Fimmtudagur 14. nóvember, 2024
9.5 C
Reykjavik

„Sannfærð um að nú myndi hann drepa mig“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

*TW* Trigger Warning/*VV*varúð váhrif

Nara Walker hlaut dóm fyrir ofbeldi gegn þáverandi eiginmanni sínum sem hafði beitt hana ofbeldi í áraraðir. Hún var nýlega látin laus úr fangelsi en býr hér sem réttlaus kona þar sem enn eru 15 mánuðir eftir af skilorðsbundnum dómi hennar. Hún ætlar með mál sitt fyrir Mannréttindadómstól Evrópu og segir lesendum Mannlífs sögu sína.

 

„Já, það væri gaman því mér líður núna eins og allt mitt líf hverfist um þetta mál,“ segir Nara Walker þegar hún er beðin um að segja frá því hver hún er og hvaðan hún kemur. „Ég er fædd á stað sem heitir Springbrook, bæ sem stendur á óvirku eldfjalli ofan við Gold Coast í Queensland í Ástralíu. Þar ólst ég upp fram yfir sjö ára aldur og það er sannkölluð náttúruparadís þó svo að snákarnir og kóngulærnar séu ekki fyrir alla. Þarna bjó ég ásamt móður minni, systur og föður sem á reyndar fleiri börn sem eru fædd bæði fyrir og eftir hjónabandið með mömmu. Walker er reyndar ekki eftirnafn föður míns heldur stjúpföður vegna þess að faðir minn er ofbeldismaður og við þurftum seinna meir að forðast hann af fremsta mætti. Hann er einn þessari manna sem sjá hvorki sólina né annað fyrir sjálfum sér.“

Nýkomin úr fangelsi

Nara sem verður 29 ára í júlí hefur búið víða um ævina og reynt ýmislegt. Eftir að foreldrar hennar skildu bjó hún á Gold Coast, flutti síðan til Suður-Ástralíu eftir að móðir hennar tók saman við stjúpföður þeirra systra, ferðaðist með þeim um Evrópu um þriggja mánaða skeið, bjó á sveitabæ með þeim þar til þau skildu og eftir það á Sunshine Coast með viðkomu í Brisbane.

Í menntaskóla vann Nara til verðlauna fyrir listsköpun sem hvatti hana til þess að feta braut listarinnar. „Ég fór í listnám með áherslu á málaralist, fór svo til Óslóar með þáverandi kærastanum mínum og var þar í tíu mánuði árið 2010 en sneri aftur til þess að halda áfram með námið. Fólkið hennar mömmu kemur frá Noregi og því fannst mér gaman að kynnast landinu og lífinu þar. Mamma lagði reyndar alltaf áherslu á tengslin við ástralska náttúru og nafnið mitt er komið úr máli frumbyggja og merkir félagi. En eftir að ég kom aftur frá Noregi komst ég að í Griffith University í Brisbane og lauk þaðan BA-námi. Ég var svo á svokölluðu Hounors-ári þegar ég kynntist manninum sem nú er fyrrverandi eiginmaður minn og ástæðan fyrir því að ég er á Íslandi, nýkomin úr fangelsi.“

- Auglýsing -

Sjá einnig: „Hefur lifað í samfelldum ótta undanfarna 17 mánuði“

Nara var dæmd fyrir að bíta hluta af tungu fyrrverandi eiginmanns síns en hefur alla tíð lagt áherslu á að hún hafi ítrekað verið beitt ofbeldi af hans hálfu. Íslenskir dómstólar féllust ekki á að viðbrögð hennar hafi helgast af sjálfsvörn og hlaut hún því átján mánaða dóm, þrjá hefur hún þegar afplánað á Hólmsheiði og inni á Vernd en fimmtán eru skilorðsbundnir.

Byrjaði með brotið andlit

- Auglýsing -

„Þetta byrjaði þannig að hann var að vinna handan götunnar þar sem ég var í háskólanámi og það hræðir mig í dag hvernig hann spilaði með mig frá upphafi. Faðir minn var ofbeldismaður og fyrir vikið er ég útsettari fyrir þessari hegðun og það var eins og hann skynjaði það frá upphafi. Hann vissi nákvæmlega hvernig hann átti að hegða sér. Hann er franskur, hávaxinn, hraustur og sex árum eldri en ég og í dag líður mér eins og ég hafi verið veidd. Hann kunni að spila á veikleika mína og bakgrunn minn og til þess að gera langa sögu stutta endaði það með því að við byrjuðum saman og allt frá upphafi var til staðar þetta sálræna ofbeldi þar sem það var gefið og tekið á víxl og allt snerist um að ná fullri stjórn á einstaklingnum.“

Nara segir að hún hafi ákveðið að slíta sambandinu vegna kærustunnar sem hann átti að auki. Hún vildi ekki vera kona sem gerði annarri konu eitthvað slíkt. „Ég hætti að hitta hann en varð nokkru síðar fyrir því að fótbrjóta mig. Þá kom hann og sagðist vera hættur með kærustunni, vildi aðstoða mig við daglegt líf af því að ég væri meidd, ætlaði að hugsa um mig. Ég hélt ákveðinni fjarlægð við hann en fór svo út með honum þegar ég var laus við gifsið og fór heim með honum en gisti bara á sófanum. Daginn eftir vaknaði ég illa vönkuð í rúminu hans, með skelfilega verki í andlitinu.

Nara Walker hlaut dóm fyrir ofbeldi gegn þáverandi eiginmanni sínum sem hafði beitt hana ofbeldi í áraraðir. Hún var nýlega látin laus úr fangelsi.

Ég hafði ekki verið drukkin kvöldið áður en vaknaði samt þarna og í þessu ástandi og skildi ekki hvað hafði gerst. Ég spurði hann ítrekað en hann fór alltaf undan í flæmingi, laug og bullaði, en þegar ég sagðist ætla að fara að hitta mömmu og fara svo á sjúkrahús þá loksins sagðist hann muna hvað gerðist. Sagði mér að hann hefði verið að bera mig inn í rúm og misst mig á leiðinni. Þannig að ég hef rotast við það og hann bara lagði mig í rúmið með heilahristing. Það hefði getað kostað mig lífið og að endingu fór vinur minn sem er læknir með mig á sjúkrahús og þá kom í ljós brákað kinnbein.“

Lamin til hlýðni

Nara segir að á þessum tímpunkti hafi hún verið komin í ofbeldissamband án þess að gera sér grein fyrir því. Eftir því sem leið á sambandið og síðar hjónabandið tókst eiginmanninum að herða tökin og Nara rekur fjölmörg dæmi um það hvernig ofbeldið stigmagnaðist. „Það var andlegt, líkamlegt og kynferðislegt en alltaf var þetta mér að kenna samkvæmt hans bókum. Þetta var vítahringur sem var erfitt að rjúfa og hélt áfram í gegnum allt okkar samband. Hann gætti þess að einangra mig alltaf frá því tengslaneti sem ég myndaði. Við fluttum alltaf á sex mánaða fresti og svo lofaði hann í sífellu að sjá um fjármálin og annað slíkt svo ég gæti sinnt listinni en stóð misvel við þau orð.

Það sem mér hefur þó þótt hvað erfiðast að horfast í augu við er kynferðisofbeldið sem hann beitti mig. Það hófst oft þegar ég var sofandi og varð sífellt grófara. Það getur verið erfitt fyrir konur í núgildandi samfélagsgerð að átta sig á því hvað er ásættanlegt. Í samfélagi sem segir þér að þú eigir að veita manninum þínum ánægju þá er erfitt að játa fyrir sjálfri sér að hann nauðgar þér. Nánd og kynlíf er fyrir báða aðila – þú ert ekki þarna svo hann geti lokið sér af þegar honum hentar. Að viðurkenna fyrir sjálfum sér hvað hefur gerst er erfitt því maður upplifir sig sem einskis virði. Að endurheimta eigið virði tekur tíma en það er hægt með því að horfast í augu við að það var hann sem gerði þér þetta.

Fyrrverandi eiginmaður minn bar enga virðingu fyrir mér, ég sé það núna, hann bara gerði við mig það sem hann vildi, þegar hann vildi. Ef ég sætti mig ekki við það þá var ég lamin til hlýðni með einum eða öðrum hætti.“

Hin auðmjúka sjálfsvörn

Nara segir að framan af sambandinu hafi hann verið lúmskari og beitt hana oft ofbeldi og nauðgunum í svefni eða með því að byrla henni lyf. Þegar þau gengu í hjónaband versnaði ástandið til mikilla muna. „Þá byrjaði hann fyrir alvöru að berja mig. Það var annað skref í því að gera mig veikari fyrir, rétt eins og að flytja úr landi, því þar með leit hann endanlega á mig sem sína eign.

Þegar mér fór að vegna vel í minni listsköpun og fékk að sýna á mikilvægum og stórum stöðum á borð við Hong Kong, Feneyjar og víðar, lagði hann sig líka fram um að eyðileggja það. Slíkt var ógn við vald hans yfir mér og því mikilvægt fyrir hann að rjúfa allt sem gæti falið í sér að ég fengi aukna sjálfsvirðingu og innri styrk.“

Nara kom fyrst til Íslands í lok október 2016, þegar hún bjó í Bretlandi en eiginmaður hennar þáverandi fékk vinnu hjá stóru fyrirtæki á Íslandi. Hann hefur viðurkennt að áður en hann fór til Íslands barði hann hana inni á heimili þeirra í Englandi þar sem þau bjuggu um borð í báti. „Hann reif mig upp og henti mér þvert yfir herbergið svo ég lenti á vegg. Þar hélt hann mér og barði mig í kviðarhol og brjóst og sparkaði svo hurðina niður þegar hann fór út. Ég lá eftir í áfalli og gat ekki hreyft mig í svona tíu mínútur. Þegar ég kom út var hann að fara af stað með bátinn og þá sagði ég bara: „Hæ!“ eins og ekkert hefði gerst. Var bara auðmjúk og voða góð við hann en samt hélt hann áfram að hella úr skálum reiði sinnar yfir mig og ég fór til Íslands með honum.

Þetta er auðvitað ekkert annað en sjálfsvarnarmekkanismi. Höfnun á því að það sé verið að beita mann ofbeldi og aðferð til þess að reyna að koma í veg fyrir að það gerist aftur. Vandinn er að ofbeldið á bara eftir að verða verra þar til vítahringurinn rofnar en það getur líka kostað þolandann lífið og gerir það í fjölmörgum tilvikum um allan heim á hverjum degi.“

Sannfærð um að hann myndi drepa mig

Nara er fær um að lýsa fjölda atvika þar sem fyrrverandi eiginmaður hennar beitti hana hrottalegu ofbeldi. Alltaf gætti hann þess þó að berja hana í brjóst- og kviðarhol svo áverkarnir væru síður sýnilegir en það sem er einkum sláandi eru lýsingar hennar á því hvernig hann gætti þess að horfa í augun á henni meðan á barsmíðunum stóð. Þessi frásögn er henni allt annað en auðveld og erfiðast af öllu er að ræða kvöldið sem leiddi til þess að hún hlaut fangelsisdóm á Íslandi.

„Helgina fyrir atvikið höfðum við farið út á lífið, hittum bandarískan ferðamann, spjölluðum við hann í fimm mínútur og hann fór að fylgja mér á Instagram. Sendi mér svo skilaboð á þriðjudeginum til að forvitnast um hvað væri að gerast í bænum og ég sagði honum að Airwaves væri í gangi og fullt af tónleikum. Í framhaldinu fórum við maðurinn minn út og hittum Bandaríkjamanninn og íslenska konu sem ég leit á sem sameiginlega vinkonu okkar hjóna. Hún hafði verið að vinna með manninum mínum en mér finnst líklegt að þau hafi þá þegar átt í sambandi þegar ég var ekki á landinu og að auki snerist þeirra samband talsvert um eiturlyf og neyslu, eitthvað sem er þeirra en ekki mitt.

Við fórum á tvo bari og vorum að drekka bjór en ég tók eftir því að hún var mjög agressív gagnvart mér sem hún hafði reyndar verið um tíma. Hann ætlaðist til þess að við værum vinkonur, enda var hún alltaf heima hjá okkur, en á þeim tíma leit ég á þeirra samband sem vináttu. Hún átti eftir að ljúga fyrir rétti fyrir hann og ég hefði átt að kæra hana fyrir líkamsárás en í mínum huga var hún fyrst og fremst næsta fórnarlamb hans.

Þegar við komum aftur í íbúðina voru maðurinn minn og íslenska konan að kyssast eins og þau höfðu verið gera fyrr um kvöldið. Það angraði mig satt best að segja ekki, það finnst kannski einhverjum skrítið, en fyrir mér var það bara koss og ég var búin að ákveða að skilja við hann hvort eð var. Ég hafði svo sem séð slíka tilburði hjá honum áður, ég hef séð hann hafa kynmök við annað fólk og hef þá yfirgefið herbergið. En þarna um kvöldið brást ég þannig við að ég kyssti Bandaríkjamanninn, það var svona ég að sýna honum að ég gæti alveg hagað mér svona en svo hætti ég því til þess að verða ekki lamin og við vorum bara að spjalla.

En svo sáum við að maðurinn minn og þessi íslenska kona voru nánast farin að stunda kynlíf en í fötunum inni í stofu. Bandaríkjamaðurinn sagðist bara ætla að fara þannig að ég sagðist líka ætla að fara, vildi ekki vera hluti af þessu. Þá varð allt vitlaust.

Maðurinn minn varð brjálaður. Hann átti mig og óttaðist að ég ætlaði að fara með Bandaríkjamanninum sem ég ætlaði alls ekki að gera. Ég vildi bara ekki vera þarna.

Maðurinn minn og konan voru stöðugt að öskra á mig einhverjar svívirðingar og ég man að ég horfði á hana og furðaði mig á því af hverju hún væri að standa í þessu. Íbúðin sem við vorum í var á hæðum og á einhverjum tímapunkti stóðu maðurinn minn og Bandaríkjamaðurinn frammi á stiganum og þá skyndilega ýtti maðurinn minn honum þannig að hann kútveltist niður stigann, niður á næstu hæð. Seinna kom fram í áverkaskýrslu að hann var með alvarlega áverka eftir þetta.

Ég fríkaði út þegar ég sá þetta. Maðurinn minn hljóp á eftir honum og stóð yfir honum og hann er stór og sterkur. Ég reyndi að beina athygli hans að mér svo að hann héldi ekki áfram að meiða hann og þá komst Bandaríkjamaðurinn undan. Maðurinn minn byrjaði að hrinda mér harkalega og það kemur fram á áverkaskýrslunni að ég var með áverka á brjósthrygg og brákað rif sem ég held að hafi gerst þarna. En málið er að ég var sannfærð um að nú myndi hann drepa mig.

„Hann starði inn í sálina á mér. Ég hef aldrei orðið eins hrædd og ég gat ekkert gert, leið skyndilega eins og ég væri utan eigin líkama.“

Hann starði inn í sálina á mér. Ég hef aldrei orðið eins hrædd og ég gat ekkert gert, leið skyndilega eins og ég væri utan eigin líkama. Horfði á allt gerast eins og fluga á vegg. Síðan byrjaði hann að berja mig í brjóst og kviðarhol á meðan hann horfði í augun á mér. Að hverju var hann að leita í augunum á mér? Eigin virði?“

Færð í handjárn

„Ég gat ekki andað. Hann tók mig upp og lagði mig á sófann sem er á neðri hæðinni inni í íbúðinni sem er á tveimur hæðum. Hún var þarna líka og hann stóð yfir mér á meðan ég var að reyna að ná andanum. Það var eins og árásin væri enn í gangi með hann þarna yfir mér og allar þessar hugsanir um hvað hafði gerst. Hugsanir um að hann hefði getað drepið þennan mann. Hugsanir um að hann hefði verið að berja mig og ég myndi líklega ekki lifa þetta kvöld af. Lá bara þarna og reyndi að anda á meðan hann stóð yfir mér og hélt áfram að öskra á mig. Öskra að hann ætti mig.

Skyndilega fann ég adrenalínið flæða um mig í bylgjum og líkamann segja mér að koma mér burt. Þannig að ég stóð loksins upp og reyndi að komast fram hjá honum. Hann greip um upphandleggina á mér, hélt mér fastri og hélt áfram að öskra á mig. Hann er eflaust svona 25 sm hærri en ég og skyndilega hallaði hann sér niður að mér og þvingaði sér á mig. Það var á því augnabliki sem ég beit bút af tungunni á honum.

Ég fann aldrei fyrir tungunni á honum uppi í mér, kannski vegna þess að þau höfðu sett kókaín í drykkina okkar án minnar vitundar og það hefur víst staðdeyfandi áhrif. Ég bara brást við og líkami minn lokaðist, herptist saman, með þessum afleiðingum.

Nara ætlar ekki að játa sig sigraða fyrir óréttlætinu heldur fara með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.

Það var eins og tíminn stæði í stað. Skyndilega rankaði ég við mér og hjartað barðist um á ógnarhraða þar sem ég lá á bakinu á gólfinu og hún sat klofvega ofan á mér öskrandi ókvæðisorð. Ég var skelfingu lostin. Þau voru tvö og bæði miklu stærri en ég. Ég reyndi að ýta henni af mér og við tókumst á. En það sem ég óttaðist mest var hvað hann mundi gera mér á meðan mér væri haldið svona fastri. Ég óttaðist að hann kæmi og kastaði mér fram af svölunum eða eitthvað þaðan af verra.

Loksins náði ég að losa mig en ég komst ekki út fram hjá þeim heldur gat hlaupið upp á efri hæðina og falið mig þar. Ég var í algjöru áfalli. Þau héldu áfram að öskra á mig en hún hringdi í lögregluna. Þegar lögreglan kom var ég grátandi og endurtók mig í sífellu sem er augljóst merki um áfall, jafnvel ég veit það, en samt var ég sett í handjárn og þau tvö færð á sjúkrahús. Ég var færð handjárnuð út í aftursæti lögreglubíls og var í haldi lögreglu að því ég held í fimmtán klukkustundir.“

Hefðu getað orðið mín örlög

Nara sýndi lögreglunni víðtæka áverka á líkamanum sem gátu verið vísbending um innvortis blæðingar en það breytti engu. Að loknu varðhaldinu var svo farið með hana aftur heim til eiginmannsins, vegabréf hennar tekið og hún skilin eftir heimilislaus og án bankakorta því eiginmaðurinn hafði allt slíkt í sinni vörslu. Hún gat sótt einhverjar eigur en gekk síðan sjálf á sjúkrahús undir miðnætti til þess að fá læknishjálp.

„Móðir mín greiddi fyrir gistiheimili og ég borðaði hjá Samhjálp en á sama tíma var ég undir stöðugu áreiti frá honum. Hann sendi mömmu, öllum vinum mínum og sínu eigin samstarfsfólki alls konar vitleysu um mig og gerði allt sem hann gat til þess að einangra mig.

Vegna lögregluskýrslunnar og alls þess sem hann lét frá sér, var ég í hlutverki gerandans. Þurfti að takast á við hugsanir um að þetta væri mér að kenna, að ég hefði ögrað honum og meitt hann. Samt fékk ég að sjá hvað hann skrifaði íslensku konunni daginn eftir þar sem hún sagðist ekki muna hvað gerðist en hann sagði henni bara hvernig þetta var og það var fjarri sannleikanum. Hún lagði áherslu á að ég þyrfti að fara í fangelsi í langan tíma og á stóran þátt í að ég fékk dóm. Hún fékk föður sinn sem er læknir til þess að skrifa áverkaskýrslu eftir að aðrir læknar voru búnir að skoða hana áður. Fékk föður sinn til að votta um áverka sem voru ekki til staðar og þetta sá rétturinn en tók þetta auðvitað ekki til greina. Þetta gerði það að verkum að ég fékk ekki eins þungan dóm og ella. Engu að síður lét rétturinn samt aðrar lygar standa og tók vitnisburð þeirra góðan og gildan.“

Nara segir að hún sé enn að takast á við eftirköstin af því sem gerðist þetta kvöld. Líkamlega, andlega og félagslega en þar sem hún er án réttinda á Íslandi og má enn ekki vinna, getur hún ekki sótt sér þá aðstoð sem hún þarf á að halda. „Ofbeldið sem ég varð fyrir frá honum hefur í dag víkkað út í það sem ég má þola af hálfu kerfisins og frá þessari konu og fjölskyldu hennar. Hún tók þátt í árásinni þetta kvöld frá upphafi, fyrst með orðum en síðar gjörðum, þannig að sem vitni þá stenst auðvitað ekki að hún sé hlutlaus. Hún laug upp á mig við réttarhöldin þar sem hún laug einnig til um samband þeirra tveggja.

„Ofbeldið sem ég varð fyrir frá honum hefur í dag víkkað út í það sem ég má þola af hálfu kerfisins og frá þessari konu og fjölskyldu hennar.“

Hún meira að segja bjó með eiginmanni mínum, þau fluttu saman til London, og á meðan málið var enn fyrir Landsrétti leiddi rétturinn í ljós að þau hefðu logið fyrir Héraðsdómi. Þar með á framburður þeirra ekki að vera aðgreinanlegur. Auk alls þess óhróðurs sem þau létu frá sér á Netinu.“

Nara segir að hún hafi fundið til með þessari konu þrátt fyrir allt, vitandi að hann væri maðurinn á bak við þetta. „Þetta mál snýst um heimilsofbeldi frá a til ö. Það sem raunverulega gerðist var að ég reyndi að yfirgefa manninn sem beitti mig ofbeldi og eins og svo margar konur sem það reyna varð ég fyrir árás. Margar konur eru myrtar þegar þær reyna að fara og ég er viss um að það hefðu getað orðið mín örlög þetta kvöld.“

Rannsókn í skötulíki

Nara þagnar og heldur svo áfram. „Það sem raunverulega gerðist var að í september 2017 var ég loksins búin að átta mig á því að ég yrði að fara frá honum. Á þeim tíma beitti hann mig líkamlegu, andlegu, kynferðislegu og fjárhagslegu ofbeldi. Ég tók þátt í sýningu í Berlín sem framkallaði reynslu mína af heimilisofbeldi frá því þegar ég var barn og þá fann ég hugrekki til þess að segja honum að þetta yrði að hætta. Þá sömu helgi byrlaði hann mér LSD í teið mitt og í framhaldinu tók ég þessa ákvörðun.

Ég var að sýna í Hong Kong og víðar og ræddi þetta við móður mína sem kom með mér í eina af þeim ferðum. Þetta kom henni ekki á óvart því hún hafði átt í bréfaskiptum við hann þar sem þetta ofbeldi kom upp og það var lagt fram til sönnunar við réttarhöldin. Þar játaði hann meira að segja að hafa ráðist á mig og að hafa byrlað mér eiturlyf.

Þetta kom fram við réttarhöldin og þar var hann líka spurður út í að hafa nauðgað mér en eins og ég man svarið þá sagði hann: „Þetta er Nara að láta mér líða illa með nauðganir. Hún er konan mín.“ Hann sagði að ég gerði hann vondan og sýndi horn á höfði með höndunum til útskýringar og annað í þeim dúr sem að mínu mati tók af allan vafa um að hann væri ofbeldismaður. Hann var spurður um atvikið á bátnum og þá svaraði hann að hann hefði einu sinni ráðist á mig. En allt kom fyrir ekki. Ég fékk átján mánaða dóm, sat í mánuð á Hólmsheiði, í tvo mánuði á Vernd og svo standa fimmtán mánuðir eftir skilorðisbundnir.“

Nara bendir á að það sem gerðist þetta afdrifaríka kvöld sé afleiðing heimilsofbeldis en lögreglurannsókninni hafi verið vægast sagt ábótavant. Lögreglan sleppti því að mynda eiturlyf sem stóðu á stofuborðinu, enginn var sendur í lyfjapróf. Þessi kona játar að hafa reykt gras með eiginmanni mínum og að hann hafi sett kókaín í drykkina okkar. Engin rannsókn var gerð á þessu, jafnvel þó að ég hafi farið fram á slíkt og lagt fram lista yfir eiturlyf sem hann átti en það var nokkrum dögum síðar. Lögreglan taldi ekki ástæðu til þess að kanna það nánar.

Á rúmum tveimur vikum léttist ég um níu kíló sem er mikið fyrir smágerða konu eins og mig því þá var ég orðin aðeins 46 kíló. Ég var gerð heimilislaus, því lögreglan sendi frá sér skýrslu þar sem hún segist ekki eiga von á ofbeldi af hálfu mannsins gagnvart mér og þar af leiðandi var ég í raun á götunni. Í lögregluskýrslunni er líka ítrekað tekið fram að ég hafi engin tengsl við Ísland, ég sé það núna að það gerði mig réttlausa sem erlenda konu. En hann hafði tengsl þar sem hann var að vinna hjá stóru íslensku fyrirtæki, sama fyrirtæki og þessi kona hafði verið að vinna hjá og hún er auk þess Íslendingur. Saksóknarinn lagði líka mikla áherslu á að ég hefði engin tengsl við Ísland til þess að það væri lagt á mig farbann.“

Refsað fyrir að velja að lifa

En Nara ætlar ekki að játa sig sigraða fyrir óréttlætinu heldur fara með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. „Fyrir mér er mikilvægt að fara með málið burt frá Íslandi þar sem málið snýst um ofbeldismanninn og það sem ég gerði til að losna undan honum. Næst verður þetta pólitískt og fer að snúast um kerfið og hvernig það tekur á heimilisofbeldi. Ég ætla mér að fara með þetta alla leið vegna þess að ég vil standa með sjálfri mér og standa fyrir réttindum kvenna sem þurfa að búa við ofbeldi á hverjum degi, jafnvel alla sína daga.“

„Ég ætla mér að fara með þetta alla leið vegna þess að ég vil standa með sjálfri mér og standa fyrir réttindum kvenna sem þurfa að búa við ofbeldi á hverjum degi.“

Nara segir að það hafi haft mikla þýðingu fyrir hana þegar fólk kom og sýndi henni stuðning þegar hún var á leiðinni í fangelsi. „Þau voru þarna fyrir mig en líka fyrir alla sem búa við heimilisofbeldi. Þessi stuðningur gerði það ekki eins erfitt að ganga þarna inn og fyrst eftir að ég kom inn þá upplifði ég ákveðna kyrrð sem var skrítin tilfinning. En að vakna í fyrsta sinn í fangelsi var mjög erfitt enda er ég haldin áfallastreituröskun eftir allt sem á undan er gengið. En ég sé mig ekki sem glæpamann og ég trúi því að það sem ég gerði hafi verið að verja rétt minn til lífs. Ég valdi að lifa og fyrir það var mér refsað.

Gríðarleg útgjöld fylgja máli Nöru og af þeim sökum heldur hún úti vefsíðu þar sem hægt er að styrkja hana, gofundme.com/f/bring-nara-home. Fjöldi fólks hvatti stjórnvöld til að náða Nöru á sínum tíma, eins og sjá má á undirskriftarlista á síðunni thepetitionsite.com/en-au/290/558/332/bring-nara-home.

Í dag er ég enn að taka út minn dóm en ég ætla líka að halda áfram minni baráttu fyrir réttlæti fyrir mig og allar konur. Þegar ég hef unnið mína baráttu kemur næsta kona og berst fyrir því sama og þannig koll af kolli, því það er það sem við konur höfum verið að gera, þannig munum við að endingu sigra þetta óréttlæti.

Þetta hefur verið skelfileg lífsreynsla sem hefur breytt mér vegna þess að ég hef séð slíkt myrkur í heiminum en það sýnir mér fram á að það getur líka verið svo miklu meira ljós. Þegar manni er kastað svona inn í myrkrið og lifir það af er það vegna þess að maður sér ljósið. Sér vonina.“

Myndir / Aldís Pálsdóttir
Förðun / Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur YSL á Íslandi

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -