Sunnudagur 22. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Rosknir menn að berjast við vindmyllur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Engin sérstök stemning ríkir fyrir ESB-aðild í dag.

Umræða um mögulega ESB-aðild hefur legið í dvala allt frá því Gunnar Bragi Sveinsson stakk málinu ofan í skúffu fyrir þremur árum. Enda ríkir engin sérstök stemning fyrir ESB-aðild í dag. Þetta stemningsleysi hefur þó farið illa í hóp ákveðinna manna sem upplifa ákveðið tilgangsleysi í lífi sínu. Rosknir fullveldissinnaðir menn sitja uppi án strámanna og áheyrenda og í reiðileysi sínu leita þeir að einhverju hálmstrái til að gera sig gildandi að nýju.

Þetta skýrir tilgangslausasta og óskiljanlegasta upphlaup síðari ára, þar sem þessi hópur manna hefur haft uppi stór orð um innleiðingu þriðja orkupakka ESB – að Íslendingar munu missa forræði yfir orkuauðlindum sínum og að raforkuverð muni hækka upp úr öllu valdi. Vissulega væru þessi varnaðarorð áhyggjuefni ef ekki væri fyrir þær sakir að beinlínis öll fyrirliggjandi gögn sýna að það er engin innistæða fyrir þeim.

Í greinargerð lögmannsins Birgis Tjörva Péturssonar fyrir stjórnvöld stendur skýrum orðum að orkupakkinn varði „ekki á nokkurn hátt eignarrétt á orkuauðlindum á Íslandi“. Aukinheldur kalli málið ekki á endurskoðun EES-samningsins enda gildi ýmsar mikilvægar reglur hans ekki um viðskipti með raforku af þeirri einföldu ástæðu að Ísland er ekki tengt Evrópu um sæstreng. Er þá vert að benda á að einu fyrirætlanirnar um sæstreng eru til Bretlands sem gengur úr ESB á næsta ári. Þannig að áhrifin yrðu samt sem áður engin. Niðurstaða Rögnu Árnadóttur, aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar, er á sömu leið og orkumálastjóri sér nákvæmlega enga hættu.

Sendiherra ESB á Íslandi hefur sömuleiðis fullyrt að orkupakkinn sé ekki nokkur ógn við framkvæmd íslenskrar orkustefnu. „Þar sem Ísland er eyja, einangruð frá öðrum orkumörkuðum, mun landið njóta víðtækra undanþága frá flestum helstu skyldum sem fylgja nýju löggjöfinni.“
Þær reglur sem snúa að Íslandi lúta að neytendavernd, auknu gagnsæi samninga og réttinum til að skipta um orkuveitu.

Þetta eru augljósar og skýrar staðreyndir málsins og það þarf þess vegna einbeittan ásetning til að komast að annarri niðurstöðu. Sá ásetningur er ekki settur fram af góðum vilja. Björn Bjarnason, fyrrum ráðherra, afhjúpaði á dögunum hræsni forystumanna Miðflokksins sem hafa haft sig mikið í frammi í málinu með því að benda á að þeir hafi báðir unnið að framgangi málsins þegar þeir voru í ríkisstjórn.

Bændablaðið og Morgunblaðið hafa haldið uppi miklum áróðri gegn orkupakkanum og ítrekað vitnað í norskan lagaprófessor sem kom hingað til lands til að vara Íslendinga við innleiðingu hans. Í engu var þess getið að umræddur fræðimaður er virkur meðlimur í samtökum norskra ESB-andstæðinga, Nei til EU, og fyrrum þingmaður systurflokks Miðflokksins. Enda hafði enginn gefið málinu gaum fyrr en norska þingið samþykkti innleiðingu orkupakkans og norskir andstæðingar ESB, sem höfðu orðið undir, fóru að biðla til íslenskra skoðanabræðra sinna að reyna að stöðva málið.

- Auglýsing -

Það er vonandi að ríkisstjórnin og Alþingi verji þeim tíma sem fram undan er í að tækla alvöru og brýn úrlausnarefni, en láti vera að eyða tíma í þetta mál sem snýst í raun ekki um neitt en er keyrt áfram af blekkingum og heimatilbúnum þjóðernisrembingi. Það kristallaðist þegar formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur var fenginn í beina útsendingu til að útskýra hvers vegna félagið ályktaði gegn orkupakkanum. Hann hafði ekki minnstu hugmynd um það, en þeir voru samt á móti.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -