Fimmtudagur 28. mars, 2024
3.8 C
Reykjavik

Karlarnir á kránni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fimm karlkyns alþingismenn og ein alþingiskona hittust á bar og létu gamminn geisa. Uppistaðan í samræðunum var kvenfyrirlitning, karlagrobb, hómófóbía og staðfesting á því að íslensk pólitík gengur meira og minna út á hrossakaup og greiða á móti greiða. Ekkert nýtt í því. Það sem blessað alþingisfólkið vissi hins vegar ekki var að einhver óprúttinn kráargestur var með símann sinn stilltan á hljóðupptöku sem hann/hún síðan sendi á fjölmiðla. Hver fréttin af annarri af þessum óformlega fundi birtist á vefmiðlum og fjandinn varð laus á Facebook og Twitter. Alþingismennirnir báðust afsökunar á ummælum sínum í bak og fyrir, með þeim fyrirvara að sjálfsögðu að þeir hefðu verið drukknir og þar af leiðandi ekki ábyrgir orða sinna. Engum þeirra dettur í hug að segja af sér þingmennsku og í viðtölum fjölmiðla við þá kemur skýrt fram að þeir eiga ekki von á því að nokkur eftirmál verði af þessu gaspri þeirra. Þeir treysta sem fyrr á gullfiskaminni kjósenda og ætla ótrauðir að halda sínu striki. Nema hvað? Það er ekki hefð fyrir því að íslenskir stjórnmálamenn taki ábyrgð á orðum sínum og gerðum. Þeir skáka endalaust í því skjólinu að þeir séu ósnertanlegir og kjósendum komi í rauninni ekkert við hvað þeir eru að aðhafast. Þeir eiga þetta, þeir mega þetta.

Svörin sem þessir alþingismenn hafa gefið fjölmiðlum um rætur ummæla sinna á fyrrnefndu fylliríi eru grátlega fyrirsjáanleg. Það eru hin hefðbundnu svör ofbeldismanna: „Fyrirgefðu, ég meinti þetta ekki, ég var bara fullur, ég var bara reiður, þú veist að ég er ekki svona maður. Ég ber mikla virðingu fyrir konum, þótt ég meti þær eingöngu út frá útliti þeirra og kalli allar konur sem hafa skoðanir sem þær fylgja eftir, klikkaðar kuntur, kræfar kerfiskerlingar og apaketti sem ekkert vita, kunna eða geta. Það tala sko allir svona þegar þeir eru einir með strákunum. Þú veist það.“

Nei, kæru alþingismenn, við vitum það ekki. Þótt kvenfyrirlitningin í jafnréttisparadísinni Íslandi sé stæk og rótgróin þá tala sem betur fer ekki allir svona. Allra síst menn sem hafa verið í fararbroddi alþjóðlegra verkefna í jafnréttismálum. Að vera fullur er heldur engin afsökun. Og fólk „lendir“ ekki í því að segja hluti. Það er alltaf meðvituð ákvörðun hvað sem innbyrtu áfengismagni líður. Og það yfirklór að halda því fram að lýsingar á pólitískum hrossakaupum séu „bara lygi“ er svo yfirgengilega heimskulegt og ber vott um svo litla virðingu fyrir almenningi að það tekur engu tali. Ekki bjóða okkur upp á svona rakalaust bull, kæru alþingismenn. Reynið að hegða ykkur eins og viti bornar manneskjur. Stígið til hliðar og axlið ábyrgð á eigin bulli. Helst ekki síðar en strax. Því þótt það hafi greinilega alveg farið fram hjá ykkur þá hafa tímarnir breyst. Alþingismenn eru ekki lengur ósnertanlegir og Internetið man það sem gullfiskurinn gleymir. Það hlýtur að fara að koma að því að kjósendur fái nóg og setji ykkur stólinn fyrir dyrnar. Hingað og ekki lengra. Ykkar tími er liðinn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -