Fimmtudagur 25. apríl, 2024
10.1 C
Reykjavik

Teipuðu fyrir munninn á Gordon Ramsey

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jóhanna Jakobsdóttir, eigandi veitingastaðarins Nostra, starfaði meðal annars við hugbúnaðar- og tækniþýðingar, var heimavinnandi og uppistandari áður en hún hellti sér í veitingabransann. Nostra fékk nýlega viðurkenningu þegar hann komst lista yfir veitingastaði sem Michelin mælir með.

„Ég kom í raun inn í þetta alveg græn sem fjárfestir og ætlaði að hafa þetta sem krúttlegt áhugamál. Það varð ekki beinlínis raunin,“ byrjar Jóhanna. Nostra var formlega opnaður 21. október 2017 og hún segir að staðurinn leggi áherslu á ferskt, íslenskt hráefni og sjálfbærni. „Við höfum verið í norrænni matargerð undir klassískum frönskum áhrifum en mest í svokölluðum matarupplifunum, fjögurra, sex og átta rétta matseðlum.“

Það er mikill heiður að vera komin þessa viðurkenningu einungis tæpu einu og hálfu ári frá opnun.

Nostra fékk nýlega viðurkenningu frá Michelin og er núna í Michelin Guide sem þýðir að Michelin mælir með staðnum en Michelin sendur á bak við ein virtustu verðlaun sem veitt eru í veitingageiranum. „Margir fletta upp í Michelin Guide áður en þeir ferðast til stórborga og velja veitingastaði með hliðsjón af því sem þar kemur fram og það er mikill heiður að vera komin þessa viðurkenningu einungis tæpu einu og hálfu ári frá opnun. Aðeins níu veitingastaðir á Íslandi hafa þessa viðurkenningu í dag.“

Var lengi heimavinnandi

Jóhanna starfaði lengi sem þýðandi, meðal annars hugbúnaðar- og tækniþýðingar fyrir Google og Expedia.

„Mér finnst stundum gaman að skjóta því að ég hafi unnið fyrstu íslensku þýðinguna af Gmail en annars var þetta nú ekkert glamúrstarf. Ég sat mest á náttbuxunum heima og baukaði í einhverjum forritum,“ segir Jóhanna. Hún hefur alltaf haft mikinn áhuga á leiklist og ekki síst uppistandi sem hún sótti þegar hún bjó í Montreal í Kanada.

Nostra fékk nýlega viðurkenningu frá Michelin og er núna í Michelin Guide sem þýðir að Michelin mælir með staðnum.

„Ég fór svo á fullt í að taka námskeið í bæði leiklist og improv-i þar úti og hélt svo áfram í slíku eftir að ég flutti heim árið 2011. Svo leiddist ég bara óvart út í að vera með uppistand, oft fyrir fjölda fólks, en hef lítið sinnt því undanfarið – tek það kannski upp síðar. Úti í Kanada lærði ég líka markþjálfun en hef aldrei starfað við það – það hefur hins vegar komið að góðum notum nú þegar ég er með mannaforráð og eins þegar ég tók viðtöl í heimildarmyndinni Fellum grímuna fyrir Ekta Ísland. Ég er afar stolt af því verkefni okkar Sigurbjargar Bergsdóttur því það hafði jákvæð áhrif á þá sem á horfðu og boðskapurinn er skýr og fallegur,“ segir hún og bætir við að myndin sé aðgengileg á Facebook-síðu fyrirtækisins.

- Auglýsing -

„Þrátt fyrir að hafa prófað fjölmargt hef ég nú líklega varið hvað mestum tíma í eldhúsinu en ég var heimavinnandi í mörg ár. Ég myndi seint teljast afburða húsmóðir en ég er góður kokkur, þótt ég teljist sennilega til hamfarakokka því ég þarf að hafa manneskju til þess að taka til eftir mig þegar ég kemst í gírinn. Þegar ég bjó úti undirbjó ég matinn oft daginn áður og byrjaði kannski að elda í kvöldmatinn í hádeginu. Það er kannski þess vegna sem veitingahúsarekstur heillaði mig síðar meir.“

Starfsfólkið mikilvægt

Jóhanna leggur áherslu á að án starfsfólksins væri enginn veitingastaður og er stolt af öllum þeim sem vinna á Nostra. „Það er alveg einstakt starfsfólkið; metnaðarfullt, tryggt, duglegt og lausnamiðað,“ segir Jóhanna en athygli hefur vakið að starfsfólkið er kynnt sérstaklega á heimasíðu Nostra.

- Auglýsing -

„Mig langar að gestir okkar upplifi að þeir þekki starfsfólkið og finni að við leggjum okkur öll fram um að gera upplifunina hjá okkur sem allra besta. Svo er það ekki síður mikilvægt að starfsfólkið finni að það skipti máli og að verk þess og eiginleikar séu metin að verðleikum. Mannlegi þátturinn er alltaf það sem skiptir mestu máli í öllu sem maður tekur sér fyrir hendur.“

Til að leggja áherslu á orð sín nefnir Jóhanna að strax í upphafi hafi stofnendur Nostra ákveðið að einræðisherrastemning, eins og víða tíðkast í eldhúsum yrði ekki liðin.

Gordon Ramsey er þekktur fyrir óheflaða framkomu og fúkyrði og við vildum að andinn yrði algerlega gagnstæður.

„Gordon Ramsey er þekktur fyrir óheflaða framkomu og fúkyrði og við vildum að andinn yrði algerlega gagnstæður – virðing, vinsemd og samvinna höfð að leiðarljósi. Stofnendur útveguðu sér pappaspjald af Gordon í fullri stærð, teipuðu fyrir munninn á honum og stilltu upp í rýminu á meðan framkvæmdir stóðu yfir. Það má segja að þetta hafi verið táknrænn gjörningur.“

Róandi að skrifa

Jóhanna gerir ýmislegt í frístundum, finnst nauðsynlegt að hreyfa sig 3-6 sinnum í viku og fer í Laugar á morgnanna.

„Mér finnst best að vakna snemma og hafa dálítinn tíma áður en allt fer í gang. Þá fæ ég mér kaffi og hugleiði aðeins inn í daginn. Nýlega fór ég líka að skrifa dagbók en mér finnst afar róandi að skrifa þegar ég er stressuð þótt það sé oft bara eitthvert bull í bland við verkefnalista og markmið dagsins. Annars er aðaláhugamál mitt í gegnum tíðina lestur góðra bóka. Best finnst mér að ná jarðtengingu með því að dúllast í eldhúsinu og knúsa og fíflast í börnunum mínum. Svo hef ég alltaf sagt að það er fátt sem sjóðandi heitt bað getur ekki lagað,“ segir hún.

Fram undan er svo að koma Nostra á næsta stig eða nokkurs konar Nostra 2.0 eins og hún nefnir það.

„Ég vil fá fleiri Íslendinga sem fastagesti, meira stuð og bjóða upp á à la carte-seðil sem segir sex, til viðbótar við setta seðla sem hafa verið í forgrunni hjá okkur frá upphafi. Svo langar mig aðeins að poppa upp hitt og þetta en sjáum hvað setur og hvað verður.

Að lokum má geta þess að við vorum að fá viðurkenningu frá Reykjavík Grapvine fyrir að vera besti staðurinn til þess að fara fínt út að borða á en í fyrra vorum við valinn besti nýi veitingastaðurinn og barinn okkar Artson – besti nýi barinn af sama tímariti. Allt svona gleður mann og hvetur mann áfram til góðra verka. Svo verð ég bara að koma einu að í viðbót – ég er afar lítið fyrir eftirrétti en ég lýg engu þegar ég segi að eftirréttirnir á Nostra eru upp á tíu. Þeir eru svo passlega sætir, með gott jafnvægi og alltaf áhugaverðir án þess að vera of skrýtnir. Þið bara hreinlega verðið að smakka.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -