Miðvikudagur 24. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Þurfum meiri stöðugleika á íbúðamarkaði

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, telur þörf á meiri stöðugleika á íbúðamarkaði.

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins. Mynd / Unnur Magna

„Þegar íbúðamarkaðurinn fór að taka við sér í núverandi efnahagsuppsveiflu árið 2011 hafði myndast mikil umframspurn eftir húsnæði enda framboðið talsvert á eftir vaxandi þörf vegna fólksfjölgunar, vaxtar í ferðaþjónustu og lýðfræðilegra þátta. Ójafnvægið náði hámarki á síðasta ári þegar 6 íbúar í landinu bitust um hverja nýja íbúð. Afleiðing þessa varð m.a. til þess að íbúðaverð hækkaði þónokkuð umfram laun í landinu og því varð æ erfiðara fyrir nýja íbúðakaupendur að koma inn á markaðinn. Þar varð unga kynslóðin hvað harðast úti,“ segir Ingólfur.

Hann segir Samtök iðnaðarins hafa barist ötullega fyrir auknu framboði á lóðum til íbúðabygginga enda felist vandinn að miklu leyti í lóðaskorti. „Sveitarfélög hafa brugðist hægt við þessum vanda. Hluti ástæðunnar er að sveitarfélög bera hvert fyrir sig ábyrgð á landskipulagi viðkomandi sveitarfélags. Engin yfirsýn er yfir heildina á landsvísu né samkvæm áætlanagerð. Sveitarfélög huga því ekki að því að jafnvægi sé á milli framboðs og eftirspurnar á húsnæði. SI hafa viljað bæta úr þessu með því að stofna öflugt innviðaráðuneyti sem hefur forræði á málaflokknum í heild sinni og getur tekið af skarið til þess að tryggja að svona ójafnvægi, líkt og verið hefur hér á landi síðustu ár, skapist ekki. Til þess að auka skilvirkni og hagkvæmni kerfisins þarf einnig að einfalda byggingareftirlit og draga úr íþyngjandi kröfum í regluverki, stytta skipulagsferli og auka framboð byggingarsvæða. Loks þarf að tryggja að til staðar séu virk stjórnsýsluúrræði innan málaflokksins.“

Í byggingu eru nú 5.799 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess. Það er um 19% aukning frá því í talningu SI í mars, að sögn Ingólfs. „Í ljósi þessarar talningar spá SI því að í ár verði fullgerðar 2.084 nýjar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu. Um er að ræða umtalsverðan vöxt frá því í fyrra en þá voru nýjar íbúðir aðeins 1.337. Á sama tíma er að draga úr fólksfjölgun á svæðinu. Betra jafnvægi virðist því vera á íbúðamarkaðinum í ár en hefur verið á síðustu árum og sést það í verðþróuninni en hægt hefur umtalsvert á verðhækkun húsnæðis.“

Hann segir að til að hindra svona ástand þurfi langtímahugsun. „Áætlað er að það þurfi 45 þúsund nýjar íbúðir á landinu öllu fram til ársins 2040 og 33 þúsund af þeim þurfi að vera á höfuðborgarsvæðinu. Til að unnt sé að leysa þetta verkefni vel þurfum við framsýni af hálfu ríkis og sveitarfélaga, meiri stöðugleika, aukna hagkvæmni og meiri skilvirkni í byggingu íbúðarhúsnæðis en verið hefur,“ segir Ingólfur að lokum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -