Læknafélag Íslands hefur skorað á yfirvöld að stöðva án tafar sölu á rafrettum eða „veipi“. Guðmundur Karl Snæbjörnsson, sérfræðingur í heimilislækningum í Svíþjóð, sagðist í viðtali við Lindu Blöndal á Hringbraut vera því fullkomlega ósammála. Ekkert hefði verið sannað um skaðsemina. Hart er deilt um þetta en Læknafélagið segir Guðmund Karl vera einn af örfáum til að segja rafrettur skaðlausar.

Guðmundur Karl segir nikótínið ekki hættulegra en til dæmis koffín heldur sé það reykurinn sem drepi. Fimmtán ára reynsla sé komin af veipi. „Það er komin meiri reynsla á þetta en nokkurt lyf sem er markaðssett,“ segir hann. Milljónir manna hafi hætt að reykja með hjálp „veips“ og samkvæmt rannsóknum Rannsókna og greiningar sem gerðar eru árlega í skólum á Íslandi hafi komið fram að um 65 prósent af þeim sem veipi reglulega hafi áður annaðhvort reykt eða notað munntóbak. Því sé sáralítil nýliðun nikótínnotenda í þeim hópi.
„Læknafélag Bretlands er á sömu skoðun og ég,“ segir Guðmundur Karl. „Það eru margir [læknar] sammála mér. Þeim sem fara gegn straumnum í þessum efnum er nánast slátrað.“
Lára G. Sigurðardóttir, læknir og lýðheilsufræðingur, segir nikótín ekki skaðlaust heldur sterkt ávanabindandi eiturefni og þannig flokkað hjá Umhverfisstofnun. Engin merki séu um að rafsígarett¬ur tengist lækkun á tíðni reykinga. Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hafi rannsakað bragðefnin og komist að því að mörg innihaldi formaldehýð sem er þekkt krabbameinsvaldandi efni.