Skoðun
Eftir / Björn Brynjúlf, hagfræðing
Kaflaskil hafa orðið á fasteignamarkaði. Bygging íbúðarhúsnæðis hefur tekið við sér að nýju en samkvæmt nýjustu talningu Samtaka iðnaðarins eru um 5.000 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu. Til samanburðar voru 1.200 íbúðir í byggingu árið 2012 þegar kulnunin í byggingariðnaði var mest.
Þessi uppbygging er þegar farin að draga úr húsnæðisskorti. Samkvæmt nýrri úttekt Íbúðalánasjóðs náði óuppfyllt íbúðaþörf hámarki á þessu ári og mun dragast saman úr 5.000 niður í 2.000 íbúðir á næstu þremur árum.
Samhliða hefur fasteignaverð orðið viðráðanlegra. Eftir nokkur ár af hækkunum umfram laun hefur þróunin nú snúist við. Laun fóru fram úr íbúðaverði um 2% síðastliðna tólf mánuði. Til samanburðar drógust laun aftur úr íbúðaverði um 4% á ári að meðaltali síðustu fimm árin þar á undan.
Ekki eru þó allir sannfærðir um að staðan sé að batna. Bæði fyrir og eftir undirritun nýrra kjarasamninga hefur umræðan verið á þann veg að þær íbúðir sem eru í byggingu vinni ekki á húsnæðisvandanum nema að litlu leyti.
Meginröksemdin er að þessar nýju íbúðir henti ekki þeim hópi sem á í vanda. Aðallega sé um að ræða stórar og dýrar lúxusíbúðir en enn þá vanti smærri og ódýrari íbúðir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Því sé þörf á sértækum aðgerðum stjórnvalda til að tryggja að byggt sé hagkvæmara húsnæði.
En þegar betur er að gáð munu þessar lúxusíbúðir gagnast fleirum en bara þeim sem kaupa þær. Allir sem flytja í stærra og dýrara húsnæði bjuggu áður annars staðar. Þegar þetta fólk stækkar við sig fara því samhliða á sölu hagkvæmari eignir. Nýjar og dýrar íbúðir auka þannig framboð af ódýrara húsnæði og auðvelda fyrstu kaupendum, auk þeirra tekjulægri og eignaminni, að finna sér hagkvæmt húsnæði.
Tekjur og eignastaða fólks fer hvort tveggja vaxandi með aldri, auk þess sem kröftugur hagvöxtur síðustu ára hefur leitt til þess að hagur margra hefur vænkast. Því hefur myndast eftirspurn hjá fjölmennum hópum eftir stærra, nýrra og þar með dýrara húsnæði. Svo lengi sem efnahagsþróun er hagfelld mun þessi hringrás halda áfram. Þeir sem vilja komast í hagkvæmt húsnæði í dag munu vilja stækka við sig síðar meir. Það mun samhliða skapa rými fyrir nýjar kynslóðir og svo koll af kolli.
Fasteignamarkaður er flókinn enda samanstendur hann af samspili hundruða þúsunda einstaklinga með ólíkar þarfir. Orsök núverandi húsnæðisvanda liggur fyrst og fremst í hruni fjármálakerfisins árið 2008 og bygginariðnaðarins í kjölfarið. Það olli framboðsskorti sem nú fyrst sér fyrir endann á.
Í þessu ljósi eru sértækar aðgerðir stjórnvalda til að stýra því hvers konar íbúðir eru byggðar ekki líklegar til árangurs. Farsælli leið er að tryggja að efnahagsstjórnin sé í lagi. Það er besta vörnin gegn því að húsnæðisvandinn, sem nú fer minnkandi, taki sig upp á ný.