Fimmtudagur 28. mars, 2024
0.8 C
Reykjavik

Um hvað mega skáldsagnahöfundar skrifa?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hinn almenni samfélagsmiðlanotandi virðist álíta það sitt hlutverk að segja skáldsagnahöfundum til syndanna og reyna að stýra því hvað þeir skrifa um.

Í bókinni Lára fer til læknis eftir Birgittu Haukdal er hjúkrunarfræðingur kallaður hjúkrunarkona.

Stóra hjúkrunarkonumálið hefur verið eitt aðalumræðuefni fólks á samfélagsmiðlum undanfarna viku og mikið um andköf og upphrópanir. Í stuttu máli snýst upphlaupið um að í barnabók eftir Birgittu Haukdal er hjúkrunarfræðingur kallaður hjúkrunarkona og teikningin sem frásögninni fylgir þykir sýna viðkomandi hjúkrunarkonu í ansi kynferðislegu ljósi. Hjúkrunarfræðingum þykir að sér vegið og starfsstéttinni sýnd óvirðing og æstir í athugasemdum frussa yfir lyklaborðin af hneykslun yfir því að skáldsagnahöfundur skuli leyfa sér slíka ósvinnu árið 2018. Það bara má alls ekki láta höfunda komast upp með slíkt.

Svona umræða er reyndar ekki nýtilkomin. Oft á ári rís fólk upp og andskotast út í þennan eða hinn höfundinn fyrir að stunda rasisma, kvenfyrirlitningu, menningarnám og annan óskunda í bókum sínum. Hinn almenni samfélagsmiðlanotandi virðist álíta það sitt hlutverk að segja skáldsagnahöfundum til syndanna og reyna að stýra því hvað þeir skrifa um. Hugsanalögreglan er stöðugt í viðbragðsstöðu og fáir virðast stoppa við og velta því fyrir sér hvað orðið skáldskapur þýði. Skáldverk eru nefnilega ekki fræðibækur, það er ekki hlutverk þeirra sem skrifa skáldaðar sögur að passa upp á að allar staðreyndir séu réttar. Staðreyndir eru andstæða skáldskapar og það er gríðarlega hættuleg þróun ef fara á að setja höfundum mörk um það hvað þeir mega og mega ekki segja í verkum sínum. Bókmenntasagan er full af dæmum um slæmar afleiðingar þess að yfirvöld eða hugsanalögregla ritskoði skáldverk og ákveði hvað sé leyfilegt og hvað ekki og slík ritskoðun er yfirleitt eitt fyrsta dæmið um fasíska stjórnarhætti. Það er því óneitanlega stórundarlegt að það fólk sem harðast berst á móti fasisma og uppgangi hans í samtímanum skuli vera fremst í flokki í rétttrúnaðarlögreglunni sem vill stýra því hvað má og má ekki segja í skáldskap. Sér virkilega enginn mótsögnina í því?

Í hjúkrunarfræðingstilfellinu er vissulega um að ræða rangt starfsheiti starfsstéttar sem verið hefur í harðri baráttu fyrir að fá störf sín metin að verðleikum og skiljanlegt að þeim sárni. En meirihluti fólks talar nú samt enn um hjúkrunarkonur og barnið í sögunni greinir varla þar á milli. Teikningin er augljóslega út úr öllu korti, á henni líta bæði barnið og hjúkrunarfræðingurinn út fyrir að vera frá sjötta áratug síðustu aldar, en þar er við teiknarann og útgefandann að sakast, ekki höfundinn.

Að sjálfsögðu er baráttan gegn rasisma, kynjahyggju, menningarnámi, hómó- og transfóbíu og svo framvegis göfug og nauðsynleg en hún má ekki snúast um það hvað leyfilegt er að birta í skáldverkum. Rithöfundar eru ekki fræðarar, það er ekki þeirra hlutverk að berjast gegn óréttlæti heimsins og það er ekki okkar hlutverk að hefta listrænt frelsi þeirra, hversu vel sem við meinum með því. Við verðum að geta gert þá kröfu til okkar sem lesanda að við kunnum að skilja á milli skáldaðs veruleika og þess veruleika sem við hrærumst í alla daga. Til hvers ættum við annars að lesa skáldskap?

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -