Föstudagur 29. mars, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Tók alveg á taugarnar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Valgeir Bergmann hefur staðið í ströngu undanfarin ár sem framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganganna umdeildu. Hann segist þó ekki hafa tekið gagnrýnina nærri sér, seinkanirnar eigi sér eðlilegar skýringar og göngin séu samgöngubót sem skipti Norðlendinga og Austfirðinga gríðarlegu máli. Þeir sem hæst hafi í gagnrýninni hafi bara ekki kynnt sér málið nægilega vel.

Valgeir Bergmann tók við starfi sem framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganganna í maí 2013 og flutti til Akureyrar með alla fjölskylduna, eiginkonu, tvö börn og hund. Hann var alinn upp í Kópavogi, en bjó tvö ár á Seyðisfirði og segist yfirleitt kalla sig Seyðfirðing. Hann sé nefnilega mikill landsbyggðarmaður í eðli sínu og uni sér hvergi betur en úti á landi.

„Ég bjó reyndar í Hafnarfirði í ellefu ár eftir að við konan mín fórum að búa, en ég er sko alls enginn Hafnfirðingur,“ segir Valgeir og skellihlær. „Það var ódýrast að kaupa húsnæði þar á sínum tíma og ekki var verra að nokkrir vinir mínir bjuggu í næsta húsi.“

Vanur umdeildum framkvæmdum

Valgeir er byggingartæknifræðingur að mennt og segir að sú ákvörðun hafi komið til eftir að hann hafði unnið sem húsamálari með föður sínum og bróður árum saman og fundist eftirlitsmennirnir ekki hafa næga þekkingu á því sem þeir voru að gera þegar þeir fylgdust með verkum.

„Mér fannst þeir bara ekkert vita um hvað þeir voru að tala, þeir höfðu aldrei unnið við þetta,“ útskýrir hann. „Þannig að ég ákvað að fara í skólann og sýna þeim hvernig ætti að gera þetta. Það þróaðist þannig að ég endaði inni á framkvæmdalínu og fékk vinnu á verkfræðistofu við að hanna vegi og lagnir. Þegar ég var búin að vinna við það í eitt og hálft ár fór ég að bauna því á yfirmanninn hvort ég gæti ekki fengið að fara í eftirlitið til að sjá svart á hvítu hvort maður væri að hanna hlutina rétt. Þannig að ég endaði í eftirliti með verktökum og fór að segja þeim fyrir verkum. Í kjölfarið bauð einn verktakinn mér vinnu og fyrsta verkið mitt í verkefnisstjórnun var færsla Hringbrautarinnar þar sem við sneiddum af flugvellinum. Það var mjög umdeild framkvæmd á sínum tíma.“

Valgeir Bergmann hefur staðið í ströngu undanfarin ár sem framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganganna umdeildu. Mynd / Auðunn Níelsson

Valgeir er sem sagt ekki óvanur því að stjórna umdeildum verkefnum, en gagnrýnin sem Vaðalaheiðargöngin hafa fengið hlýtur þó að toppa það flest.

- Auglýsing -

„Það hefur loðað við mig að vera í verkefnum sem hafa mætt mótvindi,“ segir hann glaðbeittur. „Það er bara orðinn eðlilegur hluti af vinnunni að það sem ég geri sé umdeilt. En mótvindurinn hefur vissulega verið sterkari en oft áður eftir að ég varð framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganganna, ég neita því ekki.“

Fyllti út umsókn á flugvellinum

Valgeir fór að vinna í Noregi eftir hrun, eins og svo margir Íslendingar í þessu fagi, og var staddur ytra þegar hann frétti af framkvæmdastjórastöðunni.

- Auglýsing -

„Ég hafði verið að vinna hjá Háfelli sem er jarðvinnuverktaki, og meðal annars verið verkefnastjóri í Héðinsfjarðargöngunum. Svo kom hrunið og það var eiginlega enga vinnu að fá í þessum jarðvinnubransa, allar framkvæmdir stöðvuðust, svo ég, eins og mjög margir aðrir í mínu fagi, fór til Noregs þar sem ég vann í þrjú ár fyrir Ístak, ásamt fjölmörgum öðrum Íslendingum sem voru í sömu stöðu og ég. Það var alveg ágætis tími. Við vorum yfirleitt þrjár til fjórar vikur úti, þar sem við ferðuðumst á milli verkefna og svo viku heima. Konan mín var eftir heima og var orðin dálítið þreytt á þessu og það var hún sem benti mér á að það væri verið að auglýsa eftir framkvæmdastjóra fyrir Vaðlaheiðargöng. Ég var staddur á flugvellinum í Ósló þegar hún sagði mér frá þessu og ég fyllti umsóknina út meðan ég beið eftir flugi.“

Framkvæmdir við Vaðlaheiðargöngin hófust vorið 2013 og þeim átti að ljúka í lok árs 2016, en verkið dróst í tvö ár.

„Eins og þeir vita sem hafa fylgst með framkvæmdinni þá gekk verkið mjög vel til að byrja með og það var góður gangur í því,“ segir Valgeir. „Síðan gróf verktakinn sig inn í heitavatnsæð og út fossuðu 350 lítrar á sekúndu af 46 gráðu heitu vatni og það tafði auðvitað vinnuna því það þurfti að auka allar þéttingar og loka fyrir allt vatn sem hugsanlega gæti verið í göngunum. Það hægði mjög á hraða verksins. Að lokum var hætt að grafa Eyjafjarðarmegin og borinn færður yfir í Fnjóskadal og byrjað að bora niður á við í átt að Eyjafirði. Það gekk ágætlega framan af, þangað til göngin voru komin um einn og hálfan kílómetra inn. Þá var verið að grafa í misgengisprungu með lausu efni og það vildi svo illa til að efnið hrundi niður og fyllti göngin og í kjölfarið fylgdi mikið vatnsflóð þeim megin. Þá fylltust göngin því að dælurnar höfðu ekki við og gangavinnan var stopp í 32 daga.“

Vanur neikvæðri umfjöllun

Valgeir tekur fram að hann sé ekki hluti af verktakateyminu, heldur fulltrúi verkkaupa og hlutverk hans hafi verið að hafa yfirumsjón með verkinu, samskipti við eftirlit með verkinu og semja við verktaka.

„Öll samskipti við opinbera aðila voru líka á minni könnu,“ útskýrir hann. „Þannig að ég þurfti að koma fyrir þingnefndir og slíkt og gefa yfirlit yfir stöðuna.“

En þetta tók á taugarnar, ég segi það ekki, að þurfa stöðugt að vera að endurmeta stöðuna í verkinu og reikna út hvort það gangi upp eða ekki og alltaf að svara sömu spurningunum.

Það getur varla hafa verið mjög skemmtilegt í öllum þessum áföllum og töfum en Valgeir kvartar ekki. „Eftir á að hyggja var þetta alveg skemmtilegt,“ segir hann og hlær. „Það er gaman að fá að upplifa eitthvað sem maður hafði áður bara lesið um og heyrt af annars staðar. En þetta tók á taugarnar, ég segi það ekki, að þurfa stöðugt að vera að endurmeta stöðuna í verkinu og reikna út hvort það gangi upp eða ekki og alltaf að svara sömu spurningunum. En maður er svo sem kominn með ágætis reynslu og farinn að kunna að anda með nefinu í svona djobbum. Það gerist aldrei allt á tveimur, þremur dögum, þetta er langtímavekefni.

Þetta var eins með færslu Hringbrautarinnar og Héðinsfjarðargöngin svo maður var orðinn vanur því að fá alltaf þessa neikvæðu punkta og spurningar. Það sem hefur kannski komið mest á óvart varðandi Vaðlaheiðargöngin er hversu margir fjölmiðlar hafa verið tilbúnir að stökkva á vagninn og gagnrýna. Það voru fljótlega farnar að berast þrjár, fjórar spurningar á dag frá fréttamönnum þannig að við ákváðum að halda úti Facebook-síðu fyrir verkefnið til að upplýsa fólk um gang mála. Við vildum ekki fá það orð á okkur að við værum að fela eitthvað.“

Sama fólkið sem gagnrýnir allt

Spurður hverju hann svari þessum gagnrýnisröddum segir Valgeir að hann meti það svo að full ástæða hafi verið til að ráðast í þessa framkvæmd, þótt ákvörðunin hafi auðvitað að vissu leyti verið pólitísk.

„Pólitíkin er búin að svara fyrir að þetta hafi verið réttlætanlegt,“ segir hann. „Ég missti reyndar af allri þeirri umræðu vegna þess að ég var úti í Noregi, ég bara réði mig þarna í vinnu og kom norður í góðum fíling. Svo þegar ég fór að lesa mér til um það sem á undan var gengið og fékk allar þessar spurningar, áttaði ég mig á því að þetta væri kannski aðeins viðkvæmara mál en ég hafði haldið. En það sem margir af þeim sem gagnrýna framkvæmdina mest vita ekki er að Víkurskarðið er annar mest ekni fjallvegur á landinu á eftir Hellisheiði. Flestir sem hafa hæst keyra frá Reykjavík til Akureyrar, fara ekkert austar og halda að sú leið sem þeir keyra sé mest ekin. Menn átta sig ekki á því að þarna fara á milli þúsund og átján hundruð bílar á dag, sem er nánast sama magn bíla og keyrði Hvalfjörðin áður en göngin komu þar. Þannig að teknu tilliti til umferðar er þessi framkvæmd alveg eðlileg.

Ég bara réði mig þarna í vinnu og kom norður í góðum fíling. Svo þegar ég fór að lesa mér til um það sem á undan var gengið og fékk allar þessar spurningar, áttaði ég mig á því að þetta væri kannski aðeins viðkvæmara mál en ég hafði haldið.

Þetta styttir leiðina og gerir hana öruggari. Svo er þetta líka heilbrigðismál, þetta styttir viðbragðstíma sjúkrabíla og það hefur algjörlega gleymst í þessari umræðu að Akureyri er þjónustumiðstöð fyrir bæði Norðurland og Austurland. Mjög margir sem búa austan Vaðlaheiðar sækja verslun og aðra þjónustu til Akureyrar. Þannig að ég er alveg harður á því að þessi framkvæmd átti rétt á sér, hún var bara ekki framarlega í forgangsröðinni og það var ekki hægt að koma henni á koppinn öðruvísi en að taka lán sem síðan verða borguð með veggjöldum. Ef það væru ekki veggjöld hefði hún til dæmis örugglega ekki farið af stað á undan göngunum til Norðfjarðar og Dýrafjarðargöngum, en hún væri örugglega að fara af stað í dag vegna þess að umferðin er orðin það mikil.“

Sorglegt andlát á lokametrunum

Nú er komið gott af þessum tæknilegu atriðum, finnst okkur báðum, og við snúum okkur að persónulegri reynslu Valgeirs af því að vera í forsvari fyrir þessi umdeildu göng? Hefur hann orðið fyrir aðkasti vegna stöðu sinnar sem forsvarsmaður þessara framkvæmda? „Nei, ég get nú ekki sagt það,“ segir hann pollrólegur. „Sérstaklega ekki þar sem öll fjölskyldan flutti hingað og ekki bara það að okkur hafi verið vel tekið hérna, heldur fór ég líka beint út í félagslífið, byrjaði að stunda blak með félögum í KA og það endaði með því að ég varð formaður í blakdeildinni og sinni ýmsum störfum varðandi það. Þegar við komum hingað mættum við eiginlega bara fjölda já-fólks.

„Við höfum aldrei orðið fyrir aðkasti eða heyrt mikið af gagnrýnisröddum hérna fyrir norðan.“

Við höfum aldrei orðið fyrir aðkasti eða heyrt mikið af gagnrýnisröddum hérna fyrir norðan. Hér vita allir að þetta eru veggjaldagöng og eru bara jákvæðir fyrir því. En aftur á móti hafa félagarnir fyrir sunnan verið duglegir við að senda manni skot og maður heyrði það alltaf þegar maður fór suður að þar voru ekki allir á eitt sáttir. En mér persónulega finnst stór hluti af þessari gagnrýni bara vera skilnings- og þekkingarleysi. Það var ein af ástæðunum fyrir því að stjórn Vaðlaheiðarganga lagði mikla áherslu á að kynna verkefnið og hafa allar upplýsingar aðgengilegar. Við birtum alveg jafnt fréttir af því sem ekki gekk vel, það var allt uppi á borðum.

Ég held reyndar að mest af gagnrýninni sé frá sama fólkinu og gagnrýnir allt annað. Það eru enn þá sömu aðilar að gagnrýna göngin á kommentakerfunum og voru að því í upphafi.

Það var hins vegar þannig að þegar vel gekk og met voru sleginn sýndu fjölmiðlar því lítinn áhuga en ef illa gekk var því samstundis slegið upp. Þannig að maður var stundum skammaður fyrir að setja vondu fréttirnar inn, en það var bara stefnan að segja frá öllu sem var að gerast. Ég held reyndar að mest af gagnrýninni sé frá sama fólkinu og gagnrýnir allt annað. Það eru enn þá sömu aðilar að gagnrýna göngin á kommentakerfunum og voru að því í upphafi. Það skiptir engu hvernig gengur, það eru alltaf sömu neikvæðniraddirnar og ef maður spyr þessa aðila út í gagnrýnina og reynir að útskýra eitthvað fyrir þeim þá vita þeir alveg um hvað málið snýst en eru bara búnir að ákveða að vera á móti þessu. Þannig að maður verður bara að brosa að svona fólki, það heyrist alltaf hæst í því.“

Sitt af hverju sem kom upp í vinnunni við göngin hlýtur að hafa verið erfitt, eins og dauðsfallið sem varð á lokametrunum.

„Varðandi dauðsfallið þá var það vissulega hörmulegt. Þetta var þó ekki vinnuslys, málarinn varð bráðkvaddur við vinnu sína næstsíðasta daginn sem aðalverktakinn var að vinna í göngunum. Mjög erfitt og sorglegt fyrir alla auðvitað. En almennt fyrir mig sjálfan þá er aðalmálið að hafa mikið að gera, þótt fjölskyldan sé reyndar ekki alveg sammála þeirri stefnu minni, fjölskyldunni finnst ég alltaf vera í vinnunni.“

Orðið eins og barnið manns

Þegar göngin voru loks opnuð fann Valgeir fyrir góðri tilfinningu en verkefnum hans er þó ekki lokið. „Já, það var mjög gott þegar göngin opnuðu,“ segir hann með sannfæringu. „Það er alltaf góð tilfinning að geta lokið verki og horft til baka og skoðað það sem búið er að gera. En á móti kemur að þetta er auðvitað ekki alveg búið og mitt verkefni heldur áfram við gjaldtökuna og veggjaldapælingar og slíkt, þannig að ég er ekki enn kominn í neina slökun og farinn að anda út.

Fyrsti mánuðurinn í rekstri og gjaldtöku er reyndar búinn þannig að það er aðeins farið að gefast tóm til að anda – ég vinn ekki lengur allar helgar og alla nóttina, á bakvakt, tilbúinn að stökkva til ef eitthvað kemur upp á. Ég er samt enn þá með sömu stöðu og ég var sem framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga og er áfram eini starfsmaður félagsins, en ég hef góða í kringum mig bæði í stjórninni og ráðgjafa sem hafa sinnt eftirlitinu. Ég sé sem sagt um reksturinn á félaginu auk þess að vera með aðkeypta þjónustu í ýmis konar umsýslu eins og gjaldheimtunni. Ég vona að ég haldi því áfram, því þetta er orðið eins og barnið manns sem maður vill halda áfram að sinna og styðja út í heiminn.“

Valgeir og hundurinn Bella. Mynd / Auðunn Níelsson

Valgeir er greinilega virkur í félagslífi Akureyringa og virðist lítið fararsnið á honum og fjölskyldu hans.

„Nei, við höfum engin plön um að fara héðan,“ segir hann hlæjandi.

„Okkur líður vel hér. Til afslöppunar og að vinna á móti vinnutengdu stressi er Akureyri algjör snilld. Ég er mikill landsbyggðarmaður í mér og svo erum við með hund sem börnin fengu til að sætta sig við flutningana á sínum tíma, en þau höfðu lengi suðað um að fá hund. En svo fannst þeim auðvitað bara gaman að honum á meðan hann var hvolpur og það hefur komið í minn hlut að fara með hann út alla daga og sinna honum. Sem er yndislegt, þetta er ekta útivistarparadís, það er jafnstutt fyrir mig að fara í sund og upp í fjall hvort sem er á skíði, hjól eða göngur.“

Best að slaka á í náttúrunni

Ertu sem sagt algjört útivistarfrík?

„Ekki frík, nei,“ segir Valgeir, hálfmóðgaður. „En verandi kominn á minn aldur, 45 ára, þá kann ég betur að meta Ísland og það sem ég hef í kringum mig. Ég er búinn að sjá það sem ég þarf um allan heim og mér finnst langbest að slaka á úti í náttúrunni. Ég er með fastar venjur; ég fer í fjárgöngur upp á Eyvindarstaðaheiði og hef gert undanfarin fimmtán ár. Frítíminn fer í göngur, helst þar sem er ekkert símasamband og gist er í gangnamannakofum með bændunum sem mér finnst óskaplega skemmtilegt. Síðan er ég líka í gönguhóp sem fer eina ferð á ári í langa göngu. Það er óskaplega gaman að koma í þessar göngur og hitta fólk sem maður hittir kannski bara í þetta eina sinn á árinu. Svo er ég í öldungablaki með vinahópnum fyrir sunnan sem kallast Massarnir og tók líka að mér að þjálfa blakhópinn Stellurnar frá Akureyri, hóp sem samanstendur af konum á besta aldri og hefur notið gríðarlegra vinsælda, svo mikilla reyndar að þær geta ekki lengur tekið við fleiri félögum, við höfum ekki pláss til að æfa marga hópa í einu. Þannig að ég hef alltaf nóg að gera í frítímanum og nýt þess virkilega að fá útrás og slökun í gegnum alls konar líkamlega áreynslu.“

Framkvæmdin mun sanna gildi sitt

Valgeir finnur fyrir þakklæti þegar hann lítur um öxl, fyrir að hafa fengið að taka þátt í vinnunni við Vaðlaheiðargöngin. „Þetta er þarft samgönguverkefni og mun sanna sig þótt það hafi verið umdeilt. Það tekur bara tíma fyrir fólk að átta sig á því hvernig þetta virkar. Auðvitað er alveg ljóst að þetta kostaði miklu meira en áætlað var og sumir vilja ganga svo langt að segja að þetta hafi verið eitthvert plott og menn hafi vitað að þetta yrði miklu dýrara. Ég get ekki tekið undir það. Sumt er bara ekkert hægt að sjá fyrirfram hvernig endar og stór hluti af þessum aukakostnaði er óútskýrðar jarðfræðilegar aðstæður. Þetta er bara eins og þegar verið er að leita að vatni fyrir hitaveitur.

Auðvitað er alveg ljóst að þetta kostaði miklu meira en áætlað var og sumir vilja ganga svo langt að segja að þetta hafi verið eitthvert plott og menn hafi vitað að þetta yrði miklu dýrara.

Það er ekki hægt að segja með hundrað prósent vissu þegar byrjað er að bora að hitt verði á vatn og það var það sama hjá okkur. Við gátum ekki sagt með hundrað prósent vissu að við myndum ekki hitta á vatn enda kom það á daginn að þarna var fullt af vatni sem enginn bjóst við að væri þarna. Norðurorka sem leitar að vatni hérna fyrir norðan hafði til dæmis ekki grun um að allur þessi forði af vatni væri í heiðinni, þótt þeir séu sérfræðingar á því sviði. Það sá það enginn fyrir.“

Mynd / Auðunn Níelsson

Þannig að þú ert sáttur og stoltur við verklok?

„Já, ég er mjög sáttur og mjög stoltur og bara mjög ánægður að vera hér á þessu svæði. Það eina sem maður sér eftir er að hafa ekki alist upp hérna og hafa hér dýpri rætur. Þetta hefur verið skemmtilegt verkefni, þótt það hafi verið krefjandi og erfitt og hafi á köflum reynt vel á taugarnar. Í þessi ár dreymdi mig aldrei neitt nema vinnuna. Konan mín getur vottað að ég var alltaf að leysa einhver verkefni tengd göngunum í svefni. Ég veit ekki alveg hvað mig mun dreyma hér eftir, en maður finnur sér alltaf einhver verkefni til að glíma við. Nú er ég einmitt á leið út til að kaupa mér gönguskíði og stefni að því að taka þátt í Fossavatnsgöngunni á Ísafirði í byrjun maí. Mér finnst gott að hafa sífellt nýjar áskoranir til að sigrast á og finnst það nauðsynlegt.“

Myndir / Auðunn Níelsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -