fjárfestakynningu sem kynnt var vegna skuldabréfaútboðs Wow air kom fram að handbært fé frá rekstri hafi einungis numið sex milljónum dollara í júní á þessu ári.

- Auglýsing -

Í gær sendi Skúli Mogensen svo tölvupóst á starfsmenn Wow air þar sem hann fullyrti að fleiri aðilar en Icelandair hefðu sýnt flugfélaginu áhuga. Wow air væri því í viðræðum við fleiri en Icelandair um yfirtöku á félaginu. Morgunblaðið sagði svo frá því í morgun að þessi tölvupóstur Skúla hefði valdið titringi og forsvarsmönnum Icelandair hafi ekki verið kunnugt um þær.

Víkurfréttir fullyrtu svo á föstudag að verulega verði fækkað í flugþota Wowair. Leggja þurfi átta af tuttugu þotum félagsins. Icelandair og Wow air myndu samnýta leiðarkerfi á marga áfangastaði og þannig væri hægt að fækka vélum Wow air um þriðjung.

Hvar liggur vandi Wow air?

- Auglýsing -

Margir samhangandi þættir eru að valda Wow air vanda þetta haustið. Áhugi á skuldabréfaútboði Wow air í haust var minni en vonast var til. Síhækkandi olíuverð. Þá er Skúli Mogensen mikill markaðsmaður en töluvert virðist vanta í aðrar deildir eins og td. fjárstýringu. Þannig gerir Icelandair framvirka samninga á olíukaupum sem Wow air gerir ekki. Tímasetning á að hefja flug til Bandaríkjanna árið 2015 hefði líklega ekki getað verið betri. Almennt góðæri vestan og austanhafs og eldsneytisverð lágt. Yfirbygging Wow air í samanburði við Icelandair er þó enn í dag allt önnur. Það sést vel í úttekt sem hagfræðideild Landsbankans gerði á félögunum tveimur. Þar kom fram að launakostnaður sem hlutfall af tekjum væri 19% hjá Wow air en 33% hjá Icelandair. Hjá Wow air starfa um 1.500 starfsmenn en 3.500 hjá Icelandair.

Hjá Wow air starfa um 1.500 starfsmenn en 3.500 hjá Icelandair.

Þann 10. nóvember sagði Morgunblaðið svo frá því að vegna forgangsréttarákvæðis í samningum Icelandair gætu félagsmenn í Félagi íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) átt forgang á flug í flugvélum Wow air. Með þessu móti myndi launakostnaður auðvitað hækka hjá Wow air. Þannig hafi samningur FÍA komið í veg fyrir að Icelandair Group gæti stofnað lággjaldaflugfélag þar sem önnur launakjör myndi gilda en hjá móðurfélaginu. Má i framhaldinu velta fyrir sér stöðu á kjarasamningum hjá flugfreyjum.

Siglir Icelandair lygnan sjó?

Segja má að staða Icelandair sé allt önnur en Wow air. Má þar fyrst nefna að í síðustu fjárfestakynningu félagsins kom fram að eiginfjárhlutfall þess var 36% í lok september á þessu ári eða rúmir 70 milljarðar króna. Til samanburðar nam eiginfjárhlutfall Wow air einungis 4,5% í júní á þessu ári. Því verður að teljast ólíklegt að Icelandair lendi í sambærilegum vandræðum og Wow air.

Þegar Icelandair var yfirtekið vorið 2009 glímdi félagið við allt aðrar aðstæður en í dag. Þá fólst vandinn einmitt líka í lausafjárvanda eins og hjá Wow air í dag auk þess sem félög helstu hluthafa voru komin með neikvætt eigið fé vegna mikillar lækkunar íslensku krónunnar. Þá voru helstu eigendur Icelandair Finnur Ingólfsson, Steingrímur- og Karl Wernerssynir og Einar Sveinsson svo nokkrir séu nefndir. Þá var Gunnlaugur Sigmundsson stjórnarformaður Icelandair.

Ómar Benediktsson.

Í dag eru stærstu hluthafar Icelandair íslenskir lífeyrissjóðir. Flestir þeirra keyptu hlutabréf sín í flugfélaginu þegar hlutabréfin voru mjög lág árið 2010 og hafa fyrir löngu fengið til baka sína fjárfestingu. Þó má segja að það vanti fólk með alþjóðlega reynslu af flugrekstri í stjórn Icelandair eftir að Sigurður Helgason, fyrrum forstjóri Icelandair lét af stjórnarformennsku árið 2017. Þó má nefna að Ómar Benediktsson kom inn í stjórn eftir að Sigurður hætti. Hann hefur áður komið að rekstri hjá Íslandsflugi, Air Atlanta og SmartLynx airlines. Þá sat Ómar einnig í stjórn Icelandair og var stór hluthafi áður en félagið var yfirtekið vorið 2009.

Brotthvarf Björgólfs Jóhannssonar úr stóli forstjóra Icelandair í lok ágúst hefur skapað tímabundin titring. Við starfi hans tók Bogi Nils Bogason, fjármálastjóri Icelandair sem mun sinna því þar til nýr forstjóri verður ráðin. Líklega myndi það skapa mesta tiltrú ef ráðinn yrði erlendur forstjóri með alþjóðlega reynslu af flugrekstri. Fyrir slíku er þó lítil hefð á Íslandi.

Áhugavert verður að fylgjast með fréttum næsta föstudag þegar Icelandair heldur hluthafafund sinn á síðasta degi mánaðarins. Verður að teljast afar líklegt að örlög Wow air gætu ráðist nú í lok vikunnar. Ef allt færi á versta veg gæti félagið jafnvel þurft að óska eftir nauðasamningum. Því liggur mikið undir að farsæl lausn finnist varðandi framtíð Wow air.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -