Föstudagur 29. mars, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Ráðin framkvæmdastjóri þjóðarhljómsveitar Kanada

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Arna Kristín Einarsdóttir, sem hefur verið framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands undanfarin ár, hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri Þjóðarhljómsveitar Kanada, National Arts Centre Orchestra, og hefur hún störf með vorinu.

Texti / Svava Jónsdóttir

Arna Kristín Einarsdóttir var ráðin sem framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands árið 2013 og er ráðið í stöðuna til fjögurra ára í senn. Samkvæmt lögum hljómsveitarinnar er hægt að endurráða í stöðuna í önnur fjögur ár en ekki oftar. Arna Kristín var endurráðin árið 2017 og því farin að leiða hugann að hvað tæki við eftir örfá ár þegar haft var samband við hana í sumar og hún spurð hvort hún hefði áhuga á að sækja um sem framkvæmdastjóri þjóðarhljómsveit Kanada, National Arts Centre Orchestra, í Ottawa.
„Ég hugsaði mig aðeins um og sagðist svo vera spennt og hófst þá ferlið þar til ég stóð ein eftir og var ráðin. Það magnaðasta var að það var ekki bara haft samband við mig frá þessari hljómsveit heldur var líka hringt frá skosku þjóðarhljómsveitinni. Ferlið í Kanada var lengra komið og buðu þeir mér á endanum samning sem ég gat eiginlega ekki afþakkað. Þá ákvað ég að draga mig út úr hinu ferlinu en ég var líka komin langt þar. Skoska þjóðarhljómsveitin var líka mjög spennandi kostur.
Stundum finnst manni við á Íslandi vera á jaðrinum og að augu heimsins nái ekki alltaf hingað en þetta kom úr ólíkum áttum þannig að það er greinilegt að það er tekið eftir því sem við erum að gera hérna.“

„Vonandi verður þetta þannig að maður geti látið til sín taka og það þarf alltaf nokkur ár í það; sérstaklega í þessum sinfóníska heimi en það er alltaf skipulagt svo ótrúlega langt fram í tímann,“ segir Arna Kristín. Ljósmyndari / Heiða Helgadóttir

Getur vonandi látið til sín taka
Arna Kristín segir að National Arts Centre Orchestra sé mjög áhugaverð hljómsveit.
„Hún var stofnuð árið 1969 og tengist því að opnað var menningarsetur, National Arts Center, í Ottawa þar sem hljómsveitin æfir og kemur fram. Þar er líka leikhús – enskt leikhús, franskt leikhús og dansleikhús og núna eru þeir að fara af stað með frumbyggjaleikhús. Ég mun einnig starfa með þessu teymi sem býr til dagskrá fyrir allt þetta hús en þar er viðburður á nær hverju kvöldi.“
Arna Kristín segir að hún geti alveg látið sig dreyma stóra drauma. „Þetta er ótímabundin ráðning og fólkið þarna virðist vera gott fólk. Þetta virðist vera þéttur hópur. Það vinna um 25 manns á skrifstofu hljómsveitarinnar, 10 manns á skrifstofu Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en um 300 manns vinna í allri miðstöðinni. Það verður merkilegt að kynnast því. Vonandi verður þetta þannig að maður geti látið til sín taka en það þarf alltaf nokkur ár í það; sérstaklega í þessum sinfóníska heimi en það er alltaf skipulagt svo langt fram í tímann.“

„Hóf nám daginn sem ég átti að eiga son minn“
Arna Kristín byrjaði að læra á þverflautu þegar hún var níu ára og útskrifaðist með einleikarapróf í flautuleik frá Tónlistarskóla Reykjavíkur árið 1990. Hún stundaði framhaldsnám í flautuleik í Indiana University í Bandaríkjunum og útskrifaðist þaðan með láði árið 1992. Hún hélt svo áfram námi við Royal Northern College of Music í Manchester og lauk þaðan postgraduate diploma árið 1996. Hún gegndi stöðu 2. flautuleikara Sinfóníuhjómsveitar Íslands á árunum 2000-2004.
„Ég bjó í Manchester í sex ár og keypti hús þar og var ekkert á leiðinni heim þegar ég vann prufuspil hjá Sinfóníunni árið 2000 í afleysingastöðu og spilaði með hljómsveitinni næstu árin. Það var æðislegur tími. Fasti flautuleikarinn ákvað svo að gefa frá sér stöðuna og samkvæmt reglum hljómsveitarinnar þurfti að auglýsa hana þar sem þetta var ekki lengur tímabundið heldur föst ráðning. Ég þurfti að fara aftur í prufuspil og var komin sjö mánuði á leið og var ekki alveg nógu mikill nagli. Maður þarf að vera svakalegur nagli til að vinna svona prufuspil.“
Arna Kristín fékk ekki stöðuna sem hún segir að hafi verið heilmikið áfall.
„Ég ákvað þá að fara í meistaranám í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst og hóf nám daginn sem ég átti að eiga eldri son minn.“
Arna Kristín útskrifaðist árið 2007. Hún var tónleikastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands á árunum 2007-2013 eða þar til hún hóf störf sem framkvæmdastjóri hljómsveitarinnar.

Góður árangur
Arna Kristín segir að rekstur hljómsveitarinnar hafi gengið vel undanfarin ár.
„Við höfum náð mjög góðum árangri, bæði hvað varðar reksturinn og listræna þætti. Ég er kannski hvað stoltust af því að á sama tíma og við náðum að rétta af reksturinn og greiða niður umtalsverðar skuldir stofnunarinnar sem er nú skuldlaus þá höfum við styrkt listrænt teymi hljómsveitarinnar og náð auknum, alþjóðlegum sýnileika. Til marks um það erum við nýkomin úr magnaðri tónleikaferð um Japan þar sem við lékum fyrir um 24.000 manns og höfum fengið boð um fleiri tónleikaferðir á næstu starfsárum. Slíkar ferðir eru gríðarleg landkynning fyrir Ísland. Við höfum líka lagt mikla áherslu á að ná til breiðs hóps tónleikagesta með samstarfi við hljómsveitir og listamenn á borð við Skálmöld, Emilíönu Torrini og uppistandarann Ara Eldjárn. Fræðslustarfið hefur líka stóreflst á síðustu árum. Það eru því margir þættir sem spila saman.
Harpa hefur að mörgu leyti komið okkur á kortið, gert okkur sýnilegri og skapað hljómsveitinni kjöraðstæður til að vaxa og dafna í. Við höfum líka verið svo heppin að fá til liðs við okkur tvö tónskáld, Daníel Bjarnason og svo Önnu Þorvaldsdóttur, sem bæði hafa náð ótrúlega langt í list sinni á alþjóðlegum vettvangi. Samvinna við þau hefur gert það að verkum að við erum í samfloti við virtustu hljómsveitir heims á borð við Los Angeles fílharmóníuna og Berlínar fílharmóníuna um að panta tónverk eftir þau. Það skiptir miklu máli að vera nefnd í sömu andrá og í samhengi við þessar hljómsveitir.
Það má heldur ekki gleyma hlut aðalhljómsveitarstjórans, Yan Pascal Tortelier, og heiðursstjórnendanna okkar Osmo Vanska og Vladimir Ashkenazy. Þessir menn gefa hljómsveitinni þann gæðastimpil að hún er eftirsótt af öðrum hljómsveitarstjórnum og einleikurum heim að sækja.
Ég held að það gleymist oft að Sinfóníuhljómsveit Íslands starfar í raun í alþjóðlegu samhengi og hefur gert alla tíð. Alveg frá stofnun hljómsveitarinnar árið 1950 hafa hingað komið á hverju starfsári erlendir hljómsveitarstjórar og einleikarar til að starfa með hljómsveitinni.“
Arna Kristín og fjölskylda hennar flytja til Ottawa með vorinu. „Þau bíða eftir mér en ég vil ganga vel frá hlutum hér og það þarf náttúrlega að finna arftaka og koma honum inn í starfið. Hjarta mitt mun alltaf slá fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ég hef verið svo ótrúlega heppin að vinna með svo frábæru fólki hjá Sinfóníunni og mér finnst ég vera mikillar gæfu aðnjótandi að hafa fengið að vera á þessu ferðalagi með þeim. Fyrir mér hefur þetta ekki snúist um persónulegan metnað; þetta snýst bara um einhverja dýpri sannfæringu og trú á því sem við erum að gera.“

Mennignarmiðstöðin þar sem Arna Kristín mun starfa. Mynd / Aðsend

„Líður eins og ég sé trúboði“
Arna Kristín segir að starf sitt sé ástríða. „Þetta er ekki bara einhver vinna. Mér líður stundum eins og ég sé í hálfgerðu trúboði; ég þarf svo mikið að segja heiminum hvað tónlist sé magnað fyrirbæri og sinfónísk tónlist mikill galdur en í gegnum hana kynnumst við tónlistarstarfi sem geymir einhver fegurstu listaverk mannsandans; tónlist sem sameinar ólíka menningarheima en allir geta skilið og tengt við.“
Ég hef mætt á alla tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands síðan 2007 nema ef ég hef verið í útlöndum. Þetta er þannig vinna. Ef ég er spurð um áhugamál þá svara ég að mér finnst æðislegt að fara á skíði og ég hleyp til að halda mér í formi en maður lifir og hrærist í þessu. Ég hef þurft að gera þetta upp við mig; það er bara vinnan og fjölskyldan. Það hefur því verið minni tími fyrir vinina – ég og vinkona mín höfum þó hlaupið saman og ég er í leikhúsklúbbi og saumaklúbbi – en ég hef ekki getað sótt eins marga tónleika fyrir utan Sinfó-tónleika eins og ég hefði gjarnan viljað.“
Hún segist spila sjaldan á flautuna sína. „Því miður. Það koma stundir þegar mig byrjar að klæja og ef ég fer að spila aftur þá held ég að ég myndi byrja á að æfa Bach-sónöturnar. Ég hef í rauninni aldrei saknað þess að vera hljóðfæraleikari á sviði. Mér finnst mjög gaman að vera framkvæmdastjóri og ég fæ mikla útrás fyrir sköpun í því starfi. Ég kem af stað hlutum og sé til þess að þeir verði að veruleika og ég fæ að horfa á stóru myndina. Og mér finnst stóra myndin vera svo skemmtileg og spennandi.“
Esjan, Akrafjall og Skarðsheiði og hafið bláa blasir við úr skrifstofu Örnu Kristínar í Hörpu. Hún neitar því ekki að hún muni sakna útsýnisins.
„Ég mun auðvitað sakna þess að vera í þessu húsi, Hörpu. Það er enn þannig þegar ég kem í vinnu að ég trúi þessu einhvern veginn ekki; að þessi draumur hafi orðið að veruleika. Að þetta langþráða tónlistarhús hafi risið úr rústum hrunsins og lýsi okkur nú í myrkrinu eins og viti. Mér finnst þetta hús hafa haft svo mikið að segja fyrir íslenskt samfélag. Þess vegna skiptir svo miklu máli hvaða tónn er gefinn hér innanhúss. Harpa þarf að vera trú tónlistinni sem hún var byggð yfir.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -