Sunnudagur 22. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Veiðigjöldin á herðum VG

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Atvinnuveganefnd Alþingis lagði á þriðjudag fram tillögu um að frítekjumark er snýr að veiðigjöldum verði hækkað. Í dag fá fyrirtæki 20% afslátt af fyrstu 4,5 milljónum króna af álögðu veiðigjaldi og 15% af næstu 4,5 milljónum króna. Atvinnuveganefnd leggur nú til að frítekjumark hækki í 40% af fyrstu 6 milljónum króna álagðs veiðigjalds.

„Með þessu leitast nefndin við að koma sérstaklega til móts við litlar og meðalstórar útgerðir vítt og breitt um landið,“ lét Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnunefndar og þingmaður VG hafa eftir sér.

Skiptar skoðanir eru um hversu mikil áhrif þetta muni hafa. Litlar og meðalstórar útgerðir standa margar hverjar illa og samþjöppun í greininni hefur verið mikil síðustu ár. Þar eru það oft á tíðum allra stærstu fyrirtækin sem hafa aukið við aflaheimildir sínar. Hér má einnig geta þess að 30 stærstu fyrirtækin greiða um 80% af veiðigjaldinu.

Því er líklegt að þau stærri ráðist í enn frekari uppkaup á minni fyrirtækjum. Má spyrja sig hvort það sé það sem almenningur vill sjá. Um fátt hefur verið meira rifist undanfarin áratug en veiðigjöld. Allir virðast þó enn vera óánægðir. Bæði fyrirtæki í útgerð, almenningur sem og sveitastjórnir sem vilja ekki missa þennan tekjustofn frá sér.

VG tekur slaginn

Lilj Rafney. Mynd / Alþingi

Óhætt er að segja að umræðan um veiðigjöld á þessu ári hafi bitnað meira á VG en Sjálfstæðisflokknum. Þannig hefur Lilja Rafney komið mun oftar í fjölmiðla að ræða veiðigjöldin heldur en Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Reyndar er þetta ekki eina sem hefur snert VG verr en Sjálfstæðisflokkkinn. Þar má telja að reynsluleysi Lilju Rafneyjar spili inn í. Umræðan hefur þó langt í frá verið jafn hatrömm og td. þegar Steingrímur J. Sigfússon var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og lög nr. 74/2012 um veiðigjöld voru sett. Þá kom gagnrýnin þó harðast frá LÍÚ, forvera SFS, sem þá var stýrt af Friðriki Jóni Arngrímssyni.

- Auglýsing -

Frekari uppkaup á aflaheimildum væntanleg?

Segja má að þau fyrirtæki sem eru með blandaða útgerð uppsjávar- og bolfisksveiða standi sterkast. Fyrir þau var mikil búbót þegar makríll fór að veiðast í auknu mæli árið 2009. Þessi fyrirtæki eru betur í stakk búinn til þess að greiða veiðigjöld en þau minni. Þar er um að ræða Samherja, Síldarvinnsluna, Skinney, Þinganes, Ísfélag Vestmannaeyja, Gjögur, Vinnslustöðina og Loðnuvinnsluna. Þessi fyrirtæki standa gríðarlega vel og eiginfjárhlutfall þessarra fyrirtækja er á bilinu 40-70%, sem gerir þeim auðveldara að standa af sér sterka krónu. Þessi fyrirtæki hafa einnig betra aðgengi að lánsfé til að endurnýja skipastól sinn og vinnslur til að hagræða í rekstri. Slíkar aðgerðir þýða oft á tíðum fækkun starfa. Önnur sterk fyrirtæki sem þó eru að mestu í bolfiski eru Brim hf. og Fisk-Seafood á Sauðárkróki. Þessi tvö fyrirtæki hafa verið að auka við sig bolfisksheimildir á undanförnum árum.

Aðili sem rætt var við á fjármálamarkaði taldi líklegt að stærri fyrirtækin færu í enn frekari uppkaup á aflaheimildum á næstunni til þess að bæta samkeppnisstöðu sína. Margir myndu td. hafa áhuga á að kaupa fyrirtæki eins og Ögurvík sem HB Grandi keypti af Brim hf. nýlega eftir að Guðmundur Kristjánsson keypti sig inn í HB Granda.

- Auglýsing -

Vandasamt að meta milliverðlagningu

Lögum nr. 74/2012 um veiðigjöld var ætlað að gilda í fimm ár. Því komst Alþingi ekki hjá því að endurskoða veiðigjöld. Fyrir utan breytingu á frítekjumarki má einnig nefna að nú verður veiðigjaldsnefnd lögð niður og verða verkefni hennar færð til embættis ríkisskattstjóra.

Eitt af því sem nefnt er greinargerð frá atvinnuveganefnd Alþingis er svokölluð milliverðlagning (e. transfer pricing). Þar er oft um að ræða flókin samanburð sem kom vel í ljós þegar Seðlabankinn höfðaði mál á hendur Samherja. Má telja líklegt að orðspor Seðlabankans muni skaðast enn frekar þar sem Samherji hyggst höfða skaðabótamál á hendur bankanum. Því  verður að efast um að embætti Ríkisskattstjóra myndi treysta í annað mál af svipuðum toga.

Um er að ræða alþjóðlegt vandamál sem flest lönd glíma við varðandi útflutningsfyrirtæki sín og hafa gert í áratugi. Með frumvarpinu er embætti ríkisskattstjóra heimilað að taka til sérstakrar athugunar ef vísbending er um óeðlilega milliverðlagningu. Verðlagsstofa skiptaverðs hefur eftirlit með fiskverði og ákvarðar lágmarksverð sem greitt skal til sjómanna.

Stærri útgerðarfyrirtæki reka mörg hver sín eigin sölufyrirtæki erlendis og stjórna því allri virðiskeðjunni frá veiðum og vinnslu til helstu markaðslanda sinna. Slík staða veitir þeim líka mikla yfirburði fram yfir lítil og meðalstór fyrirtæki. Undanfarin ár hafa sjávarútvegsfyrirtæki þó oft á tíðum verið gagnrýnd fyrir að komast ekki nær kaupendum sínum erlendis með aukinni markaðssetningu.

Meðan fyrirtækin hafa verið óspar að fjárfesta í tækninýjungum frá fyrirtækjum eins og Marel, Skaginn3x og Völku svo nokkur séu nefnd hefur minna verið fjárfest í auglýsinga- og markaðsmálum. Líklega horfa fyrirtækin oft á tíðum frekar á að halda háu ebitdu-hlutfalli í stað þess að reyna að auka veltu sína. Þá er framþróun í tækninýjungum yfirleitt fljótari að skila sér í bættri rekstrarafkomu en lengri tíma getur tekið að hækka verð á sjávarafurðum með auglýsinga- og markaðsherferð.

Eru sjávarútvegsfyrirtæki góður fjárfestingakostur?

Markaðurinn, viðskiptahluti Fréttablaðsins, birti á miðvikudag umfjöllun um að sjávarútvegsfyrirtæki ættu erindi á íslenskan hlutabréfamarkað. Einnig væru tækifæri fyrir þau að nýta sér meira skuldabréfafjármögnun á innlendum markaði. Var rætt við Ásmund Gíslason, sérfræðing í fyrirtækjaráðgjöf Arion banka.

Skiptar skoðanir eru hins vegar um það hversu góður fjárfestingakostur sjávarútvegsfyrirtæki séu fyrir almenna fjárfesta á hlutabréfamarkaði sem eru ekki ráðandi innan fyrirtækjanna. Hér ná nefna nokkra hluti til sögunnar.

Í grein Markaðarins kom fram að upp úr 1990 hafi sjávarútvegsfyrirtækjum fjölgað mikið í Kauphöllinni. Um áratug seinna fór þeim síðan að fækka. Segja má að þegar framsal á kvóta var leyft með lögum nr. 38/1990 og tóku gildi 1991 hafi verið mikil tækifæri fyrir sjávarútvegsfyrirtæki að vaxa. Þá voru þau má segja undirverðlögð. Í því samhengi má nefna að þegar Samherji gerði sín frægu kaup á Guðbjörgu á Ísafirði árið 1996 hafi þeir verið að kaupa á 3-4 ebitdu. Líklega var verið að kaupa fyrirtæki eins og Ögurvík og Stálskip á undanförnum árum á 10-12 ebitdu. Það liggur því í augum uppi að í dag eru miklu minni vaxtamöguleikar fyrir sjávarútvegsfyrirtækin. Þá er 12% hámarksþak á því sem fyrirtækin mega eiga af aflaheimildum.

Fyrirtæki eins og HB Grandi eiga því lítla möguleika á að stækka hérlendis. Eilífðarvöxtur sem oft er horft til í fjármálum er því lítill. Þó má nefna Samherja sem hefur vaxið gríðarlega á undanförnum 20 árum með uppkaupum á fyrirtækjum erlendis. Eigið fé Samherja nemur í dag 90 milljörðum króna og einnig hefur fyrirtækið verið öflugt í uppkaupum á fyrirtækjum í öðrum rekstri eins og Olís og nú síðast Eimskip.

Tækifæri í hærra þorskverði

Tækifæri kunna þó að skapast hjá fyrirtækjum að auka enn frekar virði á td. þorski sem hefur stað í stað undanfarin áratug en þá var td. svipað verð á norskum laxi sem hefur undanfarið farið langt fram úr þorskinum. Þá mun aukin framþróun í skipakosti og vinnslum vissulega bæta samkeppnisstöðu þeirra á hörðum alþjóðlegum markaði. Þar er helst verið að keppa við Færeyjar, Noreg, Rússland, fisk frá Alaska svo ekki minnst á eldistegundir frá Asíu eins og tilapíu og pangasíus sem keppa við þorskinn, bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu .

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -