Fimmtudagur 26. desember, 2024
1.8 C
Reykjavik

Sveinn Andri í óþökk Arion Banka

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Arion banki hefur farið fram á að Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður verði settur af sem skiptastjóri þrotabús WOW air vegna vanhæfis.

Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka, staðfestir í samtali við Mannlíf að bankinn hafi óskað eftir því að Sveinn Andri Sveinsson, hæstaréttarlögmaður og nýskipaður skiptastjóri þrotabús WOW air, verði settur af vegna vanhæfis. Hann staðfestir einnig að það tengist ágreiningi bankans við bústjóra þrotabús tölvufyrirtækisins Data Cell þar sem Arion er stærsti kröfuhafinn. Sveinn Andri er skiptastjóri í því búi.

„Ég vil að öðru leyti ekki tjá mig um þetta. Málið er bara í farvegi og við ætlum ekki að reka það í fjölmiðlum,“ segir Haraldur í samtali við Mannlíf en Arion banki er, eins og kunnugt er, einn af stærstu kröfuhöfunum í þrotabú flugfélagsins WOW air. Þegar WOW air varð gjaldþrota skuldaði félagið bankanum á annan milljarð króna.

Þótt Arion banki hafi farið fram á að Sveinn Andri verði settur af sem skiptastjóri þrotabús WOW air, gæti það orðið snúið. Arnar Þór Stefánsson, lögmaður hjá LEX lögmannsstofu, segir að mikið þurfi til að skiptastjóri þrotabús sé settur af eftir að hafa verið skipaður.

Þannig að það þarf mikið til, einhvers konar klúður í starfi.

„Það þarf mikið til. Það eru ákvæði í lögum um gjaldþrotaskipti sem segja að viðkomandi þurfi að brjóta af sér í starfi eða vera með stórkostlega slælega framgöngu. Undanfari er yfirleitt á þá leið að sett hafi verið fram aðfinnsla við héraðsdóm á störfum viðkomandi og að Héraðsdómur hafi fallist á réttmæti aðfinnslanna. Ef Héraðsdómur telur að þessar aðfinnslur séu nægilega miklar getur dómari sett viðkomandi af. Þannig að það þarf mikið til, einhvers konar klúður í starfi,“ segir Arnar.

Umdeild ákvörðun

Eins og áður hefur komið fram í fjölmiðlum hefur ákvörðun Símonar Sigvaldasonar, dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, að úthluta þrotabúi WOW air til Sveins Andra og Þorsteins Einarssonar einnig valdið titringi innan lögmannastéttarinnar síðustu daga. Hver lögmaðurinn á fætur öðrum hefur komið fram í fjölmiðlum og gagnrýnt skipanina. Þung orð hafa fallið um ógagnsæi og spillingu innan Héraðsdóms Reykjavíkur.

- Auglýsing -

Lögmennirnir Kristrún Elsa Harðardóttir og Saga Ýrr Jónsdóttir sögðu í Fréttablaðinu að skipan hans væri undarleg í ljósi þess að hann væri umdeildur vegna fyrri embættisgjörða sem skiptastjóri yfir öðrum stórum búum. Þar vísa þær til þess að fjögur félög kærðu hann nýlega, m.a. Mjólkursamsalan og Sláturfélag Suðurlands, vegna þrotabús EK1923.

Áslaug Björg­vins­dótt­ir, lögmaður og fyrr­ver­andi héraðsdóm­ari, sagði í viðtali á mbl.is að ógagn­sæi ríki hjá dóm­stól­um um skip­an skipta­stjóra og eft­ir­lit dóm­stóla með þeim. Kvartanir vegna starfa skiptastjóra berist reglulega en ekkert sé birt opinberlega um það ef dóm­ur­inn finni að störf­um skipta­stjóra eða víki þeim úr starfi, ólíkt því sem gild­ir um önn­ur mál fyr­ir dóm­stól­um.

Lögmaðurinn Þórður Már Jónsson gengur lengra í færslu á Facebook og sakar Héraðsdóm um að úthluta Sveini bestu bitunum eftir hentisemi.

- Auglýsing -

„Ég veit ekki hvað maður á að halda um þetta, en einhverjir eru farnir að nefna orðið spilling. Ég veit ekki hvað ég á að halda persónulega, en það er ljóst að eitthvað er ekki eins og það á að vera. Bara alls ekki. Hvers vegna það er þori ég ekki að segja til um. Það verða aðrir að geta í eyðurnar með það,“ segir Þórður m.a. í færslunni og í Morgunútvarpi Rásar 2 sagði hann: „Það er ekkert gagnsæi sem er haft að leiðarljósi við þessar úthlutanir og skipanir.“

Símon Sigvaldason hefur vísað ásökunum Þórðar á bug í samtali við Vísi og sór jafnframt af sér nokkur tengsl við Svein Andra sem gæfi honum tilefni til þess að hygla honum sérstaklega.

Mynd / Kristinn Magnússon

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -