„Veit að þetta er mitt síðasta tækifæri" | Mannlíf

Innlent

„Veit að þetta er mitt síðasta tækifæri“

Á yfirborðinu virðist hinn 24 ára gamli Ríkharður Þór Guðfinnsson hafa allt sem ungan mann gæti dreymt um. Hann er í góðri vinnu, á fallegt heimili og tvö heilbrigð börn. Í frístundum finnst honum fátt skemmtilegra en að spila golf og stunda veiði. Líklega myndu fáir giska á að aðeins eru rúmar tvær vikur frá því að Ríkharður, eða Rikki eins og hann er alltaf kallaður, útskrifaðist af geðdeild.

Rikki dvaldi á geðdeild í kjölfar fíknimeðferðar á Vogi, eftir að hafa fallið fyrir freistingum Bakkusar, ekki í fyrsta, annað eða þriðja sinn. Reyndar er sannleikurinn sá að meðferðirnar eru orðnar of margar til að hann hafi tölu á þeim. Rikki er einn af fjölmörgum ungmennum sem glímt hafa við fíknivanda um árabil, en hann gagnrýnir réttilega skort á úrræðum og þá baráttu við kerfið sem fólk sem kallar á hjálp þarf að heyja. Þegar hann komst á botninn í sumar og leitaði sér hjálpar á geðdeild, endaði hann í fangageymslum lögreglunnar.

Rikki lýsir neyslunni sem skyndilausn við hverskyns vandamálum. „Neyslan er leið til að flýja veruleikann. Ef maður er að takast á við einhverja erfiðleika getur maður frestað þeim með því að taka nokkrar töflur. Ég var einn af þeim sem fannst ég aldrei eiga við neitt vandamál að stríða, ég stundaði mína vinnu og var bara í góðum gír, að mínu mati, þrátt fyrir að fá mér öðru hvoru. En smátt og smátt fór fíknin að taka yfir allt. Hún yfirgnæfði allar tilfinningar þar til allt fór að snúast um að redda sér næsta skammti. Nú síðast var ég farinn að taka hvað sem ég komst í, en mest af lyfseðilskyldum lyfjum. Það er lygilegt hversu auðvelt er að verða sér úti um efni í dag, það þarf bara eitt símtal og því er reddað.“

Missti tökin í sumar

Í sumar tók að halla hratt undan fæti og Rikki fór að missa tökin á neyslunni. Skuldir voru farnar að hlaðast upp og hann missti meðal annars umgengni við son sinn. Fjölskyldu og vini Rikka fór að gruna að ekki væri allt með felldu þegar hann fór að mæta illa í vinnu og sýna breytta framkomu. „Ég var mjög ör og reiður, var snöggur upp og þoldi ekki að fólk væri að skipta sér af mér. Mér fannst ég ekki þurfa á neinni hjálp að halda og ætlaði bara að díla við þetta sjálfur. Það sýnir sig hversu veruleikafirrtur ég var orðinn þegar amma mín lést í sumar, og í kistulagningunni og jarðarförinni var ég útúrkókaður. Ég var með stæla við fólk og þegar systir mín sagði mér að haga mér hótaði ég að berja hana. Þarna áttuðu allir sig á hvað var í gangi og lágu í mér að leita mér hjálpar, fara í meðferð. En ég sá ekkert vandamál. Helgina eftir fór ég svo á djammið upp á Skaga þar sem mamma mín býr, það endaði með því að ég lagði allt í rúst heima hjá henni og lenti í slagsmálum.“

Það sýnir sig hversu veruleikafirrtur ég var orðinn þegar amma mín lést í sumar, og í kistulagningunni og jarðarförinni var ég útúrkókaður.

Endaði í fangageymslu eftir kall á hjálp

Á þessum tímapunkti var fjölskyldan orðin örvæntingarfull og ráðalaus. Engin úrræði voru í boði þar sem Rikki var ekki tilbúinn að gangast við vandamálinu. Umræður voru hafnar um að svipta hann sjálfræði, en eftir helgina á Akranesi segist Rikki sjálfur hafa fengið nóg. „Ég var kominn á botninn, og vissi að ef ég fengi ekki hjálp væri þetta hreinlega bara búið. Ég gat ekki meira. Bróðir minn hringdi nokkur símtöl og reyndi koma mér inn einhvers staðar, en það var hvergi pláss. Það er alltaf erfitt að komast inn, en sérstaklega á sumrin vegna sumarleyfa starfsfólks. Honum var sagt að ég gæti komið í viðtal á Vog tveimur vikum seinna, en það var ekki möguleiki að ég gæti beðið svo lengi. Pabbi og konan hans ákváðu því að keyra mig niður á geðdeild og reyna sitt besta til að útskýra fyrir þeim ástandið.“

Þar komu þau að lokuðum dyrum. Rikki var undir áhrifum en slíkt er undir engum kringumstæðum leyfilegt á geðdeildinni. Honum var vísað út, en var allt annað en sáttur. „Ég reiddist við þessa lækna sem ætluðu að henda mér út, með engin önnur úrræði fyrir mig. Ég sagði við þá að ef ég kæmist ekki þarna inn myndi ég fara beinustu leið upp í Heiðmörk, setja pústið inn í bílinn og enda þetta allt.“

Atburðarásinni eftir það mætti helst líkja við atriði úr bíómynd. Tveir lögreglubílar renndu í hlað, Rikki var handjárnaður og leiddur út í bíl. Eftir stóðu pabbi hans og stjúpmóðir, sem vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Útskýringarnar sem þau fengu voru að ástandið hefði verið metið sem svo að Rikki væri of hættulegur sjálfum sér, en þetta væri eina úrræðið í boði, að vista hann í fangageymslu. „Mér var hent inn í klefa, í einangrun á Hverfisgötunni. Ég var algjörlega brjálaður, og heimtaði að þeir hleyptu mér út en fékk engin viðbrögð. Eftir að hafa staðið og öskrað á verðina í marga klukkutíma lognaðist ég út af og sofnaði, en vaknaði fljótlega aftur í svitabaði og brjáluðum fráhvörfum,“ segir Rikki þegar hann er beðinn um að lýsa aðstæðum. „Ég var ekki undir neinu eftirliti, fjölskyldan fékk ekki að hafa samband við mig og enginn vissi hvað væri í gangi. Þetta var mjög slæm og niðurlægjandi upplifun.“ Lögum samkvæmt má ekki halda einstaklingum í fangageymslu lengur en í sólarhring án úrskurðar dómara, og þessi sólarhringur var nýttur til hins ýtrasta í tilfelli Rikka. Eftir 24 klukkustundir í einangrun var hann handjárnaður á ný og fluttur í lögreglufylgd aftur niður á geðdeild. Hann segist ekki hafa fengið neinar skýringar á þessum atburðum eða hvort þetta teljist eðlilegir verkferlar, en telur þetta lýsandi fyrir ástandið í geðheilbrigðismálum á Íslandi. „Það vantar klárlega einhver úrræði, það á ekki að líðast að fólki á svona viðkvæmum stað sé vísað frá þegar það leitar sér aðstoðar. Hvað þá að vera skellt í handjárn og hent í fangelsi. Ég skil ekki að þrátt fyrir alla þá umræðu sem hefur átt sér stað síðustu mánuði virðist ástandið aðeins fara versnandi. Til dæmis var verið að loka geðheilsudeildinni innan Hugarafls sem ég veit að hefur reynst mörgum af mínum félögum vel. Það er ljóst að miklar breytingar verða að eiga sér stað í þessu ónýta kerfi.“

Ég var algjörlega brjálaður, og heimtaði að þeir hleyptu mér út en fékk engin viðbrögð. Eftir að hafa staðið og öskrað á verðina í marga klukkutíma lognaðist ég út af og sofnaði, en vaknaði fljótlega aftur í svitabaði og brjáluðum fráhvörfum.

Byrjaði að drekka í 8. bekk

Rikki er fæddur árið 1994. Hann ólst upp í Grindavík og er yngstur í hópi fjögurra systkina. Skólagangan gekk vel framan af, hann æfði fótbolta frá unga aldri og var talinn einn efnilegasti leikmaður bæjarins. Þegar hann var 12 ára varð fjölskyldan fyrir miklu áfalli þegar mamma hans, stoð og stytta fjölskyldunnar, fékk heilablóðfall og var vart hugað líf. Í kjölfarið tók við erfitt tímabil og breyttar heimilisaðstæður sem reyndu mikið á alla fjölskyldumeðlimi. „Við systkinin höfum öll upplifað okkar skerf af erfiðleikum og þegar ég hugsa til baka eru veikindi mömmu upphafið að mörgum þeirra. Hún var sú sem sá alltaf um allt og hélt öllu gangandi, svo skyndilega var fótunum bókstaflega kippt undan henni, og þar með okkur öllum í fjölskyldunni. Þarna hefði klárlega þurft að vera eitthvað utanumhald, eitthvert teymi eða ráðgjöf sem okkur hefði átt að standa til boða. En það var ekkert svoleiðis. Fljótlega eftir þetta skildu mamma og pabbi, ég hætti í fótboltanum og fór að sækja í verri félagsskap,“ rifjar Rikki upp.
Ekki leið á löngu þar til allt fór úr böndunum. „Það var í 8. bekk, rétt eftir að mamma veiktist, sem fyrst var komið með mig heim í lögreglufylgd eftir skólaball. Ég byrjaði að drekka áfengi á þessum tíma og fljótlega fór vinahópurinn að fikta við eiturlyf. Um leið og ég prófaði í fyrsta sinn var ekki aftur snúið.“

„Í byrjun sumars tók ég inn of mikið magn af róandi lyfjum, fékk flog og lenti næstum í hjartastoppi. Ég fór á spítala og þegar fjölskylda mín frétti af þessu var þeirra fyrsta hugsun auðvitað að þetta væri tengt neyslu, en mér tókst að sannfæra þau um að þetta væri eitthvað allt annað, flensa eða álíka“

Mætti á 12 spora-fundi í bullandi neyslu

Sumarið eftir útskrift úr grunnskólanum fór Rikki í sína fyrstu meðferð. „Ég fór ekki þangað inn af fullum hug, var í raun að bíða eftir því að komast út til að geta fengið mér aftur. Mér fannst ég ekki eiga við neitt vandamál að stríða og hafa fulla stjórn á þessu,“ segir hann.

Næstu árin var Rikki inn og út úr meðferðum, bæði í styttri og lengri tíma, en tókst inn á milli að halda sér edrú. Á síðustu árum hefur hann eignast tvö börn, stundað sína vinnu af krafti og fjölskyldan stóð í þeirri trú að allt væri í góðu lagi. En reyndin var ekki sú, og að eigin sögn var feluleikurinn það sem átti eftir að reynast honum verst.

„Mér tókst að að fela þetta fyrir fólkinu í kringum mig, sem stóð í þeirri trú að ég væri fullkomlega edrú. Ég mætti jafnvel á 12 spora-fundi en var samt í bullandi neyslu. Í byrjun sumars tók ég inn of mikið magn af róandi lyfjum, fékk flog og lenti næstum í hjartastoppi. Ég fór á spítala og þegar fjölskylda mín frétti af þessu var þeirra fyrsta hugsun auðvitað að þetta væri tengt neyslu, en mér tókst að sannfæra þau um að þetta væri eitthvað allt annað, flensa eða álíka. Svo hélt ég bara áfram að éta pillur þegar ég var útskrifaður. Feluleikurinn er nefnilega svo hættulegur. Það er ekki fyrr en allt var í tómu tjóni, ég kominn í skuldir og mjög harða neyslu að ég var fyrst tilbúinn að viðurkenna vandann og þiggja hjálp. En þá er það oft hægara sagt en gert.“

Færibandavinna á Vogi

Af tveimur slæmum kostum segist Rikki að vissu leyti hafa verið heppinn að málin þróuðust á þennan veg. „Ég komst að minnsta kosti inn á geðdeild að lokum og fékk hjálp, ólíkt mörgum sem vísað er frá. Það átti að loka á mig og segja „sorrí, vinur“.

Ég hef ekkert út á þá starfsemi að setja sem þar fer fram. Þar er unnið svo mikið með andlegu hliðina og farið miklu dýpra. Vogur er meiri færibandavinna, þar koma sjúklingar inn og eru allir meðhöndlaðir eins, þetta er í raun afeitrunarstöð. Ég myndi vilja sjá miklu meira aukið fjármagn í fíknigeðdeildir landsins og finnst sorglegt að sjá ástandið í þessum málaflokki eins og staðan er í dag.“

Rikki var inn á geðdeildinni í um tvær vikur áður en hann var sendur heim í nokkra daga, þar til hann komst inn á Vog. „Ég var þarna innan um virkilega veika einstaklinga. Einn af sjúklingunum talaði sífellt um Díönu prinsessu og var sannfærður um að hún sæti á rúminu hjá sér á kvöldin og að hann hefði verið með í bílnum kvöldið sem hún dó. Þetta var ekki sérstök fíknigeðdeild heldur almenn geðdeild, og dvölin þar var mér erfið þar sem fráhvörfin voru svo rosaleg. Þrátt fyrir það var ég þakklátur fyrir að hafa fengið þessa hjálp og var og er harðákveðinn að standa mig. Ég veit að nú þarf ég að leggja öll spil á borðið því þetta er mitt síðasta tækifæri. Neyslan og ruglið var orðið svo mikið, að ef ég hætti ekki núna er þetta búið.“

Tilbúinn að takast á við þetta fyrir lífstíð

Eins og áður hefur komið fram á Rikki fjölmargar meðferðir að baki, vel á annan tug. Í þetta sinn segir hann hugarfarið breytt því sem áður hafi verið. „Áður fyrr leit ég alltaf á edrúmennskuna sem eitthvað sem yrði aðeins til styttri tíma en ekki langtímaverkefni. Þetta er í fyrsta sinn sem ég er tilbúinn að takast á við þetta fyrir lífstíð. Áður var ég alltaf með þá hugsun bak við eyrað að ég þyrfti bara að vera edrú í kannski 10 ár, þá yrðu krakkarnir orðnir eldri og þá væri í lagi að fá sér smávegis aftur. Þessi hugsunarháttur varð mér að falli aftur og aftur, en núna er ég í þessu á breyttum forsendum. Ég ætla að taka þetta alla leið núna og fylgja prógramminu, leggja allt í hendurnar á æðri mætti. Nú tekur við vinna hjá mér við að koma lífinu í eðlilegt horf, byggja upp samband við börnin mín og vera góður pabbi, mæta í vinnu og standa mína plikt. Það er satt sem sagt er, að þessi sjúkdómur leiði ekki til neins nema geðveiki eða dauða. Ég hef fengið annað tækifæri og ætla mér að nýta það vel,“ segir Rikki að lokum.

 

Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu.

Við vinnslu fréttarinnar hafði Mannlíf samband við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu til að fá viðbrögð við frásögn Ríkharðs. 

„Engin nýlunda að einstaklingar séu vistaðir í fangageymslu þegar betur færi á að aðrar leiðir væru mögulegar“

Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn, segir málefni fólks með geðrænan eða tvíþættan vanda vera Lögreglunni vel kunnug og að embættið hafi áður bent á skort á úrræðum. „Það er heldur engin nýlunda að einstaklingar séu vistaðir í fangageymslu þegar betur færi á að aðrar leiðir væru mögulegar. Lögreglan getur ekki tjáð sig um umrætt mál, sem er tilefni umfjöllunarinnar, en getur staðfest að sambærileg atvik hafa komið upp. Þá er inngrip lögreglu oft eina úrræðið, en vistun í fangageymslu við þær aðstæður snýr að öryggi viðkomandi, sem kann að vera hættulegur sjálfum sér og/eða öðrum,“ segir hann. Varðandi álag á geðdeildum og skort á langtímaúrræðum í búsetumálum fólks með geðrænan eða tvíþættan vanda telur Ásgeir nægja að benda á orð þeirra sem starfa í heilbrigðiskerfinu og að undir þau megi taka. „Svo virðist sem margir lendi utan kerfis, en við það má ekki una og brýnt er að úr því verði bætt.“

 

/Viðtal: Margrét Björk Jónsdóttir
/Myndir: Hákon Davíð Björnsson

 

 

Ertu með frétt?
Hefur þú skemmtilegt efni til að koma á framfæri?

Sjá einnig

Innlent

Svante og ég

fyrir 2 dögum Lesa meira
Kaupa áskrift
Kaupa áskrift

Vinsæl íslensk og vegleg tímarit

Ef þú vilt tryggja þér glæsileg og vegleg tímarit, komdu í áskrift!

Kaupa áskrift

Lesa Mannlíf á netinu