Fimmtudagur 14. nóvember, 2024
9.5 C
Reykjavik

Ögurstund hjá WOW: Indigo gengur frá borði en bætir við áfangastöðum frá Keflavík

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Örlög WOW air kunna að skýrast á mánudaginn en það er sá tímarammi sem Icelandair og WOW gefa sér til að ljúka viðræðum um aðkomu fyrrnefnda félagsins á því síðarnefnda. Á sama tíma og Indigo Partners gekk frá borði var tilkynnt um að Wizz air, sem er í eigu Indigo, hafi fjölgað flugleiðum til Íslands.

Það dró til tíðinda í lífsbaráttu WOW air í gærkvöldi þegar þriggja mánaða samningaviðræðum um kaup Indigo Partners á WOW air var slitið. Þrjár tilkynningar voru sendar út samtímis í gærkvöldi vegna málsins.

Icelandair sendi tilkynningu til kauphallarinnar um að stjórnin hafi samþykkt að hefja viðræður við WOW um aðkomu að rekstri félagsins. Á sama tíma birti WOW tilkynningu um að viðræðum við Indigo hafi verið slitið um leið og á vef stjórnarráðsins var tilkynnt um viðræður Icelandair og WOW. Segir að félögin stefni á að ljúka samningaviðræðum fyrir mánudag.

Athygli vekur að í tilkynningu Icelandair segir að viðræðurnar fari fram „í samráði við stjórnvöld“ en í vef stjórnarráðsins segir einungis að stjórnvöld muni áfram „fylgjast grannt með framvindunni“. Á þessu er eðlismunur eins og Trausti Hafliðason, ritstjóri Viðskiptablaðsins, benti á í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar vildu lítið tjá sig um málið fyrir ríkisstjórnarfund í morgun en mbl.is hefur eftir Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra, að málið sé í höndum flugfélaganna.

Barátta Skúla Mogensen hefur verið samfelld rússíbanareið. Hann byrjaði á því að leita til Icelandair og sama dag og þær viðræður fóru út í sandinn kom Indigo að borðinu. Það ferli hófst um miðjan desember og átti að ljúka í lok febrúar en var framlengt um þrjár vikur þegar samkomulag var ekki í höfn.

Á þessum tíma gjörbreyttist staða Icelandair. Félagið tilkynnti um stækkað leiðakerfi og lykillinn af því voru glænýjar Boeing 737 MAX þotur. Hafði félagið þegar fengið þrjár slíkar þotur afhentar og sex til viðbótar voru á leiðinni á næstu viku. Mannskæð flugslys í Indónesíu og Eþíópíu urðu hins vegar til þess að allar vélar af þessari tegund hafa verið kyrrsettar og alls óvíst er hvenær þær fara í loftið aftur. Icelandair bráðvantar þess vegna flugvélar til að halda áætlun sinni.

- Auglýsing -

Það vakti svo athygli í gær að sama dag og Indigo gekk frá samningaborðinu var tilkynnt um að Wizz air, sem er að stærstum hluta í eigu Indigo, ætli að hefja áætlunarflug milli Keflavíkur og Kraká í Póllandi. Þar með verða áfangastaðir Wizz air frá Keflavík orðnir 10 talsins. Trausti velti því upp í Morgunútvarpinu í morgun hvort samningaviðræðurnar hafi aðeins verið yfirskin af hálfu Indigo.

„Bill Franke [eigandi Indigo] er núna með allan íslenska flugheiminn kortlagðan. Hann er búinn að skoða allar bækur. Hann er í kjöraðstöðu. Ef maður ætti að fara út í einhverjar samsæriskenningar þá er hann búinn að draga WOW á asnaeyrunum í fjóra mánuði og endar með að slíta viðræðunum og endar með að fjölga ferðum hjá sínu flugfélagi til Íslands.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -