Pétur Jóhann Sigfússon er landsþekktur eftir 20 ára galsafenginn feril. Hann segist alltaf kalla á smávegis athygli og vera svolítill bóndi í eðli sínu. Við fyrstu kynni hélt hann að unnustan væri nethrekkur en um helgina fagna þau 12 ára sambandsafmæli.
Í forsíðuviðtali við Mannlíf ræðir hann meðal annars uppeldisárin, starfsferilinn og ástina.
Pétur er trúlofaður Sigrúnu Halldórsdóttur en þau kynntust 2007. „Ég á eftir að giftast henni, við þurfum að finna daginn í það. Við kynntumst á Netinu, þegar Næturvaktin var nýbyrjuð í sýningu, á Myspace og hún bara sendi mér skilaboð þar hún Sigrún mín,“ segir Pétur og segir þau hafa talað saman þar til að byrja með, langt fram á nætur í marga daga og vikur.
Lesa má viðtalið í heild sinni hér.
„…á myndunum var hún alltof sæt til að vera eitthvað að tékka á mér.“
„Ég var svolítið tregur, ég treysti ekki Netinu og hélt að Sigrún væri bara einhver vörubílstjóri, eða þú veist, bara einhver karl með mynd af konu. Af því á myndunum var hún alltof sæt til að vera eitthvað að tékka á mér. Og ég var viss um að þetta væri eitthvert rugl. En svo kom tímapunkturinn þar sem við ákváðum að hittast og hittumst í fyrsta skipti bara heima hjá mér í kaffi og svo síðan leiddi bara eitt af öðru. Ég hélt hún væri bara eitthvað sturluð í hausnum sko, nei djók! sem við erum náttúrlega öll.“
Tólf árum seinna eru þau enn saman og stutt í afmælið þeirra segir Pétur, þann 7. október. Þau eiga hvort sína dótturina úr fyrri samböndum, báðar fæddar 1999 með níu daga millibili, og saman eiga þau son fæddan 2011.
Lestu viðtalið við Pétur í heild sinni í nýjasta Mannlífi.