Mánudagur 20. janúar, 2025
2.7 C
Reykjavik

Töldu veikindi flugfreyja ekki tengjast flugvélunum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Að minnsta kosti þrjár flugfreyjur hjá Icelandair eru óvinnufærar eftir að hafa veikst í flugi í sumar. „Við höfum allar verið með svakalegan þrýsting í höfði, eins og það sé að springa,“ segir flugfreyja hjá Icelandair sem telur eiturgufur í farangursrými orsök alvarlegra veikinda hennar. Fleiri úr sömu áhöfn veiktust.

Sambærilegt mál kom upp árið 2016 þar sem flugliðar kvörtuðu undan veikindum eftir að hafa flogið í tilteknum félagsins. Rannsóknarnefnd flugslysa tók málið til rannsóknar og stendur sú rannsókn yfir.

Ragnar Guðmundsson, rannsakandi hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa, staðfestir að rannsókn sé opin á þessum og fleiri flugatvikum.  Hann segir umrædd tilvik séu ekki skilgreind sem alvarleg flugatvik vegna þess að öryggi flugvélarinnar og flugsins hafi ekki verið stefnt í hættu þar sem ekkert þeirra átti sér stað í flugstjórnarklefanum. Hins vegar séu þetta endurtekin flugatvik sem ástæða þykir að skoða.

„Við höfum látið skoða flugvélar og ýmislegt hefur verið gert en að öðru leyti vil ég ekki tjá mig um opna rannsókn,“ segir Ragnar og bendir á að ekki sé hægt að styðjast við gögn úr flugritum sem gerir málið flóknara.

Töldu veikindin ekki tengjast flugvélunum

Ekki náðist í Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúa Icelandair, við vinnslu fréttarinnar en í samtali við Ríkisútvarpið árið 2016 sagði hann að litið væri á málið sem innanhússmál.

- Auglýsing -

Í ágúst 2016 fékk starfsfólk Icelandair tilkynningu í tölvupósti þar sem farið var yfir flugatvikin og aðgerðir félagsins. „Á hverjum degi í sumar eru um 400 áhafnarmeðlimir á flugi hjá Icelandair og því ekki óeðlilegt að einhverjir af öllum þessum fjölda veikist eða finni fyrir vanlíðan,“ segir m.a. í tilkynningunni. Jafnframt er því haldið fram að atvikin séu misjöfn og tengist ekki einstökum flugvélum. Dregin er sú ályktun að tilvikin séu aðskilin fremur en að um sama orsakavald sé að ræða.

Þá eru aðgerðir tæknideildar vegna flugatvikanna útlistaðar en frá því tilkynningin var send út hefur fjöldi svipaðra mála litið dagsins ljós og dæmi er um flugfreyjur sem hafa enn ekki getað snúið aftur til fyrri starfa vegna veikinda í tengslum við umrædd atvik.

Tölvupóstinn í heild má lesa hér að neðan.

- Auglýsing -

 

Vegna tilkynninga um veikindi áhafnarmeðlima um borð

Nýlega hefur orðið töluverð aukning í tilkynningum frá áhafnameðlimum vegna veikinda um borð í flugvélum Icelandair. Icelandair lítur þetta alvarlegum augum enda leggur félagið áherslu á að starfsumhverfi áhafna sé með sem bestum hætti. Þessu bréfi er ætlað að gefa upplýsingar um stöðu þessara mála.

Á hverjum degi í sumar eru um 400 áhafnameðlimir á flugi hjá Icelandair og því ekki óeðlilegt að einhverjir af öllum þessum fjölda veikist eða finni fyrir vanlíðan. Í kjölfar aukins fjölda tilkynninga hefur hvert tilfelli verið skoðað og greint. Haft hefur verið samband við áhafnarmeðlimi til að fá nánari og betri lýsingar. Trúnaðarlæknir Icelandair hefur stýrt leit okkar að heilsufræðilegum orsökum og metið hvert tilfelli fyrir sig.

Í stuttu máli eru atvikin misjöfn og eiga fátt sameiginlegt þegar nánar er skoðað. Þau hafa dreifst á flestar vélar í flugflotanum okkar, tengjast ekki einstökum flugvélum, og hafa komið upp á bæði B-757 og B-767. Oft hafa margar vikur liðið á milli tilkynninga á sömu flugvél.

Tilkynnt einkenni hafa einnig verið af ýmsum toga, en í einhverjum tilvikum virðast vera tengsl á milli einkenna og hreyfingar flugvélarinnar, hitastigs og jafnvel misjafnar hitadreifingar í farþegarými. Önnur tilvik virðast alls ótengd flugvélunum, en tengjast öðrum veikindum eða vanlíðan einstaklinga, þreytu og slíkum þáttum. Áberandi er að þessar veikindatilkynningar koma fremur frá yngra fólki með lágan starfsaldur en þeim sem eru eldri og reyndari.

Þessar breytur gera það að verkum að líklegra er að tilvikin séu aðskilin en að um sama orsakavald sé að ræða. Icelandair hefur samt sem áður lagt mikla vinnu í að greina mögulegar ástæður tilvikanna.

  • Tæknideild Icelandair hefur skoðað viðhald flugvélanna og hefur greining farið í gang eftir hvert atvik fyrir sig. Meðal aðgerða eru hreyflaskipti, parta- og olíuskipti, loftsíuskipti, skoðun á loftstokkum, þrif á loftræstikerfi og loftgæðamælingar á flugi.
  • Icelandair hefur rannsakað og mælt sérstaklega ákveðna þætti, bæði á jörðu niðri, í farþegaflugi og sérstökum mælingarflugum. Meðal annars hefur verið notast við rafrænt „nef“ eða loftgreiningatæki (Aerotracer) og hafa allar mælingar komið eðlilega út. Þeir þættir sem hafa verið mældir eru loftþrýstingur, súrefnishlutfall, rakastig, hitastig, hljóðstyrkur, lofthraði og dreifing ræstilofts, hröðun, örveru- og myglupróf, lyktarpróf (Aerotracer), og ýmis önnur efni, s.s. CO (Carbon Monoxide), CO2 (Carbon Dioxide), SO2 (Sulfur Dioxide), O3 (Ozone).
  • Trúnaðarlæknir Icelandair hefur farið yfir niðurstöður úr læknisskoðun og blóðprufum hjá þeim áhafnarmeðlimum sem farið hafa í slíka rannsókn strax eftir flug. Öll þau sýni hafa komið eðlilega út.
  • Þá hefur Rannsóknarnefnd Samgönguslysa (RNSA) verið fengin til liðs við okkur. Icelandair fagnar aðkomu RNSA og aðstoðar nefndina eftir fremsta megni. RNSA hefur heimild til ýmissa aðgerða og nefndin m.a. sent áhafnarmeðlimi í blóðprufur, læknisskoðanir og tekið flugritagögn til greiningar en RNSA vinnur sjálfstæða rannsókn á þeim atvikum sem hún hefur afskipti af.
  • Icelandair hefur undanfarið skoðað sérstakan loftsýnitökubúnað sem yrði staðsettur um borð og hægt væri að nota ef fleiri en einn áhafnarmeðlimur finnur fyrir vanlíðan.

Veikist áhafnarmeðlimur á flugi er mikilvægt að senda inn skýrslu um atvikið í gegnum SMS360. Ítarleg lýsing áhafnameðlima skiptir miklu máli þar sem þessar upplýsingar geta auðveldað greiningu á atvikum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -