Föstudagur 29. mars, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Þau urðu stjörnur í hruninu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þegar íslenska efnahagsundrið varð að íslenska efnahagshruninu spruttu fram á sjónvarsviðið fjölmargir einstaklingar sem létu til sín taka í þjóðfélagsumræðunni sem var með frjóasta móti á þessum tíma. Mannlíf rifjar upp nokkra af þeim einstaklingum sem urðu þjóðþekktir í tenglsum við atburði í kringum hrunið. Sumir hurfu af sjónvarsviðinu jafnhratt og þeir stigu fram á meðan aðrir standa enn á vígvellinum.

 

Ragnar Þór Ingólfsson

Margir þeirra sem hér eru nefndir eiga það sammerkt að hafa komið fram í Silfri Egils sem eftir hrun varð einn helsti vettvangur hrunumræðunnar. Einn þeirra er Ragnar Þór sem hóf herferð gegn lífeyrissjóðakerfinu og verðtryggingunni. Hann var einn stofnenda Hagsmunasamtaka heimilanna sem á tímabili varð einn öflugasti þrýstihópur landsins þótt heldur hafi fjarað undan samtökunum. Ragnar hefur síðan bæst í hóp aðsópsmestu verkalýðsleiðtoga landsins eftir að hann stóð fyrir hallarbyltingu í VR þar sem hann gegnir nú formennsku.

 

Eva Hauksdóttir

- Auglýsing -

Eva er vafalaust þekktasti aðgerðasinni landsins og líklega eina manneskjan á Íslandi sem er sjálftitluð norn. Hún rak litla nornabúð fyrir hrun og hefur um árabil haldið úti blogginu norn.is. Eva lét mikið til sín taka í búsáhaldabyltingunni. Frægust er ræða hennar fyrir utan lögreglustöðina á Hverfisgötu þar sem hún var í hópi fólk sem gerði áhlaup á stöðina eftir að sonur hennar, Haukur Hilmarsson, var handtekinn fyrir að flagga Bónus fána á þaki alþingishússins. Eva heldur áfram að berjast fyrir bættum heimi og stundar nú nám í alþjóðlegri mannréttindalögfræði í Glasgow. Á sama tíma berst hún við kerfið þar sem hún hefur ítrekað reynt að upplýsa um afdrif Hauks sem sagður er hafa fallið í bardaga í Sýrlandi.

 

Katrín Oddsdóttir

- Auglýsing -

Þann 22. nóvember steig ungur laganemi upp á svið á Austurvelli og hélt þrumuræðu yfir lýðnum þar sem hún hótaði að bera ríkisstjórnina út úr opinberum byggingum ef ekki yrði boðað til kosninga innan viku. Ræðan var svo eldfim að hópur samnemenda hennar við Háskólann í Reykjavík sagði hana hafa hótað ofbeldi og valdaráni og krafðist þess að frétt á vef háskólans, þar sem vísað var í ræðuna, yrði fjarlægð. Katrín hefur æ síðan verið áberandi í þjóðmálaumræðunni, sat meðal annars stjórnlagaráði og starfar nú sem lögmaður.

 

Hörður Torfason

Þegar þjóðin var á botninum fann Hörður Torfason henni farveg fyrir reiðina þegar hann, ásamt Röddum fólksins, skipulagði fjöldafundi á Austurvelli sem síðan þróuðust út í búsáhaldabyltinguna. Þar fékk hann alls konar fólk til að messa yfir lýðnum og eru sumir þeirra nefndir hér á nafn. Hörður dró sig þó í hlé eftir óviðurkvæmileg ummæli í garð Geirs H. Haarde sem þá hafði nýlokið við að tilkynna þjóðinni að hann glímdi við alvarleg veikindi.

 

Borgarahreyfingin

Borgarahreyfingin var það andspyrnuframboð sem náði mestum árangri í þingkosningunum 2009. Þar söfnuðust saman þeir sem höfðu haft sig hvað mest frammi í búsáhaldabyltingunni og komust þau Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari og Þráinn Bertelsson á þing. Flokkurinn lifði þó ekki lengi því hann splundraðist á miðju kjörtímabili þar sem þau þrjú fyrstnefndu stofnuðu Hreyfinguna á meðan Þráinn sat utan flokka. Birgitta fór síðan fyrir Pírötum, Margrét gekk í Samfylkinguna á meðan Þór hefur bæði gengið í og sagt sig úr Dögun og Pírataflokknum.

 

Ragna Árnadóttir

Fæstir landsmenn höfðu heyrt Rögnu Árnadóttur getið þegar vinstri stjórn VG og Samfylkingar var kynnt til leiks í ársbyrjun 2009. Hún hafði gegnt embætti skrifstofustjóra í dómsmálaráðuneytinu og var settur ráðuneytisstjóri þegar hún var óvænt skipuð dómsmálaráðherra utan þings. Með þessi vildi vinstri stjórnin auka faglegt yfirbragð ríkisstjórnarinnar enda voru hlutabréf stjórnmálamanna nær verðlaus á þessum tíma. Svo vel þótti Rögnu takast vel upp að hún var sterklega orðuð við forsetaframboð árið 2016. Hún lét ekki freistast og hefur starfað hjá Landsvirkjun síðan hún fór úr ráðuneytinu, fyrst sem skrifstofustjóri og nú aðstoðarforstjóri.

 

Eva Joly

Traust á íslenskum stofnunum var í lágmarki eftir hrunið og margir töldu að best væri að fá erlendan sérfræðing til að stýra rannsókninni á falli bankanna. Um svipað leyti hafði Egill Helgason boðið Evu Joly til sín í Silfrið, en hún hafði áður stýrt rannsókn á umfangsmiklu fjársvikamáli í Frakklandi. Málflutningur frú Joly heillaði þjóðina og var hún á endanum fengin til að vera sérstakur ráðgjafi við rannsóknina. Hún fór mikinn í fjölmiðlum en eignaðist um leið óvildarmenn í röðum þeirra sem gættu hagsmuna þeirra sem rannsóknin beindist að. Hún er í dag þingkona á Evrópuþinginu og flytur einmitt fyrirlestur um hrunið í Háskóla Íslands í dag.

 

Björn Bragi Mikkaelsson

Verktakinn Björn Bragi Mikkaelsson varð alþýðuhetja í skamma stund þegar hann eyðilagði hús sitt á Álftaneis auk þess að urða bíl sín. Kenndi hann óbilgirni bankastofnana um enda hafði hann skömmu áður misst húsið í hendur Frjálsa fjárfestingabankans. En hetjuljóminn hvarf fljótt þegar í ljós kom að Björn Bragi hafði svikið allnokkurn fjölda fólks um háar fjárhæðir í starfi sínu sem verktaki. Árið 2012 var hann svo dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir að hafa ekki staðið skil á skattgreiðslum, fjársvik og brot á bókhaldslögum og ári síðar var hann úrskurðaður gjaldþrota. Engar eignir voru í búinu til að mæta 114 milljóna króna kröfum í það.

 

Lilja Mósesdóttir

Ný kynslóð álitsgjafa spratt fram eftir hrunið enda höfðu hinir klassísku álitsgjafar fallið töluvert í verði, af augljósum ástæðum. Lilja mósesdóttir var ein þeirra og kom hún vel fyrir, enda bæði með góða menntun og starfsreynslu. Það fleytti henni á þing fyrir VG í kosningunum 2009 og naut hún þar talsverðrar hylli. Hún tilheyrði hins vegar hópi villikatta innan VG, eins og Jóhanna Sigurðardóttir komst að orði, og fór svo að hún var einn af fjórum þingmönnum VG sem yfirgaf flokkinn á miðju kjörtímabili. Hún hugði á sérframboð undir merkjum Samstöðum og nokkrum mánuðum fyrir kosningar mældist framboðið með yfir 20 prósenta fylgi, en sökum skorts á samstöðu leysist framboðið upp áður en til kosninga kom.

 

Ólafur Þór Hauksson

Ekki var hlaupið að því að ráða í stöðu sérstaks saksóknara, þess er stýra átti rannsóknum gegn stjórnendum föllnu bankanna. Enda um mjög vanþakklátt starf að ræða. Í fyrstu lotu sótti enginn um stöðuna en þegar umsóknarfrestur var framlengdur bárust tvær umsóknir. Þar af uppfyllti annar aðilinn ekki skilyrði. Eftir sat Ólafur Þór Hauksson, lítt þekktur sýslumaður af Akranesi. Í kjölfarið fylgdu húsleitir, handtökur, ákærur svo og fræg störukeppni við Sigurð Einarsson sem neitaði að snúa aftur til Íslands frá London og var á tíma eftirlýstur af Interpol. Embætti sérstaks saksóknara reyndist vegtylla fyrir Ólaf sem nú gegnir embætti héraðssaksóknara.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -