Fimmtudagur 28. mars, 2024
3.8 C
Reykjavik

Þegar loddarar banka

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari Tvær samantektir voru birtar á vef stjórnarráðsins á miðvikudaginn. Önnur þeirra er skrifuð af háskólaprófessor sem kemst að þeirri niðurstöðu að allir bestu vinir hans (þó aðallega einn sem nefndur er 163 sinnum á nafn á 180 blaðsíðum) eru frábærir og flekklausir menn þrátt fyrir að nær öll opinber gögn hafi sýnt fram á annað. Hinir raunverulegu skúrkar voru ýmist útlendingar eða óvinir hins óskeikula. Fyrir þessa mjög svo fyrirsjáanlegu niðurstöðu borgaði ríkissjóður 10 milljónir.

Öllu athyglisverðari er samantekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á stöðu íslensks efnahagslífs. Þar er sérstaklega varað við því að „[ó]vissa tengd samningaviðræðum um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu eykur líkurnar á veikari útflutningseftirspurn frá einum af stærstu mörkuðum Íslands og gæti flækt frekar fiskveiðisamvinnu á Norður-Atlantshafi“.  Með öðrum orðum, Brexit er ekki bara meiri háttar vesen fyrir Bretland. Það er líka vesen fyrir Ísland þótt einstaka stjórnmálamenn hafi þóst sjá mikil tækifæri fyrir Ísland af því að það þjónaði þeirra pólitískum hagsmunum.

Brexit er nefnilega skólabókardæmi um hversu alvarlegar afleiðingar það getur haft þegar lýðskrumarar, drifnir áfram af eigin hagsmunum, fá að vaða uppi óáreittir. Kosningabarátta þeirra var rekin áfram af lygum og hræðsluáróðri ásamt handfylli af tærum rasisma. Allt frá því niðurstaðan lá fyrir hefur lygavefurinn verið rakinn og helstu riddarar Brexit-liða hafa ýmist látið sig hverfa eða eru önnum kafnir við að hagnast á öllu saman eða hella olíu á eldinn sem þeir kveiktu sjálfir á meðan þeirra eigið slökkvilið reynir að veikum mætti að slökkva eldinn.

Næst þegar loddarinn (oftar en ekki vel tanaður í dýrum jakkafötum) bankar upp á og reynir að sannfæra þig um að allt sem aflaga fer er vondum útlendingum eða ímynduðum óvinum að kenna, spurðu þig að því hvað hann hefur upp úr krafsinu.

Bretland mun ganga út úr ESB þann 29. mars á næsta ári. Breska ríkisstjórnin hefur gert þá kröfu að fá að halda áfram að njóta flestra þeirra kosta ESB-aðildar án þess þó að vera í sambandinu. Hún vill skilnað en eftir sem áður óheftan aðgang að heimilinu – heimtar að sofa í hjónarúminu, borða úr ísskápnum og horfa á sjónvarpið. Eðlilega er ESB ekki tilbúið að fallast á þessar kröfur.

Líkurnar á engum samningi aukast þess vegna með hverjum deginum. Alþjóðleg fyrirtæki í Bretlandi eru farin að gera áætlanir um að flytja sig á evrusvæðið, breska ríkisstjórnin er farin að hamstra lyf, flugsamgöngur gætu raskast verulega og enginn veit hvað verður um landamærin við Norður-Írland eða þær milljónir Evrópubúa sem búa í Bretlandi. Þeirra á meðal eru allnokkrir Íslendingar.

Eins og AGS bendir á gætu neikvæð áhrif á viðskipti við Ísland orðið umtalsverð og ekki má heldur gleyma því að mjög stór hluti þeirra erlendu ferðamanna sem heimsækja Ísland eru Bretar. Brexit er afleitt fyrir alla og þess vegna er mikilvægt að við drögum lærdóm af öllu þessu klúðri. Næst þegar loddarinn (oftar en ekki vel tanaður í dýrum jakkafötum) bankar upp á og reynir að sannfæra þig um að allt sem aflaga fer er vondum útlendingum eða ímynduðum óvinum að kenna, spurðu þig að því hvað hann hefur upp úr krafsinu. Oftast er svarið pólitískur frami eða vafasamir viðskiptagjörningar. Einstaka sinnum 10 milljónir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -