Þriðjudagur 19. mars, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Var kallaður útfararstjóri Samfylkingarinnar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það hvarflaði ekki að Loga Einarssyni þegar hann gekk inn á landsfund Samfylkingarinnar snemma sumars 2016 að fimm mánuðum síðar yrði hann orðinn formaður flokksins. Hann var þá óbreyttur bæjarfulltrúi á Akureyri og nánast enginn utan hans heimabyggðar þekkti deili á honum. Logi tók við Samfylkingunni í molum, hún hafði naumlega sloppið við að þurrkast út af þingi og var uppfull af innanmeinum. Því var jafnvel spáð að Logi yrði síðasti formaður Samfylkingarinnar.

„Ég var látinn vita af því bæði af félögum og andstæðingum að þetta væri vonlaust tafl, að þetta væri búið. Einhverjir nefndu mig útfararstjóra Samfylkingarinnar. Ég held að það hafi frekar hert mig, enda var ekkert úr háum söðli að detta,“ segir Logi um þá stöðu sem hann var skyndilega kominn í, þ.e. að vera formaður stjórnmálaflokks.

Fimm mánuðum áður hafði Logi gengið sem óbreyttur flokksmaður inn á landsfund Samfylkingarinnar á Grand hóteli. Loftið var lævi blandið. Í kosningunum þremur árum áður hafði Samfylkingin sett Íslandsmet í fylgistapi og linnulausar deilur um ástæður þess og gagnrýni á forystu flokksins fór fram fyrir opnum tjöldum. Fram undan var formannsslagur á milli Magnúsar Orra Schram og Oddnýjar Harðardóttur en Árni Páll Árnason hafði áður dregið framboð sitt til baka.

Nokkrum dögum fyrir umræddan landsfund fór Logi að velta því fyrir sér hvort hann ætti að gefa kost á sér í embætti varaformanns færi svo að Oddný færi með sigur af hólmi. „Ég hugsaði hvort ég gæti boðið upp á öðruvísi og breiðari ásýnd fyrir flokkinn sem sveitarstjórnarmaður, landsbyggðarmaður og auðvitað karlmaður. Ég talaði við mitt nánasta fólk og ákvað að ef svo færi að Oddný sigraði þá myndi ég bjóða mig fram sem ég og gerði. Svo hefur það haft afleiðingar sem ég reiknaði með, sóttist ekki eftir og bjóst ekki við.“

Sækist ekki eftir leiðtogahlutverki en enda þar

Það verður seint sagt að pólitíkin sé Loga í blóð borin. Hann er fæddur og alinn upp á Akureyri, sonur kennarahjóna og enginn honum náinn hefur tekið þátt í stjórnmálastarfi. Sjálfur sótti hann nokkra fundi hjá Alþýðubandalaginu á menntaskólaárunum en um miðjan níunda áratug síðustu aldar hélt hann til Noregs, þá tvítugur að aldri, til að læra arkitektúr. Þar með lauk afskiptum hans af stjórnmálum næstu tvo áratugina. Það er ef undan er skilin hönnunarvinna hans fyrir Vinstri græna þar sem hann teiknaði gamla merki flokksins sem var í notkun allt fram til ársins 2016.

„Ég byrjaði ekki í pólitík af einhverri alvöru fyrr en eftir hrunið. Þá sat ég eins og margir aðrir Íslendingar og gapti út í loftið milli vonar og ótta og skildi ekkert hvað var að gerast en fannst að maður þyrfti á einhvern hátt að taka þátt í þessu,“ segir Logi sem hóf að mæta á fundi hjá Samfylkingunni. „Svo var opið prófkjör í febrúar 2009 og ég var þá alveg nýr í flokknum en ákvað að hella mér í það og náði þriðja sæti en fell niður í fjórða sæti vegna kynjareglu sem var bara hið besta mál. En þetta nægði til þess að ég varð varaþingmaður 2009-2013, kom nokkrum sinnum inn án þess þó að rista djúp spor í stjórnmálasöguna.“

Ég hef svo sem ekki verið að sækjast eftir áhrifum eða leiðtogahlutverki en ég enda þar.

- Auglýsing -

Logi hellti sér í bæjarmálin á Akureyri eftir þetta og skipaði þriðja sætið á lista flokksins í bæjarstjórnarkosningunum 2014. Efstu tveir fulltrúar listans heltust hins vegar úr lestinni og skyndilega var Logi orðinn bæjarfulltrúi. „Það er pínulítið mín saga. Ég hef svo sem ekki verið að sækjast eftir áhrifum eða leiðtogahlutverki en ég enda þar.“

Sárir og langþreyttir flokksmenn

Haustið 2016 er óvænt boðað til þingkosninga eftir að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sprakk í kjölfar uppljóstrana úr Panama-skjölunum. Niðurstaða þeirra kosninga var hreint afhroð fyrir Samfylkinguna, 5,7 prósent atkvæða og einungis þrír þingmenn. Logi náði hins vegar að olnboga sig inn á þing eins og hann orðar það sem eini kjördæmakjörni þingmaður flokksins. „Það stefndi í þetta fyrir kosningar, skoðanakannanir mældu okkur illa og við höfðum lítið traust meðal kjósenda og við endum þar þrjú.

- Auglýsing -

Daginn eftir tilkynnti Oddný mér það að hún ætlaði að stíga til hliðar og axla ábyrgð á ósigrinum þrátt fyrir að það sé á engan hátt hægt að kenna henni um hann. Ég bað hana um að hugsa málið en hún var alveg sannfærð.“ Logi tekur því við keflinu sem varaformaður. „Þá þurfti ég að bretta upp ermar og brosa framan í myndavélarnar og láta líta út fyrir að vera öruggur þrátt fyrir að maður væri óttalega lítill innra með sér.“

Logi tók við Samfylkingunni á botninum. Flokkurinn hafði nánast þurrkast út í þingkosningum og flokksmenn voru langþreyttir og sundurlyndir.

Aðkoman fyrir Loga, ef það má orða það svo, var hreint ekki falleg. Samfylkingin, sem hafði verið stofnuð til að sameina vinstri vænginn og verða mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn, var orðin að smáflokki sem rétt náði að skríða yfir fimm prósenta þröskuldinn. Flokksmenn voru bæði sárir og langþreyttir eftir langvarandi innanflokksátök. „Það er auðvitað þannig að kjósendur sjá á fólki hvort því líði vel, hvort þeir eru vinir og hvort hópurinn er samstilltur. Ég held einfaldlega að kjósendur hafi séð það á okkur að svo var ekki.“

Það er auðvitað þannig að kjósendur sjá á fólki hvort því líði vel, hvort þeir eru vinir og hvort hópurinn er samstilltur.

Höfðum ekkert í það kompaní að gera

Það stefndi í erfitt kjörtímabil fyrir Loga og félaga hans enda útheimtir það mikla vinnu að halda úti þriggja manna þingflokki. „Hvort við hefðum haldið þetta út í fjögur ár, ég veit það ekki,“ segir Logi en eins og svo oft áður voru utanaðkomandi aðstæður honum í hag. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar sprakk og enn og aftur var boðað til kosninga þar sem Samfylkingin rúmlega tvöfaldaði fylgi sitt og bætti við sig fjórum þingmönnum.

„Þó að það væri auðvitað ekki spennandi að fara í kosningar svo skömmu eftir að hafa farið í gegnum þessar erfiðu kosningar þá eygðum við samt ákveðið sóknarfæri og mér fannst skipta máli þá að við stilltum upp fjölbreyttum einstaklingum á lista. Við tefldum fram nýju fólki og ég tel okkur hafa tekist vel upp. Við fengum ágætis útkomu út úr þeim kosningum og erum með sjö þingmenn núna og á því hef ég getað byggt.“

Logi eygði tækifæri til að koma flokknum í ríkisstjórn því fljótlega eftir kosningar hóf hann stjórnarmyndunarviðræður við VG, Pírata og Framóknarflokk um ríkisstjórnarsamstarf. Þeim viðræðum var hins vegar slitið eftir þriggja daga viðræður og fór svo að VG fór í sæng með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.

Logi segir þá niðurstöðu vonbrigði enda ekkert sem benti til annars á þeim tímapunkti en að flokkarnir væru samhuga. „Samfylkingin og Vinstri græn voru sammála í skatta- og velferðarpólitík, Framsóknarflokkurinn á sínum bestu dögum er með sterka félagslega taug og hefur alveg getað unnið í þá áttina líka, Píratar ábyrgt og gott fólk sem er nauðsynlegt að hafa á þinginu. Ég sá ekkert, ég sá enga hindrun. Vonbrigðin snérust fyrst og fremst um það hvað fólk gafst auðveldlega upp,“ segir Logi.

„Það er ekkert leyndarmál að það var orðað við okkur að koma með í það stjórnarsamstarf en það var ekkert þar fyrir okkur. Það lá alveg fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn var ekki að fara að gera þær grundvallarbreytingar á skattkerfinu eða velferðarkerfinu sem þjóðin þarf. Núna ætla þeir sér ekki að hrófla við sjávarútvegskerfinu og ekki einu sinni skoða gjaldmiðlamálin þannig að við höfðum ekkert inn í það kompaní að gera.“

Kannski lengra á milli VG og Samfylkingar en ég hélt

Logi segir vonbrigðin að hafa ekki náð að mynda ríkisstjórn frá miðju og til vinstri sárari en ella í ljósi kjaraviðræðna sem nú standa yfir. Þar skipti aðkoma ríkisvaldsins miklu máli. „Það er auðvitað það sem skorti strax í stjórnarsáttmálanum fyrir ári síðan. Þá lá alveg fyrir að þessi vetur kæmi með þessum kröfum en ríkisstjórnin hefur ekki lagt neitt haldfast á borðið“. Alvörufélagshyggjustjórn hefði forgangsraðað öðruvísi, svo sem með tekjuskiptu skattkerfi sem hlífir lágtekju- og meðaltekjufólki.

„Ég hélt í sakleysi mínu og einfeldni að þetta væri nákvæmlega sama skattapólitík og Vinstri græn töluðu um fyrir kosningar. Ég hélt að það væri formsatriði að þessir flokkar tveir næðu að minnsta kosti saman um þetta. En kannski snýst þetta ríkisstjórnarsamstarf svo um eitthvað allt annað en hægri og vinstri. Kannski snýst það einmitt um íhaldssemi, um að viðhalda gömlum kerfum sérhagsmunahópa. Kannski snýst það um að viðhalda rétti útgerðarinnar til þess að sitja á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar og nýta hana fyrir litla peninga. Kannski snýst þetta um hagsmuni landbúnaðarins eingöngu en ekki hagsmuni neytenda. Kannski snýst þetta um það að afneita því að stór og örugg mynt geti skilað ávinningi fyrir launafólk. Kannski skilur meira á milli Samfylkingarinnar og Vinstri grænna en ég í einfeldni minni hélt. Kannski eru þessir flokkar eðlisólíkir.“

Ég held að þetta sé fyrst og fremst ríkisstjórn aðgerðaleysis.

Þetta aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í kjaramálunum telur Logi vera einkennandi fyrir ríkisstjórnina. „Þau tala um að þau hafi siglt lygnan sjó og komið mörgum málum í gegn. Ég held að þetta sé fyrst og fremst ríkisstjórn aðgerðaleysis. Hún er ekki að taka á neinum málum, hún er að viðhalda kerfum en hún er ekki að gera neitt. Það er eitt ár rúmlega síðan þessi ríkisstjórn var stofnuð og það lá alveg fyrir að það þyrfti að fara í húsnæðisátak. Þess vegna fór Samfylkingin strax í að búa þær tillögur til en við vöknum upp við það árið 2019 að ríkisstjórnin er að ákveða einhvern starfshóp. Ég veit ekki af hverju. Mér finnst vera drollaraháttur á þeim, þau eru sein til verka og fyrst og fremst finnst mér þau vera vinna töluvert á forsendum stærsta flokksins í ríkisstjórninni, Sjálfstæðisflokksins.“

Hvað væruð þið að gera öðruvísi ef þið sætuð í ríkisstjórn?

„Við hefðum að sjálfsögðu ráðist í breytingar á skattkerfinu sem hefðu hlíft meðaltekju- og lágtekjufólki og lagt aðeins meiri álögur okkur betur stæðu. Við hefðum ráðist í meiri stórsókn í menntamálum, að sjálfsögðu hafið vinnu með öðrum flokkum um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem leiddu til þess að þjóðin fengi meiri og sanngjarnari arð af sameiginlegri auðlind. Við sjáum núna að veiðigjöldin eru lækkuð um um 3-4 milljarða en það er líka verið að lækka fé til hafrannsókna sem er undirstaða ekki bara efnhags okkar heldur lífríkis líka. Við hefðum útvíkkað gjaldmiðlanefndina og látið hana líka skoða hvaða hagsmunir gætu falist í því að  vera með aðra mynt en krónuna í staðinn fyrir að stinga hausnum í sandinn eins og strútur og segja „krónan skal það vera“. Það er svo margt sem við hefðum gert öðruvísi.“

Það er svo margt sem við hefðum gert öðruvísi.

Gætum við verið að horfa á ófyrirséðar aðstæður

Það stefnir í mikinn átakavetur á vinnumarkaði. Himinn og haf skilja að kröfur verkalýðshreyfingarinnar annars vegar og atvinnurekenda hins vegar í yfirstandandi kjaraviðræðum og ekki er að heyra á samningsaðilum að það þokist í samkomulagsátt. Þvert á móti má heyra á forystu verkalýðsfélaganna að hún séu farin að undirbúa verkfallsaðgerðir. Aðspurður út í hvort Samfylkingin styðji kröfur verkalýðshreyfingarinnar, meðal annars um 425 þúsund króna lágmarkslaun, svarar Logi: „Ef þú horfir á það hvað þú færð fyrir 425 þúsund krónur á mánuði; þegar þú þarft að leigja á dýrum og erfiðum markaði í Reykjavík, þegar þú þarft að vera með tvö börn í leikskóla, íþróttum og félagsstarfi, kaupa mat sem er mörgum tugum prósentna dýrara en í nágrannalöndum okkar, þá er ég ekkert svo viss um að 425 þúsund geri meira en að dekka einn mánuð í útgjöldum.

Á endanum snýst þetta um að fólk geti lifað.

Ef þú horfir á þetta þannig þá er þetta bara ósköp eðlilegt. Á endanum snýst þetta um að fólk geti lifað. Hvort að það er eitthvað sem geti stefnt einhverjum stöðugleika í hættu fer það eftir því hvort einhverjir aðrir hlutir eru gerðir líka. Það er ekkert víst að þessar kröfur hefðu orðið upp á þessa krónutölu ef hér hefði verið mynduð félagshyggjustjórn sem hefði lagt fram breytingar á skattkerfi og styrkt félagslegar aðstæður fólks.“

Logi vonast til þess að samningsaðilar nái skynsamlegri lendingu og að ríkisstjórnin stígi fram með aðgerðir láglaunafólki til hagsbóta. „Ég held hins vegar að þau lendi í verulegum vandræðum ef þau koma ekki fram með neitt bitastætt. Þá getum við verið að horfa á ófyrirséðar aðstæður í íslenskum stjórnmálum. Ef ríkisstjórnin er ekki tilbúin til að gera neitt, þá þarf hún að fara frá. Vegna þess að þá þarf annars konar stjórn. Ég vil ekki að ríkisstjórn springi við þessar aðstæður en ef það verður erum við tilbúin í kosningar.“

Það hefur löngum verið sterk taug á milli verkalýðshreyfingarinnar og jafnaðarmannaflokka á Íslandi en á síðustu árum virðist sem þessi tengsl hafi rofnað. Þetta hefur orðið sérstaklega áberandi með tilkomu nýrrar forystu innan verkalýðshreyfingarinnar sem sækir sitt pólitíska bakland til hins nýstofnaða Sósíalistaflokks fremur en klassísku vinstri flokkanna. Hafa vinstri flokkarnir alveg misst tengslin við verkalýðshreyfinguna?

„Ég sé þá taug en ég hef auðvitað tekið eftir því að það eru ekkert allir sem koma auga á hana. Sumum finnst hún hafa trosnað og einhverjum slitnað. Hún birtist auðvitað fyrst og fremst í því hversu samhljóða áherslur Alþýðusambandsins, til dæmis, og þeirra mála sem að við höfum lagt fram og tölum fyrir í þinginu eru. Þetta eru sömu málin. Á þann hátt er taugin mjög sterk og sýnileg. Hvort hún endurspeglast í því að formaður Samfylkingarinnar og forseti ASÍ sitja og drekka kaffi tvisvar í viku og ræða málin, nei það er ekki þannig. Við reynum að vera í sambandi við þau og það mætti gjarnan okkar vegna vera meira.“

Fennir ekki yfir Klaustursmálið

Þing kemur saman að nýju eftir jólaleyfi í næstu viku. Síðustu þingfundirnir í fyrra voru þingmönnum þungbærir enda fóru þeir fram í skugga Klaustursmálsins þar sem sex þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins fóru ófögrum orðum um tiltekna kollega sína á þingi. Forsætisnefnd þingsins hugðist vísa málinu til siðanefndar Alþingis en þangað komst málið aldrei þar sem allir nefndarmenn lýstu sig vanhæfa, að kröfu Miðflokksins. Logi kveðst ekki geta sagt til um hvert framhald málsins verði.

„Það bíða okkar mjög mörg mál sem tengjast kjarasamningum, veggjöldum, þriðja orkupakkanum og ýmislegt annað og við verðum að vera starfhæft þing. Ég mun auðvitað bara mæta í vinnuna og vinna að þeim málum sem ég er kjörinn til að gera. En umræðan um hvernig okkur miði áfram í átt að betra samfélagi, meira jafnrétti, þar sem minnihlutahópar og fatlaðir eru virtir, sú umræða og sú vinna verður að halda áfram á öllum sviðum samfélagsins. Ég held að það fenni ekki yfir þetta. Á endanum er starfið sérstakt vegna þess að þú ert kjörinn af þjóðinni til þess að gegna því í tiltekinn tíma og það er þjóðin sem getur hafnað þér. Ég er sannfærður um að þetta mál er ekki búið. Við eigum öll eftir að fara í kosningar þar sem við erum dæmd af okkar verkum og orðum.“

Ég tók því frekar léttvægt að vera kallaður trúður sem dansar á strápilsum næstum því á typpinu, það truflar mig ekki neitt.

Sjálfur var Logi á meðal þeirra sem komu við sögu í Klaustursupptökunum er Gunnar Bragi Sveinsson vitnaði til Loga sem mannsins í strápilsinu „sem dansaði nánast á typpinu með Skriðjöklum“. Logi segist ekki taka slíkar blammeringar nærri sér.

„Eitt er hvort þú fellir einhverja pólitíska sleggjudóma um andstæðinga þína sem meiða ekkert. Svo eru aðrir hlutir sem voru grófari og niðrandi um kyn og jafnvel hópa sem eru veikir fyrir. Það er greinamunur þar á. Ég tók því frekar léttvægt að vera kallaður trúður sem dansar á strápilsum næstum því á typpinu, það truflar mig ekki neitt. Ég hef talað við Gunnar Braga um þau orð sem hann lét falla í minn garð. Ég tek þeim ummælum ekkert alvarlega. Það voru önnur ummæli sem voru miklu verri, sársaukafyllri, fordómafyllri.“

Býst við Ágústi Ólafi í febrúar

En það voru ekki bara Miðflokksmenn sem tóku sér leyfi frá þingstörfum vegna hneykslismála því Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, fór í tveggja mánaða leyfi eftir að trúnaðarnefnd Samfylkingarinnar áminnti fyrir kynferðislega áreitni gegn Báru Huld Beck, blaðamanni á Kjarnanum. Logi gerir ráð fyrir að Ágúst Ólafur snúi til baka í febrúar. En nýtur hann trausts innan flokksins?

„Ég get ekki talað fyrir hvern einasta félagsmann í Samfylkingunni en ég að minnsta kosti trúi því að fólk, þó að því verði jafnalvarlega á og geti hrasað sem er nú einu sinni saga mannsins frá örófi alda, eigi að geta fengið fyrirgefningu ef það raunverulega iðrast og leitar leiða til að bæta ráð sitt. Það hefur hann verið að gera þannig að þetta er í höndunum á honum.“

Ágúst Ólafur gerði erfitt mál verra þegar Bára Huld steig fram og sagði þingmanninn hafa gert lítið úr hegðun sinni, í yfirlýsingu þar sem hann greindi frá málinu. „Ég ætla ekki að fara út í hans viðbrögð við þessu eða hvernig hann gerði það, hann verður að svara fyrir það sjálfur. Samfylkingin kom ekki að þeirri yfirlýsingu, við sáum ekki innihaldið. Mér fannst hins vegar akkúrat þetta mál sýna hvað það skiptir miklu máli að flokkar hafi hlutlausar siðanefndir og úrskurðarnefndir sem í situr fagfólk þannig að þú getir boðið þeim sem kvarta yfir óásættanlegri hegðun upp á hlutlausa meðferð sem hægt er að treysta.

En eiga mál sem þessi heima á borði flokksstofnana, er ekki hreinlegast að vísa þeim til þar til bærra yfirvalda?

„Samkvæmt 4. grein siðareglna okkar þá er það þannig að ef mál eru líkleg til að varða við refsilöggjöfina þá eru þolendur hvattir til og fá hjálp frá úrskurðarnefndinni til að leita með málið til lögreglu. Ef kæmi upp mál er varðar börn eru þau send beint til barnaverndaryfirvalda. Þannig að Samfylkingin er ekkert að halda inni hjá sér neinum málum er varða lögbrot. Það er einungis fjallað um mál sem eru ósæmileg, ósiðleg. Í Samfylkingunni eru 16-17 þúsund manns, þar er hvorki verra né betra fólk en annars staðar í samfélaginu. Það segir sig sjálft að í svona stórum félagsskap þá koma upp erfið mál. Fólki verður á, fólk gerir mistök. Það er mjög mikilvægt að við getum búið til samfélag, boðið upp á fundi, aðstöðu og umhverfi þar sem konum, ungu fólki og öllum líður vel í og eru öruggir vissir um að ef eitthvað svona kemur upp, þá fer það ekki inn á skrifstofu til formanns og undir teppi.“

Samfylkingin er ekkert að halda inni hjá sér neinum málum er varða lögbrot.

Fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, Helgi Hjörvar, hefur sömuleiðis verið sakaður um áreitni gagnvart konum. Aðspurður út í það mál segir Logi að það hafi aldrei komið inn á hans borð enda hafi Helgi ekki verið kjörinn þingmaður eða gegnt trúnaðarstörfum fyrir flokkinn eftir að hann var kjörinn formaður.

„Ég hef kynnt mér það mál eins og hægt er. Þar lá það fyrir að það var enginn sem stóð á bak við kvörtunina – enginn sem kom fram undir nafni. Þess vegna bjuggum við þessa trúnaðarnefnd til, til þess að sá sem kvartar geti verið öruggur um að njóta nafnleyndar en geti samt staðið á bakvið kvörtunina.“

Braggamálið komið út fyrir það sem eðlilegt er

Það liggur beint við að spyrja arkitektinn Loga út í borgarmálin þar sem Samfylkingin hefur haft mikið um það að segja hvernig borgin þróast. Gríðarlega mikil uppbygging hefur átt sér stað í miðborginni undanfarin ár og svo hefur megnið af vetrinum farið í að þræta um eina tiltekna byggingu, braggann fræga.

„Reykjavíkurborg hefur á síðustu 100 árum þróast að mörgu leyti á afleitan hátt og hún er auðvitað dæmi um þetta ameríska módel sem varð til í upphafi 20. aldarinnar þegar fólk var að eignast einkabíl í staðinn fyrir að þú byggðir á þessari hefðbundnu evrópsku borg með þéttari landnotkun. Ég get alltaf sem arkitekt haft mína persónulega skoðun hvort það hafi tekist vel upp með einstakt hús, hvort mér finnist það fallegt eða ljótt en ég held að almennt að þær breytingar sem gerðar hafa verið séu til bóta. Reykjavíkurborg hefur verið að leiða mjög metnaðarfulla íbúðaruppbyggingu og kannski þá metnaðarfyllstu sem við höfum séð“

Reykjavíkurborg hefur á síðustu 100 árum þróast að mörgu leyti á afleitan hátt og hún er auðvitað dæmi um þetta ameríska módel sem varð til í upphafi 20. aldarinnar.

Logi telur hins vegar að of mikið hafi verið gert úr braggamálinu. „Það koma upp vísbendingar um mikla framúrkeyrslu og ekki ætla ég að afsaka það. Í kjölfarið á því kemur út skýrsla innri endurskoðunar, þar finnst mér ábyrgðarkeðjan liggja nokkuð ljós fyrir. Það er sjálfsagt mál að fjalla um þetta mál og það er ekki léttvægt þegar farið er illa með almannafé. Mér finnst þetta hins vegar vera komið töluvert langt út fyrir það sem eðlilegt er. Þar með er ég ekki að segja að öllum þessum peningum hafi verið illa varið því þetta er að mörgu leyti merkilegt hús og hluti af okkar byggingasögu.“

Strápils til að krydda sjóvið

Utan stjórnmálanna eru það fyrst og fremst sköpun og listir sem eiga hug og hjarta Loga. Samhliða kennarastarfinu var faðir hans myndlistarmaður og áhugi Loga á þeirri iðju hans leiddu hann út í arkitektúr og hefur hann rekið eigin stofu í 14 ár. En Logi vakti fyrst athygli á annars konar listsköpun því hann var meðlimur í hinni goðsagnakenndu gleðihljómsveit Skriðjöklum á 9. áratugnum en það er einmitt þar sem Gunnar Bragi sótti umrædda tilvitnun á Klaustursbarnum og vitnað er í að framan. Logi fékk það óvenjulega hlutverk í hljómsveitinni að vera dansari og útskýrir hvers vegna.

„Við vorum náttúrlega fjörugur félagsskapur ungra manna og virkilega í baldnari kantinum í árgangnum og höfðum vit á að virkja það í hljómsveitarbras í staðinn fyrir eitthvað verra. Við vorum átta eða níu saman og þessi hljómsveit var stofnuð þótt þetta hafi meira verið eins og ungmennafélag. Það var ekkert inni í myndinni að það yrðu bara teknir fjórir bestu hljóðfæraleikararnir og hinir skildir út undan. Þannig að það var fyllt upp í hlutverk eftir getu hvers og eins og af því að ég var ekki bestur og ekki næst bestur á gítar, þá þurfti að finna annað hlutverk fyrir mig og ég var bara dansari.“

Varstu látinn dansa í strápilsi?

„Til að krydda sjóvið gekk ekkert upp að koma fram í venjulegum fötum heldur þurftum við að klæða okkur upp á og ég man að ég var töluvert oft í pilsum og einhverjum gærum. Líklega hefur Gunnar Bragi einhvern tíma komið í Miðgarð og ég þá verið í pilsi. Ég efast samt um að það hafi verið það stutt að það hafi verið ósiðlegt. Þessu fylgdi auðvitað töluvert fjör og kannski ekki allt sem borgar sig að segja. Þetta var töluverð útgerð og hljómsveitin átti töluvert af vinsælum lögum en það er gallinn að dansinn sést ekki á hljómplötunum.“

Líklega hefur Gunnar Bragi einhvern tíma komið í Miðgarð og ég þá verið í pilsi.

Pólitíkin er hliðarspor

Það er ekki hægt að segja að Logi hafi fengið langan tíma til að aðlagast nýju hlutverki í stjórnmálum eftir að hafa starfað sem arkitekt í um aldarfjórðung. Hann var skyndilega kominn í sviðsljós fjölmiðlanna og eitt af því sem kom honum á óvart var að fólk fór að gera athugasemdir við klæðaburð hans. „Þá var fyrst verið að láta mig vita að ég ætti ekki að vera svona klæddur heldur hinsegin. Ég er á sextugsaldri og búinn að starfa allt mitt líf í einhverju allt öðru umhverfi og ákvað þegar ég kom hingað að vera í nákvæmlega eins fötum og ég var þar. Það kom mér á óvart hvað fólk hafði miklar skoðanir á því.“

Logi segir pólitíkina hliðarspor á hans ferli og segist staðráðinn í að ljúka starfsferli sínum sem arkitekt.

Hafðir þú á einhverjum tímapunkti áhyggjur af því að þú værir kominn í hlutverk sem þú myndir ekki ráða við?

„Ég var örugglega að hugsa: mun þetta verða hægt? Mun þetta ganga? Flokkurinn orðinn þrír þingmenn og maður velti því fyrir sér hvort þetta væri búið. Ég held að hræðslan hafi snúist meira um það frekar en að mér fyndist óþægilegt í hvaða stöðu ég var. Ég hef oft lent í alls konar stöðum þar sem ég hef bæði gert mig að fífli og gengið ágætlega. Ég er ekkert viðkvæmur fyrir sjálfum mér en þarna var ég allt í einu kominn með flokk í hendurnar.“ Segist Logi hafa fengið ýmis misvísandi skilaboð, sumir sögðu honum að hann yrði að taka sæti í ríkisstjórn svo að flokkurinn lifði af á meðan aðrir ráðlögðu honum eindregið frá því. Hann ákvað hins vegar að fara þá leið sem reynst hefur honum best til þessa, að stjórnast af innsæinu.

„Ég held að það hjálpi mér að ég er tilbúinn að takast á við þetta. Ég bauð mig fram aftur síðasta vor, því ég tel mig hafa erindi en mig langar þetta ekkert svo mikið. Mér finnst ég þó vera á réttum stað í dag og geti gert gott. Ég hef ekki metnað til að verða eitthvað bara til þess að verða það. Mér leið ágætlega sem arkitekt, gerði ágætis hluti inn á milli eins og gengur. Þetta hliðarspor sem pólitíkin er, er meira svona eitthvað sem hefur gerst svolítið óvart. Ég held að það hafi hjálpað mér þetta æðruleysi gagnvart hlutverkinu og það að ég er alveg rólegur í hjartanu því að mig langar að eyða síðustu árunum sem arkitekt.“

Logi rifjar upp í léttum dúr að einhver hafi líkt honum við Claudíus Rómarkeisara. „Þá var það þannig að það var sífelld barátta um keisaratignina – vélráð, eitranir og morð. Keisarinn á undan, Caligúla, var ofsóknaróður og það var lagt á ráðin að allir sem voru skyldir honum yrðu drepnir. Nema þeir skildu eftir einn veikburða einstakling úti í sveit sem enginn datt í hug að gæti orðið keisari og hét Claudíus. Þegar Caligúla var svo drepinn var Claudíus sá eini eftir í ættinni og hann gerður að keisara. Hann sat í 13 ár, ég á kannski 11 eftir.“

Samfylkingin mun ná fyrri styrk

Líkt og sagði í inngangi var megintilgangurinn með stofnun Samfylkingarinnar að vera mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn á vinstri væng stjórnmálanna. Þannig var það framan af og var gjarnan talað um tveggja turna tal, eða allt fram til ársins 2013 þegar fylgi flokksins hrundi. Telur formaðurinn að hann nái að koma flokknum á sama stall og áður?

Ég held að Samfylkingin verði komin á þann stað sem hún á að vera þegar hún er komin í góða ríkisstjórn sem byggir á málefnaáherslum jafnaðarmanna.

„Ég held að Samfylkingin sé í dag mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn, við erum enginn turn enda geta hús verið tilkomumikil og falleg þótt þau séu lágreistari. Samfylkingin er í hægum vexti og ég held að það sé betra að þetta gerist hægt og rólega. Ég er sannfærður um að við eigum meira inni. Ég held að Samfylkingin verði komin á þann stað sem hún á að vera þegar hún er komin í góða ríkisstjórn sem byggir á málefnaáherslum jafnaðarmanna. Ég er viss um að við komumst þangað en hvenær veit ég ekki. Ég held að við gætum náð mjög mörgum skemmtilegum og góðum málum á dagskrá ef við myndum mynda ríkisstjórn frá miðju til vinstri þar sem Samfylkingin væri kjölfestuflokkur og við hefðum svo Viðreisn og Pírata öðrum megin við okkur og Vinstri græn hinum megin við okkur.“

Myndir / Hallur Karlsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -