Fimmtudagur 28. mars, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Skiptir lögfræði út fyrir sirkusnám

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bryndís Torfadóttir, mastersnemi í lögfræði og meðlimur í Sirkus Íslands, tekur sér eins árs frí frá lögfræðinámi til að nema sirkuslistir í skólanum AFUK í Kaupmannahöfn.

„Þetta var algjör skyndiákvörðun. Ég sá auglýstar prufur í skólanum úti og var búin að hafa augastað á því í smátíma, en prufurnar voru í apríl á þessu ári. Daginn fyrir prufur ákvað ég að panta mér flug og fljúga út í prufurnar,“ segir Bryndís. Við tóku þriggja daga prufur sem reyndu hressilega á.

„Í prufunum var sviðsframkoma, líkamleg hæfni og samhæfing prófuð; til dæmis dans, þrek og jöggl. Þetta var frekar krefjandi,“ segir Bryndís og hlær. „Þetta voru langir dagar, en ég var að jafna mig á ökklabroti síðan í janúar og gat ekki alveg verið hoppandi og skoppandi út um allt. En ég náði að sýna eitthvað af því sem ég get,“ bætir hún við, hógværðin uppmáluð. Svo fór að Bryndís komst inn í sirkusnámið, sem er eitt ár. „Ég var ekki búin að reikna með að komast inn og leiddi ekkert hugann að því. Ég var því byrjuð að gera önnur plön en þegar ég fékk fréttirnar hikaði ég ekki við að segja já.“

Bryndís ásamt Thomas Burke.

Lögfræði og sirkus eiga lítið sameiginlegt

Bryndís byrjar í sirkusnáminu í lok ágúst en hún er einnig mastersnemi í lögfræði við Háskólann í Reykjavík. Hún fer því í námsleyfi í eitt ár, en hingað til hefur hún náð að sameina þessi tvö ólíku fög.

„Því miður eiga lögfræði og sirkus voðalega lítið sameiginlegt, ég hef allavega ekki fundið neitt hingað til. Þetta eru mjög ólíkir hlutir en blanda af báðum gefur manni gott jafnvægi í lífinu. Það er mjög krefjandi að blanda þessu saman þar sem bæði fögin eru afar tímafrek en það hefur sem betur fer gengið hingað til. Ég vona að það gangi áfram.“

Byrjaði í sirkus fyrir tilviljun

Fjölhæf stúlka.

Bryndís hefur verið hluti af sirkushópnum Sirkus Íslands í að verða þrjú ár, en byrjaði að æfa með hópnum af einskærri tilviljun.

„Ég hafði verið að æfa súlufimi og á loftfimleikahring í súlufimistúdíói í nokkurn tíma. Þegar þjálfarinn minn hætti fór ég að hugsa um hvað ég ætti að gera. Þá mundi ég eftir Sirkus Íslands og ákvað að senda tölvupóst og spyrja hvort ég mætti koma á æfingu. Ég mætti á æfingu samdægurs og hef mætt síðan þá,“ segir Bryndís, en hennar sérgrein í sirkusnum eru loftfimleikar og akró; jafnvægisfimleikar á gólfi. „Ég var í fimleikum þegar ég var yngri sem hjálpar mikið. Ég lærði hins vegar helling af þeim sem ég æfi með í sirkusnum og hafa ekki sérstakan bakgrunn í fimleikum. Þannig að það er alls ekki nauðsynlegt.“

- Auglýsing -

Mikið frelsi í sirkusnum

Sirkus Íslands fagnar tíu ára afmæli um þessar mundir og heldur upp á áfangann með afmælissýningum í sumar, bæði í Reykjavík 13. til 22. júlí, og á Akureyri um verslunarmannahelgina. Hópurinn setur annars vegar upp fjölskyldusýningu sem heitir Áratugur af sirkus og hins vegar fullorðinssýninguna Skinnsemi. Bryndís segir að sýningar sumarsins verði blanda af nýjum og klassískum atriðum, en stífar æfingar standa nú yfir. Það stendur ekki á svörunum þegar blaðamaður spyr af hverju sirkusinn togi svona í hana.

„Þetta er ótrúlega gaman. Sirkusinn reynir á líkamlegan styrk og ég er alltaf að læra eitthvað nýtt og ná árangri. Ég vinn líka með ofboðslega skemmtilegu fólki. Þetta er um margt svipað og fimleikarnir nema í sirkusnum hef ég svo mikið frelsi. Það þarf ekki að gera allt rétt heldur getur maður gert hlutina á sinn hátt. Það er það sem gerir þetta svona sérstakt.“

Myndir / Daníel Hauksson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -