Miðvikudagur 24. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Sýningar sem lifa áfram

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Vel þarf að vanda það sem lengi á að standa, er setning sem hæfir góðum leiksýningum. Það á ekki við um líftíma leikverks heldur hve lengi sýningin lifir áfram í huga áhorfenda. Þegar Íris Hauksdóttir, blaðakona á Vikunni, var beðin að rifja upp þau leikverk sem hafa haft mest áhrif á hana vandaðist valið því hún segir að af mörgu sé að taka. Tíu ára sá hún fyrstu fullorðinssýninguna, Elínu Helenu í Borgarleikhúsinu og ári síðar Fávitann í Þjóðleikhúsinu og hún segir báðar sýningar hafa skilið mikið eftir sig.

„Sú sýning sem dáleiddi mig fyrir lífstíð var Draumur á Jónsmessunótt enda vara álögin enn. Árið var 2000 og tilefnið 50 ára afmæli Þjóðleikhússins. Leikstjórinn Baltasar Kormákur valdi til sín einvalalið en sagan er auðvitað meiriháttar þar sem ljóð og erótík leiðast í draumkenndu ævintýri.

Ári síðar frumsýndi leikfélagið Hermóður og Háðvör leikritið Englabörn eftir Hávar Sigurjónsson í Hafnarfjarðarleikhúsinu og sú sýning sat lengi eftir. Verkið fjallaði um óhugnað og ofbeldi en þarna þreyttu þau Nína Dögg Filippusdóttir og Björn Hlynur Haraldsson frumraun sína á sviði.

Veislan lifnaði svo eftirminnilega við á Smíðaverkstæðinu árið 2003 en sú sýning var bæði skemmtilega framsett og feiknarvel leikin.

Tveimur árum síðar vaknaði Edith Piaf til lífsins í flutningi Brynhildar Guðjónsdóttur sem túlkaði þessa stórkostlegu söngkonu ógleymanlega. Samhliða námi vann ég í Þjóðleikhúsinu og hef ekki tölu á þeim skiptum sem ég læddist á leikhússvalirnar og naut sýningarinnar sem byggð var á samnefndu verki eftir Sigurð Pálsson í leikstjórn Hilmars Jónssonar.

Pétur Gautur var annað dæmi um verk sem ég sá óteljandi sinnum en sýningin varð kveikjan að lokaverkefni mínu í háskóla. Sýningin rakaði að sér Grímuverðlaunum árið 2006 en ljóðkenndur texti Karls Ágústs Úlfssonar er sérstakt rannsóknarefni fyrir utan framúrstefnulega nálgun á verkinu.

Pétur Gautur var annað dæmi um verk sem ég sá óteljandi sinnum en sýningin varð kveikjan að lokaverkefni mínu í háskóla.

- Auglýsing -

Dagur vonar eftir Birgi Sigurðsson var frumsýnt ári síðar í Borgarleikhúsinu í leikstjórn Hilmis Snæs Guðnasonar. Eldfimt fjölskyldudrama sem skautaði listilega á milli geðveiki og drauma, orsaka og afleiðinga.

Eldhaf eftir Wajdi Wouawad lifnaði við á sama sviði árið 2012 í leikstjórn Jóns Páls Eyjólfssonar en sýningin var sú erfiðasta sem ég hef séð. Kvikmyndin Incendies er byggð á sama handriti og mæli ég með að áhugasamir kynni sér söguna.“

Mynd / Aldís Pálsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -