Fimmtudagur 28. mars, 2024
1.8 C
Reykjavik

Rúmlega 200 prósent aukning í athöfnum hjá Siðmennt

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Aðsókn í athafnastjóranám hjá lífsskoðunarfélaginu Siðmennt hefur aukist til muna með tilkomu aukins áhuga á athöfnum á vegum félagsins. Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri félagsins, segir það hugnast fólki að hafa val á stærstu stundunum í lífi sínu. Þá sé starf athafnastjóra vinsælt meðal listamanna.

„Fólki sem sýnir áhuga er boðið að vera á lista hinna áhugasömu, eins og við köllum hann. Í vetur, þegar um þrjátíu manns voru komnir á listann, var ákveðið að bjóða upp á námskeið í athafnastjórnun og fimmtán voru loks valdir inn á námskeiðið,“ segir Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri Siðmenntar, félag siðrænna húmanista á Íslandi. Athafnastjórar Siðmenntar framkvæma athafnir eins og giftingar, jarðarfarir og nafnagjafir, en ekki kemst hver sem er í gegnum nálarauga félagsins.

„Við setjum ákveðnar kríteríur á fólk til að komast inn í námið. Fólk þarf að deila með okkur lífsskoðun, geta átt góð samskipti við fólk, skrifa góðan texta og, síðast en ekki síst, geta flutt texta. Það er töluvert af leikurum og vel þjálfuðu fólki í framkomu sem hefur sóst í þetta,“ segir Bjarni.

Gifti fyrrum nemanda sinn

Margrét Gauja.

Meðal starfandi athafnastjóra er leiðsögumaðurinn og stjórnmálakonan Margrét Gauja Magnúsdóttir. „Allar athafnarnir eru eftirminnilegar, engin er eins og allar jafndásamlegar. Auðvitað er mín fyrsta giftingarathöfn sú sem fer efst í minningabunkann. Þau báðu sérstaklega um mig og treystu mér algerlega fyrir þessum stóra degi vitandi að þetta var mín fyrsta giftingarathöfn. Ég var að fríka út af stressi en undirbúningurinn og athöfnin sjálf voru svo dásamleg að ég sveif um á bleiku skýi í viku á eftir,“ segir Margrét og brosir og rifjar upp aðra ógleymanlega stund. „Svo hef ég gift fyrrum nemanda minn. Það var dásamlegt þar sem athöfnin var leyndarmál og ég faldi mig inni í þvottahúsi þar sem ég setti slörið í brúðina sem ég hafði kennt kynfræðslu nokkrum árum fyrr.“

Margrét bjó á Höfn þegar hún tók ákvörðun um að læra að verða athafnastjóri, þar sem gríðarleg þörf hafði myndast fyrir austan fyrir slíka þjónustu. Hún mælir með starfinu og segir það krefjandi. „Að fá að kynnast fólki og fjölskyldum þeirra á svo stórum tímamótum er ómetanleg reynsla, hvort sem það eru giftingar eða nafnagjafir. Ég fæ að nota peysufötin mín reglulega sem ég saumaði þegar ég bjó á Höfn og ég er farin að hafa það sem hefð að biðja móður brúðarinnar eða brúðgumans að aðstoða mig við að setja upp slaufuna. Mér finnst þetta bara hrikalega gaman en ég tek þessu mjög alvarlega því passa ég mig á því að taka ekki að mér fleiri en tvær athafnir í mánuði.“

Metfjöldi athafna í fyrra

Svavar Pétur.

Siðmennt fékk skráningu sem lífsskoðunarfélag árið 2013 og í kjölfarið vígsluréttindi. Árið 2014 voru framkvæmdar 114 athafnir á vegum félagsins en í fyrra var þessi tala komin upp í 356. Það er rúmlega 200% aukning. Nú eru tæplega fimmtíu athafnastjórar starfandi um land allt og líður að útskrift þeirra fimmtán sem hófu nám í athafnastjórnun í vetur. Meðal þeirra er tónlistarmaðurinn og bóndinn Svavar Pétur Eysteinsson.

„Sú saga fór á kreik að ég gæti gefið saman fólk og til þess að verða við kallinu ákvað ég að ná mér í réttindi til þess,“ segir Svavar aðspurður um hans ástæðu fyrir að skella sér í námið. Hann hefur ekki enn fengið tækifæri til að klára starfsnámið vegna anna en hefur nú þegar fengið bókanir fram í tímann. „Ég vona að ég nái ágætu andlegu jafnvægi og verði hæfilega stressaður fyrir mína fyrstu athöfn.“

- Auglýsing -

Samræður besta geðlyfið

Björg.

Annar tilvonandi athafnastjóri er fjölmiðlakonan og rithöfundurinn Björg Magnúsdóttir. Hún hafði gengið lengi með þann draum í maganum að gerast athafnastjóri og segir námið hafa komið sér á óvart.

„Ég get alveg viðurkennt að ég hafði ekki nákvæma hugmynd um það í hverju ég væri lent þegar ég mætti fyrsta kvöldið eftir langan vinnudag. En það, að sitja með góðu fólki og fræðast um og pæla í húmanisma og bara lífinu á breiðum grundvelli, er eitthvað sem höfðaði mjög til mín. Það er svo sem ekkert nýtt að góðar samræður um lífsins málefni séu besta geðlyfið, en þó eitthvað sem er gott að vera minnt á reglulega,“ segir Björg og brosir, en fyrsta athöfnin sem hún framkvæmir verður í ágúst á þessu ári.

Anna Brynja.

Anna Brynja Baldursdóttir, samskiptastjóri hjá Alfreð og menntuð leikkona, er einnig með þeim Svavari og Björgu í útskriftarhópi.

- Auglýsing -

„Ég hef aldrei fundið mig innan neinna trúarbragða og þau hef ég skoðað á alla kanta. Þegar ég uppgötvaði Siðmennt sá ég húmanískt félag sem tekur öllum opnum örmum, óháð lífsskoðunum, og leitast við að útrýma umburðarleysi með þekkingu og eflingu á siðferðisvitund. Ég vil leggja mitt af mörkum og ákvað að gerast athafnastjóri til að geta aðstoðað þá sem vilja athöfn sem er óháð trúarsetningum. Fókusinn verður því á heimspekilegri nótunum og á hið sammannlega.“

Meðal annarra þekktra einstaklinga sem útskrifast von bráðar úr náminu er Mörður Árnason, fyrrverandi þingmaður, og leik- og söngkonan Selma Björnsdóttir. Bjarni hlakkar til að útskrifa hópinn en telur ólíklegt að námskeiðið verði haldið aftur að ári.

„Við köllum þetta jákvætt vandamál,“ segir Bjarni hlæjandi um aðsóknina í námið. „Við höfum tekið inn stjóra í skömmtum og ég býst ekki við því að við gerum það á næsta ári. En ég er strax kominn með vænan lista yfir þá áhugasömu.“

Fjöldi athafna hjá Siðmennt:

2014 – 114 athafnir
2015 – 199 athafnir
2016 – 267 athafnir
2017 – 356 athafnir
Fyrstu fimm mánuði ársins 2018 – 240 athafnir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -