Fimmtudagur 28. mars, 2024
-3.2 C
Reykjavik

Sundlaugin á Hrafnistu grotnar niður

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sjómannadagsráð og þáverandi borgarstjóri í Reykjavík vígðu saman endurhæfingarsundlaug á Hrafnistu í Reykjavík árið 1996. Loftræstingin virkaði ekki sem skyldi frá fyrsta degi. Nú er laugin í niðurníðslu.

Þegar plötur voru teknar úr lofti húsnæðisins kom í ljós að viðurinn í loftinu hafði morknað út af rakanum frá lauginni.

„Örlög sundlaugarinnar á Hrafnistu eru sorgleg. Það væru ekki endilega margir heimilismenn á Hrafnistu sem myndu nota sér hana í dag. En aðrir myndu gera það, eldri borgarar í hverfinu, þeir sem þurfa á dagsþjálfun að halda, glíma við stoðkerfisvanda og þurfa styrktarþjálfun, bæði börn og fullorðnir,“ segir Steinunn Leifsdóttir, íþróttafræðingur á Hrafnistu. Hún stýrði lengi vatnsleikfimi á Hrafnistu.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur, tók skóflustungu að endurhæfingarmiðstöðinni og sundlauginni á Hrafnistu í júlí árið 1994 og vígði hún bygginguna ásamt Guðmundi Hallvarðssyni, þá formanni Sjómannadagsráðs, við hátíðlega athöfn í mars þremur árum síðar.

Framkvæmdin, þ.e. endurhæfingarmiðstöðin og sundlaugin, var fjármögnuð með hagnaði af rekstri Happdrættis DAS en líka með framlagi frá Reykjavíkurborg, Alþjóða flutningasambandsins og framlögum einstaklinga. Auk sundlaugar voru heitir pottar, eimbað og aðstaða til hljóðbylgjulækninga. Laugin var sérstaklega hönnuð með þarfir eldri borgara í huga. Hún er rúmlega sextán metrar að lengd og sjö metrar á breidd. Við laugina er lyfta sem auðveldar þeim sem eiga erfitt um gang að komast í og úr lauginni.

„Það er fúlt að láta sundlaugina grotna niður því hún hafði svo mikið heilsufarslegt gildi. En það er eins með hana og aðrar fasteignir. Það þarf að að hugsa um þær,“

Ingibjörg sagði í ávarpi sínu að borgarráð hafi samþykkt að borgin komi að rekstri stöðvarinnar út árið. Guðmundur vitnaði til orða eins heimilismanna sem óskaði þess að nýja endurhæfingarmiðstöðin verði uppspretta andlegrar og líkamlegrar vellíðunar eldri borgara um alla framtíð.

„Þetta var góð laug og fólk er enn að tala um hvað hún var heit og góð. En loftræstingin annaði aldrei hitanum sem var þarna. Og ekki bættu heitu pottarnir úr skák. Það var einfaldlega of heitt þarna,“ segir Steinunn og bendir á að innan við tíu árum eftir opnun sundlaugarinnar hafi fólk tekið eftir brúnum klessum sem láku niður eftir veggjum. Þegar plötur voru teknar úr lofti húsnæðisins kom í ljós að viðurinn í loftinu hafði morknað út af rakanum frá lauginni. Viðurinn var ónýtur og upp úr því var sundlauginni lokað árið 2015.

Steinunn segir fólk hafa orðið sorgmætt yfir lokun sundlaugarinnar. En hún bætir við að áður en sundlauginni var lokað hafi mjög fáir á Hrafnistu notað hana, í dag væru þeir líklega ekki nema tíu en það skýrist af vistunarmati. Öðru máli gegni um eldri borgara og fólk með stoðkerfisvanda sem búi í nágrenninu. „Þegar sundlaugin virkaði þá var hún mjög góð og hentaði mörgum. Laugardalslaugin er svo miklu kaldari. Við viljum að borgin taki við rekstri sundlaugarinnar. En það yrði dýrt að gera við hana. Ég held að það sé búið að eyðileggja flísarnar, tækin eru orðin léleg og þakið ónýtt. Það sama á við um fleira. Það er fúlt að láta sundlaugina grotna niður því hún hafði svo mikið heilsufarslegt gildi. En það er eins með hana og aðrar fasteignir. Það þarf að að hugsa um þær,“ segir Steinunn.

- Auglýsing -
Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu.

Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu, segir að árið 2015 þegar sundlauginni var lokað hafi kostnaðarmat gert ráð fyrir endurbótum upp á 50 milljónir króna. Hugsanlega verði það meira nú. Til viðbótar bætist mögulega við 10 milljóna króna árlegur rekstrarkostnaður. „Þetta er dýrt og við höfum ekki treyst okkur til að opna sundlaugin aftur. Við höfum leitað til ríkisins en það er ekki tilbúið að greiða fyrir rekstur sundlauga hjúkrunarheimila,“ segir hann og bætir við að nýverið hafi verið sent erindi til Reykjavíkurborgar um málið og sé svars beðið frá borgaryfirvöldum um framhaldið.

Á meðan engin starfsemi er í lauginni hefur aðstaðan verið notuð sem verkstæði og aðstaða fyrir smiði sem unnu að framkvæmdum við aðra hluta Hrafnistu í Reykjavík.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -