Laugardagur 21. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Umræðan um þriðja orkupakkann er stormur í vatnsglasi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Eva H. Baldursdóttir 

Það er athyglisvert að fylgjast með umræðunni um þriðja orkupakkann. Á samfélagsmiðlum hefur umræðan hreinlega verið út um allt. Efasemdakórinn syngur sinni tærru röddu og sópraninn ómar að í þriðja orkupakkanum felist einhvers konar framsal á auðlindum Íslendinga. Yfirráð liggi í höndum Evrópusambandsins. Skynsemisraddir virðast þó vera að kveða niður kórinn og sefa ótta almennings, sem er vel. Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið gaf svo út lista yfir helstu spurningar og svör í gær. Hræðsluáróður stjórnmálamanna og falsyfirlýsingar eru enda orðnar þreytt einkenni á íslenskri pólitík og áróður þessi virðist fremur eiga sér upptök í andstöðu við EES-samninginn en að farið sé með rétt mál um innihald pakkans.

Þriðji orkupakkinn varðar ekki eignarrétt yfir orkuauðlindum Íslendinga. Þetta er svipað og að segja að Ísland hafi framselt eignarhald bankakerfisins undir yfirráð og ákvarðanatöku ESB við að taka upp regluverk um evrópskar eftirlitsstofnanir í íslensk lög.  Það er ekki svo. Regluverkið er eitt – eignarhald er annað – og hér ekki samofið. Umræðan um stefnumótun um orkumál Íslendinga til framtíðar er önnur umræða og mætti gjarnan taka t.d. hvernig fara eigi með orkuauðlindir sem ábyrgur eigandi, arðinn og svo framvegis.

Með EES samningum hefur Ísland hins vegar undirgengist ákveðið reglusetningarvald Evrópusambandsins t.d. vegna orkumála og bankamála. Það er ekkert nýtt að reglur EEB gildi um raforkumarkaðinn, heldur hefur það verið um langt skeið. Í gegnum EES samninginn fær Ísland löggjöf á því sviði sem EES samningur tekur til, á sviði fjórfrelsins og er skylt að taka hana upp. Ísland hefur fengið undanþágur frá regluverkinu vegna ýmissa þátta er lúta að orkumálum t.d. við rekstur Landsnets. Ísland fékk undanþágu vegna nýmælis þriðja orkupakkans um fullan aðskilnað flutningsfyrirtækja, sem hér er Landsnet, frá framleiðslu- og sölufyrirtækjum rafmagns.

Í raforkulögum frá árunum 2003 og 2008 voru innleiddir fyrstu tveir orkupakkarnir sem snúa að markaðsvæðingu á framleiðslu og sölu á raforku. Þriðji orkupakkinn er framhald á þeirri vegferð sem leiðir af sér af sér að hér ríkir frjáls samkeppni um rafmagn og neytendur ráða af hverjum þeir kaupa orku. Fyrir árið 2003 gátu neytendur ekki valið um af hverjum þeir keyptu rafmagn. Það er spurning hvort efasemdafólk vilji fara aftur í algjöran ríkisrekstur en það er erfitt að átta sig á málflutningi  hvað þeir vilja nákvæmlega. Er það þeirra pólitíska skoðun að ríkið eigi að sjá um rekstur og þjónustu á grunninnviðum samfélagsins? Einhvers konar kommúnismi. Eða á það að vera alveg frjálst?  Það er ekkert sérstaklega rómantísk tilhugsun að hverfa aftur til daga eins og þegar símaþjónusta var keypt af ríkinu í gegnum Póst og Síma, ríkið stýrði bankaþjónustu þar sem hver flokkur átti sinn flokk og viðskiptavinir fóru í sínu fínasta pússi, með flokksskírteinið upp á ermina í bankann til að taka víxil. Sú skipan er ekki til þess fallin að minnka spillingu eins og sagan hefur sýnt. Fókusinn á að vera að setja mörkuðum reglur til að starfa eftir sem vernda umfram allt almannahagsmuni.

Ísland áfram frjálst

- Auglýsing -

Þriðji orkupakkinn felur þó í sér afmarkað framsal framkvæmdarvalds, en það er vel innan þeirra lausna á sviði EES-samningsins sem við Íslendingar þekkjum þegar innan tveggja stoða kerfisins EES samningsins. Framsalið er vel afmarkað og fyrirsjáanlegt. Ákvarðanavald er fengið hjá Eftirlitsstofnun EFTA og verður ekki hjá Evrópusambandinu. Þá mun aldrei reyna á það nema millilandatengingar verði til staðar þ.e. sæstrengur.

Sá lýðræðishalli sem EES samningurinn felur í sér er umræða sem fer alltof sjaldan fram á Íslandi. Í aðdraganda aðildarviðræðna við Evrópusambandið hér á landi fór hún aldrei með himinskautum, en það er staðreynd að við eigum ekki sæti við borðið þegar löggjöf er ákveðin sem á að binda hendur Íslendinga. Það er hreinlega vond staða. En hún er samt miklu betri en hinn möguleikinn – að vera ekki í EES samstarfinu. Þannig virðist ríkja þegjandi samþykki meðal skynsemisfólks að vekja ekki upp umræðu um þetta. EES samningurinn hefur nefnilega haft gríðarleg jákvæð áhrif fyrir Ísland á svo marga vegu – bæði fyrir viðskiptalífið og neytendur. Það er óumdeilt. Um kosti samstarfsins má vísa til myndbands sem Viðskiptaráð gerði.

Ísland verður áfram frjálst að taka stefnumótandi ákvarðanir um auðlindir landsins þrátt fyrir samþykkt orkupakkans. Ísland hefur ekki staðið sig vel við að verðleggja grænar orkuauðlindir landsins og við megum áfram sóa þeim að vild, þó mikilvægt sé að gera mun betur en sagan sýnir. Að selja rafmagn með afslætti til erlendra stóriðjufyrirtækja, sumra hverja sem að borga ekki almennilega fyrirtækjaskatta hér á landi með skattabrellum er ekki farsælt. Ísland má áfram virkja að vild, innan þess sem löggjafinn ákveður. Okkur hefur alltaf verið frjálst að leggja sæstreng til Evrópu eða hvert sem við viljum. Þessi löggjöf er ekki að hindra það en setur því ákveðnar skorður. Ríki og sveitarfélögum, sem og félögum í þeirra eigu, verður áfram óheimilt að selja orkuauðlindir samkvæmt lögum.  Gott væri að sjá umræðuna þróast yfir í almenna umræðu um stöðu auðlindamála á Íslandi almennt, meðferð þeirra og eignarhald, til framtíðar, sem og nauðsyn þess að vernda auðlindir Íslands í stjórnarskránni. Grýlurnar liggja annars staðar en í þriðja orkupakkanum.

- Auglýsing -

Mynd / Jóhanna Þorkelsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -